28.02.1962
Sameinað þing: 38. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í D-deild Alþingistíðinda. (3244)

91. mál, afturköllun sjónvarpsleyfis

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hér er til umr. till. til þál. um afturköllun sjónvarpsleyfis o.fl., og eru flm. hennar fjórir hv. þm. Alþb. Þegar þessi till. er til umr. hér á hv. Alþingi og sér í lagi umr. útvarpað að beiðni flm. og hv. 1. flm. hefur haldið ræðu eins og hann gerði hér í kvöld, þá gefur það mér gott tækifæri til þess að fara nokkrum orðum um hinn alþjóðlega kommúnisma svo og vinnubrögð kommúnista í sambandi við varnar- og öryggismál Íslendinga.

Íslenzka þjóðin verður aldrei nógsamlega vöruð við þeirri stórkostlegu hættu, sem henni og öðrum lýðfrjálsum þjóðum stafar af hinum alþjóðlega kommúnisma. Því miður hafa allt of margir menn bæði hér á landi og annars staðar í lengstu lög hliðrað sér hjá að horfast í augu við kommúnismann eins og hann raunverulega er og gera sér grein fyrir eðli hans og tilgangi. Þetta sjónarmið er að sumu leyti skiljanlegt. Menn kjósa almennt að lifa í friði, sátt og samlyndi við aðra. Því vilja menn alloft lengi neita að gera sér þær staðreyndir ljósar, að til sé í heiminum afl og það sterkt afl, sem stefnir markvisst að því að hrifsa til sín heimsyfirráð og svífst einskis í því ætlunarverki sínu. En þetta sinnuleysi, þetta hlutleysi við ógnvaldinn, ef ég mætti þannig að orði komast, er hættulegt, og vissulega hefur slíkt sinnuleysi kostað margar þjóðir frelsi þeirra og sjálfstæði. Minningin um valdarán kommúnista í Tékkóslóvakíu ætti að vera næg áminning til frjálsra þjóða um það að sofna aldrei á verðinum, og orð tékkneska forsætisráðherrans Mazaryks, sem hann lét falla við einkaritara sinn, er þeir ræddu um valdatöku kommúnista í öðrum löndum Austur-Evrópu, daginn áður en kommúnistar frömdu valdarán sitt í Tékkóslóvakíu, ættu að hljóma sem ævarandi aðvörun til allra frjálsra þjóða, en hann sagði: „Þetta gat gerzt þar, en þetta getur aldrei gerzt hér: Degi síðar voru Tékkar hnepptir í helfjötra kommúnismans.

Ég rifja þetta dæmi sérstaklega upp hér vegna þess, að enn þá eru allt of margir menn og það góðir menn hér á landi, sem leiða hjá sér að horfast í augu við kommúnistahættuna og gera sér grein fyrir hinu sanna eðli kommúnismans. En menn geta ekki endalaust leitt þessa hluti hjá sér. Atburðirnir, sem stöðugt eru að gerast í löndum þeim, sem kommúnistar ráða, og framkoma kommúnista á alþjóðavettvangi almennt er stöðug ögrun við frjálsar þjóðir og óhugnanlegur fyrirboði þess, sem biði þeirra þjóða, ef kommúnistar næðu að framkvæma valdaáform sín.

