25.10.1961
Sameinað þing: 7. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í D-deild Alþingistíðinda. (3214)

18. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. „Langtímum saman hafa Íslendingar búið við hið mesta öngþveiti í fjárhags- og viðskiptamálum. Menn hafa fengið að kynnast vöruskorti og svarta markaðnum, sem honum fylgir sem skugginn. Sífelldar kauphækkanir, ýmist útmældar eftir vísitölu framfærslukostnaðar eða knúðar fram með framleiðslustöðvunum, hafa a.m.k. upp á síðkastið ekki megnað að bæta kjör launþega, þar sem þjóðartekjurnar hafa farið minnkandi. Við slíkar aðstæður er álíka líklegt, að almennar kauphækkanir bæti kjör manna, og að takast mætti að auka næringarefni mjólkur með því að hella í hana vatni. .. Menn eru fyrir löngu orðnir dauðþreyttir á þessu ástandi og öllu því fargani banna og þýðingarlítils eftirlits, sem af því hefur leitt. Undanfarið hefur margt orðið til þess að koma málefnum landsmanna í óvænt efni, mikill halli á ríkisbúskapnum, óeðlileg útlánastefna bankanna, of ör fjárfesting og óheppileg og röng stefna í launa- og kaupgjaldsmálum, þar sem almennar kauphækkanir hafa verið framkvæmdar án þess, að þær hafi verið teknar af gróða af atvinnurekstri eða byggzt á framleiðsluaukningu. Menn verða að gera sér það ljóst, að út úr þessum ógöngum er ekki nema ein leið: sú að koma á auknu jafnvægi í þjóðarbúskapnum, sem beztu samræmi á milli þess peningamagns, sem í umferð er, og framleiðsluverðmætisins. Fyrsta skrefið, sem stigið hefur verið til aukins jafnvægis og aukinnar framleiðslu, var gengislækkunin. Án hennar var engin viðreisn hugsanleg, eins og komið var, þar sem þjóðinni var að blæða út fjárhagslega vegna ósamræmis, sem orðið var á milli verðlags hér og annars staðar og á milli framleiðslukostnaðar og afurðaverðs. Eina úrræðið, sem gat komið til greina í staðinn fyrir gengislækkun, var allsherjarniðurfærsla eða öllu heldur niðurskurður, en allir, sem það mál athuguðu ofan í kjölinn, töldu hann enn erfiðari í framkvæmd en gengislækkun og raunar óframkvæmanlegan.”

Ekki veit ég, hversu margir hlustendur, innan þings eða utan, hafa gert sér ljóst, að þessi ummæli, sem ég hóf mál mitt með, eru ekki samin af mér og ekki sögð til varnar þeirri stefnu í efnahagsmálum, sem núv. ríkistj. hefur fylgt og nú hefur verið borið á hana vantraust fyrir. Allir hafa þó eflaust gert sér grein fyrir, að höfundur þeirra er að mæla bót gengislækkun, sem framkvæmd hefur verið til þess að koma í stað uppbótakerfis. Hann er að mæla gegn halla í þjóðarbúskapnum út á við og inn á við. Hann er að vara við kauphækkunum, sem séu umfram framleiðsluaukningu þjóðarinnar. Hann telur nauðsynlegt að hafa jafnvægi í þjóðarbúskapnum, það sé hinn eini trausti grundvöllur framleiðsluaukningar og framfara og þar með hættra lífskjara.

