28.02.1962
Sameinað þing: 38. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í D-deild Alþingistíðinda. (3248)

91. mál, afturköllun sjónvarpsleyfis

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Við fátækt, hungur og harðrétti börðust kynslóðir Íslands öld eftir öld, mann fram af manni, fyrir tilveru þjóðarinnar, íslenzkri tungu, menningu og algeru sjálfstæði. Þessar horfnu kynslóðir, sem aldrei gleymdu uppruna sínum og hlutverki, færðu núverandi kynslóð sigurlaunin í þeirri baráttu, þegar lýst var yfir stofnun lýðveldis á Íslandi fyrir tæpum tveim áratugum. Sú kynslóð, sem þau sigurlaun hlaut eftir nær 700 ára baráttu, gegndi öfundsverðu hlutverki í sögu íslenzku þjóðarinnar, og henni voru lagðar miklar skyldur á herðar, ljúfar skyldur, að halda tengslum við uppruna sinn, gæta fengins sjálfstæðis, en glata því ekki, tryggja varðveizlu sérstæðrar íslenzkrar menningar og þeirrar tungu, er greinir þjóðina frá öðrum og er fjöregg þjóðernisins. Sú kynslóð, sem lifði lýðveldisstofnunina og endurheimt sjálfstæðis þjóðarinnar eftir aldabaráttu fyrir frelsinu, naut einnig fyrst kynslóða á Íslandi þeirrar tæknibyltingar í heiminum, sem gerði fært að nýta þau auðæfi lands og sjávar, sem fyrri kynslóðum gafst ekki tækifæri til að njóta nema svo, að rétt nægði til að halda lífi og oft þó naumlega. Þessari kynslóð, sem í dag er miðaldra og eldri, hefði því átt að vera auðveldara en öllum öðrum að standa sig í baráttunni fyrir sjálfstæðu Íslandi nútímans og framtíðarinnar, þótt tæknin ryfi einangrun landsins og ryddi erlendum áhrifum braut, bæði þeim áhrifum, er gátu orðið til þess að efla íslenzka menningu og þjóðlif, og eins hinum, er til niðurrifs og ómenningar horfa. Þessar nýju aðstæður gerðu lýðveldiskynslóðinni því erfiðara fyrir en hinni fyrri um verndun tungunnar og sérstæðrar íslenzkrar þjóðmenningar, en hitt kom á móti, að sú sama kynslóð var hin fyrsta, sem hafði þjóðfélagsleg réttindi til og efni á að veita sér þann munað að eiga sérstakan ráðherra, sem sinnti því, er að mennta- og menningarmálum þjóðarinnar laut, mann, sem væri samvizka þjóðarinnar í menningar- og þjóðernismálum. Íslendingar, sem við sult og harðrétti vernduðu tungu sína og menningu, áttu nú orðið sérstakan menningarmálaráðherra. Ekki hafði án árangurs verið barizt.

Það átti því að vera nokkuð tryggt, að séð væri um það, er mestu varðar, að varðveita sérstæða íslenzka þjóðmenningu, með því að halda lifandi tengslum milli kynslóðanna, þeirrar, er var að vaxa úr grasi í Íslandi nútímans og tækninnar, og hinna, er fyrst glötuðu og síðar endurheimtu sjálfstæði þjóðarinnar, en varðveittu alltaf sérstaka tungu og einstæða þjóðlega menningu, jafnvel á hinum myrkustu árum.

Þegar allt þetta er haft í huga, verður það því hrapallegra, hversu þeirri kynslóð, er við þessu verkefni tók að fengnum sigri, hefur tekizt hlutverk sitt. Baráttan fyrir endurheimt sjálfstæðis Íslands tók tæp 700 ár, oft við sult og hörmungar. En frá því að sá sigur vannst, var ekki einn áratugur liðinn, þegar svo var komið, að sú kynslóð, er við sigurlaununum tók og lifði í vellystingum, hafði sjálf kallað herlið erlends stórveldis til dvalar á Íslandi á friðartímum til frambúðar. Í nær 700 ár hafði verið barizt, fram á við og til sigurs, en síðan hefur verið hörfað og dregnar lokur frá hurðum.

