09.11.1961
Neðri deild: 15. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mætti ég biðja yður að athuga, hvort hv. 4. þm. Austf. (LJós) er í húsinu. Ég vil helzt, að hann geti heyrt mál mitt, því að ég þarf að svara rækilega ræðu hans. (Forseti: Það er verið að gæta að, hvort hv. 4. þm. Austf. er í húsinu, og verður gert örstutt hlé á meðan. — Hv. 4. þm. Austf. mun vera í húsinu og ráðstafanir hafa verið gerðar til að fá hann til að mæta hér í hv. þd.)

Ég ætla að gera að umtalsefni þær ræður, sem fluttar hafa verið af hv. stjórnarandstöðu við þessar umræður. Ég mun fara út í einstök atriði í nokkrum þeirra ræðna, sem fram hafa komið, en þó vil ég segja í upphafi, að þær hafa í raun og veru allar haft tvennt samnefnt: Í þeim öllum hafa verið tvenn stef, svo að segja alveg samhljóða. Í fyrsta lagi hafa allir ræðumenn hv. stjórnarandstöðu sagt og lagt á það mikla áherzlu, að á miðju þessu ári hafi hin nýja efnahagsstefna núv. ríkisstj. í raun og veru verið búin að sliga atvinnuvegina, viðreisnin hafi verið búin að koma atvinnuvegunum á kaldan klaka á miðju þessu ári. Hitt stefið hefur hins vegar hljómað þannig, að frá miðju þessu ári hafi atvinnuvegirnir mjög hæglega getað tekið á sig 13–19% kostnaðarauka vegna kauphækkunar. M.ö.o.: afkoma atvinnuveganna, sérstaklega sjávarútvegsins, hafi á miðju þessu ári verið svo góð, að ekkert hefði verið auðveldara en að hann greiddi 13–19% hærra kaup en hann gerði á s.l. ári.

Ég þarf ekki að eyða miklum tíma í að undirstrika, hversu harkalega þessar tvær staðhæfingar stangast hvor við aðra. Ef það væri rétt, ef einhver snefill væri af sannleika í því, að hin nýja stefna ríkisstj. hafi á miðju þessu ári verið búin að koma útflutningsatvinnuvegunum á kaldan klaka, hvernig í ósköpunum ættu þessir sömu atvinnuvegir þá á sama tíma að vera færir um það að taka á sig bótalaust 13–19% kauphækkun? Og ef þeir gátu nú á þessu ári tekið á sig mjög verulega kauphækkun, hvernig gat þá hitt verið rétt, að stefna ríkisstj. væri búin að leika þá svo hart, að þeir væru að þrotum komnir? Nei, það er augljóst mál, að hin tvö aðalatriði í ræðum allra hv. stjórnarandstæðinga stangast svo gersamlega hvort við annað, að það má heita furðulegt, að jafnþingvanir menn og hér er um að ræða skuli ekki a.m.k. gera hvort atriðið um sig að uppistöðu sitt í hvorri ræðunni. En að gera hvort tveggja í sömu ræðunni, það undirstrikar ósamræmið allt of greinilega. Og þegar tvö jafnólík stef eru í einni og sömu ræðu, þá er ekki að undra, þó að hljómurinn af heildinni verði harla kynlegur.

Annars skal ég snúa mér beint að því að ræða þá löngu ræðu, sem hv. 4. þm. Austf. flutti hér fyrir nokkrum dögum. Sannleikurinn er sá, að þær rangfærslur, þær beinu rangfærslur, sem hann viðhafði í ræðu sinni, voru svo óheyrilegar, að þó að maður eigi ýmsu að venjast af hálfu forsvarsmanna hans flokks, þá var hér í raun og veru um alveg óvenjulega óskammfeilnar blekkingar að ræða. Ég geri mér ljóst, að þetta eru stór orð, óvenjulega stór orð úr mínum munni hér í þessum ræðustól, en ég skal færa þeim fullan stað og vil leyfa mér að eyða tíma hv. deildar nokkru meir en ég er vanur að gera til þess að færa á það fullar sönnur með því að vitna til nákvæmra talna, með hversu rangt mál hv. þm, leyfði sér að fara í þessari löngu ræðu sinni. Ég ætla að leyfa mér að eyða í þetta nokkru lengri tíma en ég annars geri við slíkar umræður, vegna þess að ég lít svo á, að einmitt til hv. þm. sem fyrrv. sjútvmrh. og viðskmrh. og sem nýkjörins formanns í flokki sínum hafi maður leyfi til að gera háar kröfur um vandaða meðferð á staðreyndum og vandaða meðferð á tölum. Ég geri þetta með sérstakri hliðsjón af því, að hann hafði í upphafi ræðu sinnar sagt, að ýmsu væri hann vanur af stéttarbræðrum mínum, hagfræðingum, í meðferð talna, en þó hafi hann aldrei heyrt annað eins og þá meðferð talna, sem ég hafi leyft mér að viðhafa í minni framsöguræðu.

Þær tölur, sem ég fór með, voru allar saman unnar af embættismönnum íslenzka ríkisins, hverjum á sínu sviði, mönnum, sem starfað hafa í þágu hv. 4. þm. Austf., meðan hann sat í ráðherrastóli og aldrei bar á öðru en hann bæri þá fullt traust til. Þess vegna finnst mér, að það eigi ekki að liðast, án þess að því sé rækilega andmælt, þegar af hálfu fyrrv. ráðh. og formanns þingflokks koma fram ásakanir um, að tölur, sem ráðh. fer með í ræðustól á Alþ. og hafðar eru eftir hæstsettu embættismönnum þjóðarinnar, hverjum á sínu sviði, eru vefengdar með þeim hætti, að þær eru kallaðar ósvífnar blekkingar. Allra sízt á maður að líða slíkt, þegar sannleikurinn er eins og hann er og ég mun nú víkja að á eftir og gera nákvæma grein fyrir.

