22.03.1962
Efri deild: 68. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 814 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

156. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ummælum hv. 9. landsk. þm. (JÞ), sem hann lét falla hér áðan, en þar reyndi hann að færa fram nokkur atriði til styrktar sínum málstað og til varnar þeim vinnubrögðum, sem viðhöfð voru í málinu. Það voru ný atriði, sem hann hafði ekki bent á í sinni frumræðu. Það er út af fyrir sig ánægjulegt, því að þau rök, sem hann bar fram í sinni frumræðu, voru ekki frambærileg. Það er rétt, að ég get ekki sagt til um vinnubrögð hv. heilbr.- og félmn. í þessu máli í einstökum atriðum, enda beindist gagnrýni mín ekki að þeim út af fyrir sig, heldur að þeim skilningi á vinnubrögðum þingnefndar, sem fram komu hjá 9. landsk. þm., þ.e.a.s. þeim skilningi, að það mætti í rauninni einu gilda, hvort frumvarpshöfundur eða frumvarpshöfundar væru kvaddir á fund þingnefndar í heild til þess að gefa upplýsingar eða formaður þingnefndar hlutaðist til um það að koma á sambandi á milli einstaks eða einstakra þingnefndarmanna og frumvarpshöfunda. Það er þessi skilningur, sem ég mótmælti og taldi varhugaverðan. Og ég held, að það sé fjarri öllu lagi, sem reyndar kom nú enn fram hjá hv. 9. landsk. í ræðu hans hér áðan, þeirri síðari, að það væri nokkuð sama, hvort þm., ef um þingmann væri að tefla, mætti á nefndarfundi og gæfi þar upplýsingar eða hann gæfi þær upplýsingar í heyranda hljóði hér á þingdeildarfundi. (EggÞ: Þetta er ekki rétt eftir haft.) Ég hygg nú, að þetta sé rétt haft eftir hv. 9. landsk. (Gripið fram í.) Það var hann, sem ég var að sítera. Ég held, að þetta sé byggt á miklum misskilningi, og ég held, að þetta sé byggt á miklu vanmati á nefndarstörfum hér á hv. Alþingi, sem allir alþm. þó vita að eru ákaflega mikils virði fyrir störf þingsins, þegar þau eru réttilega rækt.

Hitt er svo annað mál, að auðvitað hlýtur meiri hl. n. jafnan að meta það og gera það upp, hvort meiri upplýsinga sé þörf í máli heldur en fyrir liggja, og hlýtur að afgreiða mál, þegar hann telur það vera fyllilega upplýst. Ég gerði enga athugasemd við það. En þá á meiri hl. að byggja sína afgreiðslu á því, að málið sé nægilega upplýst, en ekki vera á eftir að koma fram með tilboð um það að koma einstökum nefndarmönnum í samband við frumvarpshöfunda og vísa þeim á upplýsingar, sem annars staðar sé hægt að fá. Slík upplýsingaöflun fullnægir ekki þeirri kröfu, sem gera verður til gagnaöflunar hér á hv. Alþingi og fyrir þingnefndum, þar sem gagnaöflunin fer fram, til þess að ekki aðeins einn einstakur nefndarmaður, sá sem upplýsinganna óskar, geti haft gagn af þeim og stuðzt í sínum ályktunum við þær, heldur þingnefndin öll.