03.11.1961
Neðri deild: 12. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Hæstv. forseti. Frv. þetta er flutt til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út 1. ágúst s.l., og eru þau prentuð sem fylgiskjal með þessu frv. Með brbl. var 1. mgr. 18. gr. l. nr. 10 29. marz 1961, um Seðlabanka Íslands, breytt á þá lund, að Seðlabankinn ákveði að fengnu samþykki ríkisstj. stofngengi íslenzku krónunnar gagnvart erlendum gjaldeyri og gulli. Jafnframt var svo kveðið á, að kaup- og sölugengi megi ekki vera meira en 1% undir eða 1% yfir stofngengi. Innan þessara marka skuli Seðlabankinn skrá daglega kaup- og sölugengi þeirra gjaldeyristegunda, sem þörf sé á vegna almennra viðskipta. Jafnframt var svo kveðið á, að ákvæði þágildandi laga um gengi íslenzkrar krónu skuli falla úr gildi, þegar nýtt gengi hafi verið ákveðið samkv. brbl., en áður voru ákvæði um gengi krónunnar í 1. gr. l. nr. 4 1960, um efnahagsmál.

Meginástæðan fyrir útgáfu þessara brbl. var sú, að ríkisstj. taldi brýna nauðsyn bera til þess, að gengisskráning íslenzkrar krónu væri endurskoðuð vegna þeirra atburða, sem gerzt höfðu undanfarið í efnahagsmálum þjóðarinnar. Ég skal nú gera grein fyrir því, hvers vegna ríkisstj. fyrir sitt leyti taldi nauðsynlegt, að skráð yrði nýtt gengi íslenzkrar krónu. Síðar mun ég gera grein fyrir því, hvers vegna ríkisstj. taldi eðlilegt, að Seðlabankinn annaðist gengisskráninguna að fengnu samþykki ríkisstj.

Þegar ríkisstj. undirbjó hina nýju stefnu í efnahagsmálum í ársbyrjun 1960 og tók þá ákvörðun að afnema bótakerfið, sem verið hafði rekstrargrundvöllur útflutningsframleiðslunnar í stað réttrar gengisskráningar, og taka upp frjáls utanríkisviðskipti í meginatriðum, þá var það að sjálfsögðu eitt meginverkefni hennar í þessu sambandi að gera sér grein fyrir, hvernig skrá ætti gengi íslenzkrar krónu með hliðsjón af því verðlagi, sem þá var erlendis á útflutningsvörum þjóðarinnar, og því kaupgjaldi, sem þá var ríkjandi í landinu. Ríkisstj. komst að þeirri niðurstöðu, að miðað við þessar aðstæður væri gengi erlends gjaldeyris hæfilega ákveðið þannig, að 38 kr. skyldu vera í hverjum dollar og gengi annars erlends gjaldeyris í samræmi við það. Ég vil vekja sérstaka athygli á því nú, að ákvörðun gengisins sjálfs sætti þá ekki sérstakri gagnrýni. Menn greindi að sjálfsögðu mjög á um það, hvort fara ætti í heild þær leiðir, sem ríkisstj. kaus. En miðað við það, að uppbótakerfið væri afnumið og skapa ætti skilyrði til frjálsræðis í utanríkisviðskiptum á grundvelli jafnvægis inn á við og út á við, minnist ég þess ekki að hafa heyrt rökstudda eða alvarlega gagnrýni á því, að gengið var ákveðið 38 kr. í dollar, en ekki eitthvað annað. Hér á Alþingi komu engar tillögur fram um það, að hafa gengið annaðhvort hærra eða lægra. (Gripið fram í: Jú) Þetta hlýtur að benda til þess, að miðað við það, að gengið skyldi vera eitt og hið sama gagnvart öllum greinum útflutningsatvinnuveganna og þeir ekki hafa lakari aðstöðu en þeir höfðu búið við, meðan uppbótakerfið hélzt, og miðað við það, að hægt ætti að vera að auka frjálsræði í innflutningsverzluninni, hafi gengið 38 kr. fyrir dollar verið hæfilegt. Ég hef ekki séð því haldið fram, að þetta gengi hafi svipt útflutningsatvinnuvegina í heild tekjum, sem þeir höfðu á grundvelli uppbótakerfisins. Þær raddir heyrðust ekki heldur eða voru a.m.k. ekki háværar, að sjávarútveginum væru búin of góð kjör með hinni nýju gengisskráningu. Ég hef ekki heldur heyrt því haldið fram, að gengið hafi verið svo lágt, að hætta hafi verið á halla á greiðslujöfnuðinum fyrir þá sök, — eða að það hafi verið svo hátt, að verðhækkanirnar væru af þeim sökum óeðlilega miklar. Menn virðast því yfirleitt hafa verið þeirrar skoðunar, að ef á annað borð ætti að vera um jafnvægisgengi að ræða og ef þetta gengi hafi átt að búa útflutningsatvinnuvegunum sem líkust skilyrði því, sem þeir bjuggu við, áður en hin nýja stefna í efnahagsmálum var tekin upp, þá hafi gengið 38 kr. fyrir dollar verið nærri lagi. Það er þetta, sem meginmáli skiptir í því sambandi, sem hér er um að ræða. En hafi gengið 38 kr. á dollar verið hæfilegt eða rétt, miðað við það verðlag, sem þá var á útflutningsafurðum landsmanna, og það kaupgjald, sem ríkjandi var í ársbyrjun 1960, þá er augljóst, að verulegar breytingar á annaðhvort útflutningsverðlaginu eða kaupgjaldinu hlutu að kalla á breytingar á genginu, ef jafnvægið og samræmið í þjóðarbúskapnum átti ekki að raskast með alvarlegum afleiðingum fyrir aukningu þjóðarframleiðslunnar og viðskiptin út á við.