Þeir, sem málum hafa ráðið, hafa þó hverju sinni gætt þess að þykjast ekkert spor ætla að stíga aftur á bak og jafnan neitað því, að það spor, sem næst blasti við á undanhaldinu, yrði stigið. Það ætti að vera óþarft að rekja sögu undanhaldsins. Fyrst var erlendu herveldi staðfastlega neitað um herstöðvar á Íslandi í 99 ár. Þá börðu núv. ráðamenn sér á brjóst og fullyrtu, að aldrei kæmi til þess, að erlent herlið yrði þolað á Íslandi á friðartímum. Og hvers vegna voru allir sammála um, að hér mætti ekki vera her á friðartímum? Deilt var þá og deilt er enn um árásarhættu, sem af herstöðvum leiði á ófriðartímum. En um hitt var ekki deilt þá, að dvöl erlends herliðs kallaði yfir svo fámenna þjóð stórfellda menningarlega og þjóðernislega hættu. Svo mikil hætta var talin á, að sérstæð menning og tunga þjóðarinnar biði óbætanlegt tjón af dvöl erlends herliðs í landinu, að þá voru flestir sammála um, að aldrei mætti leyfa hersetu á Íslandi á friðartímum. Á þeim árum var sem ráðamenn þjóðarinnar skynjuðu í skininu frá lýðveldisstofnuninni, að af þeim væri krafizt, að þeir gættu þeirra erfða, er þeir hefðu þegið frá fyrri kynslóðum. Hver af öðrum lýstu núv. valdhafar yfir því, hversu óhugsandi væri fyrir íslenzku þjóðina að una erlendri hersetu. Þá ríktu enn fersk áhrif stofnunar lýðveldisins með hverjum íslendingi og þjóðerniskennd og þjóðarmetnaður var ríkari en svo, að unnt væri að fá þjóðina til að hörfa að því sinni.

Það var fátæk alþýða, sem varðveitti íslenzka tungu og menningu á öldum áþjánar og kúgunar og endurheimti það sjálfstæði, sem yfirstétt landsins hafði áður glatað. Fáum árum eftir endurheimt sjálfstæðisins stafaði alþýðu landsins og fullveldi hætta af nýríkri yfirstétt, sem mat fjárhagslegar ábatavonir af erlendum her meira en þau verðmæti þjóðar, sem ekki er hægt að leggja á peningalega mælikvarða. Skipulega var unnið að því að slæva þjóðernislegar kenndir, og þar kom, að fært þótti að stiga undanhaldsskrefið mikla í sjálfstæðismálunum, en um leið ábataskrefið fyrir fjáraflamennina, er herinn var kallaður til landsins. — Forustumenn þeirrar kynslóðar, sem veittu móttöku sigurlaununum í samfelldri frelsisbaráttu þjóðarinnar, höfðu kallað til landsins erlendan her. Og enn reyndu þeir að fullvissa þjóðina um, að þeir gerðu sér þó ljósa hættuna af dvöl hersins, ekki þó hina hernaðarlegu, heldur hina menningarlegu hættu, og hver af öðrum kepptust þeir við að tala um nauðsynina á einangrun hersins.

Forustumennirnir voru nú þar staddir á hinu skipulega og vísvitandi undanhaldi, að nú töldu þeir gerlegt að hafa her á Íslandi á friðartímum, ef þess væri einungis gætt að aðskilja algerlega herinn og þjóðina, þá væri girt fyrir þá siðferðilegu og menningarlegu hættu, sem af honum mundi annars leiða.

Sem betur fer, voru til menn, sem skildu, að núlifandi kynslóð átti skyldum að gegna við fortíð sína og framtíð. Jafnt horfnar kynslóðir sem sú kynslóð, sem var að vaxa úr grasi, og þær, er óbornar voru, áttu kröfu á því, að viðhaldið væri íslenzku sjálfstæði, íslenzkri tungu og sérstæðri íslenzkri þjóðmenningu. Einn þessara manna var þáv. óbreyttur hv. þm., Gylfi Þ. Gíslason. Hinn 29. marz 1949 sagði hann m.a. á Alþingi, þegar hann ræddi um, á hverju íslenzk utanríkisstefna ætti í meginatriðum að grundvallast:

„Hið aukna öryggi, sem af hersetu leiddi, mundi og hvergi nærri vega gegn þeirri gífurlegu hættu, sem slíkt hefði í för með sér fyrir sjálfstæði og þjóðerni Íslendinga, tungu þeirra og menningu:

