08.02.1962
Neðri deild: 45. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í C-deild Alþingistíðinda. (2883)

126. mál, lántaka vegna Landsspítalans

Einar Ágústsson:

Hæstv. forseti. Á þskj. 251 hafa þrír þm.. úr þessari hv. d. borið fram frv. til laga um lántöku vegna viðbyggingar við Landsspítalann. Þar sem 1, fim. Frv, þessa dvelst nú erlendis, vil ég leyfa mér að fylgja frv. úr hlaði með örfáum orðum.

Frv. er efnislega á þá leið, að ríkisstj. sé heimilt að taka lán allt að 30 millj. kr. til að fullgera sem fyrst þær viðbyggingar Landsspítalans, sem nú er verið að koma upp. Öllum er að sjálfsögðu kunnugt, hve sjúkrahúsaskortur er ákaflega tilfinnanlegur hér í Reykjavík, og verða sjúklingar oft að biða langtímum saman eftir sjúkrahúsvist og iðulega langt fram yfir það, sem æskilegt væri, og stundum lengur en forsvaranlegt er. Þetta á sér sína eðlilegu skýringu í því, að fjöldi sjúkrarúma hefur því sem næst ekkert aukizt hér í borginni undanfarim ár og áratugi, á sama tíma sem íbúafjöldinn hefur margfaldazt, og er sjúkrarýmið nú auðvitað langt frá því að vera orðið í nokkru samræmi við fólksfjöldann, ekki sízt þegar þess er gætt, að sjúkrahúsin hér í Reykjavík eru sem kunnugt er rekin að meira eða minna leyti fyrir landið allt. Sérstaklega á þetta við um Landsspítalann og raunar ríkissjúkrahúsin öll, því að þau verða ávallt að taka við miklum sjúklingafjölda utan af landi. Aðstaða lækna og hjúkrunarliðs á Landsspítalanum er líka orðin mjög erfið vegna þrengsla og ónógra starfsskilyrða, enda þótt hjúkrun og læknishjálp sé þar með miklum ágætum og raunar langt fram yfir það, sem hægt er að ætlast til eftir aðstæðum, eins og þeim mun ljúft að votta, sem þangað hafa þurft að leita.

Það er líka orðið ærið langt síðan skilningur heilbrigðisyfirvalda vaknaði á nauðsyn úrbóta í þessu efni, og var fyrir rúmum tíu árum byrjað á viðbyggingum þeim við Landsspítalann, sem efni þessa frv. fjallar um. Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að flytja stutt yfirlit yfir þær framkvæmdir í heild, sem hér er um að ræða, og byggi það á upplýsingum frá skrifstofu ríkisspítalanna, en þar er aftur stuðzt við kostnaðaráætlun skrifstofu húsameistara ríkisins.

Í fyrsta áfanga er ráðgert að byggja spítalaviðbyggingu í þrem álmum, sem nefndar eru tengiálma, vesturálma og austurálma, og eru þær samtals að stærð um 36500 teningsmetrar, áætlað kostnaðarverð 80 millj. kr. Þá er í þessum áfanga einnig bygging ketilhúss, um 2300 teningsmetrar er stærð, sem áætlað er að kosta muni 21/2—3 millj. kr. Til þessara framkvæmda hefur þegar verið varið um 50 millj. kr., og ætti þá að vanta til þeirra um 33 millj. Í öðrum byggingaráfanga er ráðgert að byggja nýtt þvottahús, um 7700 teningsmetra, áætlað kostnaðarverð 81/2 millj. kr., eldhúsbyggingu, um 10 þús. teningsmetra, fyrir 14 millj. kr., tengigang frá spítalabyggingu til eldhúss og þvottahúss fyrir 1 millj. og aðalinngang og upplýsingastöð fyrir gamla og nýja spítalann, er kosta mun um 2 millj. kr., þ.e.a.s. að fyrirhugað er að byggja fyrir 25 millj. kr. í öðrum byggingaráfanga. Af þessum framkvæmdum hefur nú verið lokið uppgrefti fyrir þvottahús- og eldhúsbyggingu, en annað hefur ekki verið gert. Í þriðja áfanga er ráðgert að byggja svonefnda norðurálmu, þ.e. álmu áfasta og byggða út frá miðri norðurhlið viðbyggingarinnar. Áætlað er, að þessi álma muni verða um 10 þús. teningsmetrar og kosta um 22 millj. kr. Þarna á að verða rúm fyrir röntgendeild, rannsóknardeild, skurðstofur fyrir handaðgerðir (plastkirurgi) o.fl. Þá hefur verð áhalda og annars innbús fyrir þessar viðbyggingar allar verið áætlað 15—30 millj. kr.