Nú skulum við athuga í stórum dráttum, hvað gerðist í þessum efnum, eftir að gengið 38 kr. á dollar var ákveðið og þangað til brbl. voru gefin út.

Á árinu 1960 féll verð á mjöli um 45% og á lýsi um 25%. Verð annarra útflutningsafurða hélzt að mestu óbreytt, en áhrif verðlækkunarinnar á mjöli og lýsi voru þó svo mikil, að meðallækkun allra þorsk- og karfaafurða nam 6.7% og síldarafurða 16%. Ef verðlækkun mjölsins og lýsisins er jafnað á allar sjávarafurðir, nemur meðallækkun þeirra á árinu 1960 8.9%. Svarar þetta til 210 millj. kr. lækkunar á verðmæti sjávarafurðaframleiðslunnar á árinu 1960. Framleiðslumagn sjávarútvegsins var einnig minna á árinu 1960 en það hafði verið árið 1959. Á árinu 1959 nam framleiðsluverðmæti sjávarafurða 2511 millj. kr. Miðað við sama verðlag nam framleiðsluverðmætið á árinu 1960 2326 millj. kr. Framleiðslumagnið var því á árinu 1960 7.4% lægra en það hafði verið á árinu 1959. Minnkun framleiðslumagnsins svarar til þess, að framleiðsluverðmætið hafi verið 185 millj. kr. minna 1960 en það hafði verið 1959. Verðfallið og aflabresturinn olli þess vegna því, að framleiðsluverðmæti sjávarútvegsins á árinu 1960 var um það bil 400 millj. kr. minna en það hafði verið árið 1959.

Þetta hafði að sjálfsögðu í för með sér, að afkoma sjávarútvegsins var ekki eins góð á árinu 1960 og gert hafði verið ráð fyrir, þegar gengið 38 kr. á dollar hafði verið ákveðið í febrúar 1960. Þar sem ríkisstj. hins vegar taldi, að verðlag mundi fara hækkandi aftur og afli vonandi aukast á ný, áleit hún ekki ástæðu til þess að endurskoða gengisskráninguna. Hins vegar var augljóst, að samtímis því, sem aðalatvinnuvegur landsmanna, sjávarútvegurinn, skilaði 400 millj. kr. minna til þjóðarbúsins en hann hafði gert árið áður, gat ekki verið um að ræða grundvöll fyrir almennri hækkun á kaupgjaldi. Ríkisstj. hafði gert ráð fyrir því og sagt það skýrum stöfum, að á árinu 1960 yrði þjóðin að gera ráð fyrir nokkurri rýrnun lífskjara eða sem svaraði 3–4%. Í árslok 1960 nam vísitala framfærslukostnaðar 104 stigum. Hún hafði þannig hækkað um 4% síðan í febrúar 1960. Engin breyting hafði hins vegar orðið á grunnkaupi, svo að kaupmáttur tímakaupsins hafði rýrnað um 4%. Þegar hagstofan rannsakaði hins vegar skattaframtöl verkamanna, iðnaðarmanna og sjómanna fyrir árið 1960 í sambandi við verðlagningu landbúnaðarafurða, kom í ljós, að tekjur þessara stétta höfðu að meðaltali hækkað um 6% á árinu 1960, miðað við árið 1959. Mun þetta fyrst og fremst hafa stafað af því, að starfsmenn hafi flutzt úr lægri launaflokkum í hærri launaflokka, samtímis því sem taxtar héldust óbreyttir, og af aukinni eftirvinnu á fyrri hluta ársins 1960. Það er því augljóst mál, að þessar stéttir höfðu ekki úr minna að spila á árinu 1960 en á árinu 1959, þegar litið er á árið sem heild.