En hver skyldi hann vera sá ágæti maður, se,m svo skýrt og rökfast mælir gegn uppbótakerfi og vili gengisbreytingu, til þess að unnt sé að afnema það, varar við óeðlilegri útlánsþenslu banka og örri fjárfestingu, undirstrikar skaðsemi þeirra kauphækkana, sem byggjast ekki á aukinni framleiðslu, segir, að aukið jafnvægi sé forsenda þess, að viðreisn sé hugsanleg. Svarið er að finna á bls. 1446 í Alþingistíðindum frá þinginu 1950—51, en þar er prentuð ræða, sem formaður þingflokks Framsfl., Eysteinn Jónsson, flutti í eldhúsumræðum. Þær umræður snerust fyrst og fremst um stefnu þáv. ríkisstj. í efnahagsmálum, en forsrh. þeirrar stjórnar var Steingrímur Steinþórsson og fjmrh. hennar Eysteinn Jónsson. Sú stjórn hafði, skömmu eftir að hún tók við völdum, lækkað gengi krónunnar til þess að afnema uppbótakerfi, boðað nauðsyn þess að halda fjárfestingu landsmanna innan takmarka innlends sparnaðar og erlends lánsfjár, taldi það stefnu sína að halda útlánum bankanna í skefjum og lagði sérstaka áherzlu á, að kauphækkanir mættu ekki vera meiri en svaraði til framleiðsluaukningar þjóðarbúsins. Þessi stefna og framkvæmd hennar var til umr. í eldhúsumræðunum á þinginu 1950—51. Eysteinn Jónsson varði hana af mælsku og kappi, enda hafði hann áður sagt, að „uppbótaleiðin hefði veitt mönnum a.m.k. jafnþungar búsifjar og gengisbreytingin, en gert allt fjárhagskerfið rotnara og rotnara með hverjum mánuðinum sem leið: Þá var Eysteinn Jónsson fylgjandi réttri gengisskráningu, en andvigur uppbótakerfi. Þá var hann andvígur óeðlilegri útlánaþenslu bankanna. Þá var hann andvígur of örri fjárfestingu. Og þá lagði hann hvað mestan þunga í orð sín, er hann ræddi um skaðsemi óraunhæfra kauphækkana. En þá var flokkur Eysteins Jónssonar í ríkisstj. og hann sjálfur fjmrh.

En nú hefur Framsfl. tekið afstöðu gegn réttri gengisskráningu, gegn því, að hafður sé hemill á óeðlilegri útlánaþenslu bankanna, gegn því, að fjárfestingu sé haldið innan eðlilegra marka, og beinlínis barizt fyrir kauphækkunum, sem allir ábyrgir Íslendingar sjá að hafa verið umfram greiðslugetu útflutningsatvinnuveganna og hlutu þess vegna að leiða verðbólgu yfir þjóðina, ef ekki væri að gert.

Annars átti sú stjórn og sú stjórnarstefna, sem form. þingflokks Framsfl., Eysteinn Jónsson, var að verja með þeim orðum, sem ég las í upphafi máls míns, sér athyglisverðan uppruna. Af því að hér fara nú fram umr. um vantraust á ríkisstj., sem flutt er af Framsfl., er ekki úr vegi að minna á, að fyrir rúmum tíu árum flutti Framsfl, einnig vantraust á ríkisstj., og varð það upphaf stjórnarmyndunar og þeirrar efnahagsmálastefnu, sem Eysteinn Jónsson varði svo fimlega með þeim ummælum, sem ég rakti áðan. Það er ekki úr vegi að rifja upp þessa sögu í fáum orðum.

Stjórnarsamstarf það, sem lýðræðisflokkarnir þrír höfðu haft með sér á árunum 1947—49, rofnaði vegna ágreinings um efnahagsmál. Sú ríkisstj. hafði reynt að leysa vanda efnahagsmálanna eftir styrjöldina með því að lækka bæði verðlag og kaupgjald og beita víðtæku hafta- og uppbótakerfi til stuðnings þeirri stefnu. Hún bar því miður ekki þann árangur sem skyldi, ekki hvað sízt vegna þess, að stjórn bankamálanna og fjármála ríkisins var ábótavant. Eftir að stjórnarsamstarfið rofnaði, myndaði Sjálfstfl. minnihlutastjórn og undirbjó tillögur um algera stefnubreytingu í efnahagsmálum. Flutti minnihlutastjórn Sjálfstfl. viðtækt stjórnarfrv. um hina nýju stefnu, og fylgdi því ýtarleg hagfræðileg grg. Höfuðatriði hinnar nýju stefnu skyldu vera þessi: Gengi krónunnar skyldi rétt skráð, en útflutningsbætur afnumdar, losa skyldi um höft á innflutningsverzluninni, verðlagseftirlit skyldi afnumið, útlánum bankanna haldið innan hóflegra marka og fjárfesting takmörkuð, grunnkaupshækkanir skyldu í raun og veru óheimilar, en kaupgjald hækka í samræmi við hækkun vísitölu framfærslukostnaðar.

Skömmu eftir að minnihlutastjórn Sjálfstfl. hafði lagt fram þessar till. sínar, flutti Framsfl. vantraust á þá stjórn. Það vantraust var samþ. En þegar eftir samþykkt vantraustsins settust forustumenn Framsfl. að samningaborði með forustumönnum Sjálfstfl., og náðist mjög fljótlega samkomulag um myndun samsteypustjórnar þessara tveggja flokka. Aðalniðurstaða samninganna, auk skiptingar ráðherraembætta milli flokkanna, var mótun nýrrar stefnu í efnahagsmálum. Sú stefna var nákvæmlega eins og sú, sem fram kom í frv. minnihlutastjórnar Sjálfstfl. Frv. var samþ. óbreytt í öllum aðalatriðum með atkv. Framsfl. og Sjálfstfl. Það var þetta frv. og framkvæmd þess, sem formaður þingflokks Framsfl. og þáv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, var að verja í ræðunni, sem ég las úr áðan.