Ég ætla fyrst að rifja upp í örfáum orðum það, sem ég hafði sagt, kjarna málsins í framsöguræðu minni. Ég hafði sagt, að gengið 38 kr., sem ákveðið var í febr. 1960, hafi verið miðað við verðlag og kaupgjald um áramótin 1959–1960 og tilgangurinn með gengisskráningunni og hinni nýju stefnu yfirleitt hafi verið sá að búa sjávarútveginum sömu kjör og hann bjó við á árinu 1959. Síðan hafði ég sagt, að á árinu 1960 hafi verðlag lækkað mjög verulega á útflutningsafurðum miðað við árið 1959, en einkum þó og sérstaklega á mjöli og lýsi. Ég hafði sagt, að afli hafi verið minni á árinu 1960, miðað við árið 1959, en kaupgjald hafi hins vegar haldizt óbreytt. Ég hafði lagt áherzlu á, að þótt verðlag hafi lækkað og afli minnkað nokkuð, þá hafi ríkisstj. ekki talið, að ástæða væri vegna þess að breyta gengisskráningunni aftur þegar á árinu 1960. Hins vegar sagði ég og sagði það svo skýrt, að það var alveg óþarfi að láta sér heyrast yfir það, að á þessu ári, árinu 1961, hafi verðlag farið hækkandi á útflutningsvörum þjóðarinnar og afli aukizt aftur, en samt hafi verðhækkunin á þessu ári ekki orðið nægileg til að vega upp verðlækkunina, sem varð á árinu 1960, og þá minnkun, sem þá varð á aflanum, miðað við árið 1959. Og auk þess hafði ég undirstrikað það, að sá skipafloti, bæði af vélbátum og togurum, sem við veiðar hefði verið á þessu ári og 1960, hafi verið mun stærri en sá, sem var við veiðar 1959. Ég skal ekki þreyta hv. þdm. með því að endurtaka þær tölur, sem ég nefndi um þetta, en kjarni máls mins var þessi. Um það ber ræðan, sem flutt var af handriti, alveg skýran vott, þannig að um það verður ekki deilt.

Um þessar meginstaðreyndir, sem ég hef dregið saman í fáeinar setningar, leyfði hv. 4. þm. Austf. sér að segja, að þær væru alrangar í öllum aðalatriðum. Hann sagði það rangt, sem ég hafði sagt um aflamagnið 1960, og hann sagði það enn rangara, sem ég hafði sagt um verðbreytingarnar á árinu 1960. Að vísu var það þannig, að þegar hann var að andmæla staðhæfingum mínum, þá sagði hann alltaf: Það er rangt, að um aflaleysi hafi verið að ræða. — Það hafi verið rangt hjá ráðh., að það hafi verið aflaleysi á árinu 1960. Ég vil vekja athygli á því strax, áður en ég held lengra, að ég sagði aldrei eitt orð í minni ræðu um aflaleysi, að það hafi verið aflaleysi á árinu 1960. Hana má lesa hundrað sinnum, sú setning fyrirfinnst ekki. Það, sem ég sagði og var kjarni í mínu máli, var, að afli ársins 1960 hafi verið minni en afli ársins 1959, aflinn hafi lækkað á árinu 1960, og með hliðsjón af því, að tilætlunin hafi verið sú með gengisskráningunni 38 kr. á dollar og stefnunni í efnahagsmálum yfirleitt að búa sjávarútveginum sömu kjör og hann naut 1959, þá hafi þetta að sjálfsögðu verið áfall. Þetta var það, sem ég sagði.

En nú er rétt að lofa hv. þingmönnum að heyra, hvernig hv. 4. þm. Austf. lagði út af þessum alveg skýru ummælum mínum. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa nokkrar setningar, þar sem hann leggur út af þessum ummælum mínum, þannig að menn geti fylgzt rækilega með því, hvernig þessi hv. þm. hagar málflutningi sínum. Það er ekki alveg víst, að menn veiti því athygli, þegar menn sitja í sætum sínum og hlusta á hann, hvernig málflutningur hans er. En mönnum verður það ljósara, ef menn heyra þetta lesið hægt og skýrt aftur og ef menn hlusta á það í samhengi við það, sem ég er búinn að undirstrika, hverju hann er raunverulega að svara hjá mér.

Hann segir: „Hæstv. ráðh. flutti hér mikla útreikninga til að reyna að sanna mál sitt. Ég verð að segja, að oft hefur mér fundizt hann og kollegar hans, hagfræðingarnir í landinu, reikna nokkuð vafasamt, en aldrei þó eins og hæstv. ráðh. gerði hér, þegar hann reyndi að rökstyðja þessa síðustu gengislækkun með ræðu sinni fyrir þessu frv. Þar þóttu mér öll met slegin í ófyrirleitni við meðferð talna. Við skulum nú koma að nokkrum atriðum í þessu. Það er þá fyrst rétt að líta á meginröksemdina, að gífurlegt aflaleysi hafi steðjað hér að árið 1960.“ — Hér gefur hv. þm. sér forsendurnar, hann segir, að ég hafi sagt það, sem ég aldrei sagði, að það hafi verið gífurlegt aflaleysi á árinu 1960. Og hvernig heldur hann svo áfram? „Hvað segja nú opinberar skýrslur um aflamagnið á árinu 1960? Jú, ég hef fyrir framan mig skýrslur um þennan afla, gefnar út af Fiskifélagi Íslands. Heildarafli ársins 1960 er þar skráður 513 700 tonn. Árið 1959 var heildaraflinn skráður 564400 tonn.“ — M.ö.o.: nokkrum setningum eftir að hann er búinn að bera mér á brýn og kollegum mínum, hagfræðingunum, stórkostlegar talnafalsanir, vegna þess að ég segi, að aflinn á árinu 1960 hafi verið minni en á árinu 1959, þá segir hann sjálfur, þá les hann sjálfur tölur með köldu blóði og án þess að roðna, — þá les hann sjálfur tölur, sem ég hafði að vísu ekki nefnt, les, að afli ársins 1960 hafi verið 513700 tonn, en 1959 564400 tonn, og bætir svo við, ég segi aftur án þess að roðna, og nú kemur orðrétt: „það er rétt nokkru hærri. En árið 1958 var hann hins vegar skráður 505 þús. tonn, eða nokkru lægri en hann var 1960. En 1958 var þó hæsta aflamagn, sem hér hafði verið skráð þá. Árið 1957 var aflinn miklu minni og sömuleiðis 1956. M.ö.o.: aflinn 1960, heildaraflinn, var einn sá mesti, sem við höfum haft um margra ára skeið, þegar heildaraflinn er tekinn.“ M.ö.o.: rétt eftir að hann hafði viðhaft hin stærstu orð um það, sem ég sagði um aflamagnið og var það, að aflinn hafi reynzt 7.4% minni 1960 en 1959, þá les hann upp tölur, sem staðfesta það, sem ég sagði um þetta.

