23.03.1962
Efri deild: 69. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (838)

156. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Frsm. meiri hl. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haldið fund, frá því að 2. umr. lauk, og rætt till. þær, sem teknar voru aftur til 3. umr., þ.e. till. á þskj. 423 og 387. Meiri hl. n. telur ekki rétt að samþ. till. og mælir á móti þeim. Hv. 1. þm. Norðurl. e. mælir með till. á þskj. 423 og mun fylgja sumum till. á þskj. 387. Hv. 9. þm. Reykv. mælir með öllum till.

Við, sem meiri hlutann skipum, teljum það að svo stöddu ekki hafa hagnýta þýðingu að víkka lánsrammann, eins og lagt er til í till. á þskj. 423. Það er því miður fyrst nú nýlega, sem tekizt hefur að fylla upp í þann lánsramma, sem verið hefur undanfarið, og má kallast gott, ef hægt verður nú þegar að fylla upp í þennan víkkaða ramma, sem lagt er til í till. n., sem samdi þetta frv., og við teljum því að svo stöddu ekki ástæðu til að hækka eða víkka rammann.

Um till. á þskj. 387, þá leggjum við líka á móti, að þær séu samþ. Ég get aðeins hlaupið lauslega yfir þær.

Það er fyrst till. um að lækka vextina í 4%. Við teljum ekki, að það mundi vera vænlegt til þess að greiða fyrir því, að nægileg lán fáist, en það teljum við mikilvægast, að þessu ákvæði yrði breytt nú fyrst um sinn.

2. till. á þessu þskj. er um það, að lánveiting skuli bundin því skilyrði, að húsnæðismálastjórn hafi borizt teikningar og sundurliðuð kostnaðaráætlun, áður en framkvæmdir hefjast, ef sveitarfélag leggur fram fé til þess að útrýma heilsuspillandi húsnæði, og húsnæðismálastjórn skuli ráðstafa lánum ríkissjóðs í þessu skyni og hafa eftirlit með, að réttum skilyrðum sé fullnægt. Við teljum, að þetta sé ástæðulaust. Það hafa ekki komið fram neinar kvartanir út af framkvæmd málsins, eins og það hefur verið hér undanfarið, og við teljum ekki ástæðu til að breyta till. um framkvæmd þessa máls umfram það, sem lagt er til í þessu frv., sem hér liggur fyrir.

Þá er það 3. till. þarna, — það eru í rauninni nokkrar till., sem þar koma fram.

Í fyrsta lagi leggur hv. flm. til, að felld sé niður heimild ríkisstj. til þess að ákveða vexti hjá byggingarsjóði ríkisins og byggingarsjóði verkamanna. Við erum á móti því að fella þá heimild niður. Við teljum, að það sé liprara í framkvæmd, ef svo vel skyldi æxlast, að breytingar yrðu hér almennt og hægt yrði þess vegna að breyta þarna vöxtum til lækkunar, eins og menn vona, þá teljum við fljótlegra að koma því í framkvæmd með því, að ríkisstj. hafi heimildina.

Þá kemur hér mjög merkileg till. frá flm. um það, að íbúðareigandi skuli eiga rétt á að fá endurgreiðslu úr ríkissjóði á aðflutningsgjöldum og söluskatti af byggingarefni, sem til íbúðarinnar hefur þurft. Það liggur þó ekki fyrir nein áætlun, og ég tók ekki eftir því í þeirri ræðu, sem hv. flm. flutti hér við 2. umr., að hann gæti neitt um það. hvað þetta mundi kosta ríkissjóð, og þaðan af síður gat hann náttúrlega um það, hvernig ríkissjóður ætti að bæta sér það fé, sem hann þyrfti að greiða í þessu skyni. Án þess að slíkt liggi fyrir, teljum við fjarstætt að samþ. þessa till.

Þá er hér c-liðurinn í till. hv. flm. um það, að Seðlabankinn skuli veita byggingarsjóði ríkisins 50 millj. kr. lán með 5½% ársvöxtum árlega næstu 5 ár og húsnæðismálastjórn ráðstafa þeim lánum í samræmi við útlánareglur sínar. Við teljum þetta ekki heldur skynsamlegt og viljum freista þess, hvort ekki er hægt að fullnægja lánaþörf húsnæðismálastofnunarinnar með frjálsum samningum, eins og gert hefur verið til þessa, stundum með allgóðum árangri. Stundum hefur árangurinn ekki verið eins góður að vísu, en við viljum freista þess enn um sinn að ná nægilegu fé til útlána með frjálsum samningum.

Þá kemur rúsínan í pylsuendanum, að ríkissjóður greiði í byggingarsjóð 20 millj. kr. sem óafturkræft framlag á árinu 1963 og síðan jafnháa upphæð árlega í fjögur ár. Við viljum ekki heldur ákveða með þessum lögum þá fjárhæð, sem ríkissjóður skal leggja fram árlega í þessu skyni. Ég vil aðeins benda á það í þessu sambandi, að í sambandi við útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis hefur verið lögð nokkur kvöð á ríkissjóð, sem ekki er vitað, hver verður, og við teljum ekki rétt að svo stöddu að fara lengra í þá átt.