26.10.1961
Sameinað þing: 8. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í D-deild Alþingistíðinda. (3229)

18. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Eysteinn Jónsson:

Hæstv. landbrh. hélt áfram að storka bændum með því að fullyrða, að þeir stæðu betur en áður, þvert ofan í staðreyndir. Þetta eru svo stórfelld öfugmæli, að því lengur sem ráðherrann talar í þessum tón, því verra fyrir hann sjálfan. Það er einkennandi fyrir landbúnaðarpólitík þessa hæstv. ráðh., að íslenzkir bændur neyðast nú til að kaupa vélar, sem bændur annarra landa hafa lagt á haug, til þess að vélvæðingin stöðvist ekki alveg.

Engum dylst, að viðreisnin sneri upp fótum á þessu ári. Ekki var það þó því að kenna, að þessi valdasamsteypa tæki við búskap landsins á heljarþröm í árslokin 1958, síður en svo. Þeir tóku við miklum greiðsluafgangi á ríkisbúskapnum, fjörugra framleiðslulífi til lands og sjávar en nokkru sinni fyrr og betri afkomu almennings, uppbyggingu í örum vexti á öllum sviðum og undirbúnum stórlántökum ytra með góðum kjörum til langs tíma, til stuðnings enn meiri framförum. Þeir tóku við hagstæðum greiðslujöfnuði í viðskiptum við útlönd, hagstæðari gjaldeyrisstöðu bankanna í árslok 1958 en hún er nú og meiri birgðum af verðmætum útflutningsvörum en oftast áður.

Þessu tóku kreppumenn við. En það lokaði leiðum fyrir vinstri stjórninni til að tryggja framhald þeirrar stefnu, sem þessu hafði áorkað, að algerlega var um það synjað af leiðtogum kommúnista, sjálfstæðismanna og Alþýðuflokksmanna, að dýrtíðarskrúfan, vísitöluskrúfan yrði tekin úr sambandi og þannig komið í veg fyrir hóflausan vöxt dýrtíðarinnar innanlands, sem öllu þessu hefði komið úr skorðum. í staðinn fengu menn svo það; sem þjóðin býr nú við.

Hefði verið farið eftir till. framsóknarmanna 1958, væri á hinn bóginn hægt að halda þeim lífskjörum, sem almenningur bjó við þá. Hefðu forustumenn launþegasamtakanna þá viljað líta við hliðstæðum samningi og þeir fögnuðu í sumar, hefði þetta aldrei verið kallað yfir þjóðina.

Það var mikið sagt í fyrra, þegar viðreisnin fór af stað. Ráðherrarnir sögðu, að innleiða ætti nýtt efnahagskerfi, sem skyldi gerbreyta íslenzkum þjóðarbúskap, og þetta var rétt. Það er ekki alveg jafnhátt risið núna eftir tvö ár, enda varla von, því að hvert sem litið er blasa við ömurleg áhrif þess, sem gert hefur verið. Ráðherrarnir hafa svo gersamlega lamazt af þessu, að þeir gera ekki tilraun til að verja gerðir sínar eða rökstyðja þær. Þess í stað fórna þeir höndum og segja: Hví eru framsóknarmenn og fólk almennt að gera veður út af þessu, hví eru menn að leika Strompleik? Það hefur ekkert gerzt annað en það, sem oft hefur gerzt áður og Framsóknarflokkurinn mundi vilja standa að, ef hann hefði aðstöðu til og ætti kost á því.

