26.02.1962
Efri deild: 52. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (818)

156. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Sú breyting, sem efst er á blaði í þessu frv., er að gera breytingu á stjórn húsnæðismálastofnunarinnar, fjölga þar um einn mann og breyta kjörtíma stjórnarinnar. Ég býst varla við, að þessar breytingar séu sérstaklega aðkallandi, eða mér er nú ekki kunnugt um það. Ég hefði satt að segja haldið, að í þessum málum væru aðrar ráðstafanir meir aðkallandi en þær að gera breytingar á stjórnarfyrirkomulag húsnæðismálastofnunarinnar. Ég hefði haldið, að það væri brýnni þörf á því að gera skilvirkar ráðstafanir til þess að útvega húsnæðismálastofnuninni starfsfé og ákveða, að lána mætti út á hverja íbúð miklum mun hærri upphæð en nú er gert. Það er gleðilegt, að hæstv. ríkisstj. og þeirri nefnd, sem um þetta mál hefur fjallað, hefur verið þetta ljóst að nokkru leyti, vegna þess að í frv. þessu er gert ráð fyrir því, að hámark láns á íbúð megi hækka úr 100 þús. upp í 150 þús., og enn fremur aukið nokkuð við þá heimild, sem veðdeild bankans hefur til þess að gefa út bankavaxtabréf og afla þannig lánsfjár. En þetta er að mínum dómi hvergi nærri fullnægjandi. Ég hygg, að það sé óvefengjanleg staðreynd, að á tímabilinu frá 1958 og til dagsins í dag hafi byggingarkostnaður á meðalíbúð hækkað um meira en 100 þús. kr., m.ö.o.: byggingarkostnaður á meðalíbúð hefur á þessum árum hækkað um meira en nemur allri lánsfjárhæðinni, sem lána má nú úr sjóðnum til byggingar. Þetta er sú sorglega og alvarlega staðreynd, sem blasir við, og það er sú staðreynd, sem fyrst og fremst verður auðvitað að horfast í augu við. Og af henni leiðir það, að ef lánin nú ættu að veita hliðstæða aðstoð við byggingu meðalíbúðar og var fyrir 1958, þá þyrftu lánin ekki að hækka um 50 þús., eins og hér er gert ráð fyrir sem hámarki í þessu frv., heldur þyrftu þau a.m.k. að hækka um 100 þús. og þó heldur meira en 100 þús. Ég held, að það sé óhjákvæmilegt að horfast í augu við þessa staðreynd.

Ráðstafanir hæstv. ríkisstj., sem hún hefur kallað viðreisn, hafa víða komið við og valdið mörgum tjóni. En ég hygg, að einhver allra stærsti og alvarlegasti ágallinn á viðreisnarráðstöfunum hæstv. ríkisstj. sé sá, að með þeim hefur hún aukið aðstöðumun manna mjög mikið. Það má sjálfsagt segja, að ýmsar þær ráðstafanir séu bærilegar fyrir þá, sem voru búnir að koma fótum undir sig, sem voru t.d. búnir að byggja íbúðir sínar. En þær hafa bitnað alveg sérstaklega á þeim, sem voru ekki þannig búnir að koma sér fyrir, og þær hafa bitnað alveg sérstaklega á unga fólkinu. Það er áreiðanlega ekki of mikið sagt, að þær hafi lagzt eins og lamandi farg á lífsvonir margs ungs fólks, af því að þær hafa girt fyrir möguleika þess til þess að stofnsetja heimili og eignast eigin íbúð, og þær hafa girt fyrir möguleika þess til þess að setja á stofn bú í sveit. Þetta eru svo augljós sannindi og blasa hvarvetna við, að þeim verður ekki andæft með rökum. Það mætti tína fram óteljandi dæmi þessu til sönnunar. En það ætti a.m.k. að vera stefnan hér á landi, að sem flestir einstaklingar gætu eignazt sínar eigin íbúðir og búið í þeim. Og það má segja, að það hafi verið stefnan hér á landi að undanförnu og áður en þær ráðstafanir voru gerðar af hæstv. núv. ríkisstj., sem hafa torveldað ungu fólki að eignast íbúðir. Þess vegna er það líka svo, að það mun vera staðreynd, að hér á landi er meiri fjöldi einstaklinga, sem býr í eigin húsnæði, heldur en víðast hvar annars staðar.