Þegar í ljós kom, sem menn máttu vita fyrir, að í engu voru haldin loforð ráðamanna þjóðarinnar, þeirra er herinn kölluðu til landsins, um, að hann yrði einangraður, sagði sá sami þáv. hv. þm. á Alþingi, hinn 22, okt. 1952:

„Þegar herverndarsamningurinn var gerður á sínum tíma, lagði ég á það megináherzlu, að vist hersins yrði ekki látin setja neinn svip á þjóðlífið og þá sérstaklega ekki á lífið í Reykjavík.“ Og enn sagði hann: „Það má vel vera, að útlendir menn eigi erfitt með að skilja, að til skuli vera sjálfstæð menningarþjóð, sem telur ekki hálft annað hundrað þúsunda, en sú þjóð hefur verið til í nær 1100 ár, reynt bæði margt og mikið, oft verið nær dauða en lífi, þolað hungur og hörmungar, barizt í aldir gegn erlendri kúgun og alltaf viljað vera íslenzk þjóð. Saga Íslendinga og örlög þeirra í aldaraðir gera þá, sem fullorðnir eru, tortrygga að eðlisfari gagnvart útlendum áhrifum. Fámennið og fásinnið gera unglingana hins vegar fíkna í tilbreytingu og þá ekki hvað sízt í það, sem útient er:

Og sami þáv. óbreyttur þm., Gylfi Þ. Gíslason, sagði á Alþingi hinn 19. okt. 1953, fyrir 9 árum, á því ári, sem í sögunni stendur miðja vegu milli lýðveldisstofnunarinnar og dagsins í dag:

„Íslenzka þjóðfélagið er svo dvergsmátt og að mörgu leyti svo sérstætt, að taka verður þar á svo að segja öllum hlutum öðruvísi en með stærri þjóðum. Þess vegna var það, að ég fyrir mitt leyti lagði sérstaka áherzlu á það, er samningurinn var undirbúinn, að skilin væru sem greinilegust milli hers og þjóðar.“

Hvert var nú tilefnið til þess, að þessi orð féllu? Tilefnið var það, að herinn var farinn að gera sig sekan um að stiga yfir þau skil, sem vera áttu milli hans og þjóðarinnar að dómi Gylfa Þ. Gíslasonar og margra fleiri. Og í ræðu hinn 9. okt. á sama ári sagði hann:

„Þar kom meira að segja, að hermönnum var leyft að vera óeinkennisklæddir í frítímum sínum, væntanlega til þess að minna bæri á þeim. Allt var þetta mjög öðruvísi en ég og margir aðrir höfðum gert ráð fyrir og töldum eðlilegt.”

Þegar þessi orð voru mælt, var hinu skipulega undanhaldi fyrir herveldinu þó ekki lengra komið en svo, að enn mátust utanríkisráðherrar Sjálfstfl. og Framsfl. um það, hvorum hefði tekizt betur að einangra herinn. Þá var talað um girðingarnar á Keflavíkurflugvelli. Ætla mætti, að síðan hefði ekki aukizt sú gífurlega hætta, sem af dvöl hersins leiddi fyrir sjálfstæði og þjóðerni Íslendinga, tungu þeirra og menningu, eins og Gylfi Þ. Gíslason lýsti hættunni 1949. Og hvers vegna? Meðal annars og ekki sízt vegna þess, að aðeins þrem árum eftir að sá óbreytti þm., Gylfi Þ. Gíslason, minnti árið 1953 á þá áherzlu, sem hann hefði frá byrjun lagt á það, að sem greinilegust væru skilin milli hers og þjóðar, hafði honum sjálfum verið falið æðsta hlutverk í menningar- og þjóðernismálum Íslendinga, og því hlutverki hefur hann nú gegnt í nær sex ár. Sá maður, sem svo sterk orð hafði réttilega haft um hættuna af hernum og er nú orðinn samvizka þjóðarinnar í menningar- og þjóðernismálum, hlýtur að vita, hvaða hættur hann átti við, þegar hann sagði:

„Hið aukna öryggi, sem af hersetunni leiddi, mundi hvergi nærri vega gegn þeirri gífurlegu hættu, sem slíkt hefði í för með sér fyrir sjálfstæði og þjóðerni Íslendinga, tungu þeirra og menningu.“

Í hverju bjóst hæstv. ráðh. við, að hætturnar birtust, þegar hann lýsti því, hve þjóðleg verðmæti væru í hættu fyrir áhrifum frá hernum? Stöfuðu hætturnar aðeins af heimsóknum herliðsins til Reykjavíkur, eða hefur hann þá séð til þess, að þær væru lagðar niður? Er ekki hitt sönnu nær, að á meðan hann hefur að vísu ýmislegt gott gert til stuðnings listum og vísindum í landinu, þá riðar ekki einungis skólakerfið vegna sultarlauna kennara, sem flýja störfin, heldur hafi, síðan ráðherrann mælti sín aðvörunarorð, þar á ofan komið til stórfelldari og válegri hættur af áhrifum hersins en hann gat jafnvei látið sér til hugar koma þá?