En nú væri ekki nema von, að menn spyrðu: Var þá sú stefna í efnahagsmálum, sem samstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. mótaði vorið 1950, nákvæmlega eins og sú stefna, sem samstjórn Sjálfstfl. og Alþfl, mótaði í febrúar 1960, eða 10 árum síðar? Í nokkrum grundvallaratriðum var stefnan hin sama. Báðar þessar ríkisstj. hófu starf sitt með því að breyta gengisskráningunni til þess að losna við uppbótakerfið. Báðar þessar ríkisstj. vildu koma á frjálsari viðskiptum við útlönd. Báðar þessar ríkisstjórnir undirstrikuðu nauðsyn þess að koma á jafnvægi innanlands og út á við. Báðar þessar ríkisstjórnir töldu nauðsynlegt að takmarka fjárfestingu við innlendan sparnað og erlent lánsfé, hafa hemil á bankaútlánum og koma í veg fyrir halla á ríkisbúskapnum. Eftir að formaður þingflokks Framsfl., Eysteinn Jónsson, var orðinn fjmrh. aftur vorið 1950, þreyttist hann aldrei á að undirstrika, hversu rétt slík stefna væri, þótt hann hafi nú s.l. 2 ár, eftir að hann hætti að vera fjmrh., aldrei sagt eitt orð um réttmæti slíkrar stefnu í efnahagsmálum.

En þótt ýmislegt hafi verið sameiginlegt í efnahagsmálastefnu þessara tveggja ríkisstjórna, ber þó einnig ýmislegt á milli, og nú skal ég geta þess, hvað það var og er fyrst og fremst.

Ríkisstj. Framsfl. og Sjálfstfl. bannaði í raun og veru grunnkaupshækkanir, en fyrirskipaði hækkun kaupgjalds samkv. vísitölu framfærslukostnaðar. Vísitalan hækkaði miklu meira en gert hafði verið ráð fyrir. Kaupgjald hækkaði þess vegna fljótlega mun meira en búizt hafði verið við, og olli það m.a. því, að gengislækkunin reyndist útflutningsatvinnuvegunum ónóg, svo að koma varð á uppbótakerfi á nýjan leik ári síðar. Núv. ríkisstj. afnam hins vegar tengsl milli kaupgjalds og vísitölu, en skerti ekki frelsi launþegasamtaka og atvinnurekenda til þess að semja um kaup og kjör sin í milli. Ríkisstj. Framsfl. og Sjálfstfl. afnam verðlagsákvæði samtímis því, sem losað var um höft á innflutningi, með þeim afleiðingum, að álagning hækkaði mjög verulega. Núv. ríkisstj. afnam höft á innflutningi að öðru leyti en því, sem nauðsynlegt var vegna viðskiptanna við Austur-Evrópu. Hins vegar hefur núv. ríkisstj. haldið verðlagsákvæðum að langmestu leyti til þess að reyna að hafa hemil á því, að verðhækkanir verði ekki meiri en algerlega óhjákvæmilegt er. Ríkisstj. Framsfl. og Sjálfstfl. boðaði, að nauðsynlegt væri að hafa hemil á útlánum bankanna, en gerði engar ráðstafanir í þá átt, þannig að þau jukust verulega, og torveldaði það viðleitni stjórnarinnar til þess að halda verðlaginu í skefjum. Núv. ríkisstj. hefur ekki aðeins sagt, að bankaútlán verði að takmarkast við innlög í bankana, heldur einnig fylgt því eftir, að svo yrði. Ríkisstj. Framsóknar og Sjálfstfl. lét vextina haldast óbreytta, en gerði ráð fyrir smávægilegum bótum til sparifjáreigenda vegna verðfalls krónunnar. Núv. ríkisstj. beitti sér hins vegar fyrir hækkun innláns- og útlánsvaxta, annars vegar til þess að rétta hlut sparifjáreigenda, sem fengið hafa stórauknar vaxtatekjur, síðan ríkisstj. tók við völdum, og hins vegar til þess að vinna gegn verðbólguhugsunarhætti hjá þeim, sem nota lánsfé þjóðarinnar, og stuðla að því, að það sé notað á sem hagkvæmastan hátt.

