09.04.1962
Neðri deild: 87. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í C-deild Alþingistíðinda. (2645)

27. mál, vegalög

Frsm. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það var á fyrstu dögum þingsins, sem ég leyfði mér að flytja frv. til l. um breyt. á vegalögum og leggja þar með til, að vegalögin yrðu opnuð.

Ég heyrði, að hv. 1. þm. Vestf. kvaddi sér hér hljóðs áðan og vítti nefnd harðlega fyrir það að hafa legið á máli nokkuð lengi af þingtímanum, en þó áreiðanlega ekki eins lengi og hv. samgmn. hefur legið á þessu máli, því að hún hefur legið á því allt þingið og í raun og veru mjög slitrótt starfað, ekki haldið fundi nema eftir hörðum eftirgangsmunum — og þó í raun og veru aldrei á öllum þingtímanum nema í sambandi við afgreiðslu flóabátastyrkjanna, í sambandi við fjárlögin, þangað til nú, að orðið var við óskum manna um að halda fund í nefndinni til þess að taka fyrir þetta og önnur þau mál, sem lágu þar í salti. Þannig er upplýst mál, og það er náttúrlega ekkert leyndarmál, að starfsaðferðir nefnda í hv. Alþingi eru hvergi nærri eins og þyrfti að vera í ýmsum tilfellum, fyrir utan þá aðferð að liggja miskunnarlaust frá þingbyrjun til þingloka, eftir því sem hægt er, á málum stjórnarandstöðunnar, sem eru engin vinnubrögð heldur. Þinglega meðferð eiga þau að fá, hvort sem ætlunin er að samþykkja þau eða drepa þau.

Ástæðan til þess, að ég flutti frv. til breyt. á vegalögum í upphafi þings, var sú, að nú vorum við staddir á miðju kjörtímabili, og allan þann tíma, sem ég hef setið á þingi, hafa þm. talið það góða reglu, að ef opna skyldi vegalög, þá væri skynsamlegast að gera það á miðju kjörtímabili. Sízt af öllu væri hentugt að gera það á síðasta þingi fyrir kosningar, því að þá væri miklu erfiðara að hafa stjórn á því, taumhald á því, hvaða till. til vegalagabreytinga yrðu teknar til greina, þá væri miklu erfiðara við það að eiga, og er það skiljanlegt. Nú erum við staddir einmitt á þingi á miðju kjörtímabili, og ég taldi því, að það mætti ekki undan ganga, að vegalögin yrðu opnuð nú, og meginrökin, sem undir hníga, eru þau, að mjög er langt síðan vegalög voru seinast opnuð, alveg óvenjulega langt tímabil. Á þessu tímabili hefur margt breytzt í samgöngumálum landsins. Vegir, sem ekki hafði verið talin ástæða til að taka í þjóðvegatölu, þegar þau voru seinast endurskoðuð, eru nú í þannig lagaðri afstöðu til vega, sem verið er að leggja, að langsamlega væri hagfelldast að byggja þá um leið. Hitt er náttúrlega rétt, að ekki er búið í neinu kjördæmi landsins, svo að ég viti, að fullgera alla þá vegi, sem teknir hafa verið í þjóðvegatölu, þannig að verkefnið sé tæmt, og það verður aldrei beðið svo lengi eftir opnun vegalaga, að þannig ástand hafi skapazt, enda tvímælalaust ekki æskilegt. En það fer varla á milli mála, að nú var orðið aðkallandi og í sumum kjördæmum mjög aðkallandi, að vegalögin væru opnuð og nýir vegir teknir í þjóðvegatölu, sem nauðsynin kallaði meira á að leggja einmitt í sambandi við vegalagningu undanfarinna ára heldur en jafnvel ýmsa af þeim vegum, sem búnir eru að vera um lengri eða skemmri tíma fram að þessu í tölu þjóðvega.

