08.12.1961
Neðri deild: 34. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

107. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í umr., er þetta frv., sem hér er til umr., undirbúið af nefnd, sem ríkisstj. kvaddi til starfa, og var hún skipuð fulltrúum fiskkaupenda og fiskseljenda. Fulltrúar fiskseljendanna voru bæði útgerðarmenn og fulltrúar frá stéttasamtökum sjómanna. Þessi nefnd var kvödd til starfa, eftir því sem ég held að sé rétt, þann 13. nóv. og átti að skila tillögum um þetta mikilsverða mál sjómannastéttarinnar fyrir mánaðamót nóvember og desember, eða var ætlaður aðeins um það bil hálfur mánuður til starfa. Nefndin færðist þetta mikla verkefni í fang, þó að tíminn væri svona naumur, sem henni var ætlaður, hélt á þessum tíma um 10 fundi og skilaði tillögum til ríkisstj. Að vísu fór það svo, að nefndin varð ekki ásátt um málið í öllum atriðum, og af því er það, að þessu frv. fylgir fskj., þar sem minni hl. eða nánar tiltekið fulltrúi Alþýðusambands Íslands, Tryggvi Helgason, gerir grein fyrir afstöðu sinni og sínum tillögum, sem felldar voru í nefndinni. Það var von fulltrúa Alþýðusambandsins, að frv. mundi verða athugað nákvæmlega af hæstv. sjútvmrh., og vonir stóðu til þess, að e. t. v. féllist hann á þau rök, sem fulltrúi Alþýðusambandsins bar fram, og kynni e.t.v. að gera þær breytingar á frv., sem að einhverju leyti kæmu til móts við þessar óskir Alþýðusambandsfulltrúans. Það hefur ekki orðið. Hæstv. ráðh. hefur lagt frv. fram, eins og meiri hl. n. lagði til að það yrði, og gert það eitt að birta tillögur minni hl. sem fskj. með frv. það hefur komið skýrt fram í umr. í dag, að höfuðágreiningurinn er í fyrsta lagi um skipun verðlagsráðs sjávarútvegsins. Þar lagði meiri hl. n. til og þar er lagt til í frv., að fulltrúar útvegsmanna hafi hreinan meiri hluta í verðlagsráðinu, 4 af 7. Þetta taldi fulltrúi Alþýðusambandsins óviðunandi, og ég átti þess sannast að segja ekki von, að hæstv. sjútvmrh. flytti málið í því formi, að hann féllist ekki á það sem sjálfsagt sjónarmið, að sjómennirnir yrðu að eiga jafnan rétt á við útgerðarmennina, þegar um verðákvörðun fisksins þeirra væri að ræða, því að það er fyllilega vitað og upplýst hér í grg. minni hl., að sjómennirnir eiga a.m.k. helming aflans og í sumum tilfellum langtum meira. Þeir eru því eigendur að þessum verðmætum, sem þarna er um að ræða að verðleggja, að hálfu eða jafnvel meira og hljóta því að óska þess, að ríkisvaldið tryggi, að þegar búinn er til aðili, sem á að ráða verðlagningu sjávaraflans, þá séu sjómennirnir a.m.k. Þannig settir, að þeir njóti jafnréttis við hinn aðilann, sem á helminginn á móti þeim. Auk þess fer ákaflega illa á því, að nefnd, sem á að skila tillögum til yfirnefndar eða yfirdóms, sé ekki þannig skipuð, að báðir aðilarnir séu jafnt „representeraðir“, það verð ég að segja, tel ákaflega óeðlilegt, að slík nefnd, sem á endanlega ákvörðun yfir höfði sér frá yfirdómi, sé skipuð hreinum meiri hluta annars aðilans. Ég sé ekki neinn tilgang í því nema þann, að þetta gæti orðið hættulegt og orðið til þess að valda tortryggni og deilum að óþörfu.