Þetta lýtur að því, sem þessar ríkisstj. gerðu báðar, en gerðu sitt með hvorum hætti. En munur þeirra er samt ekki fyrst og fremst fólginn í því, heldur í hinu, sem samstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. gerði ekki, en núv. ríkisstj. hefur gert.

Þrátt fyrir þau miklu félagslegu áhrif, sem gengisbreyting eins og sú, sem samstjórn Framsfl, og Sjálfstfl. beitti sér fyrir vorið 1950, hlýtur jafnan að hafa, gerði sú stjórn engar meiri háttar ráðstafanir til aukins tekjujafnaðar samhliða gengisbreytingunni. Í velferðarríki eins og því, sem við höfum komið á fót hér á landi, eru almannatryggingarnar helzta tækið til þess að auka jöfnuð í skiptingu þjóðarteknanna og hlynna að þeim, sem höllustum fæti standa í lífsbaráttunni. Samstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. beitti sér ekki fyrir neinni aukningu á bótum almannatrygginganna samhliða gengisbreytingunni 1950. Núv. ríkisstj. beitti sér hins vegar fyrir stórkostlegri aukningu á bótum trygginganna, um leið og sú gengisbreyting, sem hún beitti sér fyrir, var ákveðin. Hafa bætur almannatrygginganna verið meira en tvöfaldaðar á valdatíma núv. ríkisstj., og hefur aukningin einkum verið á fjölskyldu;bótum og ellilífeyri.

Ríkisstj. Framsfl. og Sjálfstfl. beitti sér ekki heldur fyrir neinum ráðstöfunum til þess að takmarka hækkun verðlags. Núv. ríkisstj. taldi hins vegar nauðsynlegt að auka nokkuð niðurgreiðslu tiltekinna nauðsynjavörutegunda til þess að hamla á móti þeim verðhækkunum, sem óhjákvæmilegt var, að sigldu í kjölfar gengislækkunarinnar.

Ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. gerði engar ráðstafanir til endurbóta í skattamálum, en ranglæti tekjuskattsheimtunnar var þá fyrir löngu orðið slíkt, að skattar á framtaldar tekjur reyndust fyrst og fremst skattar á þá, sem njóta fastra launa. Núv. ríkisstj. beitti sér fyrir afnámi tekjuskatts á venjulegar launatekjur og lækkun útsvara.

Nú væri sannarlega ekki ástæðulaust, að menn spyrðu: Hvað veldur því, að Framsfl., sem var svo harðánægður með stefnu þá í efnahagsmálum, sem mótuð var vorið 1950, er nú eindregið andsnúinn stefnunni, sem mótuð var í febrúar 1960? Ekki getur það verið það, að gengið var lækkað. Það var gert í bæði skiptin. Ekki getur það verið það, að uppbótakerfið var afnumið. Það var gert í bæði skiptin. Getur ástæðan verið sú, að nú hefur því verið fylgt fast eftir, að bankaútlán ykjust ekki umfram bankainnlög? Varla, því að þetta var líka þáttur stefnunnar frá 1950, þó að ekki yrði úr framkvæmdum. Getur ástæðan verið sú, að fjárfesting miðast nú í meginatriðum við innlendan sparnað og erlent lánsfé? Tæplega, því að nauðsyn þessa var sterklega undirstrikuð í stefnunni frá 1950. Getur ástæðan verið, að núv. ríkisstj. rauf tengslin milli kaupgjalds og vísitölu? Nei, alls ekki, því að Framsfl. hafði einmitt lagt þetta til í ríkisstj. Hermanns Jónassonar. Getur orsökin verið sú, að núv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir hinni miklu aukningu almannatrygginganna? Ekki trúi ég því, enda hefur Framsfl. ekki ráðizt á stjórnarflokkana fyrir þá ráðstöfun. Getur ástæðan verið sú, að ríkisstj. jók niðurgreiðslur á nokkrum nauðsynjavörum? Varla, því að Framsfl. hefur ekki gagnrýnt ríkisstj. sérstaklega fyrir það. Getur ástæðan verið sú, að ríkisstj. hefur beitt sér fyrir lækkun tekjuskatts og lækkun útsvara, þótt það hafi haft í för með sér, að innheimta hefur þurft almennan söluskatt í staðinn? Ekki hefur farið mikið fyrir aðfinnslum Framsfl. í þessu efni. Og þá er í rauninni aðeins eitt atriði eftir, sem á milli hefur borið, en það er vaxtahækkunin. Getur það verið, að andstaða Framsfl. gegn því að hækka innláns- og útlánsvexti hafi verið og sé svo mikil, að hann telji alla stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum forkastanlega vegna þessa atriðis eins? Þess hefur ekki orðið vart, að Framsfl. telji sparifjáreigendur hafa fengið of mikið vegna vaxtahækkunarinnar. En hvaðan áttu þeir að geta fengið auknar vaxtatekjur sem nauðsynlega umbun fyrir þjóðhollan skerf sinn til aukinna framfara í landinu og nauðsynlega hvatningu til þess að auka hann annars staðar en frá þeim, sem nota spariféð og eru reiðubúnir til þess að greiða þá vexti, sem upp hafa verið settir? Þótt Framsfl. hafi eflaust aðra skoðun á þýðingu vaxta fyrir almenna stjórn efnahagsmálanna en stjórnarflokkarnir, þá læt ég mér ekki detta í hug, að ágreiningur um þetta atriði eitt hafi getað valdið því, að hann telji nauðsynlegt að fordæma stefnu núv. ríkisstj. í efnahagsmálum.

