28.11.1961
Efri deild: 24. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í C-deild Alþingistíðinda. (2668)

41. mál, jarðgöng á þjóðvegum

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá því að gera hér fyrirspurn um málsmeðferð. Það mál, sem mig fangar til þess að spyrjast fyrir um, er frv. til laga um jarðgöng á þjóðvegum. Það er alllangt um liðið, síðan útbýtt var nál. um það mál, bæði frá meiri hl. og minni hl. samgmn. Skömmu eftir að nál. hafði verið útbýtt, var mál þetta að vísu á dagskrá tekið, en þó þá fyrst í stað út af dagskrá tekið, án þess að framsögur færu fram um það. Mánudaginn í s.l. viku var svo, ef ég man rétt, frv. þetta tekið á dagskrá, og þá fluttu þeir sínar framsöguræður um það, frsm. meiri hl. og frsm. minni hl. Síðan var málið tekið út af dagskrá að ósk fjmrh., að því er sagl var, Að sjálfsögðu hef ég ekki hið minnsta að athuga við það, að mál sé tekið út af dagskrá eftir ósk ráðherra, ef þeir ætla að taka þátt í umræðum um málið, en eru bundnir við aðra umræðu í annarri deild eða störf þar. En síðan hefur mál þetta ekki verið tekið fyrir til framhaldsumræðu. Það hefur að vísu verið tekið á dagskrá, ef ég man rétt, einu sinni eða kannske tvisvar, — ég held þó aðeins einu sinni, — en það hefur verið tekið út af henni aftur jafnharðan. Ekki er þetta þó fyrir þá sök, að svo mjög hafi verið hlaðið á þessa deild, að því er verkefni snertir, því að flesta þessa daga, sem síðan eru liðnir, hefur verið eitt eða þá í hæsta lagi tvö mál til meðferðar í þessari hv. deild, og afgreiðsla þeirra hefur ekki tekið langan tíma. Það er því ljóst, að það er eitthvað annað, sem stendur í vegi fyrir eðlilegri afgreiðslu þessa máls, heldur en annir þessarar ha. þingdeildar. Ég hef líka veitt því athygli, að á ýmsum fundum eftir þetta hefur hæstv. fjmrh. verið viðstaddur hér í deildinni, þannig að ekki hefur fjarvera hans eða störf í annarri deild staðið í vegi fyrir því, að fjallað væri um málið hér.

Ég er að vísu ekki þingvanur maður, en ég ætla þó, að svona meðferð sé nokkuð óvenjuleg, og ég verð að segja, að mér þykir hún mjög óvenjuleg. Af þessu tilefni langar mig til þess að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta, hvort þess megi ekki vænta, að þetta mál verði tekið á dagskrá næsta fundardag, þ.e. næsta fimmtudag. Í annan stað langar mig til þess að spyrja hæstv. forseta að því, hvort það sé samkvæmt ósk og áframhaldandi ósk hæstv. fjmrh., að mál þetta hefur ekki verið tekið fyrir til eðlilegrar framhaldsafgreiðslu. Og að lokum, ef svo skyldi fara mót von minni, að hæstv. forseti sæi sér ekki fært að taka málið á dagskrá á fimmtudaginn, hvort það sé þá ósk hæstv. fjmrh., að málið sé ekki tekið þá fyrir. Og ef svo er, hverjar ástæður liggja til þeirra óska hæstv. fjmrh.