Það hafa mörg merkileg spor verið stigin hér á landi í löggjöf til þess að létta undir með mönnum um það að eignast sínar eigin íbúðir. Ég skal ekki fara að rekja þá sögu hér, en það má þó aðeins minna á löggjöfina um verkamannabústaði, sem var einmitt rætt um hér áðan, og það má minna á hliðstæða löggjöf að sumu leyti að því er sveitirnar varðar, sem sett var upphaflega, að ég ætla, um svipað leyti, en hefur að sjálfsögðu tekið ýmsum breytingum síðan. Og það má síðast, en ekki sízt, minna á löggjöfina um húsnæðismálastjórn og byggingarsjóð ríkisins. Með þeirri löggjöf, eins og frá henni var gengið í tíð vinstri stjórnarinnar svokölluðu, var vissulega stigið merkilegt skref til þess að gera sem flestum kleift að eignast eigin íbúðir. Hins vegar hefur það farið svo, eins og ég lauslega drap á áðan, að þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið, gengisbreytingar og þar af leiðandi stórkostlegar verðlagshækkanir, hafa valdið þeirri hækkun á byggingarkostnaði, að það má nú heita orðið lítt kleift fyrir efnalítil hjón að ráðast í það stórfyrirtæki að eignast þak yfir höfuðið, og breytingin hefur orðið svo stórkostleg, eins og ég gat um áðan, að á þessum árum, sem liðin eru frá 1958, hefur byggingarkostnaðurinn hækkað um meira en nemur allri þeirri hámarkslánsfjárupphæð, sem gert var ráð fyrir að veitt yrði út á íbúð.

Það er auðsætt, að þegar svo er komið, þá kemur sú lánsupphæð ekki að þeim notum, sem í upphafi var ætlazt til, og gerir ekki það gagn, sem hún þá gerði. Á þessu þarf að ráða bót, og ég fagna því vissulega, að þetta frv. ber þess þó vott, að þetta er aðstandendum þess ljóst. Þeir viðurkenna nauðsynina á því, að það þurfi að hækka lánin, þó að þeir vilji ekki ganga lengra í því efni en að hámarkslánin verði 150 þús. kr. á íbúð. En eftir því sem mér telst til, nægir sú hækkun ekki einu sinni til þess að vega upp á móti helmingi þess byggingarkostnaðar, sem hefur orðið í tíð núv. hæstv. ríkisstj. og þeirrar, sem á undan henni fór. Hér er um stórkostlegt vandamál að ræða. Unga fólkið í þessu landi hlýtur að bera fram kröfur um það, að hér sé bót á ráðin, og ég fæ ekki skilið, að það verði hægt að daufheyrast við þeim óskum. Eða hvert stefnir það, ef ekki verður hér gripið í taumana og bót á ráðin? Ég hygg, að það verði ekki vefengt, að það séu þegar farnar að koma í ljós afleiðingarnar af þessu ástandi. Ég hygg, að þær birtist í því, að það séu nú miklum mun færri einstaklingar, sem leggja út í íbúðabyggingar, heldur en var t.d. á árunum fyrir 1958. Og hver verður afleiðingin af því, að byggingar dragast þannig stórkostlega saman, — byggingar einstaklinga? Afleiðingin verður óhjákvæmilega sú, að það skapast húsnæðisvandræði. Afleiðingin af þeim húsnæðisvandræðum verður sú, að húsaleiga hlýtur óhjákvæmilega að hækka, — og hvað þá? Jú, þá er komið olnbogarými fyrir athafnamennina, þá geta þeir, sem hafa ráð á fé eða betri aðgang að lánsfé almennt en allur fjöldi einstaklinga, farið að byggja íbúðir og leigja. Þá verður svo komið, að það þykir arðbært fyrirtæki að leggja í húsabyggingar til þess að leigja út íbúðir. En er þetta æskilegt frá sjónarmiði þjóðfélagsins? Ég held ekki. Ég held, að slíkt ástand væri mikil afturför frá því, sem hér hefur ríkt í þessum efnum, og þeirri stefnu, sem hér hefur lengst af verið ráðandi í þessum efnum, og ég á a.m.k. bágt með að skilja, að slíkt samrýmist stefnu Alþfl., hvað sem segja má um stefnu Sjálfstfl.

