23.11.1961
Neðri deild: 24. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í C-deild Alþingistíðinda. (2819)

58. mál, húsnæðismálastofnun

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður, 1. þm.. Vestf. (ÞK), telur sig vera sérfræðing síns flokks í þeim málum, er lúta að lánamálum húsbyggjenda hér á landi. Sú ræða, sem hann flutti hér áðan, virðist mér þó ekki bera vott um, að hann væri sérlega kunnugur þessum málum. Hann taldi flutning þessa máls dæmi um, að framsóknarþingmenn hér stunduðu kommúnistadekur. Að hans dómi var það sérstakt kommúnistadekur að leggja til, að lán til húsbygginga yrðu hækkuð um helming. Þessi niðurstaða hv. þm., er þeim mun einkennilegri, þar sem hann viðurkenndi í sömu ræðu, að hann teldi þörfina fyrir þessa hækkun ótvíræða og að mér skildist hækkun sanngjarna. Samt taldi hann flutning þessa máls sýna sérstakt kommúnistadekur okkar flm.

Það var eitt atriði, sem hv. þm. gerði sérstaklega að umræðuefni í ræðu sinni áðan. Það voru þau orð, sem er að finna í grg. með frv., að með lagasetningunni 1957, nr. 42, hefði verið stigið merkasta sporið á því sviði að efla opinbert veðlánakerfi á vegum ríkisins. Þetta taldi hann hina mestu fjarstæðu. Ég tel mér því skylt að fara nokkrum orðum um þetta atriði og rökstyðja það, sem ég hef sett í grg. um þetta atriði.

Þegar ég tala um, að á árinu 1957 hafi verið stigið merkasta sporið í þessum efnum, þá á ég fyrst og fremst við, að þá var í fyrsta skipti efnt til verulegrar sjóðmyndunar á vegum byggingarsjóðs ríkisins. Með þeirri löggjöf voru byggingarsjóðnum í fyrsta skipti tryggðar nokkuð verulegar tekjur. Að vísu tryggði löggjöfin frá 1955 byggingarsjóðnum nokkrar tekjur, en þær voru ekki nema lítill hluti af þeim tekjum, sem ráðgert var að byggingarsjóðurinn nyti, eftir að lögin frá 1957 voru sett. Ég vil víkja lítillega að nokkrum þeim helztu tekjustofnum, sem lagðir voru með löggjöfinni frá 1957 til byggingarsjóðsins.

Í fyrsta lagi var ráðgert, að þangað rynni fé, af skyldusparnaði. Í áætlun, sem sjóðsstjórn byggingarsjóðs gerði á sínum tíma, áætlaði hún, að árlegar tekjur byggingarsjóðsins af þeim tekjustofnum, sem honum voru fengnir með þeirri löggjöf, mundu nema árlega um 40 milljónum kr., að því er mig minnir. Af þessum 40 millj. kr. áttu tekjur af skyldusnarnaði að nema um 20 millj. kr.

Í öðru lagi var ráðgert með lögunum frá 1957, að um 2/3 hlutar af stóreignaskatti rynnu til veðlánakerfisins. Reiknað var með, að sá skatthluti mundi gefa í árlegar tekjur byggingarsjóðsins um 10 millj. kr. á ári. Hitt er svo annað mál, að tekjurnar, bæði af skyldusparnaðinum og þó ekki sízt af skattinum á stóreignir, hafa orðið miklu minni en ráð var fyrir gert í upphafi, og hygg ég, að flokkur hv. síðasta ræðumanns eigi ekki hvað sízt sök á því, að tekjur byggingarsjóðs af skatti á stóreignir eru svo að segja að hverfa. Maður hefur séð í blöðum því haldið fram, að nú standi jafnvel til að fella niður þær eftirstöðvar af þessum skatti, sem enn þá standa eftir. Stóreignaskatturinn nam, ef ég man rétt, upphaflega um 135 millj. kr. En ég hygg, að hann sé kominn niður í um 60–70 millj. kr. og tekjur byggingarsjóðsins af þessum tekjustofni hafi því minnkað tilsvarandi. Það er því sízt ástæða fyrir hv. síðasta ræðumann að tala um einhverja sérstaka ást þeirra hv. sjálfstæðismanna á hagsmunum húsbyggjenda, því að þeirra framkoma, t.d. í þessu atriði, sannar þá ást ekki í verki.