Af þessari stuttu lýsingu má ljóst vera, að mikið átak þarf til að koma öllum þessum fyrirhuguðu byggingum upp og í notkun og að hér er þörf mikils fjármagns, eða einhvers staðar á milli 90 og 95 millj, kr. alls, miðað við núgildandi verðlag. Þess er því tæplega að vænta, að hægt muni nú þegar að útvega allt það fé, sem þarf til að ljúka öllum þessum byggingum og til allra þessara áhaldakaupa. Enda þótt það væri tvímælalaust æskilegast að geta gert svo myndarlegt átak nú þegar, er ekki nema eðlilegt, að slíku verði að dreifa á nokkurt árabil. En með því að þörfin er brýn og framkvæmdir hafa að dómi flutningsmanna dregizt mikils til um of, þá er hér í frv. lagt til, að áherzla verði lögð á að fullgera nú þegar fyrsta byggingaráfangann, þ.e. viðbyggingu þá, sem risin er við Landsspítalann í þrem álmum, sbr. það, sem áður segir. Þegar þær álmur verða fullgerðar, bætast við sjúkrarými spítalans níu aðskildar sjúkradeildir með 25 rúmum að meðaltali eða samtals 225 sjúkrarúm. Eins og fyrr er getið, er talið, að kostnaður við að ljúka þessum viðbyggingum muni verða um það bil 35–40 millj. kr. með nauðsynlegasta búnaði. En í fjárlögum þessa árs eru veittar til framkvæmdanna um 7 millj. kr., og mundi því, miðað við svipaðar fjárveitingar á næstu árum, taka 4–5 ár að fullgera þennan áfanga. Augljóst er, hversu óheppilegt og raunar einnig háskalegt væri að þurfa að draga framkvæmdir svo lengi til viðbótar við allan þann tíma, sem þegar hefur þurft að bíða eftir þessum bráðnauðsynlegu úrbótum, og virðist þess vegna sjálfsagt að leita einhverra ráða til að stytta þennan biðtíma eftir föngum. Væri nægilegt fjármagn fyrir hendi, mundi að líkindum vera hægt að fullgera byggingu fyrsta áfanga nú á þessu ári, þær framkvæmdir eru þegar svo langt komnar, og taka í notkun. En með því mundi, sem fyrr segir, sjúkrarúmafjöldi spítalans tvöfaldast, og yrði þannig á myndarlegan hátt ráðin bót á því ástandi, sem nú ríkir á þessu sviði. Því er með frv. þessu, sem hér er til umr., lagt til, að ríkisstj. sé heimilað að taka allt að 30 millj. kr. lán eftir þörfum til að fullgera viðbyggingarnar, og er sú fjárhæð tiltekin með hliðsjón af því, að hún ásamt fjárveitingum þessa árs mundi hrökkva til framkvæmdanna. Lán þetta gæti orðið til skamms tíma, 4–5 ára, miðað við, að endurgreitt yrði af fjárveitingum næstu ára í þessu skyni. Verður því þess vegna ekki að óreyndu trúað, að ekki verði unnt að afla slíks láns, þegar um jafnmikið nauðsynjamál er að ræða.

Heilbrigðismál og umönnun sjúkra er sá flokkur máta, sem einna sízt má sitja á hakanum í menningarþjóðfélagi, og á mörgum sviðum þeirra stöndum við Íslendingar góðu heilli framarlega meðal þjóða og höfum oft náð ótrúlega góðum árangri í baráttu við ýmsa sjúkdóma, eins og óþarfi mun upp að telja. En sjúkrahúsaskorturinn í Reykjavík er orðinn alvarlegur fjötur um fót í þessu efni, og þjóðarheill krefst þess, að þar verði ráðin á bót hið allra fyrsta. Í byggingu hafa að undanförnu verið hér a.m.k. 3 stórar sjúkrahúsbyggingar og hefur þeim öllum miðað sorglega hægt áfram og orðið m.a. af þeim sökum miklu dýrari en þurft hefði, ef áherzla hefði verið lögð á byggingu einnar þeirra í einu, en ekki byrjað á hinum, fyrr en þeirri fyrstu var lokið. Engu að síður er það staðreynd, að þeirra allra er full þörf, og því er sjálfsagt að vinna að framgangi þeirra eftir fyllstu getu. Með flutningi þessa frv. er því á engan hátt tilætlunin að bregða fæti fyrir aðrar sjúkrahúsabyggingar hér, heldur er tilgangurinn einungis sá að hraða einni þeirra eftir föngum vegna aðkallandi þarfar.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta mál nú og leyfi mér að leggja til, að frv. verði að þessari umr, lokinni vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.