15.11.1961
Sameinað þing: 15. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í D-deild Alþingistíðinda. (3079)

46. mál, verndun fiskistofna við strendur Íslands

Jónas G. Rafnar:

Herra forseti. Í sambandi við mál þetta vil ég leyfa mér að minna á, að á síðasta Alþingi flutti ég ásamt hv. 5. landsk. þm. till. til þál. um rannsókn á magni smásíldar hér við land. En till. hljóðaði á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta rannsaka eftir föngum magn smásíldar hér við land og hversu mikið megi af henni veiða án þess að rýra heildarafrakstur íslenzku síldarstofnanna. Jafnframt verði athugað, á hvaða stöðum og hvaða árstímum sé unnt að hagnýta smásíldina til niðursuðu.”

Till. var samþykkt og afgreidd sem ályktun Alþingis. Atvmrn. fól síðan með bréfi 10. apríl Fiskifélaginu að gera athuganir á því, hvernig ætti að framkvæma þessa þáltill. Jakob Jakobssyni fiskifræðingi mun hafa verið falið að gera þessa athugun, og hann skilaði allýtarlegri grg. til atvmrn. í niðurstöðu athugunar hans kemur eftirfarandi fram:

Smásíldarmagnið verði kannað með bergmálsmælingum og veiðitilraunum með herpinót og nótum, ef þurfa þykir. Jafnframt verði gerðar undirstöðuathuganir á lífsskilyrðum síldarinnar, t.d. hita- og átumælingar. Tekin verði sýnishorn til rannsókna á aldri, stærð, fitu o.fl. Framkvæmdar verði smásíldarmerkingar til athugunar á síldargöngum.

Af framansögðu er ljóst, að til rannsókna þessara þarf bát útbúinn góðum fiskileitartækjum og smásíldarnót ásamt öðrum ranasóknartækjum, er fiskideild hefur til umráða. Mun leiga slíks báts með öllum kostnaði varlega áætluð um 300 þús. kr. í sex vikur, auk nótakostnaðar, og er nauðsynlegt að athuga, hvort ekki er hagkvæmt að kaupa eða láta gera hentuga smásíldarnót, sem unnt yrði svo að nota til slíkra rannsókna á komandi ári. — Í áliti Jakobs Jakobssonar eru gerðar ýtarlegar tillögur um það, hvernig þessi athugun eigi fram að fara.

Þessi till. var samþ., eftir að fjárlög voru afgreidd, svo að fé var ekki fyrir hendi til þess að láta athugunina fara fram. Ég vil nú eindregið vænta þess, að við afgreiðslu næsta árs fjárlaga verði tekin upp rífleg fjárveiting, ekki innan við 300 þús. kr., sem tryggi það þá, að þessi þýðingarmikla athugun á smásíldarstofninum geti farið fram nú þegar á næsta sumri.