Hér hefur í kvöld verið sérstaklega rædd sú menningar- og þjóðfélagshætta, sem af því stafar, að erlent herlið hefur einokunaraðstöðu til sjónvarpsrekstrar fyrir meira en helming Íslendinga. Þetta er válegri hætta en líklegt er að ráðh. hafi órað fyrir, að væri á næsta leiti, þegar hann varaði við spillingaráhrifum hersins, og sú hætta hefur birzt og orðið að veruleika, eftir að honum sjálfum var falið hið mesta trúnaðarstarf í menningar- og þjóðernismálum, sem þjóðin getur veitt einum manni. Ráðh. vissi áður, að heimsóknum hermanna til Reykjavíkur fylgja spillingaráhrif. En gæti það ekki hvarflað að honum nú, að einkaleyfi hersins til sjónvarpsrekstrar fyrir helming landsbúa, áður en þjóðin sjálf hefur efnað í eigið sjónvarp, gæti, svo að notuð séu hans eigin orð, „sett svip á þjóðlífið og þá sérstaklega á lífið í Reykjavík“? Og áður sagði hann einnig, að fámennið og fásinnið gerðu unglingana á Íslandi fíkna í tilbreytingu og þá ekki sízt það, sem útlent er. Skyldu orð hans geta átt við erlent hermannasjónvarp? Enginn efast um það, að sjónvarp er eitthvert stórkostlegasta tæki til áhrifa, sem til er.

Það, sem hér er til umr. í kvöld, er hermannasjónvarpið á Keflavíkurflugvelli og sú þjóðernislega hætta, sem af því stafar. En til að mótmæla vísvitandi rangtúlkun, er hér kom fram áðan, vil ég taka það skýrt fram, að svo sjálfsagt sem það ætti að vera, að Íslendingar höfnuðu því og bönnuðu það, jafnsjálfsagt er, að þeir vinni að því að koma upp sínu eigin sjónvarpi sem menningartæki. En þær tvær stofnanir, erlent hermannasjónvarp og íslenzkt ríkissjónvarp, er naumast hægt að nefna í sömu andránni.

Formaður útvarpsráðs lýsti því í útvarpi s.l. sunnudagskvöld, hvert væri menningarástand bandariskra útvarpsstöðva. Hvert er þá menningarstig stöðva, sem ætlaðar eru herliði? Jafnvel Bandaríkjamenn sjálfir gera sér fyllilega ljóst, hvers konar stofnun Keflavíkursjónvarpið er, og afsaka það með því, að það sé einungis miðað við áhugamál og hugðarefni ungra hermanna, sem drepleiðist vistin hér norður á hjara heims. Um menningartæki er engan veginn að ræða, heldur lágkúrulegt afsiðunartæki af stórvirkustu gerð, sem þekkist.

Á engu ber sá maður, sem er persónugerð samvizka þjóðarinnar í menningar- og þjóðernismálum, meiri ábyrgð en þeirri æsku, sem á að erfa landið. Hver hefur þróunin verið hin allra síðustu ár, og hvað er fram undan? Æskunni er fengið hermannasjónvarpið, en kennarar flýja störf sín vegna lágra launa. Munu þeir skólar, sem ekki er betur búið að en svo,að kennararnir flýja þá, megna að sporna við þeim siðspillingaráhrifum, sem af hermannasjónvarpinu leiðir? Við skulum gera okkur það ljóst, að sjónvarp Bandaríkjahers á flugvellinum kynnir ekki bandaríska menningu. Og sannri bandarískri menningu er vissulega enginn greiði gerður með því, að Íslendingar dæmi hana af hermannasjónvarpinu á Keflavíkurflugvelli. Öllu því lakasta og lítilfjörlegasta úr amerísku þjóðlífi er ausið yfir Íslendinga og einkum íslenzka æsku frá herstöðinni á Keflavíkurflugvelli, þá æsku, sem menntmrh. ber ekki sízt ábyrgð á.