Bezt sést kommúnisminn í framkvæmd af þeim atburðum, sem verið hafa að gerast í Austur-Berlín undanfarna mánuði, svo að ég nefni dæmi. Þar hafa kommúnistar orðið að reisa múrvegg og gaddavírsgirðingar til þess að hindra flótta fólksins úr sæluríki þeirra. Hvað þurfa íslenzkir kommúnistar og aðrir þeir, sem fylgt hafa þeim að málum hér á landi í þeirri trú, að þeir væru að þjóna ættjörð sinni, mörg slík dæmi, til þess að augu þeirra opnist? Afskipti Rússa af innanríkismálum Finna eru og opinskátt dæmi um virðingarleysi kommúnista fyrir öðrum þjóðum og í hróplegri mótsögn við þann hlutleysis- og ættjarðaróð, sem kommúnistar og þeirra fylgismenn stöðugt kyrja, bæði hér á landi og annars staðar. Alls staðar gægist úlfurinn undan sauðargærunni. Tilgangurinn er alls staðar sá hinn sami hjá kommúnistum. Í öllum lýðfrjálsum löndum vinna þeir að því að grafa undan ríkjandi þjóðskipulagi og koma í framkvæmd valdaáformum sínum og innlima þjóðirnar í valdakerfi hins alþjóðlega kommúnisma. Jafnframt reyna þeir af fremsta megni að ala á sundrung og tortryggni milli frjálsra þjóða og etja þeim hverri á móti annarri. Þessar eru starfsaðferðir kommúnista, jafnt hér á landi sem annars staðar, hvort sem þeir eru að starfa hér innan veggja Alþingis Íslendinga eða á meðal annarra þjóða. Stundum er aðför þeirra að frelsi þjóða umfangsmikil, vel undirbúin og hávaðasöm, er þeir nota hin þýðingarmestu og viðkvæmustu mál til áróðurs og ásteytingar, en einnig í ýmsum smærri málum kemur eðli þeirra og tilgangur í ljós.

Þannig er það mál, sem hér liggur fyrir. Og svo vaknar spurningin: Hvernig hafa svo starfsaðferðir kommúnista hér á landi verið? Þeir hafa nákvæmlega fylgt forskrift yfirboðara sinna.

Öryggis- og varnarmálin hafa tíðum verið á dagskrá hjá okkur Íslendingum í rúman áratug eða allt frá því að við gengum í varnarbandalag vestrænna þjóða, Norður-Atlantshafsbandalagið, 1949. Eins og við var að búast, börðust kommúnistar gegn því, að Íslendingar efldu samstarf sitt við vestrænar þjóðir með inngöngu í Norður-Atlantshafsbandalagið. Söm var auðvitað afstaða þeirra varðandi komu varnarliðs NATO hingað 1951. Barátta þeirra í þessu eins og öðru, sem lýtur að samstarfi frjálsra þjóða, byggðist á því, að hlutverk íslenzkra kommúnista er að gera allt, sem þeim er mögulegt, til þess að tryggja yfirráð alheimskommúnismans hér í landi með beinni stjórn frá Moskva.

Að sjálfsögðu kjósa allir, að varnarlið þurfi ekki að vera í landinu, en því miður er heimsfriðurinn ekki tryggari í dag en svo, að ekki þykir annað fært. Það má auðveldlega með fagurgala og með því að skírskota til þjóðerniskenndar fólksins halda uppi áróðri fyrir því, að engin þörf sé á varnarliði í landinu, og í samræmi við það setja fram órökstuddar kröfur um brottrekstur varnarliðsins. Þetta hafa kommúnistar óspart gert og því stundum notazt við auðtrúa sakleysingja, sem hins vegar algerlega afneita kommúnisma, en gera sér ekki grein fyrir því, til hvers verið er að nota þá.

Sem eina leið í þessum áróðri hafa þm. kommúnista flutt hér á Alþingi á ári hverju frá 1949 til 1956 frv. eða till, til þál, um brottrekstur varnarliðsins. Í öllum flokksfélögum þeirra og í öðrum félögum, þar sem þeir höfðu náð yfirtökum, eru gerðar samþykktir um brottrekstur varnarliðsins.