Út af þessu spyr margur: Hvað eru mennirnir að fara? Hvað er nú orðið af hinu nýja efnahagskerfi, sem þeir voru svo montnir af í fyrra, og hinum nýju þjóðfélagsháttum, sem þeir sögðust hafa innleitt og af því einu getað innleitt, að ekki þyrfti lengur í bili að taka tillit til Framsfl.? Og það var rétt. Þetta hefur skeð. Nýja efnahagskerfið og nýju þjóðfélagshættirnir hafa reynzt þannig, að það er bezt að breyta til og skrökva því, að þetta séu bara eftir allt saman gömlu úrræðin Framsóknar. Dettur nokkrum í hug, að svona hefði verið talað, ef nýja efnahagskerfið hefði reynzt vel? Þessi áróður ráðherranna í stað raka er langgleggsti vitnisburðurinn, sem fengizt hefur um gjaldþrot þessarar stefnu. Ef vel hefði tekizt, hefðu þeir eytt öllum ræðutíma sínum til að sýna fram á, hve aðferðir þeirra væru ólíkar þeim, sem framsóknarmenn hefðu notað og væru líklegir til að nota, og árangurinn ólíkur. Þetta er uppgjöf, sem allir skilja, og gott að fá hana svona látlaust og einfalt setta fram af þeim sjálfum. Þetta sýnir líka vel þá breytingu, sem orðin er á ráðherrunum sjálfum síðan í fyrra.

1960 sagði ríkisstj. í bókinni Viðreisn: „Hér er ekki um að ræða ráðstafanir sama eðlis og þær efnahagsráðstafanir, sem tíðkazt hafa, heldur algera kerfisbreytingu.” En hvað segja þeir nú? Það er sérstaklega talað um gengislækkunina 1950 sem dæmi. Já, athugum einmitt það dæmi. Það gerðist nefnilega þá, að framsóknarmenn neituðu að styðja gengislækkun, nema jafnframt yrði samið um fjármagn til stórfelldrar uppbyggingar. En til þess að fá samningsaðstöðu urðu þeir að koma minnihlutastjórn Sjálfstfl, frá með vantrausti, því að hún vildi ekki fara öðruvísi, — fullkomlega þingræðislegri leið og sjálfsagðri, eins og á stóð.

Einhver var í gærkvöld að tala um óbilgirni framsóknarmanna. Ekki kannast ég við hana. Hitt er rétt, að framsóknarmenn hafa aldrei verið tuskur. Þeir hafa ekki heldur gert kröfu til, að aðrir væru það, og ekkert kvartað. Þeir vilja starfa á jafnréttisgrundvelli, ef um samstarf er að ræða, annars ekki.

Þá var talað um þolleysi framsóknarmanna við stjórnarstörf. Dálítið er þetta skrýtið um flokk, sem hefur átt þátt í ríkisstj. í 26 ár síðustu 33 árin. Annað mál er, að framsóknarmenn hafa orðið að starfa með ýmsum flokkum á þessu tímabili til að reyna að tryggja áframhaldandi uppbyggingu, og framsóknarmenn hafa litið á það sem ódyggð, en ekki dyggð, að hanga við stjórn, ef þeir töldu von um, að betri árangri mætti ná með öðru móti. Þá yrði að taka upp baráttu fyrir breyttu viðhorfi. Nú er talað um það sem dyggð að hanga, hvernig sem tekst.

Í hverju var svo nýja efnahagskerfið fólgið, sem nú má ekki lengur nefna svo, fremur en snöru í hengds manns húsi? Fyrst var allt gert í senn: Gengið lækkað. Stórfelldar nýjar tollaálögur lögleiddar. Okurvextir innleiddir. Ákvæði sett um að draga inn á frystan reikning hluta af sparifé landsmanna. Minnkuð lán út á framleiðsluvörur. Fjárfestingarlánin gerð óhagstæðari. Skornar niður verklegar framkvæmdir. Tekin upp ofsóknarherferð í garð samvinnufélaga og verkalýðsfélaga. Er þó langt frá, að allt sé hér með talið. Allir, sem komnir eru til vits og ára, vita vel, að þetta á ekkert skylt við þær leiðir, sem farnar hafa verið síðan íhaldið missti meiri hlutann 1927. Breytingin frá 1958 er einna líkust því sem þjóðin hafi orðið fyrir áföllum af náttúruhamförum. En engu slíku er til að dreifa. Það eru afleiðingar hinna óviturlegu ráðstafana frá 1960, sem segja til sin og hafa leikið þannig þjóðarbúskapinn, að allar hinar miklu kjaraskerðingarfórnir verða til verra en einskis. Afleiðingar þessara mistaka sjást alls staðar.

