21.02.1962
Sameinað þing: 37. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í D-deild Alþingistíðinda. (3716)

148. mál, framkvæmdaáætlun til 5 ára

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ekki mætti ég biðja hv. þm. að lána mér blaðið, þó að ég eigi ekki að verja Alþýðublaðið, og segja mér, hvar þetta stendur. (EystJ: Forsrh. hefur ekki takmarkaðan ræðutíma eins og við hinir.) Það hefur nú komið fyrir þennan hv. þm. að hafa ekki takmarkaðan ræðutíma og notað sér mjög af því og meira en ég geri. Nei, mér datt í hug, úr því að verið er að lesa upphaf greinarinnar, þá sé eins rétt að lesa líka niðurlag greinarinnar, því að það leiðréttir skekkjuna. Greinin endar nefnilega þannig: „Landbúnaðaráætlunin er birt í desemberhefti Árbókar landbúnaðarins: Og er tekið fram, að þetta sé tilvitnun í hana. Að öðru leyti vil ég svo segja þessum ágætu mönnum eða spyrja, úr því að hér eru þessar almennu umr. hafnar, hvernig tíu ára áætlun fer að verða partur af fimm ára áætlun. (EystJ: Eru ekki fyrst fimm ár og svo endurtekið.) Við byrjum nú á þessum fyrstu fimm, en verið er að tala um í greininni, að í árbók bænda sé skýrsla um það, sem bændur og þeirra forustumenn vilji láta gera á næstu 10 árum, en ekki 5, eins og áætlun stjórnarinnar fjallar um.