Svo heldur hann áfram ýmsum bollaleggingum, sem ég hirði ekki um að lesa orðrétt, það mundi taka of langan tíma. Ég þarf hvort eð er að segja svo margt við hv. þm. hér á eftir. En kjarninn í því, sem hann segir, er það, að afli bátaflotans hafi aukizt mjög mikið, sem er auðvitað alveg rétt. En þá þegir hann um þá staðreynd, að bátaflotinn sjálfur jókst mjög mikið. Um það þegir hann alveg. Hann víkur einnig að síldarvertíðinni og segir, að ég muni eflaust vitna í það, að hún hafi brugðizt, en hann gleymir alveg að geta um þann stórkostlega kostnaðarauka, sem útvegsmenn lögðu þá í, vegna nýrra tækja, sem auðvitað er ekki hægt að ganga fram hjá í þessu sambandi. En kjarninn í málflutningi hans er samt sá, og það, sem hann hefur stærstu orðin um, er, að það eigi í raun og veru að draga allan afla togaranna frá í samanburði milli áranna 1959 og 1960, vegna þess að togararnir hafi stundað aðrar veiðiaðferðir á árinu 1960 en þeir hafi gert 1959. Þess vegna sé ekkert vit í því að taka tillit til hinnar gífurlegu aflarýrnunar, sem varð hjá togurunum á árinu 1960 miðað við árið 1959. Og hann segir, að því eigi í raun og veru algerlega að sleppa. Nú er það svo, og það sýnir bezt, hversu gersamlega haldlaus þessi rök hv. þm. eru, að jafnvel þótt tekið sé fullt tillit til meginröksemda hans, að hlutfall milli siglinga og innanlandslandana hafi verið annað á árinu 1959 en það reyndist 1960, — en þetta eru höfuðrökin fyrir því, að það eigi að sleppa togurunum öllum úr samanburðinum og það megi ekki taka tillit til þeirrar gífurlegu aflarýrnunar, sem þar átti sér stað, — Þá er sannleikurinn sá, samkvæmt upplýsingum frá Fiskifélagi Íslands, að afli togaranna á úthaldsdag, þegar landað var innanlands, þ.e.a.s. þegar sleppt er siglingum, var á árinu 1960 11.8 smál., en var á árinu 1959 14,9 smál: Jafnvel þegar miðað er við þessa staðreynd, sem hann gerir að höfuðröksemd fyrir árás á þær tölur, sem ég hef flutt, kemur líka í ljós, að aflarýrnun togaranna, þegar landað er innanlands, var um 3.1 smál. á úthaldsdag, þ.e. rýrnun úr 14.3 smál. 1959 í 11.8 smál. 1960. Það er því alveg augljóst mál, að hv. þm. hefði átt að spara sér þau stóru orð, sem hann viðhafði í ræðu sinni um þetta efni um þær tölur, sem ég nefndi um breytingar á aflamagninu, vegna þess að í því, sem hann sagði um þetta efni, stendur ekki steinn yfir steini.

Á árinu 1960 telur Fiskifélagið, að heildaraflinn á öðrum veiðum en síldveiðum, þ.e. þegar síldveiðunum er sleppt, hafi reynzt 2.5% minni en 1959, þrátt fyrir það að skipastóllinn hafi aukizt um nær 17% á því ári. Og þá getur hver maður gert sér í hugarlund, hvor hefur réttara fyrir sér, hv. þm. eða ég, þegar ég annars vegar held því fram, að aflabrögðin hafi verið mjög miklu rýrari á árinu 1960 en árinu 1959, eða hann, þegar hann heldur því fram, að aflabrögðin hafi alls ekki verið rýrari 1960 en 1959. Hér er um svo augljósar staðreyndir að ræða, að ástæðulaust er að deila um þær.

Þá kem ég að hinu atriðinu, þar sem rangfærslur hv. þm. eru miklu alvarlegri en þetta, því, sem hann sagði um verðbreytingarnar á árinu 1960 og 1961. Það mundi sumum finnast, að nóg væri búið að afsanna af því, sem hv. þm. sagði, þ.e.a.s. að rangfærslur hans um aflamagnið sýnist vera alveg nógu miklar, þannig að hann gæti þó farið að einhverju leyti rétt með tölur um verðfallið. En þá fyrst keyrir um þverbak. Og nú skal ég fyrst lofa hv. þdm. að heyra, með leyfi hæstv. forseta, hvað hv. þm. sagði um þetta efni. Hv. þm. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Við skulum þá athuga hinn skýringaþáttinn hjá hæstv. ráðh., en það er verðfallið á afurðunum 1960. En þá átti að hafa orðið slíkt verðfall á ýmsum útflutningsafurðum okkar, að þjóðarbúið hafi orðið fyrir stórfelldum skakkaföllum.“ Ég vek athygli á: þá átti að hafa orðið slíkt verðfall á ýmsum útflutningsafurðum, að þjóðarbúið hafi orðið fyrir stórfelldum skakkaföllum. Hann heldur áfram: „En þetta verðfall, sem hæstv. ráðh. vildi hér nota sem skýringu á því, hvað gerðist á árinu 1960, varð ekki á árinu 1960, heldur er það margsannað mál og liggur fyrir í opinberum skýrslum, að verðlækkunin á síldarmjöli, fiskimjöli og lýsi, þetta verðfall varð á miðju árinu 1959. Og verðið var lægst á þessum vörum einmitt á haustmánuðunum 1959, og þetta lá því allt saman fyrir hæstv. ríkisstj. og hagfræðingum hennar, þegar ríkisstj. ákvað gengislækkunina í febrúarmánuði 1960, — ég vona, að það lái mér enginn, að ég á erfitt með að lesa svona ósannsögli, — „enda er það alveg ljóst af þeirri grg., sem fylgdi gengislækkunarfrv. þá, því að það kemur greinilega fram í grg. þess frv., að verðlækkunin var orðin, áður en skráningin var ákveðin á krónunni þá, hún var orðin á þessum vörum. Þetta lá fyrir og það var tekið tillit til þess við skráninguna á krónunni í febrúarmánuði 1960.“