Það er alveg hárrétt, sem hér hefur komið fram hjá tveimur hv. þm., hv. 5. Þm. Norðurl. v. og hv. 12. þm. Reykv., að þetta eru megingallar á frv. Það er í fyrsta lagi mjög athugavert við skipun verðlagsráðsins, að útgerðarmennirnir eigi þar hreinan meiri hluta, og í öðru lagi, að í þeim meiri hluta geti verið að einhverju leyti eða kannske að öllu leyti fulltrúar fiskkaupenda, því að þeir eru að yfirgnæfandi meiri hluta í Landssambandi ísl. útvegsmanna, sem á að ráða meiri hluta í verðlagsráðinu. Ég tek því fyllilega undir það, að þarna yrði að gera þá leiðréttingu á í fyrsta lagi að takmarka það, að fulltrúar útvegsmanna megi eingöngu vera úr röðum þeirra útgerðarmanna, sem séu ekki jafnframt fiskkaupendur.

Jafnræði milli útgerðarmanna og sjómanna mætti fullnægja annaðhvort með því, að fulltrúar útvegsmanna yrðu aðeins 3 og fulltrúar sjómannanna 3 og verðlagsdómurinn væri þannig skipaður 6 fulltrúum, ellegar þá, eins og minni hl. n. leggur til, að fulltrúar sjómannanna verði einnig 4. Rökstuðningur hans fyrir því, að sjómennirnir þurfi að eiga a.m.k. 4 fulltrúa til jafns við útgerðarmennina, er sá, að fiskimennirnir með ströndum landsins eru dreifðir víðs vegar. Þeir hafa miklu verri aðstöðu en útgerðarmennirnir til að fylgjast með verðinu á heimsmarkaðinum, og þess vegna reið öllu meira á að tryggja mjög vel þeirra aðstöðu í verðlagsráðinu heldur en útgerðarmannanna, sem að öllu leyti hafa betri aðstöðu í þessum efnum. Hér er um að ræða 6–7 þús. sjómanna, sem eiga hagsmuna að gæta í þessum efnum. Ef sú leiðin væri ekki farin að fækka fulltrúum útgerðarmannanna um einn, þ.e.a.s. úr 4 í 3, og skapa þannig jafnrétti á milli aðilanna, þá er hin leiðin fyrir hendi, að fjölga fulltrúum sjómanna um einn.