Þrátt fyrir verðfallið og minnkun útflutningsframleiðslunnar batnaði greiðslujöfnuðurinn verulega í samanburði við næstu ár á undan, og komið var upp nokkrum stofni af gjaldeyrisvarasjóði. Á árunum 1956–1959 nam halli á greiðslujöfnuðinum að meðaltali 345 millj. kr. á ári, miðað við 38 kr. gengi á dollar. Ef ekki er tekið tillit til innflutnings skipa og flugvéla, hvarf þessi greiðsluhalli á árinu 1960. Þessi mikli bati á greiðslujöfnuðinum á árinu 1960 varð þess valdandi, að gjaldeyrisstaðan batnaði verulega. En í árslok 1959 var gjaldeyrisforðinn þorrinn með öllu og bankarnir teknir að safna lausaskuldum erlendis. Á árinu 1960 batnaði gjaldeyrisstaðan um 239½ millj. kr., og í árslok 1960 höfðu bankarnir eignazt gjaldeyrisvarasjóð að upphæð 112 millj. kr. Að vísu ber þess að geta, að hin batnandi gjaldeyrisstaða átti ekki eingöngu rót sína að rekja til bætts greiðslujafnaðar, heldur einnig til aukinnar notkunar greiðslufrests af hálfu innflytjenda og til hins, að óvenjumiklar birgðir af útflutningsvörum voru til í landinu í ársbyrjun 1960.

Nú á þessu ári hefur hins vegar orðið breyting til batnaðar, bæði að því er snertir verðlag sjávarafurða og aflamagn. Nokkur verðhækkun hefur orðið á freðfiski, saltfiski og skreið. Enn fremur hefur verð hækkað að nýju á fiskmjöli, þótt mikið vanti enn á, að verð þess sé orðið það, sem það var áður en verðhrunið í fyrra hófst. Lýsi hefur hins vegar haldið áfram að falla í verði. Ef gerður er samanburður á verðlaginu á sjávarafurðum, eins og það var í ágústmánuði s.l. og það hafði verið í ársbyrjun 1960 eða þegar gengið 38 kr. á dollar var ákveðið, kemur í ljós, að meðalverð þorsk- og karfaafurða var 1.8% lægra í ágúst 1961 en það hafði verið í ársbyrjun 1960 og meðalverð síldarafurða var 10.9% lægra í ágúst 1961, þegar þessi brbl. voru gefin út, en það hafði verið í ársbyrjun 1960. Ef tekið er vegið meðaltal af verðlagi þorsk-, karfa- og síldarafurða, kemur í ljós, að það var í ágúst 1961 3.8% lægra en það hafði verið í ársbyrjun 1960. Verðhækkanirnar á freðfiski, skreið og saltfiski hafa m.ö.o. ekki vegið upp á móti verðfallinu, sem hefur orðið á mjöli og lýsi. Þessi verðlækkun svarar til þess, að ársframleiðsla sjávarútvegsins á árinu 1961 sé um 90 millj. kr. minni en framleiðslan var á árinu 1959.