Hann heldur áfram nokkru síðar: „En það var helzt að skilja á ræðu hæstv. viðskmrh., að yfirleitt hefði verið um verðlækkun að ræða 1960 á útfluttum vörum. A.m.k. tók hann ekki tillit til þess, að neinar aðrar verðbreytingar hefðu orðið á því ári.“ Ég bið menn að taka eftir þessu, hvað hann hefur eftir mér: „A.m.k. tók hann ekki tillit til þess, að neinar aðrar verðbreytingar hefðu orðið á því ári heldur en verðlækkunin á mjöli og lýsi, sem hafði þó verið á árinu 1959, en ekki 1960, hélt að vísu áfram fram á árið 1960. En það voru ýmsar aðrar verðbreytingar á útfluttum sjávarafurðum á árinu 1960 og yfirleitt allar til verðhækkunar. En hæstv. ráðh. sá ekki neitt af þeim verðbreytingum og þurfti ekki að reikna með þeim. Hann var nefnilega að reikna út einhvers konar talnalega sönnun fyrir því, að viðreisnin hans hafði farið út um þúfur, og þá þurfti vitanlega að taka allt á aðra hliðina.“

Og svo að ég ljúki tilvitnun í hv. þm., þá segir hann enn nokkru síðar, þar sem hann er að andmæla því, sem ég hafi sagt um verðlækkun á mjöli og lýsi á árinu 1960: „Auðvitað er þetta fjarri öllu lagi, því að á árinu 1961 var verð á síldarmjöli og fiskimjöli komið langt upp fyrir það, sem reiknað var með, þegar gengisskráningin var ákveðin í febrúarmánuði 1960.“

Það er rétt, að verðið á þessum afurðum var ekki komið upp í það hæsta, sem verðið hafði farið í á tímabilinu 1959, meðaltalsverð ársins 1959 og meðaltalsverð áranna þar á undan var hvergi nærri því að ná þeim hæsta toppi. Það er uppistaðan í gagnrýni hv. þm., í hinni stóryrtu gagnrýni hv. þm. á málflutning minn, að það hafi engin verðlækkun orðið á árinu 1960, verðlækkunin hafi verið komin á árinu 1959, og ríkisstj. hafi raunverulega reiknað með henni, a.m.k. átt að reikna með henni. Og hann segir að síðustu, „að nú sé verðið orðið hærra en það var, þegar gengislækkunin var ákveðin.“

Ég skal í tilefni af þessu lesa skýrslur frá útflutningsdeild viðskmrn., sem er framhald af þeirri útflutningsnefnd, sem hv. þm. kom sjálfur á fót, þegar hann var sjútvmrh. í ríkisstjórn Hermanns Jónassonar. En sú n., nú útflutningsdeild viðskmrn., veitir, eins og hann veit jafnvel og ég, útflutningsleyfi fyrir öllum útfluttum afurðum og hefur nákvæmt bókhald um selt magn og söluverð og söluskilmála á öllum þeim sölum, sem fram fara til útlanda. Ég ætla nú, með leyfi hæstv. forseta, þó að það taki einhvern tíma og ekki sé gaman að vitna í allt of margar tölur, þá held ég að rétt sé í þessu tilfelli, til þess að sýna mönnum rækilega málflutning þessa hv. þm., að lesa nákvæmlega, tölu fyrir tölu, skýrslu eða yfirlit yfir verð á fiskimjöli á árinu 1959 til þessa dags, þannig að menn geti fylgzt nákvæmlega með því, hvernig verðbreytingarnar hafa orðið, frá 6/1, en það er fyrsta salan, sem ég ætla að geta um, og þangað til 2/11. En 6/1 1959 eru seld 250 tonn fyrir 20 shillinga og 6 pence, 66%. 4/2 eru seld 200 tonn á sama verði, 20 sh: og 6 d. með 66% innihaldi. 4/3 300 tonn, 20 sh., með 70% innihaldi. 8/4 200 tonn á 20 sh. og 3 d. með 67% innihaldi. 5/5 250 tonn á 20 sh. með 70% innihaldi. 9/6 200 tonn á 20 sh. og 3 d, með 66% innihaldi. Nú er komið fram yfir mitt árið. 7/7 400 tonn á 21 sh. og 3 d. með 56% innihaldi. 28/8 600 tonn á 20 sh. og 6 d. með 70% innihaldi. 6/10 300 tonn á 20 sh., 3 d. með 66% innihaldi. 11/11 200 tonn á 20 sh. og 3 d. með 66% innihaldi. 18/12 150 tonn á 20 sh. 3 d. með 65% innihaldi.

Þetta er yfirlit yfir verðþróunina á fiskimjöli á árinu 1959. Fyrsta salan á árinu er á 20 sh. og 6 d., síðasta salan á árinu, rétt fyrir jól, er á 20 sh. og 3 d. (Gripið fram í: Vill ekki ráðherrann lesa um síldarmjölið?) Ég kem að því hér á eftir. Það er í niðurlagi skýrslunnar.

Þetta eru tölur, sem skráðar eru í bækur, sem hv. þm. skipulagði að skyldu færðar, meðan hann var sjútvmrh., og eru færðar með alveg sama hætti og þær voru færðar þá. Þá voru þær réttar, nú eiga þær allt í einu að vera orðnar rangar.