En hvað er það þá, sem veldur hinni hatrömu andstöðu Framsfl. gegn núv. ríkisstj.? Hvað er það, sem veldur því, að flokkurinn flytur nú vantraust á ríkisstj.? Er hann að flytja vantraust á ríkisstj, fyrir það að hafa komið því til leiðar, að íslenzka krónan er nú rétt skráð.? Er hann að flytja vantraust á ríkisstj. fyrir það að hafa afnumið uppbótakerfið og alla spillinguna, sem, því fylgdi? Er hann að flytja vantraust á ríkisstj. fyrir það að hafa komið á meira frelsi í utanríkisviðskiptum þjóðarinnar en dæmi eru um áður um 30 ára skeið? Er hann að flytja vantraust á ríkisstj. fyrir það að hafa með endurskipulagningunni á innflutnings- og gjaldeyrismálunum sparað hinu opinbera milljónir króna árlega? Eða er hann kannske að flytja vantraust á ríkisstj. vegna hins aukna og bætta vöruúrvals, sem hvarvetna blasir við í verzlunum vegna endurskipulagningar innflutningsmálanna? Eða kannske hann sé að flytja vantraust á ríkisstj. fyrir það að tvöfalda bætur almannatrygginganna eða fyrir það að lækka tekjuskatt og útsvör? Eða er hann í raun og veru að flytja vantraust á ríkisstj. fyrir það að hafa ekki látið útflutningsatvinnuvegina stöðvast nú í haust, vegna þess að kaupgjaldið hækkaði í sumar meir en nokkur von var til, að þeir gætu borið? Vildi Framsfl. láta þá tekjuaukningu sem hinir nýju kaupgjaldssamningar höfðu í för með sér, hleypa nýju verðbólguflóði yfir þjóðina? Vildi Framsfl. láta þann gjaldeyrisforða, sem tekizt hefur að safna á s.l. hálfu öðru ári, hverfa eins og dögg fyrir sólu í nýrri, hömlulausri dýrtíð? Trúa leiðtogar Framsfl. því í raun og veru, að þegar meðalverðlag útflutningsafurða þjóðarinnar er lægra en það var í árslok 1959, svo sem nú á sér stað, þá geti stórhækkun á krónutölu kaups haft í för með sér tilsvarandi raunverulegar kjarabætur? Er það raunveruleg skoðun leiðtoga Framsfl., að samtímis því sem framleiðsluverðmæti sjávarútvegsins verður í ár mun lægra en það var árið 1959, þá sé traustur grundvöllur undir almennum kauphækkunum? Flytur Framsfl. vantraust sitt af því, að ríkisstj. tókst að koma í veg fyrir, að kauphækkunaraldan í sumar yrði að taumlausri verðbólguöldu? Flytur hann vantraust sitt af því, að það hefur tekizt að koma í veg fyrir framleiðslustöðvun og atvinnuleysi?

