22.11.1961
Sameinað þing: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í D-deild Alþingistíðinda. (3686)

80. mál, öryrkjamál

Sjútvmrh. (Emil Jónason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð sem svar til fyrirspyrjandans. — Honum þótti það mjög aðfinnsluvert, hvað dregizt hefði að afgreiða þetta mál, og það má vel vera, að æskilegt hefði verið, að það hefði getað orðið meiri hraði á því. En ég lýsti því í mínu svari áðan, af hverju sá dráttur stafaði. Hann verður að viðurkenna, þessi hv. þm., eins og ég veit að allir hv. þm. gera, að það eru fleiri í sama báti og öryrkjarnir. Það þarf að leysa ekki síður vandkvæði hinna vangefnu, hinna blindu og hinna gömlu, sem hafa fengið skerta vinnuorku. Allt eru þetta málefni, sem þarf að taka til greina og leitast við að leysa samtímis, a.m.k. ekki eitt á kostnað annars.

Nefndin skilaði áliti — það er rétt — fyrir áramótin síðustu, og þá var málið tekið til nokkurrar meðferðar. Sú athugun lá að vísu niðri í sumar, en hefur aftur verið tekin upp í haust, og ég vænti þess, þó að hv. þm. þyki seint þoka fram, að þá verði reynt að ýta á eftir málinu eins og föng eru á. Ef hann vill taka það hér upp á þingi og telur, að það flýti eitthvað afgreiðslu málsins, þá er út af fyrir sig ekkert nema gott um það að segja, ef það verður þá ekki slitið úr samhengi við annað, sem líka þarf að fá sína fyrirgreiðslu mjög fljótlega.