Í þessu sambandi er þess að geta, að í sept. 1959 byrjaði verð á Perú-mjöli að falla á heimsmarkaðnum, og um áramótin 1953–60 mun verðið á Perú-mjöli, þar sem það var selt í Evrópu, hafa lækkað um 15–20%. En þessi verðlækkun á Perú-mjölinu, sem byrjaði í sept. 1959, tók ekki til íslenzks fiskimjöls og ekki heldur fiskimjöls frá Norðmönnum og Þjóðverjum, vegna þess að það fiskimjöl var talið og er í öðrum gæðaflokki og nær nokkuð öðru og hærra verði en Perú-fiskimjölið. En auðvitað var vitað, að þessi verðlækkun á fiskimjölinu mundi fyrr en varir hafa áhrif á verðlagið á fiskimjölinu líka frá Íslendingum, eins og gert var ráð fyrir að það mundi lækka fiskimjölsverðið á Evrópumarkaðnum yfir höfuð að tala. Þetta var sagt skýrt og greinilega í frv. um efnahagsmál, sem hér var rætt í febrúarmánuði 1960, og það eru setningarnar um það, sem hv. þm. var að lesa í ræðum sínum, en þetta verðfall á Perú-mjölinu var um árslokin 1959 ekki farið að verka á íslenzka fiskimjölið. Þau áhrif komu fyrst síðar, eins og kemur fram í tölunum, sem ég nú skal lesa. Og nú les ég hliðstætt yfirlit yfir árið 1960.

Sala 19/1 475 tonn, 19 sh. 9 d., af 70% mjöl:. 9/2 50 tonn á 18 sh. 6 d., af 65% mjöli. 18/3 1500 tonn á 15 sh. og 3 d., 65%. 28/3 350 tonn á 15 sh. og 3 d., 65%. 6/5 300 tonn, 15 sh., á 70% mjöli. 20/7 550 tonn, 11 sh., á 65% mjöll. M.ö.o.: á miðju árinu 1960 er verðið orðið um 45% lægra en það hafði verið í ársbyrjun. 8/8 700 tonn, líka 11 sh., 65%. 7/9 600 tonn, 11 sh., 65%. 6/10 360 tonn, 11 sh., 65%. 10/11 150 tonn 11.6 sh., — byrjar að hækka aftur, — af 70% mjöli. Og 20/12 450 tonn á 12 sh. af 65% mjöli.

M.ö.o.: útflutningsverðið á mjöli, sem við fyrstu söluna, 19/1, er 19.9 sh. af 70% mjöli, það er komið ofan í 12 sh. af 65% mjöli í sölu, sem fer fram 20. des. 1960.

Á þessu ári hefur svo verð aftur farið hækkandi, eins og ég tók skýrt og greinilega fram í ræðu minni, eins og sést á þessum tölum: 13/1 150 tonn, 12 sh., af 70% mjöli. 2/2 200 tonn, 12 sh. og 6 d., af 65% mjöli. 1/3 525 tonn, 12 sh. og 3 d., 65%. 11/4 200 tonn, 14 sh., 65%. 5/5 200 tonn, 15 sh. og 3 d., 64%. 30/6 150 tonn, 16 sh. 9 d., 64%. 24/7 500 tonn á 16 sh. og 9 d., 65%. 3/8 400 tonn á 17 sh. og 3 d., 63%. 23/9 300 tonn á 18 sh., 64%. 31/10 200 tonn á 18 sh., 65%. 2/11–2. þ. m. 600 tonn á 18 sh. af 65% mjöli.

Hækkunin á þessu ári hefur því orðið mjög veruleg, en núverandi verð á fiskimjöli er samt enn 2 shillingum lægra en það var um áramótin 1959–60, þ.e. 10% lægra eftir þessum síðustu tölum en það var um áramótin 1959–60, þegar gengisbreytingin var undirbúin. Verðbreytingar á síldar- og karfamjöli hafa verið hliðstæðar, en venjulega hefur einingarverðið þar verið um 2 sh. lægra, og verð á síldarmjöli er í dag 15 sh. og 6 d., miðað við 72% próteiningar.

Þetta er þá sannleikurinn í þessu veigamikla máli, sem okkur hv. þm. greinir hér á um. Þetta eru tölur um þá einföldu staðhæfingu mína, að verðið á fiskimjöli hafi lækkað mjög á árinu 1960, en hækkað aftur á árinu 1961, en sé þó ekki búið að ná þeirri hæð, sem verð á fiskimjölinu hafði, þegar gengislækkunin var undirbúin um áramótin 1959–60. Þessar tölur, sem sóttar eru í bækur útflutningsnefndar eða útflutningsdeildar viðskmrn., beint í bækur hennar, staðfesta í einu og öllu mál mitt um þetta efni og sanna, að það, sem hv. þm. hefur leyft sér að segja um þetta efni, er alrangt, er svo rangt, að mig satt að segja furðar á því, að maður með hans þekkingu á þessum málum og með hans ábyrgð hér á Alþingi sem formaður eins þingflokksins skuli leyfa sér að viðhafa aðrar eins tölur og þessar, önnur eins ummæli og þessi, því að það hefði átt að vera mjög auðvelt fyrir hv. þm. að afla sér réttra upplýsinga um þessi efni. Hann hefði getað fengið þær, nákvæmlega eins og ég hef getað fengið þær, með því að hringja í starfsmenn ráðuneytisins og láta þá gefa sér upp tölur úr bókum sínum um þetta efni. Hér er um ekkert leyndarmál að ræða, þessar tölur getur hver þingmaður fengið, sem þeirra óskar. En það virðist vera þannig, að hv. þm. hafi ekki áhuga á því að flytja hv. Alþingi og þjóðinni hið sanna og rétta um þetta efni — eða þá að hann treystir því, að menn nenni ekki að hafa fyrir því að afla sér sannra og réttra upplýsinga um það og skýra frá þeim. En þá fyrirhöfn tel ég ekki eftir mér, a.m.k. ekki í þetta skiptið.

