13.10.1961
Neðri deild: 3. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í B-deild Alþingistíðinda. (424)

5. mál, Iðnaðarmálastofnun Íslands

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Hæstv. forseti. Frv. samhljóða þessu frv. lá fyrir síðasta þingi, en fékkst þá ekki afgreitt. Hv. þingmönnum er nú kunnugt efni þessa frv., — enda er það ekki nýgræðingur. Frv. til laga um Iðnaðarmálastofnunina var lagt fyrst fyrir þingið 1954. Og Iðnaðarmálastofnunin hefur síðan tekið til starfa og verið að slíta barnsskónum, meðan það hefur vafizt fyrir þinginu að setja henni löggjöf, en hún hefur starfað eftir starfsreglum, sem ráðherra hefur sett. Það virðist hins vegar einsýnt, að rétt sé að setja löggjöf um svo þýðingarmikla stofnun sem þessa, og er þess að vænta, að þetta mál geti náð fram að ganga á þessu þingi. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál af þeim sökum, sem ég gat, hversu kunnugt það er nú orðið þingmönnum, en vil vekja athygli á því, að frá því að síðasta Alþingi lauk hefur starfsreglum Iðnaðarmálastofnunarinnar verið breytt af ráðherra, þann 5. apríl s.l., og á þann hátt, að Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands var fengin aðild að stjórn stofnunarinnar, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Ef það yrði samþykkt, er það að því leyti samhljóða þeim starfsreglum, sem nú eru í gildi og starfað er eftir. Ég vil svo leyfa mér að mælast til þess, að frv. að þessi umræðu lokinni verði vísað til hv. iðnn.