Mér er að vísu ógeðfellt að deila um það, hvernig þessir fulltrúar eiga að vera valdir, hvort þeir eiga að vera valdir að meira eða minna leyti af Sjómannasambandi Íslands eða af Alþýðusambandinu. Það er rétt, sem hv. 12. þm. Reykv. sagði hér áðan, Sjómannasambandið er aðili að Alþýðusambandinu, og fulltrúi Sjómannasambandsins er þannig í þeim skilningi einnig fulltrúi Alþýðusambandsins. En hjá því verður þó ekki komizt, úr því að frv. er sett fram eins og það er, að þar er gert ráð fyrir einum fulltrúa frá Alþýðusambandinu og einum frá Sjómannasambandinu og einum frá Farmanna- og fiskimannasambandinu, að ef leiðrétting er gerð á þann hátt að telja, að fulltrúar sjómanna verði 4, þá mæla öll rök með því, að Alþýðusambandið hefði þar 2 fulltrúa, Sjómannasambandið 1 og Farmanna- og fiskimannasambandið 1. Þetta er af þeim ástæðum, að Sjómannasambandið er minni aðili fyrir hönd sjómanna en Alþýðusambandið, því að í Sjómannasambandinu eru fiskimennirnir í Sjómannafélagi Reykjavíkur, fiskimennirnir í Sjómannafélagi Hafnarfjarðar, fiskimennirnir í sjómannadeild Verkalýðsfélags Keflavíkur og fiskimennirnir í sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness. Það eru þessir meðlimir, sem eru í Sjómannasambandinu. En í Alþýðusambandinu eru sjómennirnir í Vestmannaeyjum, sjómennirnir á Eyrarbakka og Stokkseyri, sjómennirnir í Þorlákshöfn, Sandgerði, Garði og Vogum, þ.e. á Suðvesturlandinu, og frá þessum stöðum eru á milli 160 og 170 fiskibátar, stærri vertíðarbátar, og auk þess hefur svo Alþýðusambandið umboð fyrir alla fiskimenn á Austfjörðum, á Norðurlandi, á Vestfjörðum og á Snæfellsnesinu og öllum Breiðafjarðarhöfnunum. Ég veit líka, að þeir í Sjómannasambandi Íslands teldu sig ekki neinum rangindum beitta með því, að Alþýðusambandið hefði 2 fulltrúa á móti einum fulltrúa þeirra í sjómannaaðildinni í verðlagsráði sjávarútvegsins, því að með góðu samkomulagi hefur það verið þannig, að þegar nefndir hafa verið settar á laggir á undanförnum árum til þess að semja við L.Í.Ú. um fiskverðið, eins og gert var í mörg ár, þá var það með bezta samkomulagi ákveðið, að fulltrúar Alþýðusambandsins væru 7 og fulltrúar Sjómannasambandsins 3 og þessir 10 fulltrúar gengju hlið við hlið, eins og úr einum hópi væri, til síns verks við að semja um fiskverðið gagnvart útgerðarmönnunum. Þetta er hinn möguleikinn til leiðréttingar á skipun verðlagsráðsins, þ.e. að fulltrúar sjómannanna yrðu 4 eins og fulltrúar útgerðarmannanna, og væri þá næst lagi, að ég tel, að fulltrúar Alþýðusambandsins yrðu 2, og ég treysti því enn, að hæstv. sjútvmrh. fallist á þessi sjónarmið, sem nú hafa komið fram frá mörgum þm. og eru réttmæt, að þarna verði jöfnuður gerður á um aðild sjómanna á móti útgerðarmönnum um skipun verðlagsráðsins, annaðhvort með því að fækka útgerðarmannafulltrúunum um einn og þeir verði þannig 3, ellegar þá að fjölga sjómannafulltrúunum um einn, svo að þeir verði 4, eins og nú stendur í frv. um tölu útgerðarmannanna.

Þá er hitt ágreiningsatriðið, það er um það, hvað skuli gera, ef ekki fæst samkomulag um verðákvörðun fisksins í verðlagsráði, og þar eru uppi tvær tillögur. Tillögur meiri hl. n. eru í þessu frv. teknar upp og eru á þá leið, að ef ágreiningur verði, skuli hæstiréttur tilnefna oddamann, það er vafalaust rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að það ætti ekki að vera verra en það fyrirkomulag, sem ríkt hefur, og engin ástæða til þess að væna hæstarétt um það, að hann gerði sér far um að tilnefna hlutdrægan fulltrúa. En þarna yrði að tilnefna mann með fullkominni þekkingu á þessum málum og í annan stað að velja hann með tilliti til þess, að hann væri hvorki hlutdrægur aðili í garð sjómanna né útgerðarmanna. Og vonandi er, eins og ráðh. sagði, að hæstiréttur finni slíkan mann. Hins vegar er það oft svo, að hvort sem það er hæstiréttur eða aðrir aðilar, sem eiga að tilnefna slíkan aðila, að það er stundum höfð hönd í bagga um tilnefninguna af hæstv. ríkisstj., og getur þess vegna að nokkru leyti farið um val slíks manns að vilja ríkisstjórnarinnar, og öllum ríkisstjórnum er ekki jafntreystandi fyrir hönd sjómanna, það verð ég að leyfa mér að fullyrða. Við hefðum því heldur kosið í verkalýðssamtökunum, að sá, sem ætti að skakka leikinn og úrskurða um verð, ef um það væri að ræða, þegar ekki hefur náðst samkomulag um það í verðlagsráði sjávarútvegsins, hefði orðið sáttasemjari ríkisins, og að staða hans þarna væri ekki staða dómarans, heldur þess, sem leiddi málin til lykta eftir sáttaleiðum. Þetta er till. Tryggva Helgasonar, fulltrúa Alþýðusambandsins, að oddamaðurinn, sem þarna skeri úr, verði ekki tilnefndur af hæstarétti, heldur verði það sáttasemjari ríkisins og komi með miðlunartillögur, sem bornar séu undir atkvæði beggja aðila. Það er hárrétt, sem hér var tekið fram áðan, að báðir aðilar eiga ærið í húfi, ef þeir hafna sanngjörnum tillögum og taka þannig á sig tjón af stöðvun útgerðarinnar. Ætti því, þegar búið er að þrautræða þessi mál og sýna fram á, hvernig grundvöllurinn lægi í verðákvörðuninni, varla að bregðast, að þessir aðilar samþykktu tillögu sáttasemjara um verðákvörðun endanlega, sem væri eitthvað nærri réttu eftir markaðsverðinu og öllum aðstæðum. Og þessi leið tel ég að vekti sízt af öllu tortryggni og tryggði því eins mikinn frið um þessi mál og hægt væri.