Þá kemur um hitt atriðið, sem ég hafði sagt, að líka hefði orðið um verðfall á síldarlýsi að ræða á árinu 1959, það hefði að vísu hækkað aftur, verið farið að hækka mjög verulega aftur, þegar gengisbreytingin var ákveðin, en þó ekki enn náð þeirri hæð, sem það hafði, þegar gengisbreytingin var ákveðin um áramótin 1959–60. Þetta sagði hv. þm. líka að væri alrangt, og á þeirri staðhæfingu byggir hann þann sleggjudóm, sem hann leyfði sér að viðhafa um vinnubrögð hagfræðinga yfir höfuð að tala.

Ég skal nú skýra hv. þingmönnum á hliðstæðan hátt frá upplýsingum um verð á síldarlýsi á árunum 1959, 1960 og 1961, upplýsingar um raunverulegt söluverð á síldarlýsi samkvæmt bókhaldi útflutningsdeildar viðskmrn. eða útflutningsnefndar hv. þm. á sínum tíma.

Hinn 12/5 1959 voru seld 800 tonn á 70 pund cif. 25/8 900 tonn á 66 pund, þar er þegar byrjuð lækkun, sem síðan heldur áfram. 11/9 500 tonn á 63 pund. 23/12 400 tonn á 62 pund. Síldarlýsi var farið að lækka mjög verulega á árinu 1959, eins og líka var vakin athygli á og undirstrikað í grg. fyrir efnahagsmálafrv. 1960, en það var sem sagt um áramótin 1959, síðasta salan á árinu 1959 var upp á 62 pund.

Nú kemur spurningin: Er það rétt, sem hv. þm. segir, að verðlækkunin hafi öll verið komin fram í árslok 1959 og verðið farið að hækka 1960? En það sagði hv. þm. Og nú skulum við athuga staðreyndirnar um þetta algerlega undanbragðalaust. Nú skal ég nefna tölur um það, hve sannsögull hv. þm. er. 26/1 voru seld 4000 tonn á 57 pund og 5 sh. 23/2 7600 tonn á 61 pund. 16/6 700 tonn á 53 pund. 10/8 2500 tonn á 50 pund. 17/10 500 tonn á 53 pund, allt saman cif-sölur. 4/11 900 tonn á 56 pund og 15 sh. Og 22/12 3300 tonn á 55 pund og 10 sh. M.ö.o.: það er greinilegt, að um mjög verulega verðlækkun verður að ræða á síldarlýsinu á árinu 1960, þar sem síðasta salan á árinu 1959 er þó á 62 pund, en síðustu sölurnar á árinu 1960 eru 55–56 pund.

Á árinu 1961 hækkar verðið á síldarlýsinu fyrst, en er nú nýlega aftur að falla hörmulega mikið. 15/2 er sala upp á 600 tonn 59 pund, 3/3 3400 tonn á 59 pund, 21/4 2000 tonn líka á 59 pund, þ.e. hærra en það hafði verið á seinni hluta árs 1960. En svo byrjar þróunin aftur á bak aftur, því miður: 8/5 550 tonn á 57 pund og 5 sh. 10/8 750 tonn á 51 pund. 16. okt. 2250 tonn á 44 pund og 10 sh. Og 6. þ. m. eru seld 3000 tonn á 42 pund. (Gripið fram í.) Það er víst ekki sala farin fram á því enn þá, en það er alveg rétt, að verðfallið heldur áfram, — það er alveg rétt, því miður.

M.ö.o.: þessar tölur staðfesta nákvæmlega það, sem ég hélt fram, að það varð mjög alvarlegt verðfall á síldarlýsi á árinu 1960, en aftur, sem betur fer, talsverð hækkun á árinu 1961, þó að nú allra síðustu vikurnar hafi enn orðið mjög gífurleg lækkun, en það er atriði, sem við getum haldið utan við þessar umr., vegna þess að við erum að tala um, hvernig ástandið hafi verið, þegar gengisbreytingin var gerð í ágústmánuði s.l. Og á þessu geta menn svo enn greinilegar séð, hvað satt er í því, sem hv. þm. sagði síðast, í síðustu tilvitnun, sem ég las úr ræðu hans, að verðlagið nú væri orðið mun hærra en það var, þegar gengisbreytingin var undirbúin.

Ég held, að rétt sé líka, að ég skýri hv. þm. ýtarlega og nákvæmlega frá þeim verðbreytingum, sem urðu frá áramótum 1959–60, þegar gengisbreytingin var ákveðin, og þangað til í ágúst 1961, þegar hin nýja ákvörðun var tekin um seinni gengisbreytinguna, — ég skýri nákvæmlega frá þeim verðbreytingum, sem urðu á þessu tímabili, og þær meðaltalstölur um verðbreytinguna, sem ég gat um í ræðu minni, eru byggðar á. Ég tel ekki nema eðlilegt, að það komi fram í umr. nákvæmlega, hvernig þessar tölur, sem ég nefndi og eingöngu voru meðaltal, eru fundnar, þannig að um það þurfi enginn vafi að vera, hvernig hér er reiknað. Verðbreytingin frá áramótum 1959–60 og til ágúst 1961 var þessi á þorsk- og karfaafurðum: Ísfiskur hækkaði um 3.8%, freðfiskur hefur hækkað um 4%, frystur úrgangur hefur hækkað um 12.9%, skreið hefur hækkað um 4%, verkaður saltfiskur hefur hækkað um 11%, saltfiskur óverkaður hefur hækkað um 5%, fiskimjöl hefur lækkað um 25.8%, karfamjöl hefur lækkað um 23%, þorskalýsi hefur lækkað um 41.1%, karfalýsi hefur lækkað um 31.2%, fryst hrogn hafa lækkað um 2.7%, söltuð hrogn eru á sama verði, og ýmsar minni háttar afurðir hafa hækkað um 19.8%. Af þessu yfirliti má það vera ljóst, hvílík sanngirni það er eða hversu réttmætt er hjá hv. þm., sem kom fram í ræðu hans, einnig þeim ummælum, sem ég las, að ég hafi einungis vitnað til þeirra verðlækkana, sem hefðu orðið á þessu tímabili, en gengið fram hjá öllum verðhækkunum, fyrir utan það, að það kom fram í mæltu máli í ræðu minni, að það hefði orðið hækkun á fjölmörgum vörutegundum eða flestum að tölu til, þó að það hefði ekki getað vegið upp á móti þeirri miklu verðlækkun, sem hefði orðið á mjölinu og lýsinu. En meðaltalstölurnar eru byggðar á þessum tölum, sem ég nú nefndi, og þetta gerir það að verkum, að vegið meðalverð á þorsk- og karfaafurðum var í ágúst 1961 1.8% lægra en það var um áramótin 1959–60.

