08.12.1961
Neðri deild: 34. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

107. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Eysteinn Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég get vel skilið, að hugsunin sé að hraða heldur þessu máli, vegna þess að gert mun ráð fyrir að reyna að koma á þessum nýju verðlagningarreglum, áður en jólahlé verður í þinginu, og farið verði eftir þeim nú í vetur. Þetta get ég skilið. Á hinn bóginn finnst mér ekki gott, að þetta frv., sem er um mjög veigamikið mál, sé til 1. umr. með svo miklum skyndingi, að maður hefur ekki getað lesið frv. og grg., áður en 1. umr. hefst. Ég hef verið að reyna að kíkja í þetta, jafnframt því sem ég hef hlustað á ræður þeirra, sem talað hafa. Það leiðir því af líkum, að ég get ekki gert þessu máli ýtarleg skil við þessa 1. umr., enda fer það að sjálfsögðu í nefnd, eins og hæstv. ráðh. hefur gert uppástungu um. Ég mun því verða stuttorður.

Í fyrravetur var tekin upp ný skipun á þessum málum, og hún átti að vera fólgin í því, að það opinbera hefði engin afskipti af verðlagsmyndun á sjávarafurðum. Verðlagningin skyldi verða frjáls og eiga sér stað með samningum. Í því sambandi var æði mikið vikið að því, að það fyrirkomulag, sem verið hefði á þessum málum, hefði ekki verið heppilegt. Nú hefur komið í ljós, eins og raunar hefur verið tekið fram, að þessi nýja skipan hefur reynzt afar illa. Hún hefur haft í för með sér miklar deilur um fiskverðið og framleiðslustöðvanir. Orðið af þessu mikið tjón fyrir alla, bæði sjávarútveginn og þjóðina í heild.

Í raun réttri eru þessi mál nú alveg komin í strand. Þessi nýja stefna um verðlagninguna, að hún verði algerlega frjáls, sem tekin var upp í fyrravetur, er alveg strönduð. Menn treysta sér ekki til að ganga lengra á þeirri braut í þessum málum, og það get ég vel skilið.

Nú hafa þeir, sem hér eiga mest í húfi, borið saman bækur sínar, og niðurstaða þeirrar athugunar liggur fyrir, að því er mér skilst, í aðalatriðum í þessu frv. Og mér virðist, eftir því sem ég hef getað horft í málið, að það sé allvíðtækt samkomulag um frv. meðal fiskseljenda og fiskkaupenda og a.m.k. samkomulag um þá meginstefnu frv. að koma upp sameiginlegri stofnun þessara aðila til þess að leysa málið. Mér skilst, að um þá meginstefnu frv. sé algert samkomulag fiskseljenda og fiskkaupenda.

Ég vil lýsa yfir því, að þessa meginstefnu frv. vil ég styðja, ekki sízt og kannske fyrst og fremst fyrir það, hvað samkomulag um þessa grundvallarhugsun er víðtækt. Mér finnst það mjög eðlilegt, að löggjafarvaldið hjálpi til að koma þeim reglum í lög varðandi þessi mál, sem víðtækt samkomulag er um meðal þeirra, sem hér eiga hlut að máli.

Ég lýsi mig því samþykkan þessari meginstefnu frv., en á hinn bóginn hef ég ekki getað skoðað þetta mál þannig, að ég treysti mér til að ræða einstök atriði þess nú við þessa umr.