Hámarki sínu náði öngþveitið, þegar stórfelld langvarandi verkföll geisuðu um landið vegna hinnar gífurlegu kjaraskerðingar. Og því fór fjarri, að ríkisstj. hefðist nokkuð að til að koma í veg fyrir þau, því síður til að leysa þau. Þegar svo þessi verkföll voru leyst af öðrum og bjargað frá því, að síldarvertíðin yrði eyðilögð, og þar með frá algeru hruni, þá rak hæstv. ríkisstj. endahnútinn á mistökin með því að neita að notfæra sér kjarasamningana til að koma á jafnvægi, þótt framsóknarmenn hafi sannað með alveg óyggjandi rökum og dæmum úr þjóðarbúskapnum, að það var hægt, ef vaxtaokri og tilbúnum rekstrarfjárskorti var aflétt. Þess í stað hleypti ríkisstj. með heiftarráðstöfun nýju dýrtíðarflóði yfir þjóðina.

Þessum þungu, rökstuddu ásökunum reynir svo ríkisstj. ekki að svara með neinum rökum eða hrekja sannanir okkar fyrir sekt þeirra, heldur fimbulfamba ráðherrarnir um, að það hafi áður verið lækkað gengi krónunnar, eins og það séu rök fyrir því að lækka í annað sinn gengi krónunnar á 16 mánuðum. Fjmrh. var hér með alls konar sparðatíning í 20 mínútur, en hann reyndi ekki fremur en hinir að færa rök fyrir gengislækkuninni í sumar. Ríkisstj. hafði engan siðferðíslegan rétt til að vinna slíkt bráðræðis- og óhappaverk. Henni bar að segja af sér og efna til nýrra kosninga, til þess að þjóðinni gæfist kostur á að ákveða, hvort hún vili meira af þessu eða ekki,

Auðvitað er þessi síðasta ráðstöfun, gengislækkunin, gerð í örvæntinga, og allt ber með sér, að stjórnin er hrædd. En einmitt fyrir það er hún hættulegri en ella, því að þeir, sem hræddir eru, vinna oft óheppilegustu verkin.

Það ber gleggstan vott um erfiðan áróðurshag ríkisstj. vegna óheppilegra verka, að hún reynir helzt að benda, í blöðum sínum og annars staðar, á mikinn uppgang í sjávarplássum austan- og norðanlands sem ljósan punkt í rökkri viðreisnarinnar. Uppgangur í þessum plássum á þó, auk síldveiðanna, fyrst og fremst rætur sínar í stóraukinni fiskigengd á grunnmiðum vegna útfærslu landhelginnar 1958, — útfærslu landhelginnar, sem aldrei hefði orðið nein, ef núv. stjórnarflokkar hefðu sumarið 1958 getað einir fyrir málum ráðið. Þessa fiskigengd hefur núv. ríkisstj. ekki enn þá a.m.k. tekizt að eyðileggja, þrátt fyrir alla tilburði í þá átt með því að færa landhelgina inn aftur á stórum svæðum einmitt úti fyrir þessum landshlutum. Hefur þar og forsjónin komið þeim til hjálpar, sem átti að leika verst. En fátt er til fanga, þegar ríkisstj. vill kenna þennan uppgangsvott við sínar ráðstafanir, sem allar hafa miðað að því að þrengja hag þessa fólks. Það er táknrænt fyrir áhrif stjórnarstefnunnar, að þessi sjávarpláss fá nú ekki notið eðlilegs vaxtar vegna þess, hve dýrt er orðið að koma þaki yfir höfuð sér, þótt líf liggi við, og svo aðrar lífsnauðsynlegar framkvæmdir þar eftir. Því er ekki einu sinni þar, í þessum plássum, eðlileg uppbygging þrátt fyrir hagstæð aflabrögð.

