09.04.1962
Neðri deild: 87. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (2646)

27. mál, vegalög

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Hv. 4. landsk. þm. (HV) var með hálfgerð ónot í garð hv. samgmn., og undraðist ég nokkuð yfir því, sérstaklega þar sem hann er meðlimur þeirrar n. og gat því vissulega haft áhrif á það, hefðu honum þótt þau málefni, sem hefur verið vísað til þeirrar n., ganga seint og illa. Ég minnist þess ekki, að hann sem meðlimur n. hafi nokkru sinni talað við mig sem formann n. um, að það gengi seint um afgreiðslu þeirra mála, sem til hennar hafi verið vísað.

Ég get verið sammála hv. þm. um, að það er leitt að geta ekki opnað vegalög, en hann gekk alveg fram hjá því, sem er aðalorsökin fyrir því, að vegalög eru ekki opnuð, að það vantar fjármagn til þeirra vega, sem við óskum eftir að taka í tölu þjóðvega. Það vantar mikið fjármagn til þeirra vega, sem þegar hafa verið teknir upp í tölu þjóðvega, og það veit hv. 4. landsk. þm. vel. Ég held, að við, sem skipum samvinnunefnd samgöngumála, getum vissulega verið sammála vegamálastjóra um það, að það er ótímabært að taka fleiri sýslu- og hreppavegi upp í tölu þjóðvega, á meðan ekki fást hærri fjárveitingar til vegaframkvæmda en raun ber vitni um. Aðalástæðan fyrir því, að vegalög hafa ekki verið opnuð á undanförnum árum, er hið takmarkaða fjármagn, sem hefur verið veitt til nýbyggingar þjóðvega. Það er réttilega á bent af vegamálastjóra, að það er gagnslaust að taka fleiri vegi upp í tölu þjóðvega, á meðan ekki er verulegu aukið það fjármagn, sem þarf til þess að koma þeim vegum áleiðis, sem þegar eru teknir upp í tölu þjóðvega. Ég veit, hvað snertir mitt gamla kjördæmi, Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, að þar eru töluvert margir þjóðvegir, sem fá ekki fjárveitingu ár eftir ár. Ég tel, að það sé röng stefna að fjölga þjóðvegum, taka þá úr tölu hreppavega og sýsluvega. Með því að taka þá upp í tölu þjóðvega eru þeir sviptir fjárframlögum ár eftir ár, sem þeir annars hefðu getað notið úr sýslusjóðum og hreppssjóðum, þar sem nú er hallazt að því ráði hjá hv. alþm. að veita færri en stærri upphæðir til hinna ýmsu þjóðvega, sem ég tel einnig að sé rétt stefna.

Aðalvandinn í sambandi við að leysa hina miklu þörf, sem vissulega er fyrir það að fá fleiri og fleiri vegi tekna upp í tölu þjóðvega, er sá, að ekki hefur fengizt nægilega mikið fjármagn á fjárlögum til þess að geta veitt verulegu fjármagni til þjóðveganna. Það er a.m.k. álit mitt, að sú vegalagan., sem nú starfar og við gerum okkur vonir um að hafi lokið störfum sínum fyrir næsta Alþ.,hæstv. vegamálaráðh. leggi þá frv. fyrir næsta þing varðandi þjóðvegi og brýr, að í sambandi við það frv. verði gerðar ráðstafanir til að verja verulega auknu fjármagni til þessara framkvæmda, því aðeins kemur þessi endurskoðun að gagni. Og við í meiri hl. samgmn. höfum alveg fallizt á sjónarmið bæði vegamátastjóra og form. vegalaganefndar um það, að rétt væri að opna ekki vegalög að þessu sinni, heldur láta það bíða, þar til liggja fyrir till. vegamálan. og væntanlegt frv., sem við gerum ráð fyrir að hæstv. samgmrh. leggi fyrir næsta þing.

Það er mjög rangt hjá hv. 4, landsk. að halda því fram, að þetta sé gert til bekkni stjórnarandstöðunni. Ég skil ekki í jafnglöggum manni og hann er, að hann skuli halda slíkri firru fram. Ég held, að það rétta í þessum málum sé, að allir hv. þm. strjálbýlisins hafi gert brtt, um opnun vegalaganna, að taka fleiri vegi í tölu þjóðvega í sínum kjördæmum. Það er ábyggilega sameiginleg ósk allra hv. þm., að þjóðvegum sé fjölgað. En við getum viðurkennt, að það komi ekki að gagni, meðan ekki er séð fyrir því, að mun meira fjármagn sé veitt á fjárlögum til þessara framkvæmda. Eins og ég tók fram áðan, þá er það von mín, að eftir að álitsgerð vegalagan. liggur fyrir og hæstv. ráðh. leggur frv. sitt fyrir næsta þing, þá megum við eiga von á stórauknu fjármagni til vega- og brúarframkvæmda á næstu árum.

Ég veit, að þegar hv. 4. landsk. athugar þetta, verður hann á sama máli og við, sem skipum meiri hl. hv. samgmn., að hér er stefnt rétt að málunum.