Ef litið er á síldarafurðirnar, þá er sams konar yfirlit þannig: Söltuð Norðurlandssíld hefur hækkað um 5.4%, söltuð Suðurlandssíld hefur hækkað um 1.1%, síldarmjöl hefur lækkað um 18%, síldarlýsi hefur lækkað um 32.6%, og fryst síld hefur lækkað um 5.7%, þannig að á síldarafurðum hefur orðið meðalverðlækkun, sem nemur 10.9%. Og ef tekið er vegið meðaltal af þorsk-, karfa- og síldarafurðum, var verðlagið í ágúst 1961 3.8% lægra en það var um áramótin 1959–60, þegar gengisbreytingin var undirbúin.

Þessar tölur eiga að taka af öll tvímæli um það, hver sannleikurinn er varðandi verðlagið á útflutningsafurðunum, þegar hin nýja gengisbreyting var ákveðin, í samanburði við það, hvert verðlagið var, þegar fyrri gengisbreytingin var ákveðin. En það er ómótmælanlegt og alveg þýðingarlaust fyrir hv. þm. að endurtaka það, þótt hann gerði það þúsund sinnum, að verðlagið hafi í ágúst 1961 verið hærra en það var um áramótin 1959–60. Það er einfaldlega ekki rétt.

Mér hefur þótt ástæða til að verja óvenjulega miklum tíma til þess að útskýra nákvæmlega, að orðum hv. 4. þm. Austf. er ekki treystandi, þegar hann talar jafnvel um staðreyndir, sem á að vera hægt að fá alveg óyggjandi upplýsingar um, því að hann hefur hér haldið beinlínis röngu fram um breytingar á aflamagni á árinu 1960 og hann hefur haldið beinlínis röngu fram um breytingar á verðlagi á árinu 1960 og árinu 1961.

Þá ætla ég að víkja að nokkrum atriðum, sem fram komu í ræðu hv. 1. þm. Austf. (EystJ). Munur á þeim hv. Austfjarðaþingmönnum er sá, að hv. 1. þm. Austf. umgengst sannleikann ekki með sama samblandi af léttúð og fyrirlitningu og hv. 4. þm. Austf. gerir stundum. Það er ekki hægt að segja, að hv. 1. þm. Austf. fari beinlínis rangt með ákveðnar tölur, sem hann tilgreinir í ræðum sínum. En samt sem áður furðar mig mjög á ýmsum ummælum hans, — ummælum, sem eru almennar staðhæfingar, sem hann þó reynir ekki að rökstyðja nánar með tölum, en eru almenns eðlis, þannig að erfiðara kann að reynast að festa þar hönd á. En þó sagði hann í sinni löngu ræðu atriði, þar sem svo augljóslega er málum blandað, að mig satt að segja furðar á því, að jafnþingvanur maður og reyndur maður og hann skuli láta slíkt henda sig. Ég skal nefna nokkur dæmi um það, sem ég tel að hafi verið aðalatriðin í hans málflutningi.

Hann sagði t. d., að kaupmáttur launa hafi verið orðinn 15–20% lægri en hann var við árslokin 1958, þegar kaupbindingarnar voru gerðar á miðju þessu ári. Hér hefur hv. þm. smitazt af málflutningi Þjóðviljans, sem hefur sagt þetta margoft og á þá auðvitað við það, —það liggur í augum uppi, — hann á við það, að vísitala neyzluvarnings hafi hækkað um 15–20% á miðju árinu 1961, miðað við það, sem hún var í ársbyrjun 1960. En hér er auðvitað algerlega gengið fram hjá þeirri staðreynd, að verðlag á ýmsum öðrum vörum hækkaði mun minna en þetta neyzluvöruverðlag, og enn fremur algerlega hunzuð sú staðreynd, að ríkisstj. hafði einmitt gert ráðstafanir til þess að vinna gegn þessari verðhækkun, vinna gegn áhrifum hennar á kjörin með því að auka fjölskyldubætur og lækka skatta. Þetta veit hv. þm. auðvitað vel, og þess vegna ætti hann ekki að láta henda sig annað eins og það að hafa þvílíka fjarstæðu eftir Þjóðviljanum.

Þá sagði hv. þm. líka og gerði það að nokkuð stóru atriði í sinni ræðu til þess að afsaka þær miklu kauphækkanir, sem áttu sér stað á miðju þessu ári, að ekki sé hægt að ætlast til, að nokkur maður lifi á 48 þús. kr. á ári. Og þetta segir hv. þm., þótt hann sé búinn að marglesa það bæði í blöðum og opinberum skýrslum, að á árinu 1960 voru meðaltekjur verkamanna í Reykjavík ekki 48 þús., heldur 75 þús. fyrir utan fjölskyldubætur. Samt lætur þessi hv. þm. henda sig að gera það að stóru atriði í sinni röksemdafærslu, að verkamenn hafi þurft að lifa á 48 þús. kr. á ári, samtímis því sem hann veit, að þeir höfðu 75 þús. kr. auk fjölskyldubóta til að lifa af að meðaltali.