Ríkisstj. lízt orðið svo illa á stefnu sína og afleiðingar hennar, að henni sýnist lífsnauðsyn orðin að halda því fram, að samdráttarstefnan, sem hún fylgir, sé eins konar náttúrulögmál, það sé eiginlega engin önnur stefna til. Aðþrengdir vilja þeir nú láta í þetta skína. En öðruvísi mér áður brá. Árið 1956 varaði Bjarni Benediktsson, núv. hæstv. forsrh., kröftuglega við núv. efnahagsmálaráðherra sínum, Gylfa Þ. Gíslasyni, og bað menn, hvað sem öllu öðru liði, að láta hann ekki ráða of miklu eða koma sínum hagfræðikenningum í framkvæmd. Um þetta sagði Bjarni Benediktsson þá, sbr. Alþingistíðindi 1956, 188. dálk:

„Og ég segi“, sagði Bjarni Benediktsson, „ég á enga betri ósk til hæstv. núv. ríkisstj. heldur en henni takist að forða hruninu, en hún fari ekki of mikið eftir þeim kenningum, sem hæstv. menntmrh. (þ.e.a.s. Gylfi Þ. Gíslsson) hélt hér fram í gær og færðar yfir í mennskra manna mái eru þær, að hann vill fá hæfllegt atvinnuleysi, til þess að kaupgjaldið hækki ekki um of. Og ég segi (sagði Bjarni Benediktsson enn fremur): Það er miklu betra að halda fullri vinnu, jafnvel fara dálítið óvarlega í lánveitingum, í fjárveitingum, í Keflavíkurvinnu, hvað við viljum segja, halda fullri vinnu, halda fullum framkvæmdum og gera svo ráðstafanir aðrar á eftir, til þess að ekki keyri sig allt um koll, heldur en halda jafnvæginu með sultarólinni á fólkinu, en það var sá boðskapur, sem hæstv. menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslsson) gerði sig að talsmanni fyrir hér í gær:

Við sama tækifæri varaði Bjarni Benediktsson einnig sterklega við þeirri kenningu þessa sama Gylfa að reyna að leysa efnahagsmálið með því að beita samdrætti í bankaútlánum, og segir Bjarni þá, að hagfræðingar hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að heimskreppan mikla upp úr 1928 hafi stafað af of miklum lánasamdrætti Englandsbanka.

Nú er það á hinn bóginn hlutskipti Bjarna Benediktssonar, ásamt Gylfa, ekki aðeins að draga úr lánum út á afurðir landsmanna, heldur loka inni og taka úr umferð stóran hluta af sparifé þjóðarinnar og lifa samkvæmt þeirri kenningu, að ekkert sé hættulegra þjóðarbúinn en að spariféð sé ávaxtað í uppbyggingu og atvinnurekstri. Samdrátturinn í bankakerfinu nemur mörgum hundruðum millj. með þessum aðferðum, og svo er neitað og neitað um lán, sem auka mundu framleiðni, framleiðslu og þjóðartekjurnar, þótt fjármagnið sé til.

Það er slæmt hlutskipti að gerast oddviti fyrir þeirri stefnu, sem menn hafa þannig harðast fordæmt og varað við, og ekki nóg með það, heldur bæta því ofan á, að einmitt þessi stefna sultarólarinnar, sem Bjarni Benediktsson skýrir svo sjálfur og varar við, sé eins konar náttúrulögmál og engin önnur úrræði geti komið til greina.

