04.04.1962
Sameinað þing: 48. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í D-deild Alþingistíðinda. (3519)

154. mál, stýrimannaskóli Íslands og sjóvinnuskóli

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Í sjálfu sér get ég ekki efazt um mikilvægi þeirra efnisatriða, sem felast í þeirri tillögu, sem hér er til umr., því að megintilgangur hennar virðist vera sá að auka menntun skipstjórnarmanna, auka kennslu í verknámsskólum í sjóvinnu og fiskverkun og slíku og jafnvel stofna sérstakan sjóvinnuskóla með fjölbreyttri kennslu. En mér virðist tillögugreinin þó dálítið gölluð og aðallega þannig, að mér finnst, að það sé ekki alveg ljóst, hvernig tillögumenn hugsa sér framkvæmdir í smáatriðum, að því er tekur til sumra þátta þessarar till. Gallinn er sá, að í till. er hrúgað saman málsatriðum, sem eru að vísu skyld, en ættu þó að vera vel sundurgreind, ef nokkurt gagn á að vera í framkvæmdinni.

Í fyrsta lagi er það mál út af fyrir sig að setja önnur og strangari skilyrði fyrir inngöngu í stýrimannaskólann, og það er út af fyrir sig ágætt, að því máli sé hreyft. Eins er það ágæt till., að stýrimannaefnum sé kennt frekar en nú er að fara með hin margvíslegu fiskleitartæki, siglingatæki o.s.frv., ætti ekki heldur að saka, að verðandi stýrimenn fái uppfræðslu í almennri sjóvinnu, fiskverkun og meðferð sjávarafurða, og vissulega ætti það að vera skylda stýrimannaskólans að fylgjast vel með nýjungum á sviði siglingar- og fiskleitartækni og halda uppi kennslu í meðferð þeirra. Ég sé ekki, að það þurfi að ýta á skólann af Alþingis hálfu í slíku efni, því að það er svo sjálfsagt mál, að hver góður skólastjóri mun gera sér þess grein, án þess að sérstaklega þurfi alþingissamþykkt fyrir því, og svo er einnig um svokallaða sjóvinnukennslu í skólanum. Hitt er svo annað mál, að þess er full þörf að vekja viðkomandi aðila til meðvitundar um mikilvægi þess, að skipstjórnarmenn á fiskiskipum læri til meðferðar fisks fyrst og fremst í skipinu sjálfu, þegar aflinn er dreginn úr sjó, en einnig, að þeir kynnist hinni eiginlegu fiskverkun og fiskiðnaði. Tel ég sjálfsagt, að kennsla verði aukin í þessum efnum í stýrimannaskólanum, og ef ég skil till. rétt, þá er ég vitanlega sammála þeim þætti.

Annað atriði, sem minnzt er á í till., er að auka kennslu í öllum þessum greinum í verknámsskólum. Þessu er auðvitað fullkomlega hægt að vera sammála. En þó hefði ég viljað fá betri útskýringu á því, hversu náið tillögumenn hugsa sér að farið verði út í þessa kennslu, því að hún er að mínu viti mjög yfirgripsmikil, þar sem um er að ræða svo margvíslega kennslu, þ.e. meðferð siglingar- og fiskleitartækja, í sjóvinnu, fiskverkun og meðferð sjávarafurða. Þetta er ekkert smáræði, ef farið væri út í kennslu í öllum þessum atriðum í gagnfræðaskóla, því að meðferð siglinga- og fiskleitartækja út af fyrir sig, það er allmikið nám, sem til þess þarf. Sjóvinna felur svo fjöldamargt í sér, að það ætti líka að vera nokkurt verkefni að sinna því öllu. Og fiskverkun og meðferð sjávarafurða, það er líka þó nokkur kennslugrein, ef þetta á að kennast í gagnfræðaskólunum, sem ég út af fyrir sig get verið sammála um.

Svo kemur þriðja atriðið, sem mér virðist felast í tillögunni, en það er stofnun sérstaks sjóvinnuskóla. Í þeim þætti till. er að nokkru komið inn á efni, sem ég ásamt nokkrum öðrum þm. hef vakið athygli á með tillöguflutningi á undanförnum þingum og nú einnig á yfirstandandi þingi, en það er till. um stofnun skóla fyrir fiskmatsmenn, verkstjóra í fiskiðnaði og leiðbeinendur í fiskverkunarmálum. Tillaga mín og samflutningsmanna minna er um miklu afmarkaðra svið og að mínum dómi miklu ákveðnara svið, því að við hugsum okkur skóla þennan fyrst og fremst sem fiskmats- og fiskiðnaðarskóla, en teljum ekki ástæðu til að blanda þar saman við almennri sjóvinnu, sem ætti auðvitað að vera verkefni stýrimannaskólans, og stýrimannaskólinn er til, en eins og till. hv. 12. þm. Reykv. og hv. 10. þm. Reykv., sem var hér að tala áðan, er orðuð, þá hugsa þeir sér, að stofnsettur verði sérstakur sjóvinnuskóli, sem hafi með höndum mjög fjölbreytta kennslu í öllu því, sem að sjómennsku lýtur, og að auki hafi skólinn með höndum kennslu í fiskiðnaði hins vegar, þar sem hér er um aðgreindar starfsgreinar að ræða, þegar komið er út í raunverulega sérhæfingu í atvinnulífinu. Ég vil því leggja áherzlu á það, að þessu verði ekki að óþörfu blandað saman.