Þegar litið er á aflamagnið á þessu ári og byggt á áætlun Fiskifélags Íslands um það, hvert það muni verða á þeim mánuðum, sem eftir eru af árinu, kemur í ljós, að gera má ráð fyrir, að framleiðsluverðmæti sjávarafurðanna nú á þessu ári verði 2431 millj. kr., ef miðað er við sama verðlag og á árinu 1959. Það svarar til rúmlega 100 millj. kr. framleiðsluaukningar, miðað við árið í fyrra, en samt verður framleiðslumagn ársins 1961, ársins í ár, um 80 millj. kr. minna en það hafði verið 1959 eða árið áður en gengið 38 kr. á dollar var ákveðið. Framleiðslumagnið í ár verður því væntanlega rúmlega 2% minna en árið 1959.

Áhrif þess, að verðlagið í ár er lægra en það var 1959 og aflinn minni, svara til þess, að ársframleiðsla sjávarafurða verði í ár að verðmæti til um 170 millj. kr. minni en hún var árið 1959.

Hér verður þó í raun og veru að taka tillit til enn fleiri atriða en þeirra, sem ég hef nú nefnt. Báta- og togaraflotinn í ár er mun stærri en hann var á árinu 1959. Rekstrarkostnaður þessa flota er meiri en þeirra skipa, sem notuð voru 1959, og það verður að greiða afborganir og vexti af þeim erlendum lánum, sem tekin hafa verið vegna stækkunar flotans. Sú stækkun var að sjálfsögðu framkvæmd í þeirri von, að hún mundi færa þjóðarbúinu aukið framleiðsluverðmæti. Nú hefur framleiðsluverðmætið hins vegar minnkað í stað þess að vaxa. Bátaflotinn er nú um 70 bátum stærri en hann var 1959. Um það bil 50 af þessum bátum mega teljast hrein aukning við bátaflotann. Áætla má aukinn rekstrarkostnað bátaflotans um 100 millj. kr. á þessu ári. Við togaraflotann hafa bætzt 6 skip. Gera má ráð fyrir, að aukinn rekstrarkostnaður togaraflotans sé um 50 millj. kr. Rekstrarútgjöld sjávarútvegsins hafa því aukizt um um það bil 150 millj. kr., samtímis því sem framleiðsluverðmætið hefur minnkað um 170 millj. kr. Skerfur sjávarútvegsins til þjóðarbúsins er því um 320 millj, kr. minni á þessu ári en hann var á árinu 1959. Þetta svarar til 13% af framleiðsluverðmæti sjávarafurðanna og 4–5% af þjóðarframleiðslunni.

Þrátt fyrir þessa örðugleika útflutningsframleiðslunnar hefur gjaldeyrisstaðan haldið áfram að batna á árinu 1961, enda þótt enn vanti mikið á, að sá gjaldeyrisvarasjóður hafi myndazt, sem nauðsynlegur er. Skýringin á því, að gjaldeyrisstaðan skuli hafa batnað jafnt og þétt, frá því að hin nýja stefna í efnahagsmálum var tekin upp, þrátt fyrir minnkaðan skerf sjávarútvegsins til þjóðarbúsins, er fólgin í því, að jafnvægi var í peningakerfinu innanlands. Útlán bankanna jukust ekki umfram sparifjármyndun og ríkisbúskapurinn var hallalaus. Vaxtahækkunin, sem framkvæmd var, um leið og hin nýja stefna var ákveðin í febrúar 1960, á miklu meiri þátt í því, að það tókst að halda jafnvægi í peningamálum innanlands, en menn almennt hafa gert sér grein fyrir. En jafnvægið í peningamálunum var hins vegar alger forsenda þess, að það tækist að bæta gjaldeyrisstöðuna svo sem raun hefur orðið á. Allir hafa að sjálfsögðu fagnað hinni bættu gjaldeyrisstöðu, en samtímis hafa menn kvartað undan vaxtahækkuninni og fordæmt hana. Í þessu tvennu er þó algert ósamræmi, því að sá bati á gjaldeyrisstöðunni, sem náðst hefur, hefði ekki náðst, ef vextirnir hefðu ekki verið hækkaðir umfram það, sem þeir voru, áður en hin nýja efnahagsmálastefna var tekin upp. Vaxtahækkunin á og án efa sinn mikla þátt í þeirri aukningu, sem hefur orðið á sparifé, en á tímabilinu apríl 1960 til júní 1961 varð mánaðarleg aukning spariinnlána 67% meiri en hún hafði verið á árinu 1959.

