14.12.1961
Efri deild: 33. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í B-deild Alþingistíðinda. (446)

36. mál, sveitarstjórnarkosningar

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. til laga um sveitarstjórnarkosningar hefur ekki inni að halda neinar verulegar efnisbreytingar frá þeim ákvæðum, sem nú gilda um þessi efni. Þegar lögin um sveitarstjórnarmál voru afgreidd hér á hv. Alþingi í fyrra, voru eftir eða ekki tekin með þessi ákvæði um sveitarstjórnarkosningar, en núgildandi lög um sveitarstjórnarkosningar hafa hins vegar inni að halda ýmis atriði, sem snerta ekki beint kosningarnar sjálfar og voru tekin með, þegar sett voru heildarlögin um sveitarstjórnarmál á síðasta þingi. Þess vegna þurfti að breyta lögunum um sveitarstjórnarkosningar, sem í gildi eru og eru frá 1936, að ég ætla, og þá voru tvær leiðir hugsanlegar, annaðhvort að prenta upp öll ákvæði, sem að kosningunum lúta, eða þá hitt að láta lögin um kosningar til Alþingis gilda, eftir því sem við á, og taka sérstaklega fram þau fáu frávik, sem frá þeim lögum þarf að gera fyrir sveitarstjórnarkosningar. Við samningu þessa frv. hefur þessi síðari leið verið valin og því slegið föstu í 1. gr. þessa frv., að lög um kosningar til Alþingis, nr. 52 14. ágúst 1959, skuli gilda um kosningar til sveitarstjórna og sýslunefnda, eftir því sem við á, með þeim frávikum, sem þessi lög ákveða. Þessi frávik eru tiltölulega lítil og ég vil segja næstum því ómerkileg, en þarf þó að taka fram um þau, svo að ég sé ekki ástæðu til að fara um frv. fleiri orðum.