Vika leið eftir viku og mánuður eftir mánuð, og jólafrí leið, án þess að þessum málum væri verulega hreyft, og það er fyrst nú undir þinglok, sem málið er tekið til afgreiðslu. Það, sem meiri hl. hv. samgmn. deildarinnar bar fyrir sig, var, að það væri nefnd starfandi, ein af þeim mörgu nefndum, sem hæstv. ríkisstj. hefur skipað og koma í ljós smátt og smátt, — og sú nefnd mundi ekki ljúka störfum á þessu þingi og ekki skila árangri sins starfs fyrir þetta þing, en hefði sem sé vegalögin til athugunar. Nú hreyfði ég andmælum við því í nefndinni, að það gæti verið verkefni mþn. að leysa úr því, hvaða vegi bæri að taka í þjóðvegatölu í hinum ýmsu kjördæmum, því að till. um það hljóta að byggjast á kunnugleika viðkomandi þm. í kjördæmunum, í samráði við fólkið, sem á við vegina og vegleysurnar að búa, og geta aldrei verið gerðar till. af viti um það af stjórnskipaðri mþn. um vegamál. Hún hlýtur að hafa fengið önnur verkefni í sambandi við endurskoðun vegalaga heldur en að gera till. um það, hvaða nýja vegi ætti að taka í þjóðvegatölu. Það getur ekki verið, að það sé hennar verkefni. En samt sem áður er það röksemdin fyrir því að opna ekki vegalögin nú, að starfandi sé milliþn., sem ríkisstj. hafi skipað, sem hafi vegalögin til athugunar. Þegar umr. fóru nánar út á þá braut, um hvað hennar starf snerist, þá kom það á daginn, að það var í raun og veru allt annað en vegalagabreytingar að þessu leyti, að ákveða um, hvaða vegir yrðu teknir í tölu þjóðvega. Þessi n. mun hafa til yfirvegunar, hvort sú skipting, sem verið hefur á vegakerfinu, í hreppavegi, sýsluvegi og þjóðvegi skuli haldast áfram, og ýmisleg þess konar prinsipmál, að því er snertir gerð vegalaga, enda liggur í hlutarins eðli, að það getur ekki verið verkefni mþn. að bera fram till. fyrir hin einstöku kjördæmi um það, hvaða vegi skuli taka úr tölu sýsluvega og gera að þjóðvegum. Þetta hlýtur að vera samstarfsatriði milli fólksins í kjördæmunum og viðkomandi þingmanna.

Ég taldi t.d., að því er snerti Vestfjarðakjördæmi, orðið mjög aðkallandi, að vegalögunum yrði breytt og nýir vegir þar teknir í þjóðvegatölu. Þar er svo ástatt, eins og mörgum er kunnugt, að heil sveitarfélög eru enn þannig sett, að þau eru ekki komin í samband við akvegakerfi landsins, og þau sveitarfélög eru nokkuð mörg í Vestfjarðakjördæmi. Þeir vegaslóðar og þær vegleysur, sem þarna er eftir að leggja akfæra vegi um, þurfa að komast í þjóðvegatölu og það fyrr en seinna. Þess vegna tók ég altmarga vegi upp í mitt frv., sem eru einmitt þess konar að koma héruðum í akvegasamband, treystandi á það, að þegar þeir verði komnir í þjóðvegatölu, þá verði það talið svo brýnt verkefni að tengja heil sveitarfélög við vegakerfið, að að því verkefni yrði gengið jafnvei á undan öðru. Það hefur líka verið breytt kjördæmaskipun landsins, síðan vegalög voru seinast endurskoðuð, og það gefur að skilja, að það er æskilegt, að það fólk, sem ákveðið hefur nú verið í eitt og hið sama kjördæmi, að skuli starfa saman í einu og sama kjördæmi, að það sé gengið þannig frá vegum og samgöngum, að þessar heildir geti orðið heild einnig að því er snertir samgöngumöguleika, geti orðið ein efnahagsleg, fjárhagsleg heild. Þetta verður t.d. tæpast sagt um Vestfirði. Maður, sem ætlar sér frá byggðunum við Ísafjarðardjúp í norðurhluta Strandasýslu, á þangað enga greiða götu. Hann verður mestan tíma árs að fara suður í Borgarfjörð til þess að komast í Árneshrepp í Strandasýslu. Þetta er m.a. af því, að það hefur ekki verið litið á málið frá því sjónarmiði að tengja byggðir Strandasýslu við hinn hluta núverandi Vestfjarðakjördæmis, fyrr en þau sjónarmið koma eðlilega ofar á baug, þegar búið er að breyta kjördæmaskipuninni. Menn hljóta að viðurkenna, að það er full þörf á því að bæta úr svona samgöngum innbyrðis í kjördæmi, að maður, sem ætlar af norðanverðum Vestfjörðum, t.d. frá Ísafjarðardjúpi eða vestan Ísafjarðardjúps, norður í Árneshrepp í Strandasýslu, það er nokkuð andsnúið, að hann skuli þurfa að fara suður í Borgarfjörð og um Holtavörðuheiði og síðan norður alla Strandasýslu til þess að komast í áfangastað. (JPálm: Það er nú vegur yfir Steinadalsheiði.) Það er vegleysa, um Steinadalsheiði, Jón Pálmason. Það er vegleysa, en ekki vegur. Og hann er ekki fær nema sérstökum bílum um hásumarið. Það hefur líka verið klöngrazt um fleiri heiðarvegi um hásumar á sérstökum bílum, t.d. um Tröllatunguheiði, en hér er einmitt verið að leggja til, að Tröllatunguheiðarvegurinn upp úr Reykhólasveitinni og að Steingrímsfirði verði tekin í þjóðvegatölu. Hann er ekki í þjóðvegatölu enn þá. Steinadalsheiðin er hins vegar þannig, að henni hefur ekki verið haldið við um lengri tíma, aldrei lagður vegur um hana, og má heita ófær, nema þegar þurrast er á sumrin og þá a.m.k. helzt ekki venjulegum fólksbílum. Talað hefur líka verið um það, að vegarstæði þar sé ekki heppilegt og betri samgöngubót væri að því, að Tröllatunguheiði fengi lagðan veg, enda liggur sá vegur betur við norðurhluta Strandasýslunnar, sem hér er verið að ræða um, en Steinadalsheiðin. Það er líka dálítið skothent klúður, þegar Strandasýslan er geysilega löng frá norðri til suðurs, eins og kunnugt er, vegalengdin frá Hrútafjarðarbotni og í norðurenda Strandasýslunnar er jafnmikil og vegurinn frá Reykjavík fyrir Hvalfjörð um Borgarfjarðarhérað og í Hrútafjarðarbotn. Strandlengja Strandasýslunnar er þessi spotti.