Síðan íhaldið var fellt 1927, hefur allt fram til þessa verið farin sú leið að rífa sig út úr erfiðleikunum með því að auka framleiðsluna, auka tekjurnar og það þótt kosta hafi þurft til í bili og stundum hafi verið lítið í kassanum og nokkuð djarft teflt. Þannig hefur íslenzka þjóðin komizt úr fátækt og umkomuleysi. Þannig hafa þúsundir íslenzkra heimila farið að og þjóðin í heild. Nú hefur þessi leið verið yfirgefin og erfiðleikunum mætt með því að draga saman framkvæmdir og herða að þjóðinni, enda útkoman eftir því. Það er vonlaust verk fyrir þessa menn að ætla að neyða þeirri skoðun upp á Íslendinga, að þetta sé eina rétta leiðin og eina leiðin, sem til er. Íslendingar þekkja þetta búskaparlag og vita, hvert það leiðir, og þeir þekkja hitt lagið, sem hefur hafið íslenzk heimili úr örbirgð til bjargálna og þjóðina sjálfa. Það breytir engu, þótt nú verði gripið til þess í örvæntingunni að kalla samdráttarstefnuna framkvæmdaáætlun, en okkur er sagt, að þessi nafnaskipti eigi að verða nú um nýárið. Samdráttur og kjaraskerðing verður hvorki léttbærari né heillavænlegri afkomu þjóðarinnar í framtíðinni, þótt kallað verði framkvæmdaáætlun. En stefnan á að verða óbreytt, þótt hún fái nýtt nafn, eins og innflutningsáætlunin sýnir, sem fjárl. fylgir.

Mörgum mun finnast ástandið varðandi uppbyggingarmálin geigvænlegt orðið, þegar verðhækkunin ein saman frá því fyrir tveimur árum gleypir nú að fullu föstu íbúðalánin, bæði í sveitum og við sjóinn, eins og upplýst hefur verið í þessum umr. Það er dæmi, sem mönnum hnykkir við að heyra. Líkt er þó um önnur verkefni í þágu framleiðslunnar. Til hvaða óyndisúrræða verður svo gripið af þeim, sem svona hafa komið málum, ef þeir fá einir óhindraðir um að fjalla? Verður í ofboðinu farið að afhenda útlendingum uppbyggingu atvinnufyrirtækjanna á Íslandi í stað uppbyggingar hinna mörgu Íslendinga, sem búið er að lama? Ýmislegt úr stjórnarherbúðunum gefur ástæðu til ótta í þessu efni.

Þegar svo fram undan er stórfelldur vandi einmitt varðandi nauðsyn á auknu samstarfi við aðrar þjóðir, án þess að Íslendingar missi tökin á sínum eigin atvinnurekstri, þá margfaldast nauðsynin á því að efla áhrif þeirra, sem hægt er að treysta í þessum málum, þeirra. sem standa fast á því að styðja uppbyggingu atvinnuveganna fyrst og fremst í höndum Íslendinga sjálfra, eins og verið hefur, en eru jafnframt stuðningsmenn nánari tengsla við þær þjóðir, sem okkur eru næstar og skyldastar.

Að lokum þetta: Það er ekki erfitt að sjá, hvers vegna menn verða nú að búa við samdráttar- og kreppustefnuna, sem svo sárt hefur leikið þjóðina og því miður er ekki enn sopið seyðið af. Það er vegna þess, að eftir kjördæmabreytinguna var hægt að komast fram hjá Framsfl. í bili. Leiðin til að stöðva sig á þessari braut og fika sig inn á framfaraveginn á nýjan leik er sú ein framkvæmanleg að efla áhrif Framsfl., og það er einfalt úrræði. Það leynir sér ekki heldur, að andstæðingunum er þetta ljóst, hvaðan þeim stendur ógnin mest að þessu leyti. Það er Framsókn hér og Framsókn þar og Framsókn alls staðar. Og einn reiknaði í gærkvöld upp á mánuð, hvað lífdagar þessa kerfis gætu orðið lengstir, en það var að næstu kosningum. Það segir sína sögu. Það mun líka væntanlega fara svo, að mörgum mun finnast sú leið hyggileg að efla Framsfl. til meiri áhrifa, og þeim fer fjölgandi, sem honum treysta. Góða nótt.