22.11.1961
Sameinað þing: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (3019)

61. mál, námskeið til tæknifræðimenntunar

Flm. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 78 till. til þál. um undirbúningsnámskeið til tæknifræðimenntunar fyrir iðnaðarmenn, sem hyggja á slíkt nám heima eða erlendis. Eins og skýrt er frá í grg. till., hafa með stóraukinni tækni í þágu atvinnuveganna að sama skapi aukizt þarfir fyrir sérhæfni og sérmenntun fólks til hinna ýmsu starfa. Við þessar auknu kröfur samtíðarinnar hefur komið í ljós, að nokkur eyða er í þessum efnum hvað menntunarskilyrði okkar snertir. Við eigum að vísu vel menntaða verkfræðinga, sem hafa margir hverjir gegnt störfum sínum á þann hátt, að vart verður á betra kosið, og hlotið heima og erlendis nauðsynlegan undirbúning til starfans í löngu og erfiðu námi. Ágæti þessara háskólamenntuðu manna má m.a. ráða af því, að auðugar stórþjóðir keppast nú um að fá þá til starfa í sínum heimahögum. Sama máli gegnir um iðnaðarmenn okkar. Þeir munu standast samjöfnuð við starfsbræður sina erlendis, sem hlotið hafa hliðstæða menntun. Þarna í milli hefur reynslan sýnt okkur að er bil, sem nauðsynlegt er að brúa. Á allra síðustu árum hefur þó miðað nokkuð í rétta átt í þessum efnum með tilkomu aukins hóps tæknifræðinga, sem velflestir eru iðnaðarmenn, sem aflað hafa sér framhaldsmenntunar erlendis. Nú munu vera á milli 90 og 100 tæknifræðingar starfandi og um 40, sem enn þá eru við nám erlendis. Þessum hóp til viðbótar hafa um 50 látið skrá sig sem hafandi áhuga á því að komast í slíkt tæknifræðinám.

Af þessum lauslegu tölum má nokkuð ráða um áhuga manna á þessu námi. Þá vaknar eðlilega sú spurning í hugum manna, hvort nauðsynlegt sé að auka þennan hóp svo ört vegna íslenzkra þarfa. Á Norðurlöndum mun algengast, að starfandi séu 3—5 tæknifræðingar á móti hverjum háskólalærðum verkfræðingi. Hér á landi munu verkfræðingar vera nálægt 300 talsins eða rúmlega það. Með svipuðum hlutföllum ætti þörfin hér á landi því að vera frá 900—1500 tæknifræðingar.

Þótt þessar tölur væru ekki lagðar til grandvallar, er sýnilega stóraukin þörf fyrir þessa menntun manna til starfs hér á landi, og er talið vægt í farið, þó að sagt sé, að á næsta áratug verði árleg þörf íslenzkra atvinnugreina ekki minna en 25—30 tæknifræðingar. Samkvæmt gögnum, sem ég hef haft undir höndum um slíka skóla, t.d. í Danmörku, er skólahaldið mjög kostnaðarsamt, þrátt fyrir það að námstíminn er styttur svo sem frekast er kostur á. Áhöld og tæki, sem nauðsynleg eru talin við tæknifræðiskólana, eru mjög dýr og þurfa tíðrar endurnýjunar við í samræmi við hinar hraðfleygu tækniframfarir nútímans. — Af framantöldum ástæðum má ætla, að nokkur bið geti á því orðið, að fullkominn tækniskóli komist á fót hér á landi, þó að sjálfsagt verði það framtiðin, og a.m.k. er vonandi, að svo geti orðið.

Hæstv. núv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, skipaði fyrir hálfu öðru ári nefnd til þess að athuga um möguleika á undirbúningi og stofnun slíks tækniskóla, og situr sú nefnd enn á rökstólum og hefur skilað fyrri hluta álits sins, en athugun varðandi tækniskólann mun ekki lokið. Menntmrh. hefur mjög lagt að nefndinni að hraða störfum svo sem frekast væri kostur, enda er hann mikill áhugamaður um þessi mál.

Ég skýrði frá því áðan, að tæknifræðinámið væri tekið á eins skömmum tíma og mögulegt er. Af þessu hlýzt það aftur, að inntökupróf og námið sjálft er mjög strangt. Í þrjú ár er nánast hver einasta stund ásetin frá morgni til kvölds, ef allt gengur að óskum. Góðir námsmenn hafa tjáð mér, að þar dugi ekkert minna en að öll yfirráðanleg orka sé notuð til hins ýtrasta, ef standast eigi tilskilin próf. Á námstímanum er einnig ekki möguleg nein eigin vinna til fjárhagslegs léttis við námið. Miklu máli skiptir því, að allur undirbúningur námsins sé svo góður sem verða má. Meðan slíkt nám verður að stunda erlendis, sem ætla verður að ekki breytist í allra næstu framtið, þótt ekki væri nema kostnaðarins vegna, er nauðsynlegt að stofna til undirbúningsnámskeiða eða eins konar forskóla, þar sem áhugamenn um nám þetta geta undirbúið væntanlegt tæknifræðinám og reynt sjálfir hæfileika sína, áður en lagt er til hins mikla stofn- og rekstrarkostnaðar, sem vart er nú talinn undir 60—70 þús. ísl. kr. á ári á hvern mann.

Um nauðsyn þessa undirbúnings hér heima, áður en lagt er til námsins sjálfs erlendis, má færa ýmis fleiri rök, sem of langt yrði upp að telja. En aðeins sem dæmi um hið stranga nám má nefna, að prósenta fallinna nemanda, það er þeirra, sem standast ekki tilskilin próf og þá sérstaklega inntökuprófin í slíkum skólum, hefur komizt upp í allt að 75%, og ekki er óalgengt, að sú tala sé 35–45% nemenda. Flest þessi mistök eða misheppnuðu áform er talið að rekja megi til ónógs undirbúnings. Jafnvel örlítið meiri málakunnátta við lestur hinna 80 námsbóka hefði getað bjargað frá falli eða forðað lengingu námstímans og komið í veg fyrir, að viðkomandi verði jafnvel að hætta námi. Tæknifræðimenntun svo og öll hliðstæð menntun krefst þess, að sífelld endurnýjun og viðhald námsins sé viðhaft með því að fylgjast vel með því, sem bezt gerist í þessum efnum á þeim stöðum í heiminum, sem slíkar framkvæmdir eru beztar og eru að gerast. Bæta má úr þessu með lestri góðra bóka um þessi efni. En það haldbezta verður áreiðanlega að vera á staðnum sjálfur. Þetta á ekki hvað sízt við, meðan á námstímanum sjálfum stendur. Að því munu menn lengi búa. Enginn, sem með þessum málum fylgist, efast nú lengur um nauðsyn þess fyrir íslenzkt athafnalíf, að fjöldi tæknifræðinga verði aukinn, og um áhugann á náminu vitna fyrrnefndar tölur. Sem fámennri þjóð er okkur mikil nauðsyn á, að sem allra flestir, er til þessa náms leggja, komi heim fullnuma á sem skemmstum mögulegum tíma. Till. þessi er flutt til þess að tryggja svo sem verða má, að svo geti orðið.

Herra forseti. Ég óska þess, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.