Ég er sammála tillögumönnum um, að rétt sé að auka kennslu í stýrimannaskólanum í meðferð fiskafla og fiskverkun almenat, og einnig, eins og ég hef áður greint, er ég sammála þeim um, að unglingum sé kennd sjóvinna og sagt til um fiskverkun og slíkt sé verkefni gagnfræðaskóla verknáms, en á hitt get ég ekki fallizt, að stofna eigi eða þurfi sérstakan sjóvinnuskóla með þeirri tilhögun, sem ég les út úr till. þeirra hv. flm., sem hér er til umr. Hitt tei ég nauðsynjamál, að stofnaður sé sérstakur fiskmats- og fiskiðnaðarskóli, og um það hef ég gert till. til þál. ásamt 3 öðrum hv. þm., og sú till. er nú á dagskrá hér í dag, 14 mál á dagskrá. Vegna þess að þessi tvö mál eru svo skyld, þá þykir mér rétt að fara nokkrum orðum um þessa till. okkar, með leyfi hæstv. forseta. En till. hljóðar svo: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér hið fyrsta fyrir setningu löggjafar um sérstakan skóla fyrir fiskmatsmenn, verkstjóra í fiskiðnaði og aðra leiðbeinendur og starfsmenn við fiskverkun:

Eins og ég lýsti í ræðu hér á Alþingi, þegar till. þessi var til umr. fyrir tveim árum, en þá sat ég hér um tíma á þingi sem varamaður, er hún fram komin vegna þess, að við tillögumenn álitum það eitt veigamesta undirstöðuatriði fyrir framförum í sjávarútvegs- og fiskiðnaðarmálum, að gætt sé fullkominnar vöruvöndunar, og gildir það jafnt um meðferð aflans um borð í skipi sem vinnslu hans í vinnslustöð. Til þess að svo megi verða, teljum við fátt betur fallið til árangurs en menntun þeirra manna, sem hafa yfirumsjón með aflanum, allt frá því að hann kemur á skipsfjöl og þar til hann er kominn í umbúðir til útflutnings. Einkum er þörf sérkunnáttu í sambandi við fiskmatstörf og verkstjórn í fiskiðjuverum. En hitt er einnig nauðsynlegt, að skipstjórnarmenn á fiskiskipum og raunar aðrir sjómenn séu vei á verði gagnvart öllu því, sem lýtur að meðferð aflans, og því er full þörf á að gefa þeim kost á fræðslu í þessum efnum. Hvað það snertir er fræðsla í stýrimannaskólanum og á stýrimannanámskeiðum ekki aðeins æskileg, heldur og nauðsynleg, og ber því að vinna að slíkri fræðslu, eins og hv. flm. þeirrar tillögu, sem hér er til umr., leggja til. Ég get fallizt á það. Eins er líklegt, að fræðslu- og kynningarþættir í líkingu við útvarpsþáttinn „Um fiskinn“ séu hinir gagnlegustu og orki sem hvatning á sjómenn til vöruvöndunar, og það er ástæða til þess á þessum stað og við þetta tækifæri að flytja forsjármönnum þessa þáttar þakkir fyrir ágæta starfsemi, sem vonandi er að megi halda áfram, svo lengi sem þörf er fyrir. En hvorki nægir slík fræðsla, sem stýrimannaskólinn kann að geta veitt nemendum sinum á námskeiðum, né nokkrir áróðursþættir í útvarpinu til þess að leysa annan og meiri vanda fiskiðnaðarins. Eins og annar vaxandi iðnaður, þarf fiskiðnaðurinn á menntuðu starfsfólki að halda, og ef þörf er vaðandi iðnfræðslu á öðrum sviðum, þá er þess ekki síður þörf í fiskiðnaði og því fremur sem nú er tæplega um nokkra skipulagsbundna eða fasta fræðslustarfsemi að ræða á þessu sviði. Eins er og nauðsynlegt, svo sem við leggjum til í þeirri till., sem ég hef minnzt á, að aukin verði menntun fiskmatsmanna, sem nú er orðin allfjölmenn stétt og gegnir mjög ábyrgðarmiklu starfi í þjóðfélaginu. Fram til þessa hefur nokkuð verið reynt að bæta úr fræðsluskortinum með stuttum námskeiðum fyrir fiskmatsmenn, og er það vitanlega hin þarfasta starfsemi, og auk þess með eins konar sýnikennslu eða umferðarkennslu á vegum hraðfrystihúsanna. Allt þetta er virðingarvert, en dregur skammt, þegar til lengdar lætur. Þetta veit ég, að hraðfrystihúsaeigendum er fullljóst, og þeir eru meðmæltir því, að stofnaður sé sérstakur fiskiðnaðarskóli, því að á aðalfundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna vorið 1960 var samþykkt áskorun á Alþingi að samþ. till. okkar, sem þá sá fyrst dagsins ljós hér í þinginu og var þá til umr. og í nefndarathugum. En till. varð þó ekki útrædd og fékkst ekki afgr. í n., hver svo sem ástæðan var til þess. Hitt veit ég með vissu, að því yrði hvarvetna fagnað í röðum sjómanna og fiskmatsmanna og fiskiðnaðarmanna, ef till. þessi yrði samþykkt og síðan framkvæmd sú hugmynd, sem í henni felst. Nauðsyn fiskiðnaðarskóla á Íslandi ætti að vera óumdeilanleg. Hann er mikilsverð undirstaða undir framþróun fiskiðnaðar og öruggs fiskmats. Jafnhliða bættri stýrimannafræðslu og annarri almennri sjómannafræðslu er verkmenntun fiskiðnaðarmanna og fiskmatsmanna brýnasta úrlausnarefni í fræðslumálum sjávarútvegsins. Það hefur að vísu stundum verið hærra risið á bændaskólunum á Íslandi en einmitt nú þessa dagana, en hitt er eflaust, að þeir hafa átt stórmikinn þátt í aukinni verkmenntun í sveitum og framförum í landbúnaði. Fiskiðnaðarskóli sá, sem ég og samflutningsmenn mínir höfum í huga, er e.t.v. ekki að öllu leyti sambærilegur við bændaskóla, en þó ekki ósambærilegur heldur. En sé borið saman ástand fræðslumála landbúnaðar og sjávarútvegs og fiskiðnaðar, þá hallar á hið síðarnefnda, það er alveg ljóst.