Það mætti ætla, að æskan, svo áhrifagjörn og fíkin sem hún er í tilbreytingar og það, sem útient er, að dómi ráðherrans, væri jafnvel enn auðveldari bráð herliðinu en þeir ráðherrar, sem loka augum fyrir hættunum af hernum. Ætla mætti, að hún væri a.m.k. fljótari að gleyma uppruna sínum og þjóðlegum skyldum en sá persónugervingur þjóðarsamvizkunnar í menningar og þjóðernismálum, sem fyrrum talaði mest um spillingaráhrif hersins, en hefur ekki þau sex ár, sem hann hefur gegnt æðstu trúnaðarstörfum í menningarmálum, sýnt nokkur merki þess, að hann láti sér ekki í léttu rúmi liggja þær hættur, sem af hersetunni stöfuðu, þegar er hann tók við starfinu, heldur þvert á móti látið viðgangast, að sífellt stórvirkari spillingartæki séu tekin til notkunar. Það mætti ætla, að æskan sýndi minni staðfestu gegn spillingunni. En dæmin frá þeim hluta æskulýðsins í Reykjavík og nágrenni, sem mest og bezt nýtur þeirrar baráttu, sem háð hefur verið á Íslandi fyrir sjálfstæði þjóðarinnar, jafnrétti þegnanna og bættum lífskjörum, æskunni, sem í menntaskólanum í Reykjavík býr sig undir háskólanám, sýna, að sá hluti æskufólks gerir sér grein fyrir hættunni. Menntaskólanemendur í Reykjavík samþykktu í vetur harðorða ályktun gegn Keflavíkursjónvarpínu með um 350 atkv. gegn aðeins 7. Hér hafa skólanemendur stigið yfir öll pólitísk flokksmörk og snúið bökum saman til varnar gegn hættum, sem steðja að íslenzkri þjóðmenningu. Hið sama ættu alþm. að geta gert. Hér sem stundum endranær hafa a.m.k. þessir hópar íslenzkrar æsku staðið sig betur en þeir, sem eiga að bera ábyrgð á henni.

Þessi æska er ekki alin upp við dátasjónvarpið frá bernsku. Hinni næstu yrði hættara. Íslenzkur æskulýður hefur horft á slíka niðurlægingu í sjáifstæðismálunum, síðan lýðveldið var stofnað, að ástæða væri til að óttast áhrifin af því uppeldi, sem hann hefur á þeim árum hlotið. Æskan hefur séð þá sömu kynslóð, sem fékk að þiggja sjálfstæði þjóðarinnar úr höndum fyrri kynslóða, glata því sama sjálfstæði og sjálfsvirðingu á 7 árum með því að kalla erlendan her til landsins. Þessi unga kynslóð átti rétt á því að verða fyrsta kynslóðin í 700 ár til að alast upp í alfrjálsu Íslandi, sem væri fyrir Íslendinga eina. Þess í stað hefur eldri kynslóðin, lýðveldiskynslóðin, búið henni þau örlög að verða fyrsta kynslóðin á Íslandi, sem þarf að deila föðurlandi sínu með erlendum her. Og enn horfir þessi kynslóð upp á það, að þeir, sem mesta ábyrgð bera á þjóðlegu uppeldi hennar, dunda helzt við það í menningarog þjóðernismálum að hengja skraut á trjátoppinn, um leið og börkurinn er hringskorinn á stofni. Ég held jafnvel, að ef fer svo fram sem horfir, þá gæti það gerzt, að aðdáendur hersjónvarpsins færðu fyrir því rök, að hagkvæmt og skynsamlegt væri að láta erlenda herliðið taka að sér enskukennslu í skólum, með námskeiðum suður á flugvelli, eða hvar eru takmörkin?