Það eru fleiri nýir tekjustofnar, sem lagðir voru byggingarsjóðnum til með löggjöfinni frá 1957. Það er 1% álag, er innheimta átti aukalega á tekju- og eignarskatt og stríðsgróðaskatt og aðflutningsgjöld samkv. tollskrá með gildandi viðaukum. Þetta var líka nýr tekjustofn.

Ég get því endurtekið hér úr þessum ræðustóli þau orð, sem er að finna í grg., að með löggjöfinni frá 1957 hafi verið stigið merkasta sporið á þeirri braut að efla opinbert veðlánakerfi til húsabygginga hér á landi. Ég þykist hafa fært að þessu nokkur rök. Að sjálfsögðu byggist þetta veðlánakerfi, eins og öll önnur lánakerfi, á því, að tekjur fáist til útlána. Og það er einmitt á því sviðinu, sem löggjöfin frá 1957 sker alveg úr um, að þar er miklu lengra gengið en nokkurn tíma áður hefur verið gert til þess að afla byggingarsjóði ríkisins tekna. Ég tel mig þá hafa svarað þessu atriði úr ræðu hv. ræðumanns.

Hv. ræðumaður vék einnig að því, að hæstv. núv. ríkisstj. og þeir flokkar, sem hana styðja, væru miklu vinveittari hagsmunamálum húsbyggjenda en þeir flokkar, sem í stjórnarandstöðunni eru. Við skulum nú líta á þetta nokkru nánar. Hann vildi halda því fram, að með frjálsri sparifjármyndun í landinu væri einungis hægt að tryggja fjármagn til þessara framkvæmda. Ég get fallizt á þetta, eins langt og það nær. En við skulum líta á, hvaða hlutir hafa gerzt í þessu efni á valdaskeiði núv. hæstv. ríkisstj. Málgögn hennar hafa æ ofan í æ lýst því yfir, að einn glæsilegasti árangur stjórnarstefnunnar til þessa væri aukning á innlánsfé í lánastofnanir landsins. Við skulum þá ætla, að húsbyggjendur í landinu og þ. á m. byggingarsjóður ríkisins hafi notið einhvers í af þeirri miklu innlánaaukningu, sem hefur orðið á s.l. tveimur árum. En hvað segir reynslan um það? Ég las hér upp áðan úr grg., hver útlán byggingarsjóðs ríkisins hafa orðið á árunum 1957–61, og þau sýna, að á tveim seinustu árunum eru útlánin að vísu dálítið hærri en þau voru árin 1957 og 1958, en þar munar mjög litlu, og ég hygg mig muna það rétt, að árið 1956 hafi verið lánað enn þá meira úr byggingarsjóði ríkisins en bæði árin 1960 og 1961. Það er því staðreynd, að byggingarsjóðurinn hefur a.m.k. ekki notið þeirrar innlánsaukningar, sem orðið hefur í bönkum landsins á valdaskeiði núv. hæstv. ríkisstj. Það sýna útlán sjóðsins þessi tvö síðustu ár.

Það er svo annað mál, sem þó tilheyrir þessu máli, að það er ekki einasta, að útlán byggingarsjóðsins nú tvö síðustu árin hafi ekki aukizt, svo að nokkru verulegu nemi, heldur hefur byggingarkostnaður á valdatímabili þessarar hæstv. ríkisstj. vaxið svo stórlega, að hann hefur raskað öllum eðlilegum möguleikum almennings í landinu til þess að byggja húsnæði yfir sig. Það er því eðlilegt, að hv, síðasti ræðumaður geti staðið hér nokkuð kotroskinn í ræðustóli og hælt sér og sínum flokki fyrir góða framgöngu í lánamálum húsbyggjenda. Ég get ekki, þótt ég beiti fyllstu sanngirni í mati mínu á því atriði, orðið honum sammála um þá niðurstöðu.