Þess er full þörf, að vegur sé lagður úr botni Gilsfjarðar og að Bitrubotni, eða um svokallaðan Krossárdal norðan frá og að Kleifum í Gilsfirði. Þetta er eiðið, sem tengir Vestfirðina við landið að öðru leyti, og þarna er auðvitað lágur fjallvegur og mundi tengja ágætlega vel Austur-Barðastrandarsýsluna og miðhluta Strandasýslu saman og er um 10 eða 11 km vegalengd.

Í þessu frv., sem hér er til umr., er m.a. lagt til, að tekinn verði í þjóðvegatölu vegurinn af Strandavegi um Krossárdal og á Vesturlandsveginn hjá Kleifum í Gilsfirði.

M.ö.o.: það eru tvær till. í þessu frv. um vegabætur til þess að tengja byggðir Strandasýslu betur saman við aðrar Vestfjarðabyggðir, enda er það eðlilegt, þegar þessar byggðir eiga að vera samstarfandi fjárhagsleg heild í einu og sama kjördæmi.

En það lítur nú út fyrir það, að hv. meiri hl. á Alþingi vilji ekki á það fallast að opna vegalögin nú, og hafa þó fjölmargir þm. orðið til þess að flytja brtt. við vegalögin og þar með láta í ljós, að þeir telji orðið ærna þörf á því, að vegalögunum sé nú breytt og inn á þau teknir nýir vegir til samgöngubóta í hinum ýmsu byggðum.

Hv. frsm. meiri hl. gaf upp ýmsar tölur úr bréfi vegamálastjóra. Jú, þær eru út af fyrir sig fróðlegar. Hann gefur okkur vitneskju um, hve margir km bættust við í þjóðvegatölu, ef frv. væri samþ., og hve margir km þar af væru sýsluvegir og hreppavegir og hvað margir km fjallvegir og vegleysur, og það var á annað hundrað km, 121 km, en er þó alls staðar um að ræða svæði í byggðum landsins, að langmestu leyti á Austfjörðum og Vestfjörðum. Það er á annað hundrað km samkv. bréfi vegamálastjórans, sem nú geta hvorki flokkazt undir hreppavegi né sýsluvegi, eru sem sé fjallvegir og vegleysur, en full þörf á að taka í þjóðvegatölu og till. komnar fram um það á Alþ,