„Ég sagði áðan, að á árinu 1960 hefði ekki orðið um að ræða þá kjaraskerðingu, sem ríkisstj. hafði sagt, þegar hún tók við völdum, að óhjákvæmileg væri, til þess að unnt væri að rétta við hag landsins út á við, hætta þeirri söfnun erlendra lausaskulda, sem átt hafði sér stað, og koma í staðinn upp gjaldeyrisvarasjóði. Verðfallið og aflabresturinn á árinu 1960 hefði getað orðið þess valdandi, að kjararýrnunin hefði orðið meiri en ríkisstj. hafði gert ráð fyrir, en þetta varð ekki. Það, sem fyrst og fremst gerðist á árinu 1960, var það, að afkoma útflutningsatvinnuveganna varð mun rýrari en gert hafði verið ráð fyrir, og því miður mun rýrari en eðlilegt og nauðsynlegt hefði verið, miðað við heilbrigðan rekstur og nauðsynleg skilyrði til endurnýjunar. Á síðustu mánuðum ársins 1960 og fyrri hluta ársins 1961 má hins vegar gera ráð fyrir, að nokkur kjaraskerðing hafi orðið, fyrst og fremst vegna þess, að þá hafi dregið úr yfirvinnu og þar með úr tekjum, samanborið við það, sem átti sér stað að meðaltali á árinu 1960. Hér hefur þó áreiðanlega ekki verið um meiri tekjulækkun að ræða en svo, að það hafi svarað til þess, sem tekjur launastétta yfirleitt jukust á árinu 1960, miðað við árið 1959. Á fyrri hluta þessa árs, 1961, hefur raunveruleg kjaraskerðing því ekki getað orðið meiri en boðað hafði verið í febr. 1960 að óhjákvæmilegt væri, ef þjóðinni ætti að takast að losna við erlendu lausaskuldirnar og eignast nauðsynlegan gjaldeyrisvarasjóð, eða m.ö.o. að verða efnalega sjálfstæð gagnvart öðrum þjóðum. Hin mikla skerðing á framleiðsluverðmæti þjóðarbúsins vegna verðlækkunarinnar á sjávarafurðum erlendis og aflabrestsins hafði m.ö.o. ekki lent á herðum launastéttanna, heldur orðið þess valdandi, að hagur útflutningsatvinnuveganna var og er rýrari en gert hafði verið ráð fyrir, þegar hin nýja stefna í efnahagsmálum var mótuð, og skilyrði þeirra til endurnýjunar og framleiðsluaukningar því minni en eðlilegt og æskilegt væri.

Þegar þetta er haft í huga, mátti teljast augljóst, að á miðju þessu ári væru ekki skilyrði til almennra kauphækkana hér á landi. Hins vegar mátti gera ráð fyrir, að þegar áhrifa hinnar nýju stefnu í efnahagsmálum færi að gæta meira, hagkvæmni í framleiðslu að aukast og fjárfesting að beinast inn á hagkvæmari brautir en áður, gætu atvinnuvegirnir staðið undir nokkurri kauphækkun. Enda þótt þessara áhrifa væri ekki enn farið að gæta nógu mikið og gjaldeyrisvarasjóðurinn væri enn ekki orðinn nógu öflugur, vildi ríkisstj. þó stuðla að 3% kauphækkun þegar í stað og 3% á ári á næstu árum, ef þetta gæti orðið til þess að tryggja vinnufrið í landinu. Þetta var fulltrúum verkalýðsfélaga og atvinnurekenda tjáð á s.l. vetri, löngu áður en til verkfallanna kom. Í sáttatillögu sinni síðar meir gekk sáttasemjari enn lengra, sem kunnugt er. Ef sú tillaga hefði verið samþ., hefði ríkisstj, gert allt, sem í hennar valdi stóð, til þess að tryggja, að sú kauphækkun, sem í henni fólst, raskaði ekki jafnvægi þjóðarbúskaparins og yrði raunveruleg kjarabót, þótt ríkisstj. gerði sér þess fulla grein, að slík launahækkun væri því aðeins möguleg, að ytri aðstæður yrðu mjög hagstæðar, þ.e.a.s. verðlag á útflutningsvörum landsmanna færi verulega hækkandi og aflabrögð bötnuðu mjög mikið. Tillögu sáttasemjara var hins vegar, því miður, hafnað og samið um kauphækkanir, sem juku útgjöld atvinnurekenda um 13–19%. Í kjölfar þessara nýju kaupgjaldssamninga fylgdi svo hækkun á verðlagi landbúnaðarafurða og enn fremur hækkun á launum opinberra starfsmanna. Bætur almannatrygginga verða og væntanlega hækkaðar tilsvarandi. Áætlað hefur verið, að 1% launahækkun, sem greiðist til því sem næst allrar þjóðarinnar, svo sem kauphækkanirnar í sumar hafa gert, svari til 30–40 millj. kr. hækkunar á heildartekjum í þjóðfélaginu á einu ári. Þær launahækkanir, sem samið var um í sumar, hlutu því að leiða til 500–600 millj. kr. aukningar tekna í landinu á einu ári. Vegna fjölgunar vinnandi fólks og flutnings manna úr verr launuðum störfum í betur launuð störf má gera ráð fyrir, að tekjur aukist frá ári til árs um u.þ.b. 300 millj. kr. Á næstu tólf mánuðum, eftir að áhrif kauphækkananna voru komin að fullu fram, mátti því gera ráð fyrir, að heildartekjur þjóðarinnar í krónum yrðu u. þ. b. 800–900 millj. kr. hærri en þær höfðu verið á síðustu 12 mánuðum, áður en kauphækkunin kom til framkvæmda. En þetta svarar til um það bil 11–12% hækkunar á peningatekjum þjóðarinnar.