Ég held þess vegna, að það sé ekki um annað að ræða en að horfast í augu við þessar staðreyndir og hækka stórkostlega lán til einstakra íbúðareigenda eða byggjenda, ef þetta ástand, sem ég var að lýsa, á ekki hér að skapast. Það hlýtur að vera krafa unga fólksins, og ég fæ ekki betur séð en það væri að nokkru leyti í samræmi við það undanhald, sem gætt hefur hjá hæstv. ríkisstj. á öðrum sviðum, því að það hefur nú farið svo á fleiri sviðum en þessu, að viðreisnarráðstafanirnar hafa komið þannig við atvinnuvegi og almenning, að hæstv. ríkisstj. hefur hvað eftir annað orðið að slá undan og setja eins konar kreppulöggjöf. Ég minni aðeins á löggjöfina um stofnlánadeild sjávarútvegsins og þau miklu lán, sem útgerðinni þurfti að veita skömmu eftir viðreisnarráðstafanirnar. Ég minni enn fremur á það mál, sem rætt verður hér næst á eftir, löggjöfina um lausaskuldir bænda. Þar reyndist líka óhjákvæmilegt að gera sérstakar ráðstafanir til þess að vega upp á móti viðreisnaráhrifunum að nokkru leyti. Og ég minni að lokum á það, að óleyst eru enn vandamál togaraútgerðarinnar. Ég hygg, að það muni sýna sig á næstunni, að þar verði hæstv. ríkisstj. líka að hlaupa undir bagga og verði að bera fram frv. um einhvers konar kreppuhjálp þeim til handa. Þessar ráðstafanir, sem þannig hafa verið gerðar, eru vissulega nauðsynlegar, eins og á stóð, og þyrfti sjálfsagt í ýmsum efnum jafnvel að ganga lengra en kar hefur verið gert. Ég vil nú vona, að það fari eins í þessu máli, sem hér er um að ræða, að hæstv. ríkisstj. sjái, að hún verður að viðurkenna staðreyndir í þessu máli og sjá byggingarsjóðnum fyrir lánsfé með einhverjum hætti og hækka lán til hvers einstaks íbúðarbyggjanda stórlega frá því, sem hér er gert ráð fyrir, þannig að hámarkslán á íbúð verði a.m.k. 200 þús. kr. Ég hygg, að það sé það minnsta, sem hægt er að komast af með, og sú minnsta upphæð, sem skynsamlegt er að reikna með í þessu sambandi, því að annað held ég að sé aðeins sýndarmennska.

Ég vil vona, að svo fari, að hæstv. ríkisstj. geri sér þetta ljóst, og má að vísu segja, að hæstv. ráðh. hafi látið í það skína, að von væri á frekari úrbótum í þessu efni en gert er ráð fyrir í þessu frv., þar sem hann sagði, að þar væri aðeins um bráðabirgðaráðstafanir að ræða. En ég held, að hér dugi ekki neinar bráðabirgðaráðstafanir. Ég held, að það verði að stíga skrefið strax fullt. Og hvað sem þessum yfirlýsingum hæstv. ráðh. líður, þá er það nú svo, að stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. hafa í hv. Nd. skilað áliti um frv., sem framsóknarmenn hafa flutt þar, þar sem gert var ráð fyrir, að hámarkslán út á íbúð yrði 200 þús., og í þessu áliti hafa þeir tekið þá afstöðu að vísa þessu máli frá sér, þ.e.a.s. að vísa því til ríkisstj., ef ég man rétt. Það lofar því miður ekki góðu um frambúðarlausn þessa máls. En ég held, að allar tafir og öll bið eftir einhverri fullnaðarlausn á þessu máli sé hættuleg, vegna þess að það tekur svo langan tíma að vinna það upp, ef stöðvun verður hér veruleg í byggingarframkvæmdum, þannig að það þarf mikið átak til þess að ná aftur því, sem þannig hefur fallið niður, þegar á annað borð verður veruleg stöðvun á byggingu íbúða.