Þá veit ég ekki, hvers vegna það er sett í bréf vegamálastjórans, að aðeins 419 bæir kæmust í akvegasamband við það þjóðvegakerfi, sem nú eru till. frammi um á Alþ, að bætist við. Vafalaust er það gert til þess, að þm. fái hugmynd um, að það séu svo sárafáir bæir, sem fái þarna akvegasamband, að það sé varla artandi upp á það. Þetta fólk megi vera áfram búandi við sínar vegleysur. Það eru ekki margir hausarnir þarna, og það þarf ekki að sinna því þess vegna. En þetta sýnir einmitt það, að það eru mörg hundruð manna í landinu enn þá, sem búa við vegleysur og till, eru frammi nú á Alþ. um að fái vegi, og er tími til kominn. En aðrir virðast leggja málið þannig út, að það megi bíða, af því að fólkið sé svo fátt. Þetta er sjónarmiðið, sem enn þá virðist vera ríkjandi hjá embættismönnum landsins og líklegast hjá hv. meiri hl. Alþingis gagnvart dreifbýlinu í landinu.

Svo eru upplýsingar gefnar um það, að það séu mjög margar óbrúaðar ár á þessum svæðum landsins, sem nú sé lagt til að vegir séu lagðir um og þeir teknir í þjóðvegatölu. Mikið rétt.

Það eru sem sé margar torfærur þarna á vesum, sem þm. hafa borið fram tili. um að úr þurfi að bæta, að það þurfi sem sé að leggja vegi og brúa ár, svo að fólk geti þó búið á þessum 419 bæjum, og ætla ég þó, að það þætti nokkurt skarð fyrir skildi, ef þessir 419 bæir legðust í eyði, af því að það hefur verið daufheyrzt við óskum um, að þeir fengju vegi og brýr.

En hver er meiningin með að bíða? Er meiningin sú, að þessir bæir leggist í eyði, að bíða þangað til? Ekki koma brýr á árnar þessar, þó að beðið sé. Annaðhvort verður að leggja þessa vegi og brúa þessar ár, eða þá að menn eru að hugsa um að bíða, til þess að þessir bæir hverfi. Og þá hefur biðin einhvern tilgang, en annars ekki.

Nei, ég verð að segja það, að ég tel, að einmitt þessar tölur, sem hér hafa verið gefnar upp á brúm, sem vanti, sýni það, að það séu hundruð bæja, sem búa við vegleysur, sem þurfa að fá vegi og smám saman brýr á óbrúuð vatnsföll, og fá það fyrr eða seinna þó, ef þessir vegir verða teknir í þjóðvegatölu. Og það er ekki bót að því að ýta þessu verkefni frá sér og láta því vera ósinnt. Þegar svona upplýsingar eru gefnar, þá sýnir það, að það er brýn þörf á að taka þetta verkefni fyrir og leysa það, einkanlega ef menn hafa það sjónarmið, að það skuli reynt að koma í veg fyrir, að þessi 419 dreifðu býli leggist í auðn, en það hljóta þau að gera, ef ár eftir ár er neitað um að leggja vegi í námunda við þau og að brúa óbrúaðar ár og vatnsföll, sem yfir er að fara frá þessu fólki, sem heyr þarna lífsbaráttuna.

Ég er alveg sannfærður um það, að þeir mörgu hv. þm., sem flutt hafa brtt. við frv. mitt á þskj. 27, í báðum d. þingsins, hafa gert það að yfirveguðu ráði, af því að þeim fannst tími til kominn að opna vegalögin og af því að þeir vissu, að það voru vegir í þeirra byggðarlögum, sem fólk þurfti að fá lagða og sýslusjóðirnir hafa ekki haft fjármagn til að leysa að því leyti sem þeir eru sýsluvegir, og þeir eru nokkuð margir, eins og upplýst var áðan, sýsluvegirnir. Og það hefur alltaf verið þróunin hér á Alþingi, að létt hefur verið smám saman á herðum sýslufélaganna með því að taka sýsluvegi og gera þá að þjóðvegum. Bolmagn ríkisins er auðvitað margfalt á við sýslufélögin, og frekar má gera sér vonir um, að af vegalagningu verði, þegar ríkið hefur tekið þessi illa veguðu landsvæði að sér.

