23.10.1961
Neðri deild: 7. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í B-deild Alþingistíðinda. (646)

21. mál, lausaskuldir bænda

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Þegar hæstv. ríkisstj. var á sínum tíma að koma í gegn á hv. Alþingi efnahagslöggjöfinni á vetrarþinginu 1960, var það í boðskap hennar, að með því að koma þeirri löggjöf fram, þyrfti ekki að vera að basla við það á hverju ári eða jafnvel oft á ári að aðstoða atvinnuvegina í landinu. Það skyldi gert í eitt skipti fyrir öll um nokkuð langa framtíð, og þyrftu menn ekki að kvíða um sinn hag, ef þessi löggjöf næði fram að ganga og fengi að sýna sig. Það voru þó ekki liðnir nema nokkrir mánuðir, frá því að þessi óskadraumur þeirra varð að lögum, þ.e. efnahagslöggjöfin, sem þeir kölluðu síðar viðreisn, þangað til það varð að gera breytingu á löggjöfinni til aðstoðar við atvinnuvegina í landinu. Fyrst var byrjað með því að aðstoða togaraflotann. Og þegar þingmenn fóru í jólaleyfi um síðustu áramót, notaði ríkisstj. tímann til þess að gefa út brbl. um aðstoð við sjávarútveginn í heild, það eru lögin um stofnlánadeild sjávarútvegsins. Það var almenn skoðun þm., að það hefði verið hægt að koma þessu verki fram, annaðhvort áður en þingmenn fóru í jólaleyfi eða strax eftir að þeir komu aftur til þings, þar sem jólaleyfið var stutt, en ekki hafi borið nauðsyn til að nota jólaleyfi þeirra til þess að koma þessum lögum fram í bráðabirgðalagaformi. En það hefur hins vegar sýnt sig, að hæstv. ríkisstj. hefur sérstakar mætur á því formi og hefur notað það í mörgum tilfellum, eða þegar hún hefur viljað sérstaklega slá um sig.

Þegar þessi löggjöf var hér til meðferðar á hv. Alþ. í fyrravetur, þ.e. lögin um stofnlánadeildina, benti hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG) á það í nál. sínu, sem er út gefið 27. febr. s.l., að fleira þyrfti að gera en að aðstoða sjávarútveginn, og flutti þá brtt. til aðstoðar við landbúnaðinn einnig. Benti þessi hv. þm. á það bæði í tillögum sínum, í nál. og ræðum hér á hv. Alþ., og það var bent á það af okkur framsóknarmönnum yfirleitt, að nauðsyn bæri til að veita landbúnaðinum hliðstæða aðstoð og sjávarútveginum, til þess að bændur og vinnslustöðvar þeirra gætu komið sínum skuldamálum fyrir á eðlilegan hátt. Hæstv. ríkisstj. hafði þá ekki athugað það eða talið tímabært að taka þetta mál upp til velviljaðrar athugunar og afgreiðslu jafnhliða og á hliðstæðan hátt og við sjávarútveginn, eins og eðlilegt var. Tillögur hv. 1. þm. Norðurl. v. voru því felldar hér á hv. Alþ., og ekki komu fram tillögur frá hæstv. ríkisstj., sem bentu í þá átt, að hún ætlaði að taka þetta mál upp síðar. En er leið að þingslitum og eldhúsumr. fóru fram hér á hv. Alþ., lét hæstv. ríkisstj. einn af þm. sínum boða það, að hún mundi síðar taka þessi mál upp. Og var það eftir öðrum hennar vinnubrögðum að taka málið upp um það leyti, sem Alþingi var að ljúka störfum, sbr. það að gefa út brbl. um stofnlánadeild sjávarútvegsins í jólaleyfi þingmanna. Vinnuaðferðir við þessi tvö mál voru þau sömu, að út voru gefin brbl. í báðum tilfellum, en málið ekki tekið upp á Alþingi, eins og eðlilegt var, þó að Alþingi væri búið að benda á nauðsyn þess og ekkert hefði breytzt, frá því að þær ábendingar höfðu fram komið.