Það hlýtur að vera algerlega óumdeilanlegt, að ekkert gat bent til þess, að þjóðarframleiðslan gæti orðið 11–12% meiri á fyrstu 12 mánuðum, eftir að kauphækkanirnar væru að fullu komnar til framkvæmda, en hún hafði verið á næstu 12 mánuðunum á undan. Það mátti því teljast alveg augljóst, hvað hlyti að gerast, ef ekkert væri að gert. Tekjur þjóðarinnar í peningum hefðu verið orðnar 11–12% meiri en þær voru, samtímis því sem sjálf þjóðarframleiðslan hefði ekki aukizt nema um 3–4%. Peningaseðlunum hefði fjölgað meir en vörunum, sem hægt væri að kaupa fyrir þá. Verðlag innanlands hefði því hlotið að hækka og gjaldeyrisvarasjóðurinn, sem þjóðin hafði eignazt, hefði horfið og bankarnir tekið að safna lausaskuldum á ný. Verðbólgan hefði aftur verið leidd inn í herbúðirnar og aftur orðið hallarekstur gagnvart útlöndum.

Ríkisstj. gat ekki horft aðgerðalaus á, að þetta gerðist. Hún hefði brugðizt skyldu sinni, hefði hún gert það. Hún hefði brugðizt þeirri stefnu, sem hún markaði, er hún tók við völdum, hún hefði brugðizt launþegunum í landinu, ef hún hefði horft á það aðgerðalaus, að ný verðbólgualda skylli yfir. Hún hefði brugðizt framleiðendum í landinu, ef hún hefði horft á það aðgerðalaus, að grundvellinum væri kippt undan heilbrigðum atvinnurekstri, og látið það viðgangast, að hallarekstur yrði á útflutningsframleiðslunni. Hún hefði brugðizt vinnandi fólki í landinu, ef hún hefði skellt skollaeyrum við hættunni á því, að útflutningsatvinnuvegirnir stöðvuðust og atvinnuleysi skylli á. Hún hefði brugðizt brýnum hagsmunum þjóðarheildarinnar, ef hún hefði látið það viðgangast, að gjaldeyrisstaðan tæki aftur að versna og þjóðin á ný að safna lausaskuldum erlendis.