Það er því ekki hægt um það að deila, að rök eru gild og góð fyrir því, hvernig sem á málið er litið, að vegalögum sé nú breytt. Það er svo langt liðið, síðan vegalögunum var seinast breytt, að það hafa orðið margs konar breytingar í samgöngumálum siðan, sem gera nauðsynlega lagningu vega, sem þá var ekki eins aðkallandi að lagðir væru, og fleiri breytingar, sem ég hef hér vikið að. Þm. staðfesta þessa þörf með fjöldamörgum brtt., og nú er betra að standa að breytingu vegalaga einmitt á miðju kjörtímabili heldur en það verður t.d. á næsta ári, síðasta ári fyrir kosningar, síðasta ári kjörtímabilsins. Ég veit alveg, hver mótbáran verður á næsta þingi. Hún verður sú: Það er glapræði hið mesta að opna vegalögin á seinasta þingi fyrir kosningar, það verður hér allt vitlaust, og allir þm. eru þá illa haldnir af kjósendahræðslu. Það er ógerningur að gera það núna, það verður að bíða næsta kjörtímabils. — Og þá er orðið miklu, miklu lengra tímabil milli endurskoðunar vegalaga en nokkurn tíma í þingsögunni áður. Nei, á þessu þingi átti auðvitað að opna vegalögin, úr því að ekki var horfið að því ráði í fyrra að gera það. Og ég er alveg viss um, að verði það ekki gert núna, þá bíður það fram á næsta kjörtímabil. Það verður ekki talið fært að gera það á siðasta þingi fyrir kosningar.

Ég og hv. 5. þm. Norðurl, v. (BP) leggjum til, að þetta mál verði samþykkt. Nál. okkar hefur ekki verið útbýtt, að því er virðist, en því hefur verið skilað í prentun og hlýtur að koma á hverri stundu, ef ekki hafa orðið einhverjar óvenjulegar tafir með það. Hins vegar leggur meiri hl. til, að þessu máli sé, að mér skilst, vísað til stjórnarinnar. Þeir leggjast undir öllum kringumstæðum á móti því, að vegalögin séu nú opnuð og frv. samþykkt. En því aðeins að þetta frv. verði samþykkt, koma til meðferðar þingsins þær fjölmörgu brtt. við vegalög, sem hv. þm. hafa flutt á þessu þingi í trausti þess, að vegalögin yrðu opnuð. Ég hefði talið eðlilegt, að ákvörðun hefði verið tekin um þetta mál miklu fyrr á þinginu. En það er sannleikur, sem ég áðan sagði, störf samgmn. hafa verið mjög slitrótt á þessum vetri og þetta mál loksins tekið fyrir nú fyrir örskömmu, þegar það hafði legið hjá n. frá því í októbermánuði s.l.

Það er aðeins tylliástæða, sem nú er borin fram gegn endurskoðun vegalaganna, að nefnd sé að vinna að athugun vegalaganna út frá allt öðrum sjónarmiðum og með tilliti til alls annars en að ákveða, hvaða vegi sé þörf á að taka í þjóðvegatölu út frá aðstæðum heima í byggðarlögunum, því að það hefur þessi milliþn. ekki aðstöðu til að líta á og kynna sér nákvæmlega fyrir landið allt. Sá staðkunnugleiki, sem þarf að vera á bak við slíkar tillögur, og það samstarf, sem þarf að vera á milli fólksins í byggðarlögunum, það er eingöngu til staðar í tengslum við þm. viðkomandi kjördæmis, og hljóta því breytingar á vegalögunum alltaf að vera undirbyggðar af óskum fólksins í samráði við þm. viðkomandi kjördæmis, og till. þær, sem hér liggja fyrir í þessu frv. og brtt. við það, eru þannig til komnar. Og þannig hygg ég að þetta hljóti að vera, þrátt fyrir það, þó að þessi ágæta n., sem ríkisstj. hefur skipað, skili sínum störfum. Ég hygg, að það komi á daginn, að hún hefur tekið almenn prinsipmál viðvíkjandi uppbyggingu vegalaga fyrir, en ekki svona mál, eins og það, hvaða vegi eigi að taka í þjóðvegatölu á hverjum tíma, það getur tæpast verið hennar hlutverk, Ég mæli sem sé fyrir hönd minni hl. með því, að vegalög verði nú opnuð og að frv. á þskj. 27 verði samþykkt.