Það er sannarlega sérstök ástæða til að fagna samþykkt menntaskólanema og annarra, þar sem saman standa gegn hersjónvarpinu stuðningsmenn allra stjórnmálaflokka. Sú skólaæska veit og finnur, að íslenzkum þjóðarmetnaði og þjóðarskyldum er ekki fullnægt með því einu að synda 200 metra í þjóðakeppni annað hvert ár og jafnvel ekki með endurheimt handrita, ef lokað er um leið augum fyrir hinum mestu þjóðernishættum, sem að Íslendingum hafa steðjað. Sú íslenzka æska, sem nú er að komast á fullorðinsár, þekkir sem betur fer of vel þær myndir í íslenzkri þjóðarsögu, sem fylla árabilin frá Gunnari á Hlíðarenda og Njáli á Bergþórshvoli til Jónasar Hallgrímssonar og Jóns Sigurðssonar, til þess að hún hugsi sér næstu myndir af íslenzkri nútíma- og framtíðarfjölskyldu fyrir framan bandarískt hermannasjónvarp.

Þegar afstaða er tekin til hermannasjónvarpsins, þá er um það að ræða, hvort Íslendingar sjálfir eða erlendur her fái að ráða því, sem mótar þjóðlíf þeirra í æ ríkara mæli. Og hvar er okkar hlut komið, þegar við viðurkennum í orði og verki, að það er herinn, sem ræður, en ekki við sjálf? Er ekki kominn tími til þess, að Íslendingar rifji það upp fyrir sér, að það eru þeir, sem eiga þetta land, og engir aðrir, og geri sér ljóst, að þeir geta ekki sætt sig við, meðan hernum er enn haldið hér, að sá erlendi her fái það, sem hann hverju sinni heimtar í málum, sem hafa stórvægileg áhrif til spillingar í uppeldisog menningarmálum þjóðarinnar? Sá aðili, sem er ábyrgastur í menningar- og uppeldismálum, verður líka að gera sér ljóst, að það er ekki aðeins hlutverk hans að planta út snotrum menningartáknum og láta setja áferðarfalleg, en áhrifalítil fyrirmæli, opna listsýningar með ræðum um framlag íslenzkra lista til viðhalds og varnar íslenzkri menningu, heldur eigi síður hitt að sporna við því, að árangri þeirrar viðleitni, sem íslenzkir menn hafa í frammi til varnar íslenzku þjóðerni, verði burtu sópað af stórvirkum útbreiðslutækjum amerískrar ómenningar, stórvirkari tækjum til niðurrifs en Íslendingar hafa enn yfir að ráða til uppbyggingar íslenzkri menningu og þjóðerni. Vitaskuld bæri hæstv. ráðh. að gera sér ljóst, að þau orð, er hann mælti á Alþingi 19. okt. 1953, eru enn í gildi, en þá sagði hann:

„Engin þjóð, sem varðveita vill sjálfstæði sitt og sjálfsvirðingu, getur til langframa haft erlendan her í landi sínu:

Þessi orð eiga vissulega rétt á sér í dag, er herinn hefur dvalizt í landinu í rúm 20 ár. En slík eru spillingaráhrif hans, jafnvel á æðstu forustumenn þjóðarinnar, að í dag er sennilega til of mikils mælzt við æðsta mann mennta- og uppeldismála, að hann hagi störfum sínum samkv. þeim. En jafnvel þótt hann nú vilji halda hernum í landinu, þá ætti honum ekki að gleymast sú þjóðernislega hætta og spillingaráhrif, sem af hernum stafa, þegar hann hefur einokunaraðstöðu á Íslandi til að hefta stórvirkustu tækjum, sem þekkjast, til að breiða út áhrif sfn. Ef hæstv. menntmrh., sem á að vera samvizka þjóðarinnar í menningar- og þjóðernismálum, ætlar að einskorða starf sitt algerlega við þau verk, sem að engu haldi koma, ef ekki er upprætt yfirburðaaðstaða hersins til gagnstæðra áhrifa, og ætli hæstv. ráðh. að láta viðgangast þau spillingaráhrif hersins, sem hann áður varaði við, með því að leggja ekki lið þeirri kröfu, að hersjónvarpið verði ekki látið ná til landsmanna, heldur bannað, þá ásaka ég þann hæstv. menntmrh. fyrir að hafa brugðizt skyldu sinni við þær kynslóðir, sem engan menntmrh. áttu, en varðveittu íslenzka tungu og menningu og færðu okkur sigurinn í sjálfstæðisbaráttu sjö alda, og skyldu sinni við það æskufólk, sem fyrst allra kynslóða verður að deila föðurlandi sínu með erlendum her, og ekki sízt skyldum þeim, er óbornar kynslóðir Íslands leggja honum á herðar um þjóðernislega varðstöðu gegn spillingaráhrifum hins erlenda hers á íslenzkt þjóðlíf og menningu.