07.03.1962
Sameinað þing: 40. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í D-deild Alþingistíðinda. (3024)

61. mál, námskeið til tæknifræðimenntunar

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég er, eins og fram kom hjá hv. frsm., sammála öðrum allshn.- mönnum um að mæla með því, að samþykkt verði till. til þál. um undirbúningsnámskeið til tæknifræðimenntunar, og einnig samþykkur brtt., sem n. hefur borið fram, það sem hún nær. En ég hef leyft mér að flytja og gat þess í nefndinni, að ég mundi flytja brtt. við þessa brtt, á þskj. 346, sem nú liggur einnig fyrir. Tildrög þess, að ég flyt þessa brtt., eru þau, að n. kvaddi á sinn fund stjórn Tæknifræðingafélags Íslands, og mættu á fundi n. fjórir menn frá félaginu. Þetta Tæknifræðingafélag Íslands er félag manna, sem allir hafa numið erlendis það, sem kallað er tæknifræði og er eiginlega verkfræði á vissu stigi. Þetta félag er allfjölmennt, ég man nú ekki gerla, hversu fjölmennt, en það er nokkuð fjölmennt, og frá þessum mönnum, sem komu á fund allshn., fékk nefndin mikilsverðar upplýsingar um þetta mál, um erlenda tæknifræðiskóla og námsefni þar og um undirbúning íslenzkra iðnaðarmanna og aðstöðu til þess að njóta kennslu í þessum erlendu skólum. Það kom fram hjá þessum fulltrúum Tæknifræðingafélags Íslands, að stjórn félagsins hefur þegar efnt til námskeiðs til undirbúnings tæknifræðikennslu, og ég skildi það svo, að þetta námskeið væri í þann veginn að hefjast. Þar sem félagið hefur unnið þetta brautryðjandastarf í þessu efni og haft þessa undirbúningsstarfsemi með höndum, fannst mér eðlilegt, að ef ríkisstj, ynni að því að koma á fót undirbúningsnámskeiðum, þá væri um það haft samráð við þennan félagsskap, og efni brtt. minnar er aðeins það, að ef ríkisstj. stuðlar að því, að haldið verði undirbúningsnámskeið, þá verði það gert í samráði við Tæknifræðingafélag Íslands. Þetta virðist mér í raun og veru sjálfsagt, og mér skildist á hv. frsm. n., að hann teldi það í raun og veru sjálfsagt, að þetta væri gert, og ætti þá ekki að vera neinn ágreiningur um það að samþykkja þessa brtt.