08.11.1961
Sameinað þing: 13. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í D-deild Alþingistíðinda. (3320)

31. mál, tjón af völdum vinnustöðvana

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki svara hv. flm. miklu, enda gaf ræða hans ekki tilefni til þess. Hann er líka „dauður“ og farinn af fundi og þess vegna óþarfi að elta mjög ólar við hann. En ég vil aðeins endurtaka það, sem ég sagði hér áðan, að það hefur fullkomlega komið í ljós og hefur verið sannað með ákveðnum dæmum, að atvinnuvegirnir gátu vel risið undir þeim kauphækkunum, sem samvinnufélögin og verkalýðsfélögin sömdu um á s.l. sumri. Ég færði fram nokkur dæmi í ræðu minni hér áðan. Önnur hafa verið færð fram við önnur tækifæri, og þeim hefur ekki verið hrundið og hv. flm. gerði enga tilraun til þess að hnekkja þeim, og þess vegna stendur það alveg óhrakið, sem ég sagði hér áðan, að atvinnuvegirnir gátu vel risið undir þessum kauphækkunum. Að vísu má kannske alltaf finna einstaka atvinnugrein, sem getur það ekki, og það er heldur aldrei hægt að gera kaupsamninga, sem miðast við það, að sú atvinnugreinin, sem lélegust er í það og það skiptið, geti risið undir því, sem samið er um. Það verður að sjálfsögðu að finna þarna nokkurn meðalveg og miða við það, sem þær atvinnugreinar, sem mesta atvinnu veita, geta risið undir. Og það hefur verið sýnt fram á bæði í þessum umr. og öðrum, að atvinnuvegirnir gátu vel risið undir þeim hækkunum, sem samvinnufélögin og verkalýðsfélögin sömdu um á s.l. sumri, svo hófsamar voru þær.

Það, sem gaf mér nú aðallega tækifæri til þess að gera aths. við það, sem hv. flm. sagði hér síðast, var uppkast að frv., sem hann taldi að hefði verið samið á vegum Framsfl. fyrir nokkrum árum. Ég get nú því miður ekki sagt mikið um það mál, vegna þess að ég hef aldrei þetta frv. séð og það hefur aldrei verið lagt fram í Framsfl., hvorki í þingflokki hans né miðstjórn. En það, sem ég veit helzt um þetta mál, er það, að þetta frv. var ætlað sem grundvöllur að samkomulagi milli verkalýðsfélaganna og atvinnurekenda um fyrirkomulag á þessum málum, sem þau semdu um með frjálsu samkomulagi. Og það var talið alveg sjálfsagt, að þessar tillögur yrðu lagðar fyrir verkalýðasamtökin og að sjálfsögðu ekki annað látið koma til framkvæmda, a.m.k. sem löggjafaratriði, en það, sem þessir aðilar vildu sætta sig við, því að að sjálfsögðu er óhyggilegt að ráðast í löggjafaratriði í þessum efnum, sem annar hvor aðilinn, hvort heldur eru verkalýðssamtökin eða atvinnurekendur, er andvígur.

Það er fullkomlega rangt, sem mér virtist koma hér fram hjá hv. flm., að þetta frv., sem hann var að tala um, hefði verið einhverjar tillögur Framsfl., sem hann .hefði ætlað að leggja fyrir Alþingi sem löggjafaratriði. Þetta var aðeins uppkast að till., sem átti að ræða um við verkalýðssamtökin. Ég hygg, að nokkrum vikum áður en vinstri stjórnin fór frá völdum hafi verið búið að setja sérstaka nefnd á laggirnar til viðræðna við verkalýðssamtökin um þetta málefni og að sjálfsögðu að taka til greina þær óskir og breytingar, sem verkalýðshreyfingin vildi láta gera í þessum efnum. En afstaða Framsfl. hefur jafnan verið í þessum málum að stiga ekki önnur skref í þessum efnum en þau, sem verkalýðshreyfingin og atvinnurekendasamtökin gætu vel sætt sig við. Og þannig var líka unnið að vinnulöggjöfinni 1938, þegar hún var sett á sínum tíma, að það var haft mjög náið samráð bæði við vinnuveitendur og ekki sízt við Alþýðusambandið um fyrirkomulag þeirrar vinnulöggjafar. Þeir, sem réðu þá Alþýðusambandinu, voru alveg samþykkir þeirri löggjöf, sem þá var sett. Sú löggjöf var sett í samráði við verkalýðshreyfinguna, en ekki í andstöðu við hana. Og það er að sjálfaögðu enn stefna Framsfl., að slík löggjöf sé sett í samráði við stéttasamtökin, en ekki í fullkominni andstöðu við þau. Að sjálfsögðu geta menn borið fram ýmsar tillögur og hugmyndir, þegar verið er að vinna að slíku samkomulagi, en að sjálfsögðu ber ekki að líta á neitt slíkt sem neinar endanlegar tillögur.