Þann 15. júlí s.l. gaf svo hæstv. ríkisstj. út brbl. um breyt. á lausaskuldum bænda í föst lán. Þar var veðdeild Búnaðarbanka Íslands heimilað að gefa út nýjan flokk bankavaxtabréfa, og skyldi þessi lánaflokkur vera notaður til þess að greiða með lausaskuldir bænda.

Ef borin eru nú saman þessi tvenn lög, lögin um stofnlánadeild sjávarútvegsins og lögin um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán, þá er nokkur mismunur á þessum tvennum lögum. Og það var auðfundið á hæstv. landbrh. áðan, að hann veigraði sér við því að ræða þann þáttinn og fann, að það hlyti að verða gagnrýnt, að það skyldu hafa verið öðruvísi aðfarir í síðara tilfellinu en því fyrra.

Í fyrsta lagi er það, sem hér er um að ræða, aðeins aðstoð við bændurna sjálfa, en í fyrra tilfellinu, í sjávarútveginum, er einnig aðstoð við fiskvinnslustöðvarnar. Hér er ekki gert ráð fyrir, að frystihús, mjólkurbú eða aðrar vinnslustöðvar landbúnaðarins eigi að fá nokkra aðstoð til að breyta sínum skuldamálum í betra horf en áður var, eins og fiskvinnslustöðvar sjávarútvegsins fengu með l. um stofnlánadeildina. Þessar stöðvar, sem hafa bundið mikið fjármagn og eru með lausaskuldir eins og önnur fyrirtæki í þessu landi, á þær er ekki litið eða á þær er ekki hlustað. Það eitt er þessari löggjöf ætlað að taka hinn þáttinn, og skal ég nú ræða, hvernig það er hugsað. En það getur engum manni blandazt hugur um, að það var jafneðlilegt að aðstoða vinnslustöðvar landbúnaðarins til að koma sínum lánamálum í betra horf eins og vinnslustöðvar sjávarútvegsins, því að hvorar tveggja þurftu aðstoð.

Þá er í öðru lagi, að í þessum lögum er gert ráð fyrir því að lána aðeins út á fasteignir, það eru aðeins fasteignir, sem þar eru veðhæfar, — en í hinu tilfellinu eru það skip, iðjuver og vélar. Það er hægt að nota vélarnar einnig sem veð í sambandi við lán sjávarútvegsins, en hér er aðeins fasteignin, sem er veðhæf. Hér er líka um meginmun að ræða og mikinn mun, sem er mjög óhagstæður fyrir bændur, þar sem þeir hafa orðið að festa mikið fjármagn einmitt í vélakaupum til landbúnaðarins, og þessum vélakaupum hafa þeir ekki getað komið fyrir nema taka óhagstæð lán til að koma þeim í framkvæmd. Hér er því annað atriði, þar sem er verulega hallað á bændastéttina frá því, sem gert er ráð fyrir í hinni löggjöfinni.

Í þriðja lagi er svo gert ráð fyrir því, að útvegurinn beri 6½% og vinnslustöðvar útvegsins greiði 6½% í vexti af sínum lánum. Hins vegar er bændum ætlað að greiða 8% af þeim lánum, sem þeir fá, því þó að skuldabréfin séu ekki nema með 7½% vöxtum, eins og hæstv. ráðh. tók hér fram áðan, þá er reiknað með ½% í kostnað. Hér er því enn þá gengið inn á sömu braut, að þessi lánaaðstoð er öll önnur og verri en í hinu fyrra tilfelli.