Eftir öll þeirra stóryrði um landráð og sölu landsréttinda gátu menn haldið, að fyrsta verk þessara manna, þegar þeir kæmust í ríkisstj., yrði að reka varnarliðið úr landi. Eins og kunnugt er, tóku tveir þm. Alþb. þátt í vinstri stjórninni svonefndu frá miðju ári 1956 og þar til í byrjun desember 1958. Það var ekki óeðlilegt, að þeir, sem ekki þekkja starfsaðferðir kommúnista, létu sér detta í hug, að þeir mundu nú nota sér aðstöðuna og völdin og láta varnarliðið fara úr landinu. En raunin varð bara önnur á, hlustendur góðir. Þeir sátu í ríkisstj. í tvö og hálft ár og gerðu aldrei kröfu til þess, að varnarliðið yrði látið hverfa úr landi. Þeir skrifuðu tvö bréf til samstarfsflokka sinna, svona rétt til málamynda, sennilega til þess að friða sina kjósendur. Síðara bréfið var meira að segja ritað, þegar sýnt var, að ríkisstj. var að springa af öðrum ástæðum. í bréfunum eru aðeins bornar fram till., en engin skilyrði sett um brottför varnarliðsins úr landi. Þannig hafa vinnubrögðin verið og þannig eru þau enn í dag, eins og flutningur þessarar till. sýnir, sýndarmennska og aðeins sýndarmennska í einum og í aðeins einum tilgangi. Menn skulu ekki halda, að till. sú, sem hér er til umr., sé flutt af sérstakri ættjarðarást eða óyfirstíganlegri sómatilfinningu. Ef svo væri, hvers vegna notaði þá ekki hv. þm. Lúðvík Jósefsson, sem er einn af flm. þessarar till., vald sitt í vinstri stjórninni og lét afturkalla sjónvarpsleyfi til varnarliðsins? Hér ber allt að sama brunni.

Flutningi þessarar till. hér er ætlað að þjóna þrennum tilgangi fyrir kommúnista. Í fyrsta lagi að beina athygli Íslendinga frá hinni hörðu og hryllilegu valdabaráttu austur í Kreml. Í öðru lagi að draga athygli landsmanna frá hinu mikla fylgishruni, sem kommúnistar hafa orðið fyrir í stjórnarkosningum verkalýðsfélaganna. Í þriðja lagi til þess að hressa upp á samtök hinna svokölluðu hernámsandstæðinga, sem margir telja að hafi gengið sér til húðar við hinar fáránlegu götustöður og önnur tiltæki í sambandi við lausn landhelgismálsins. Til þess að reyna að leiða athygli fólksins frá óförum sínum er gripið til þess gamla ráðs að flytja á Alþingi till. viðkomandi varnarliðinu, og nú er það sjónvarpsstöðin, og óskað eftir útvarpsumræðum. í dag telja kommúnistar það stórhættulegt íslenzkri menningu að leyfa varnarliðinu að hafa sína eigin útvarps- og sjónvarpsstöð. En ég spyr: Hvað er það hættulegra íslenzkri menningu í dag en það var í tíð vinstri stjórnarinnar? Þá gerðu þeir engar tilraunir, ráðherrar Alþb., til þess að fá þessi leyfi afturkölluð. Það var allur menningaráhugi þeirra þá.

Forsaga sjónvarpsins á Keflavíkurflugvelli hefur verið rakin hér af hæstv. utanrrh., svo að ég læt nú nægja að minnast á örfá atriði í sambandi við það.

Árið 1955 er varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli veitt leyfi til þess að setja upp sjónvarpsstöð. Nokkrum árum áður hafði því verið veitt leyfi til útvarpsstöðvar. Hér er um að ræða frekar litla sjónvarpsstöð, sem sendir efni sitt um afar takmarkað svæði. Þó munu sendingar hennar við sæmileg skilyrði sjást um næsta nágrenni vallarins og til Reykjavíkur. Það má sjálfsagt deila um það efni, sem stöðin sendir frá sér, hversu heppilegt það er fyrir hina ýmsu aldursflokka. Það væri mun eðlilegra, ef af alvöru og ábyrgðartilfinningu væri unnið, en ekki af einskærri sýndarmennsku af flm., að flm. óskuðu eftir því, að íslenzk stjórnvöld beittu sér fyrir því, ef ástæða væri til, að það efni, sem stöðin sendir frá sér, væri vel valið og til þess fallið að fræða og skemmta á heilbrigðan hátt. En hér er engu slíku til að dreifa hjá hv. flm., enda heilindin að sama skapi. Hv. flm. ræða ekki heldur í grg. fyrir þessari till. sinni um möguleika þá, sem falizt gætu í samstarfi íslenzkra stjórnvalda og sjónvarpsstöðvarinnar um flutning landkynningarmynda svo og almennra fræðslumynda. Mætti þó ætla, að föðurlandsástin og menningaráhuginn væri slíkur, að litið væri til sjónvarpsins í framtíðinni til almennrar fræðslu, jafnvel sem kennslutækis í sem flestum greinum. Það má öllum vera ljóst, hve sjónvarpið almennt gæti verið og verður ugglaust notadrjúgt menningartæki, þótt hinu sé alls ekki að neita, að svo má á slíku tæki halda, að til óþurftar verði.

