14.03.1962
Sameinað þing: 41. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í D-deild Alþingistíðinda. (3739)

305. mál, alumíníumverksmiðja

Gísli Guðmundason:

Herra forseti. Ég veitti því athygli í svari hæstv. ráðherra, að hann gat um ýmsar athuganir, sem fram hefðu farið í sambandi við þetta mál, og ætla ég, að hann hafi skýrt frá því, að athuganir á virkjunarskilyrðum hefðu farið fram bæði við Jökulsá á Fjöllum og Þjórsá. Hins vegar komst hann svo að orði, ef ég hef heyrt rétt, þegar hann ræddi um kostnað við raforkuver, að raforkuver t.d. við Búrfell mundi kosta tiltekna upphæð, sem hann nefndi, eða þannig skildist mér, að honum hafi farizt orð.

Í tilefni af þessu vildi ég grennslast eftir því hjá hæstv. ráðherra, hvort það er aðeins tilviljun, að hann komst þannig að orði, að hann nefndi kostnaðinn í sambandi við Búrfellsvirkjun, eða hvort það á að skiljast svo, að athuganir séu þar lengra komnar en við Jökulsá á Fjöllum. Ég tel mig hafa sérstakt tilefni til þess að inna eftir því, vegna þess að fyrir ekki mjög löngu samþ. Alþingi sérstaka ályktun þess efnis, að hraða skyldi athugun á virkjunarmöguleikum við Jökulsá. Því kæmi mér það nokkuð á óvart, ef það verk væri skemmra á veg komið en hitt. Eftir þessu langar mig til að grennslast hjá hæstv. ráðherra í tilefni af því, hvernig honum fórust orð, sem auðvitað getur verið aðeins tilviljun til dæmis.