Hér er þó ekki öll sagan sögð, því að það er framkvæmdin, sem verður þó erfiðasti þátturinn í málinu. Eins og hæstv. ráðh. tók fram hér áðan og tekið er fram í l., á þessi aðstoð að verða með þeim hætti, að veðdeildin gefur út skuldabréf með 7½% vöxtum. Það eru tveir aðilar í landinu búnir að fallast á að kaupa þessi skuldabréf með nafnverði með þeim vöxtum, sem þar tilgreinir, því að ég geri ráð fyrir því, að um það hafi verið samið, að því leyti sem skuldirnar eru hjá þeim. Þetta eru Búnaðarbanki Íslands og Landsbanki Íslands. Rætt hefur verið um það, segir hæstv. ráðh., við Útvegsbankann, en þaðan hafi ekki komið svör enn þá. Við skulum gera ráð fyrir því, að þau svör verði jákvæð. En hvað gerðist í sambandi við stofnlánadeild sjávarútvegsins? Það, sem gerðist þar, var, að Seðlabankanum var gert að skyldu að kaupa skuldabréfin af stofnlánadeildinni. — Hins vegar var viðskiptabönkunum gert að auka innstæðu sína eða lækka skuldir í Seðlabankanum sem upphæð þeirri næmi, sem fór í þessi lán. Þar með var það tryggt, hvernig þessi framkvæmd átti að vera. Hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að það hefði verið hægt að framkvæma þetta á þennan veg, vegna þess að skuldir sjávarútvegsins hefðu verið í tveim bönkum, Útvegsbankanum og Landsbankanum. En ástæðan til þess, að þetta var framkvæmanlegt, var sú, að Seðlabankanum var gert að skyldu að aðstoða við framkvæmd þessara laga. Það er mergur málsins, en ekki að skuldirnar hafi verið í Útvegsbankanum eða Landsbankanum. Það hefði komið út á eitt, ef þessum bönkum hefði verið gert að skyldu að breyta sínum lánum í 20 ára lán, eins og hér er ætlazt til, án þess að Seðlabankinn aðstoðaði þá við það. Þá hefðu þessi lög ekki heldur náð tilgangi sínum. Ég er sannfærður um það, að hæstv. ríkisstj. hefði ekki fengið bankana til að taka á sig vaxtalækkunina og að binda lánin til svo langs tíma nema með lagasetningu, sem hún hefði sett þvert ofan í vilja bankanna. En af því að þeir fengu aðstoð Seðlabankans til þess, var þetta framkvæmanlegt. Og það, sem hér verður að gera, ef á að verða nokkur árangur af þessari löggjöf, það verður að vera slíkt hið sama og hjá sjávarútveginum.

Hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að hjá tveim aðilum, Búnaðarbankanum og Landsbankanum, væri mest af skuldum bænda. Ég er búinn að kynna mér þetta mál nokkru nánar, og það, sem er í því, er það, að þetta er mjög mismunandi eftir landshlutum. Þar sem þessir bankar hafa útibú, eins og t.d. útibú Landsbankans á Selfossi, þar eru bændur með sín víxlaviðskipti í útibúi Landsbankans. Þess vegna verður það þeim að einhverju liði að fá að breyta þeim víxlum, sem þeir eru með í útibúunum á Selfossi, Akureyri og Eskifirði, í löng lán. En aftur þar sem þessi útibú eru ekki, þar er meginið af þessum skuldum heima í sparisjóðunum í héruðunum eða eru verzlunarskuldir. Mér er fullkomlega kunnugt um það einmitt á því svæði, þar sem ég er kunnugastur. Þannig er þessu farið. Og haldið þið nú, hv. alþm. og hæstv. ríkisstj., að verzlunarfyrirtækin eða sparisjóðirnir verði ginnkeypt fyrir því að breyta víxlinum, sem sparisjóðurinn lánaði til sex mánaða eða eins árs og var búinn að semja um með 9½% vöxtum, — að breyta honum í 20 ára lán með 7½% vöxtum? Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um, að þetta mál er ekki auðleyst, enda er vitað mál, að það er ekki á valdi félítilla sparisjóða að inna það verk af höndum. Það er einnig alveg óframkvæmanlegt fyrir verzlunarfyrirtæki, sem verða að borga 10% í vexti af rekstrarfé sínu og eiga fullhart með að fá það fé, að breyta viðskiptaskuldum sínum í 20 ára lán með 7½% vöxtum. Ég er alveg sannfærður um það, að hæstv. landbrh., sem er kaupfélagsstjóri austur á Hellu, þegar hann gegnir ekki ráðherrastörfum, væri ekki ginnkeyptur fyrir slíkum viðskiptum, enda ekki von, því að hver á sem slíkur að blæða fyrir vaxtamismuninn. Það er ekki nóg að hafa uppi óskhyggju um það, að bændurnir í landinu noti sér þessa aðstoð. Það verður að vera framkvæmanlegt, og það er þýðingarlaust fyrir bændurna að taka skuldabréf þessi og eiga svo eftir að semja um það við viðskiptavini sína að koma þeim í verð, því að það er óframkvæmanlegt fyrir verzlunarfyrirtækin, það er óframkvæmanlegt fyrir sparisjóðina að verða við þessum óskum þeirra, þótt þeir fegnir vildu. Ég er þegar búinn að kynna mér það mál nokkru nánar, og það sýndi sig í sambandi við aðstoð við útgerðarmennina, að það var óframkvæmanlegt talið fyrir viðskiptabankana, Landsbankann og Útvegsbankann, að veita útgerðarmönnunum þessi aðstoðarlán, nema Seðlabankinn aðstoðaði við það. Og hvaða ástæða er til þess, að Seðlabankinn aðstoði við skuldaskil útgerðarinnar, ef hann á ekki einnig að koma til í sambandi við landbúnaðinn? Með því móti, að Seðlabankinn komi til, er hægt að leysa þetta mál og láta það verða bændum að liði, sem fullkomin þörf er, eins og hæstv. ráðh. sagði. En það er ekki hægt með því að láta sér detta í hug, að Pétur eða Páll eigi að semja við þennan eða hinn um svo óframkvæmanlega hluti eins og þetta er.