Sjónvarpið verður tekið almennt í notkun á Íslandi, áður en langt um líður, hvort sem kommúnistum líkar betur eða verr. Þeir stöðva ekki tækniþróunina. Innan örfárra ára verður hægt að sjónvarpa á milli heimsálfa. Þá getum við Íslendingar tekið á móti sjónvarpssendingum frá Ameríku svo og meginlandi Evrópu, alveg eins og útvarpssendingum. Eftir e.t.v. 5–6 ár gætum við Íslendingar séð í sjónvarpi frá Sameinuðu þjóðunum í New York, þegar Krúsjeff forsætisráðherra Sovétríkjanna þrifi af sér skóinn og lemdi með honum borð sitt. Skiljanlega vilja hv. flm. útiloka slíkar sjónvarpssendingar. Til fróðleiks má geta þess, að Bandaríkjamenn hyggjast sjónvarpa Ólympíuleikunum í Japan 1964 um gjörvöll Bandaríkin. Sjónvarpstækninni fleygir fram. íslenzk stjórnvöld munu að sjálfsögðu láta þá tækniþjónustu, sem þau hafa yfir að ráða, fylgjast vel með öllum þeim framförum, sem verða á útsendingum sjónvarps og öflun efnis, með hugsanlegt íslenzkt sjónvarp fyrir augum. Athugunum þeim, sem nú þegar hafa farið fram, verður að sjálfsögðu haldið áfram. Hvað þær leiða í ljós, t.d. varðandi kostnað, tækniútbúnað o.fl., verður tíminn að skera úr um.

Góðir hlustendur. Till. sú, sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir að afturkalla sjónvarpstöðvarleyfi það, sem gefið var 1955 til varnarliðsins. Varnarliðið er hér á landi samkvæmt ósk okkar sjálfra. Við erum af frjálsum vilja í vestrænu samstarfi. Hvers vegna var NorðurAtlantshafsbandalagið stofnað? Jú, NorðurAtlantshafsbandalagið var stofnað til þess að stöðva áframhaldandi valdarán kommúnista í Austur-Evrópu, en þar höfðu kommúnistar brotizt til valda, þrátt fyrir minni hluta kjósenda. Þessi valdarán voru framkvæmd fyrir áeggjan rússneskra kommúnista og með beinum stuðningi Rauða hersins. Síðan frjálsar vestrænar þjóðir sameinuðust í Norður-Atlantshafsbandalaginu, hefur kommúnistískt valdarán ekki átt sér stað í Evrópu. Við Íslendingar óskum eftir því að taka þátt í varnarsamstarfi vestrænna þjóða, á meðan svo ófriðvænlegt er í heiminum sem nú er. Hvort við viljum halda frelsi og hafa land okkar varið, þótt það fámenna varnarlið, sem hér dvelst, hafi útvarp og sjónvarp á sínu móðurmáli sér til dægrastyttingar, eða hvort við viljum vera varnarlausir og þá jafnvel eiga von á deild úr Rauða hernum hingað til landsins, er hin stóra spurning. Ég mun svara henni fyrir mig með því að greiða atkvæði gegn þessari till., sem hér liggur fyrir. — Góða nótt.