Það er áreiðanlegt, að það verður fylgzt með því af mikilli eftirtekt af mörgum mönnum og þá ekki hvað sízt unga fólkinu, hver verða örlög þessa frv. og hverja meðferð þetta frv. fær hér á Alþingi, því að það er víst, að það eru fá mál, sem eru meira brennandi og meira aðkallandi en einmitt þetta mál fyrir unga fólkið, fyrir fólkið, sem enn er ekki búið að eignast eigin íbúðir. En mér finnst, að það ættu sem flestir að geta orðið sammála um, að það sé eitt af hinum nauðsynlegustu skilyrðum fyrir farsælu lífi, að menn eigi sómasamlega eigin íbúð, — að sem flestir ættu slíkar íbúðir.

Herra forseti. Ég skal svo ekki lengja þetta mál, en ég vildi láta þessar aths. koma fram við 1. umr. málsins, að það er að mínu viti langt frá því, að þær ráðstafanir, sem ráðgerðar eru í þessu frv., séu fullnægjandi og það er ekki hægt að una því, að þessu máli séu ekki gerð betri skil en hér hefur verið gert. Ég veit, að hér er um mikið vandamál að ræða, og það er ekki nóg að líta aðeins á þá hliðina, sem ég hef hér einkum gert að umræðuefni, heldur verður jafnframt að líta á það, hverjir möguleikar eru til að útvega aukið lánsfé.

Ég hygg, að þeir möguleikar séu fyrir hendi. Eins og kunnugt er, hefur allmikið af sparifé verið dregið inn í Seðlabankann. Það er einmitt aðalatriði þess inndráttar, að með þeim hætti hefur ráðstöfunarvald á því fé verið flutt frá hinum einstöku lánsstofnunum og í hendur Seðlabankanum og hæstv. ríkisstj., vegna þess að eftir núgildandi löggjöf er Seðlabankinn mjög háður ríkisstj. Ég hygg, að það sé alls engin goðgá að nefna það og telja það eðlilegt, eins og nú er málum komið, að nokkru af því fé, sem þannig er í raun og veru til ráðstöfunar hjá Seðlabankanum, sé varið til þess að bæta úr hinni brýnu þörf íbúðabyggjenda og bæta úr fjárþörf byggingarsjóðsins.

Ég hygg, að þær staðreyndir, sem ég hef hér bent á, um hækkun byggingarkostnaðarins, um óskir manna eftir lánum, séu réttar og þær verði ekki hraktar, og ég veit, að hér í þessari hv. d. á sæti sá maður, sem þessum málum er kannske allra kunnugastur, hv. 10. þm. Reykv. (EggÞ). Ég veit að vísu og skil, að hann mun vilja bera blak af hæstv. ríkisstj. og ekki taka undir þær ádeilur, sem ég hef hér hreyft, en ég þykist sannfærður um, að hann gæti staðfest þessi atriði, sem ég hef hér sérstaklega bent á. Og ég geri ráð fyrir því, að hann mundi verða fyrstur manna til þess að taka undir þá nauðsyn, sem er á því að leysa mál þessi strax og með viðunanlegum hætti, vegna þess að hann er áreiðanlega kunnugur mörgu af því fólki, sem skórinn kreppir hér að.