Ég veit, að hæstv. ráðh. hefur ekki verið ljúft að vera með vexti af landbúnaðarlánunum mun hærri en af sjávarútvegslánunum. En eins og hann sjálfur sagði áðan, þá var þetta kannske eina hugsanlega leiðin, að einhverju yrði hægt að koma út af þessum bréfum, að vaxtamismunurinn yrði ekki meiri en þetta, — það væri eina hugsanlega leiðin, vegna þess að það vantaði aðilann, sem átti að sjá um, að þetta væri framkvæmanlegt. Sá aðili var Seðlabankinn í sambandi við stofnlán sjávarútvegsins, og sá aðili átti einnig að vera Seðlabankinn í sambandi við þessi lán. Ef þessi löggjöf fer óbreytt hér í gegnum hv. Alþ., munu ekki verða nema mjög takmörkuð not af henni, a.m.k. í sumum landshlutum, og lítil sem engin í öðrum, því að sparisjóðirnir yfirleitt og verzlunarfyrirtækin hvorki geta né vilja fara að taka upp viðskipti eins og þessi. Þeim er það algerlega óframkvæmanlegt, og þess vegna munu þeir bændur í landinu, sem hafa þar sín viðskipti, einskis njóta í þessu sambandi.

Hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að það væri verulega sótt um þessi lán, og mér er kunnugt um, að svo er. En það er sótt um þau í þeirri von, að þau verði bændum að einhverju liði. Umsóknirnar eru fram komnar til þess að sýna þörfina. En bændur, sem eru að sækja um þessi lán, sjá einnig skuggann, sem er á framkvæmdunum, og lánið verður ekki að nokkru liði, sem teljandi er, nema að því leyti sem varðar þessa viðskiptabanka, sem hæstv. ráðh. talaði um hér áðan, og þá bændur, sem þar eru innan dyra, en að hinu leytinu ekki. Þess vegna verður ekki leyst úr þessu máli, svo knýjandi sem það þó er, nema hér verði gerð á sú breyting að samræma þetta, eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. flutti tillögu um í fyrra, að aðstoðin yrði á svipaðan hátt og var við sjávarútveginn, þ.e. að Seðlabankanum verði gert að skyldu að aðstoða með þessi lán, eins og bar var, svo að það geti verið með sama hætti og þar er til ætlazt.