Hins vegar er í þeirri leið, sem í frv. felst, um að ræða gerðardóm. Og það er leið, sem ég veit ekki til að Alþfl. hafi verið fylgjandi fram að þessu, og hefði þess vegna viljað treysta, að hæstv. ráðherra við nánari athugun legði sitt lóð á vogarskál um, að sú leið —gerðardómsleið — yrði ekki farin í þessu máli. Ég held, að hún sé ekki líkleg til friðsamlegrar úrlausnar á þessum ágreinings- og vandamálum, og mér líkar illa, að hún skuli vera farin. Nógu illt er, að ein stétt í landinu bændastéttin — verði að lúta gerðardómsúrskurði um sín launamál gegnum verðákvörðun landbúnaðarvara, og hefði heldur að mínu áliti átt að hverfa frá þeirri leið en að skella gerðardómi á fleiri stéttir. En það má vera, eins og hv. 5. þm. Norðurl. vék hér að áðan, að það sé sú leið, sem núv. ríkisstj. sé að færa yfir á allar stéttir, fremur en fara hina öfugu leið, að afnema gerðardóminn sem úrskurðarvald gagnvart einni af framleiðslustéttum þjóðarinnar, sem ég hefði heldur kosið að yrði farin.

Málið er nú til 1. umr. og fer svo til sjútvn. Ég veit, að eins og þingheimur hefur haft óforsvaranlega skamman tíma til þess að athuga málið, hefur hæstv. ráðh. líka haft skamman tíma til þess að kryfja þetta mál til mergjar, því að svo skammur tími er liðinn síðan nefndin skilaði áliti, og getur þó enginn sakað hana um að hafa legið á málinu, því að hún hafði skamman starfstíma. Því hefur lítið tóm gefizt hjá ráðuneytinu til þess að athuga málið gaumgæfilega og það orðið úr að leggja fram till. meiri hl. og birta sem fskj. álit minni hl., alveg eins og þetta kom frá nefndinni. Þar er afsökunin sú ein, að tíminn er naumur til jólaleyfis þingsins og full ástæða til að koma þessari breytingu, sem hér er fyrirhuguð, í lagaform fyrir n. k. áramót. En nú verður sjútvn. einnig að hafa hraðan á að vinna að þessu máli, og ekki virðist vera vonlaust um, að nokkrar lagfæringar fáist á málinu í meðferð hennar. Einkum treysti ég þó á það, að hæstv. ráðherra styðji að því, að nefndin athugi hvort tveggja atriðið, bæði um skipun verðlagsdómsins og eins um það, að horfið verði frá gerðardómsleiðinni — og ekki sízt það — og að hæstv. ráðherra leggi hönd að verki um það, að allar aðrar leiðir verði fremur athugaðar.