29.11.1961
Sameinað þing: 18. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í D-deild Alþingistíðinda. (3352)

57. mál, heyverkunarmál

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 1. flm. taldi, að ég hefði í rauninni mælt í gegn till. Þetta er ekki rétt, ef það er skoðað

Í því ljósi, sem ég bar mitt mál hér fram. Ég taldi, að það, sem í till. fælist, það verkefni, sem bæri að leysa, væri mjög brýnt og nauðsynlegt, og ef ekki er hægt að gera það án þess að fá samþykkt um það frá Alþingi, þá er ég vitanlega með því. Ég er með því að samþykkja þessa tillögu, ef ekki er unnt að leysa það verkefni, sem hún fer fram á, á annan hátt.

Hv. þm. sagði, að bændasamtökin mundu fagna því að fá það verkefni, sem um er rætt í till. Ég spyr: Hafa bændasamtökin ekki þetta verkefni með höndum, án þess að það verði gerð samþykkt um það á Alþingi? Vissulega. Bændasamtökin hafa þetta verkefni með höndum í dag. Bændasamtökin ræða þetta verkefni á sínum fundum, bæði hreppabúnaðarfélögin, búnaðarsamböndin, aðalfundur Stéttarsambands bænda, búnaðarþing og fleiri aðilar. Þeir ræða þetta verkefni á sínum fundum, og spurningin er, hvort þessar umr. bændasamtakanna eru ekki komnar það langt og skilningur forustumanna bændanna er ekki orðinn það mikill á þessu, að þeir taki að sér að vinna það verk, sem í till. felst, án þess að hún verði samþykkt. Og eins og ég sagði hér áðan, fer þetta mál til nefndar, og undir meðferð málsins er hægt að fullvissa sig um, hvort bændasamtökin óska eftir því að fá þessa áskorun frá Alþ. Ef þau óska eftir því og telja, að það létti undir með framkvæmdinni, þá skal ekki standa á mér að greiða atkv. með till. En ég gat ekki að því gert að vekja athygli á því, að þetta mál hefur verið á dagskrá síðustu árin og sérstaklega nú síðustu mánuðina, t.d. að það er við endurskoðun jarðræktarlaganna verið að gera athugun á því, hvort ekki beri að auka styrkveitingar til súgþurrkunar og votheysgerðar, og það er nú af hendi ríkisstj. verið að athuga um auknar lánveitingar út á súgþurrkunina. Sú athugun fer fram, hvort sem till. verður samþ. eða ekki.

En það má kannske segja, að ég og hv. 2. þm. Sunnl. séum hér að deila um keisarans skegg, vegna þess að við erum alveg sammála um nauðsynina á því, að þetta verk verði unnið og það verði stuðlað að því, að bændur hafi almennt súgþurrkun og bætta aðstöðu til heyverkunar. En ég get ekki að því gert, að mér finnst skemmtilegra og mér finnst eðlilegra, að þessi forusta komi frá bændum sjálfum án áskorunar frá Alþingi. En komi það í ljós, að það létti undir með framkvæmdinni að samþykkja till. eins og þessa, þá skal ekki standa á mínu fylgi við það.