09.03.1962
Neðri deild: 62. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í B-deild Alþingistíðinda. (613)

147. mál, aðstoð við vangefið fólk

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta litla frv. er komið frá hv. Ed., þar sem það hefur verið samþykkt, að ég ætla samhljóða. Efni frv. er að hækka gjald, sem greitt er af gosdrykkjum og öli, úr 10 aurum á flösku upp í 30 aura til aðstoðar við vangefið fólk. Þessi upphæð, 10 aurar á flösku, er út af fyrir sig góðra gjalda verð og hefur komið að miklu gagni, það sem hún nær. Gjaldið hefur gefið talsvert á aðra millj. kr. á ári. En þörfin fyrir meira fjármagn í þessu skyni er svo brýn, að talið hefur verið nauðsynlegt að afla frekari tekna í þessum tilgangi, og þess vegna er þetta frv. flutt.

Fávitar eða vangefnir eru æðimargir á þessu landi eins og víða annars staðar. Það liggur ekki fyrir nein talning á þeim, en gizkað hefur verið á, að þeir muni vera einhvers staðar á milli 850 og 900, sem á meiri eða minni aðstoð af hálfu hins opinbera þurfa að halda. Eins og öllum hv. þdm. er ljóst, er það mikill kross hverju heimili, sem verður að ala önn fyrir slíkum sjúklingum, og þess vegna nauðsynlegt að reyna að auka möguleikana til hælisvistar, eftir því sem frekast eru föng á, ekki einasta til þess að losa heimilin við þá, heldur hefur líka komið í ljós síðustu áratugina, að mikið er hægt að gera fyrir þetta vangefna fólk, suma jafnvel hægt að lækna, og enn fremur hægt að venja aðra við vinnu við vandalítil störf og gera þá með því móti nokkuð sjálfbjarga. Ég tel, að hér sé um mjög gott málefni að ræða.

Þessum fjármunum verður varið til byggingar nýrra hæla, en þau eru nú starfandi þrjú — og eiginlega fjögur. Stærsta hælið er í Kópavogi, en þar hefur nýlega verið lokið við góðar starfsmannaíbúðir og þess vegna hægt að fjölga hælisvistarsjúklingum þar. Enn fremur er rekið heimili að Skálatúni í Mosfellssveit og Sólheimum í Grímsnesi, og síðasta átakið er, að það hefur verið stofnað dagheimili fyrir vangefin börn hér í Reykjavík. En þessi hæli taka ekki nema tæplega 150 börn, og þess vegna virðist svo eftir ágizkaðri tölu þessara sjúklinga, að enn sé þörf hælis fyrir kannske 600–700 sjúklinga af þessu tagi, svo að mikið skortir enn á, að hægt sé að fullnægja eftirspurninni, enda langir biðlistar á öllum hælunum.

Ég vildi leyfa mér að leggja til, að þessu frv. yrði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.