06.04.1962
Sameinað þing: 50. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í D-deild Alþingistíðinda. (3171)

113. mál, útflutningur á dilkakjöti

Eysteinn Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég hefði ekki séð ástæðu til að kveðja mér hljóðs aftur út af þessu máli eða út af því, sem fram hefur komið, síðan ég talaði, ef hv. 1. þm. Vestf. (GíslJ) hefði ekki beint að mér nokkrum ásökunum í sambandi við þetta mál, sem ég vil ekki láta ósvarað. En áður en ég kem að því að svara því fáeinum orðum, vil ég þó láta í ljós undrun mína yfir því, að hv. 1. þm. Vestf. (GíslJ) og hv. 10. landsk. þm., sem hér talaði og er einn af flm. till., virtist mjög umhugað um að halda því fram, að ég hefði snúizt með ofsa á móti till.

Þetta er í meira lagi furðulegt, vegna þess að ég mælti ekkert í gegn till., ekki með einu einasta orði. Ég benti á hinn bóginn á, að það væri mjög óljóst, hvað fyrir hv. flm. vekti með till., og afar illt að átta sig á því, hvað heimilt væri fyrir hæstv. ríkisstj. að aðhafast, ef till. væri samþ. Og ég fór fram á, að hv. flm. gerðu grein fyrir því, hvað það væri, sem þeir ætluðust til að hæstv. ríkisstj. hefðist að í málinu. En ég er alveg jafnnær um þetta eftir þá ræðu, sem hv. flm. Bjartmar Guðmundsson flutti hér um málið, sem átti að vera, að því er mér skildist, einhvers konar svarræða út af mínum orðum. Ég er alveg jafnnær um það, hvað fyrir hv. flm. vakir með till., og ég veit, að það er alveg eins ástatt um aðra hv. þm., því að hann bætti þar engu við til skýringar á því, hvað það væri, sem raunverulega ætti að gera.

Hv. þm. kvartaði yfir því, að ég hefði rætt hér um þann róg, sem hefði verið uppi hafður í garð Sambandsins í sambandi við umr. um þessi kjötsölumál, og taldi, að það hefði verið ófyrirsynju að blanda umr. um hann nokkuð inn í umr. um þessa till. En ég vil aftur á móti halda því fram, að það hafi verið full ástæða til þess að svara þeim rógi einmitt í sambandi við þessa till., vegna þess að það þarf ekki glöggskyggnan mann til að sjá, að þar hangir allt á sömu spýtu, eins og ég orðaði það, þau rógsummæli, sem fram komu í þessa átt hjá hæstv. fjmrh. og hjá Morgunblaðinu, og svo aftur ummæli hv. þingmanna, flutningsmanna, í grg. fyrir þáltill., þó að þeir fari þar miklu vægar í sakirnar og séu að öllu leyti hógværari, eins og ég margsinnis tók fram í þeim aths., sem ég lét falla hér á dögunum, þegar umr. hófst um málið. Tel ég því, að ég hafi í engu gengið lengra í að hrekja þennan róg en brýna nauðsyn bar til og gert var aðallega með því að skýra þingheimi frá þeirri greinagóðu skýrslu, sem framkvæmdastjóri Sambandsins í þessum málum, Helgi Pétursson, hafði samið og birt var í Morgunblaðinu.

Læt ég þetta alveg nægja um það, sem hv. flm. sagði, Bjartmar Guðmundsson, og út af hans ræðu.

Eins og ég sagði í upphafi, var ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, eingöngu það, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði, og þótti mér leiðinlegt, að sá mæti maður skyldi viðhafa þau orð, er hann hafði í því sambandi. Hann sagði, hv. þm., að ég hefði sagt vísvitandi ósatt, — ég heyrði ekki betur en hann segði það, — um mjög þýðingarmikið atriði í þessu máli. En þetta kannast ég með engu móti við, eins og ég nú skal skýra.

Ég sagði, að eftir því sem ég bezt vissi, hefði enginn nema Samband ísl. samvinnufélaga staðið fyrir útflutningi á kjöti, sem hægt væri að nefna því nafni. Sambandið væri eini aðilinn, sem nokkra framkvæmd hefði haft með höndum í þessu efni og nokkurt frumkvæði hefði í því sýnt, og þessu væri svona varið, þó að Sambandið hefði alls enga einokun á kjötverzluninni.

Ég lagði áherzlu á, að það væru ýmsir aðrir aðilar, sem hefðu haft kjötverzlun með höndum, án þess að gera nokkuð í því að flytja út kjöt eða reyna að ryðja því braut með nýjum aðferðum á erlendum markaði, og hefðu þeir þó ekki aðeins haft möguleika til þess margir, heldur einnig í raun og veru skyldu að sjálfsögðu til þess að reyna slíkt ekkert siður en Sambandið, fyrst þeir lögðu það fyrir sig að verzla með kjötvörur.

En hv. 1. þm. Vestf. sagði, að í þessu efni hefði ég sagt vísvitandi ósatt, vegna þess að ég hefði dregið það undan, að Samband ísl. samvinnufélaga hefði í raun og veru með stuðningi löggjafar einokun á kjötverzluninni. Aðrir hefðu ekki haft aðstöðu til þess að spreyta sig. Ég skil ekkert í því, að jafnmætur maður og hv. 1. þm. Vestf. skuli segja þetta, þegar þeirrar staðreyndar er gætt, sem ég rifja upp, að margir kaupmenn og ýmis félög utan Sambands ísl. samvinnufélaga hafa sláturleyfi og hafa haft áratugum saman og hafa enn og þar með móttöku á kjöti og kjötverzlun. Því fer þess vegna alls fjarri, að Sambandið eða samvinnufélög innan Sambandsins hafi hér einokunaraðstöðu.

Mér þykir mjög leiðinlegt, að hv. þm. skyldi segja þetta, og ég veit, að hann hlýtur að hafa eitthvað misskilið þetta mál. Hann mundi alls ekki hafa viðhaft þessi orð, ef hann hefði athugað þetta ofan í kjölinn. Ég vil því álíta, að hér hljóti að hafa verið um einhvern misgáning að ræða eða þá þessi orð hafi fallið ófyrirsynju hjá hv. þm., því að um þetta er ekkert að efast. En sem sagt, ég kvaddi mér hljóðs fyrst og fremst til að benda á þetta og vildi ekki láta þessa aðdróttun standa óleiðrétta í þingtíðindunum.