Það má gera ráð fyrir, að ýmis vandamál komi upp í sambandi við undirbúning fiskmats- og fiskiðnaðarskóla, og var aldrei annars að vænta. En það getur ekki breytt þeirri staðreynd, að skólinn er nauðsynjamál og vandamálin í sambandi við skólastofnunina eru vafalaust auðleysanleg, ef eftir því væri keppt. Að sjálfsögðu er þetta allmikið fjárhagsmál m.a., en flestir, held ég, að geti fallizt á, að óbeinn hagnaður slíks skóla yrði fljótur að koma í Ijós fyrir utan það, að á það hefur verið bent, að skólinn gæti jafnvel staðið undir sér sjálfur, ef það skipulag yrði valið að láta hann starfa í sambandi við fiskiðjuver, og þá væri skólinn með réttu verknámsskóli. Þetta fyrirkomulag mun vera notað í Noregi, og hef ég haft spurnir af einum skóla í Vardö í Noregi, sem heitir Statens forsöks- og lærebruk for fiskeribedriften í Finnmark. Þessi skóli er rekinn í sambandi við fiskiðjuver, og nemendur þessa skóla fá að loknu námi sérstakt diploma, sem þeir svo geta notfært sér, og ganga þá gjarnan fyrir um störf, bæði sem verkstjórar og fiskmatsmenn.

Ég vil að lokum geta þess, að hugmynd okkar er sú, að til viðbótar því, að skólinn mennti fiskmatsmenn og verkstjóra í fiskiðnaði, þá brautskrái hann jafnframt menn, sem vildu gerast leiðbeinendur, t.d. í verknámsskólum gagnfræðastigsins, í fiskverkun og fiskiðnaði. Slíkur skóli er því einnig mikilsverð undirstaða undir verknámskennslu í landinu, og ég hef þá skoðun, að það sé til lítils að ætla að koma upp víðtækri kennslu fyrir unglinga í verknámi, ef ekki er séð fyrir kennurum í þeim greinum, sem ætlunin er að taka á námsskrá.

Herra forseti. Ég hef gerzt fjölorður um þessa till., sem ég stend að ásamt þremur öðrum hv. þm. En ég hef talið rétt að fara um hana þessum orðum í sambandi við till. þá, sem hér er til umr. og hv. 10. þm. Reykv. var að tala fyrir. Og ég vænti þess, að till. okkar verði tekin hér á dagskrá á eftir, og ég mun þá ekki eyða mörgum orðum í framsögu um hana, tel, að ég hafi þegar gert það rækilega grein fyrir henni, en vona, að hún verði tekin á dagskrá, þannig að hægt verði að vísa henni til nefndar.