Af þessum sökum taldi ríkisstj., að brýna nauðsyn bæri til þess að endurskoða gengisskráninguna. Að vissu leyti mátti segja, að forsendurnar fyrir skráningu gengisins, 38 kr. á dollar, hefðu þegar breytzt á árinu 1960 vegna hins gífurlega verðfalls á útflutningsafurðunum og vegna aflabrestsins. Með hliðsjón af því, hvílík nauðsyn er á því að breyta ekki gengi nema í ýtrustu nauðsyn, taldi ríkisstj. þó ekki rétt að breyta genginu af þessum sökum, en með því að auka framleiðslukostnað um 13–19% nú á þessu ári var grundvellinum undir gengisskráningunni 38 kr. á dollar gersamlega raskað. Það var útilokað að halda verðlaginu innanlands stöðugu, samtímis því sem peningatekjur ykjust um 800–900 millj. kr. eða um 11–12%. Það var gersamlega útilokað að halda jafnvægi í viðskiptum við útlönd á grundvelli óbreytts gengis, miðað við þessar kringumstæður. Fyrst kauphækkunin var orðin staðreynd, var ekki um annað að gera en gera þær breytingar á gengisskráningunni, sem svöruðu til hinna breyttu aðstæðna, eða m.ö.o. að skrá gengið þannig, að jafnvægi gæti haldizt í viðskiptum við útlönd og að verðhækkunin innanlands yrði sú, sem svaraði til hinna auknu peningatekna, með hliðsjón þó af þeirri framleiðsluaukningu, sem búast mátti við að yrði á næstunni. Af þessum sökum taldi ríkisstj. brýna nauðsyn bera til þess að breyta gengisskráningunni, en það var höfuðtilgangur brbl., að genginu yrði breytt, út frá þeim sjónarmiðum, sem ég hef nú lýst.

Þá er komið að því atriði, hvers vegna ríkisstj. tók ekki sjálf ákvörðun um það, hver gengisbreytingin skyldi vera, og breytti í framhaldi af því 1. gr. gildandi laga um efnahagsmál. Síðan þau lög höfðu verið sett, hafði Alþingi samþ. lög um stofnun Seðlabanka Íslands. Með þeim lögum var í fyrsta skipti komið á fót sjálfstæðum seðlabanka á Íslandi. Ef sjálfstæður seðlabanki hefði verið til, þegar gengisbreytingin í febrúar 1960 var ákveðin, hefði ríkisstj. talið eðlilegt, að sá banki fjallaði um þá breyt. og hefði tekið ákvörðun um hið nýja gengi, að fengnu samþykki ríkisstj. Í langflestum nágrannalandanna eru það seðlabankarnir, sem eru ríkisbankar, er taka ákvörðun um gengi gjaldeyrisins, að höfðu samráði við eða að fengnu samþykki ríkisstjórnanna.

Ákvörðun gengis er tæknilega séð mjög vandasamt verk. Athuga þarf mörg og flókin atriði og hafa hliðsjón af margvíslegum staðreyndum. Hér er í mörgum atriðum um svo sérfræðilegt verk að ræða, að eðlilegt er, að það sé unnið af stofnun, sem einmitt hefur það sérstaka verkefni í þjóðfélaginu að vera sérfróður aðili um peninga-, gjaldeyris- og gengismál. Hitt er svo annað mál, að ákvörðun gengis hefur svo mikla hagsmunaþýðingu og er svo mikilvæg frá stjórnmálasjónarmiði, að ekki er hægt að fela embættismönnum fullnaðarákvörðun um gengisskráninguna, þótt þeir hafi hina fullkomnustu sérfræðiþekkingu. Hin endanlega ábyrgð á gengisskráningunni hlýtur að vera hjá hinu stjórnmálalega ríkisvaldi, þ.e.a.s. ríkisstj. og þar með þeim meiri hl. Alþingis, sem hún styðst við. Vegna þess að sú breyting var á orðin, frá því er gengi var ákveðið í febrúar 1960 og þangað til ríkisstj. taldi þörf á nýrri gengisskráningu 1. ágúst 1961, að sjálfstæður seðlabanki var kominn til skjalanna, sem Alþingi hafði einmitt falið það hlutverk sérstaklega að fjalla um peninga-, gjaldeyris- og gengismál, taldi ríkisstj. eðlilegast að fela hinum nýja seðlabanka sem sérfróðum aðila að ákveða gengið, að fengnu samþykki ríkisstj. Eftir setningu brbl. tilkynnti stjórn seðlabankans, að miðað við hinar breyttu aðstæður teldi hún gengi dollars eiga að vera 43 kr. og annars erlends gjaldeyris í samræmi við það, og féllst ríkisstj. á þær tillögur.

Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, hæstv. forseti, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.