Nei, ég held, að Framsfl. flytji ekki vantraust sitt af neinni þessara ástæðna. Ég held, að Framsfl. flytji vantraust sitt alls ekki af því, að hann sé í raun og veru ósammála grundvallaratriðunum í stefnu núv. ríkisstj. í efnahagsmálum. Mér dettur ekki í hug, að leiðtogum Framsfl. sé ekki nákvæmlega jafnljóst og forustumönnum stjórnarflokkanna, að gengið á að vera skráð rétt, að það þarf að keppa að jafnvægi í efnahagsmálum inn á við og út á við, að frelsi í utanríkisviðskiptum er heppilegra en höft, að kaupgjaldshækkanir verða að vera í samræmi við framleiðsluaukningu, að verðbólga er ekki aðeins hættuleg heilbrigðri framleiðslu og framförum, heldur einnig svarnasti óvinur neytandans.

Nei, Framsfl. flytur vantraust sitt nú af nákvæmlega sömu ástæðu og hann flutti vantraust sitt fyrir réttum 10 árum. Þá sannaðist það innan fárra vikna, að hann hafði ekki flutt vantraustið vegna þess, að hann væri andvígur stefnu þeirrar stjórnar, sem hann flutti vantraustið á. Hann gekk þegar eftir samþykkt vantraustsins til stjórnarsamstarfs við flokkinn, sem hann hafði komið frá völdum, og framkvæmdi með honum þá stefnu, sem hann hafði fellt ríkisstj. hans fyrir að boða. Þá var það minnihlutastjórn, sem vantraustið var flutt á. Þess vegna tókst að koma henni frá völdum. Nú er vantraustið flutt á meirihlutastjórn. Þess vegna verður vantraustið auðvitað ekki samþykkt. Ríkisstj. mun ekki fara frá völdum, nema kjósendur svipti hana í næstu kosningum þeim meiri hluta, sem þeir fólu þeim flokkum, sem að ríkisstj. standa, í síðustu kosningum.

En hvers vegna er þá Framsfl. að þessu? Hvaða leikaraskapur er hér á ferð? Um þessar mundir er verið að sýna í Þjóðleikhúsinu nýjan sjónleik eftír víðfrægasta rithöfund Íslendinga, Halldór Kiljan Laxness. Hann kveður leikinn gamanleik, en þó er hann öðrum þræði allt annað en gamanleikur. Hann er hvöss ádeila á alvarlegar veilur í nútímaþjóðfélagi, bæði hér á landi og annars staðar. Skáldið deilir hart á sýndarmennsku og blekkingu. Hann deilir hvasst á það, að menn telji sjálfum sér og öðrum trú um annað en það, sem sé, menn segi annað en þeir meini, menn látist vera annað en þeir séu, menn þori ekki að horfa framan í veruleikann, hafi ekki kjark til þess að játa það, sem sé, heldur gefi sig á vald sjálfsblekkingu, séu óheilir, ósannir, þangað til þeir hverfi, ýmist út í buskann eða upp um strompinn.

Vantraustsflutningur Framsfl. 1950 var óheill, óekta. Framsfl. lét þá ásannast, að hann var óheill, óekta, með því að taka höndum saman við þann, sem vantraustið hafði verið flutt á. Þetta var „strompleikur“. Þessi vantrauststill., sem hér er nú til umr., er líka óheil, óekta. Hún er líka „strompleikur“. Hún er ekki flutt af því, að Framsfl. sé í grundvallaratriðum ósammála stefnu núv. ríkisstj., frekar en till. 1950 var flutt vegna þess, að flokkurinn væri þá í grundvallaratriðum ósammála stefnu þáv. ríkisstj. Báðar vantrauststill. eru fluttar af einni og sömu ástæðu. Þær eru fluttar af því, að Framsfl. er ekki í ríkisstj. Þetta er óheilt, þetta er óekta. Þetta er einn þáttur þess „strompleiks“ í íslenzku þjóðfélagi, sem sannarlega er mál að ljúki. Er ekki mál til komið, að menn hætti að skipta algerlega um skoðun eftir því, hvort þeir eru í ríkisstj. eða utan ríkisstj.? Er ekki mái til komið, að menn hætti að segja það svart, þegar menn eru í stjóraarandstöðu, sem menn sögðu hvitt, þegar þeir sátu í ráðherrastóli? Er ekki mál til komið, að íslenzkir stjórnmálamenn láti einnig ráðstafanir andstæðinga sinna njóta sannmælis, að þeir geri sér það undantekningarlaust að reglu að segja þjóð sinni satt og telji það mest um vert að gera rétt. Þá færi svo, að rithöfundar okkar hittu a.m.k. ekki stjórnmálamennina og stjórnmálalífið, þegar þeir deila á það, sem er ósatt, óheilt, óekta.