Þá sagði hv. þm., að í þeim tölum, sem ég nefndi um rýrnandi afkomu Þjóðarbúskaparins á árinu 1960, miðað við árið 1959, hafi ég, þar sem ég einkum hafi rætt um sjávarútveginn, gengið fram hjá hlut iðnaðarins og landbúnaðarins í þjóðarframleiðslunni. Það gerði ég náttúrlega ekki. Ég var að ræða um framlag sjávarútvegsins til þjóðarbúskaparins, sem var miklu lægra á árinu 1960 en það hafði verið á árinu 1959. Hliðstæðar athuganir hafa ekki farið fram á framlagi iðnaðarins og landbúnaðarins til Þjóðarframleiðslunnar. Það er án efa rétt, hafi hv. þm. átt við það, að framlag iðnaðarins — sérstaklega iðnaðarins — og einnig landbúnaðarins mun hafa aukizt á árinu 1960, miðað við árið 1959. En honum hlýtur að vera það jafnljóst og mér, að minnkandi hlutdeild sjávarútvegsins á árinu 1960 var mun meiri, minnkun framlags sjávarútvegsins var mun meiri en aukning á hlutdeild iðnaðarins og landbúnaðarins.

Þá sagði hann, þótt það sé smáatriði, að þegar ég hafi áætlað peningateknaaukninguna í krónum, hljóti sú áætlun að vera mjög orðum aukin og sumpart á misskilningi byggð, því að ég hafi sagt, að í kjölfar kauphækkananna mætti reikna með 500–600 millj. peningateknaaukningu á heilu ári, á tólf mánuðum, og auk þess væri rétt að bæta við þessa tölu 300 millj. kr. tekjuaukningu á ári vegna flutnings manna úr verr launuðum stöðum í betur launaðar stöður og vegna fólksfjölgunarinnar. Þetta vill hv. þm. taka þannig, að ég bætti 300 millj. kr. við þjóðartekjurnar í peningum vegna unga fólksins í landinu, eins og hann sagði, og ætlaðist til þess, að tekjur þess yrðu bara teknar af hinum, yrðu bara byrðar á hina. En það var auðvitað ekkert í því, sem ég sagði, sem gaf tilefni til jafnbarnalegrar og fáránlegrar ályktunar og þessarar, vegna þess að auðvitað á unga fólkið, sem hann vill nefna svo, eða aukningin, fólksfjölgunin, auðvitað á hún sinn þátt í þjóðartekjuaukningunni, sem ég áætlaði einhvers staðar á milli 3 og 4%, eða 4% til dæmis, og á því er ekki nokkur vafi, að peningatekjuaukningin 300 millj. vegna flutnings á milli tekjuflokka og vegna fjölgunar á vinnufærum mönnum í landinu er ekki of hátt áætluð. Viðbótin á vinnufærum mönnum á sinn rétta þátt í þjóðartekjuaukningunni eins og hún jafnan verður, og það má líka gera ráð fyrir því, að einhver framleiðniaukning sigli í kjölfar þess, að menn flytjast úr verr launuðum stöðum í hærra launaðar stöður. Menn eru einmitt fluttir á milli starfa, úr verr launuðum störfum í betur launuð störf, af því að afköst vinnu þeirra eru að aukast. Það, að þessi tala, 300 millj., er áreiðanlega ekki of hátt áætluð, sést m.a. á því, sem liggur opinberlega fyrir samkvæmt rannsókn hagstofunnar á skattaframtölum, að á árinu 1960 jukust tekjur verkamanna hér í Reykjavík, launastétta hér í Reykjavík um 6%, samtímis því sem engin breyting varð á opinberum töxtum. Þegar af þessari staðreynd geta menn séð, að þessi tala er áreiðanlega ekki of hátt áætluð.

Þá kem ég að næstsíðasta atriðinu, sem ég vildi gera að umtalsefni í ræðu hv. 1. þm. Austf., en það var það, sem hann sagði um vextina. Hann sagði, — og það var furðulegasta eða næstfurðulegasta staðhæfingin, ég geymi mér það allrafurðulegasta þar til síðast, það var næstfurðulegasta staðhæfing ræðu hans, — hann sagði, að með vaxtalækkun hefði mátt bæta upp kauphækkanir að fullu og meir en það, — að með því að lækka vexti hefði átt að bæta upp kauphækkunina að fullu og meira að segja meir en það. Hvað þýðir þetta, ef þetta er tekið bókstaflega? Það þýðir, að það hefði verið hægt að velta allri kauphækkuninni í landinu yfir á herðar sparfjáreigenda. Ég bið menn um að athuga vandlega, að þessi staðhæfing getur ekki þýtt annað en þetta. Ef það er hægt að láta vaxtalækkun bæta alla kauphækkunina, er m.ö.o. hægt að láta sparifjáreigendur í landinu borga allt hið hækkaða kaupgjald.

Þarf að segja meira en þetta, til þess að það verði öllum, hverju mannsbarni, augljóst, hvílík reginfjarstæða hér er á ferðinni? Við getum gert okkur grein fyrir því í mjög stórum dráttum, hvað kauphækkunin nemur miklum auknum peningatekjum. Ég sagði áðan, að það mundi vera einhvers staðar á milli 500 og 600 millj. kr., og ég skal gjarnan skýra frá því, hvernig það er fengið. Samkvæmt áætlunum Framkvæmdabankans um þjóðartekjurnar 1960, þar sem þjóðartekjurnar voru áætlaðar 5.1 milljarður, voru tekjur launþega í þrengri skilningi taldar 2.7 milljarðar og vinnutekjur bænda 0.5 milljarðar, þannig að beinar launatekjur í þrengsta skilningi voru 3.2 milljarðar. Tekjur vinnuveitenda og forstöðumanna og fleiri slíkra aðila voru taldar 0.7 milljarðar. En eigna- og vaxtatekjur voru nettó 1.2 milljarðar. Samtals 5.1 milljarður. M.ö.o.: hreinar launatekjur í landinu eru einhvers staðar á milli 3.2 og 3.5 milljarða króna. Nú er það alveg óumdeilt, að þessar launatekjur jukust frá 13 til 19%, að meðaltali kannske 14–15%, og þá geta menn séð, að samkv. þessu er það alveg óumdeilanlegt, að aukning peningatekna í landinu í kjölfar kauphækkananna samkvæmt þessum tölum er 500–600 millj. kr. Nú leyfi ég mér að spyrja hv. þm.: Meinar hann þetta virkilega eða hefur hann talað — (Gripið fram í.) Hjá frystihúsunum, það þykir mér mjög vænt um að heyra. (Gripið fram í.) Nei, mér þykir mjög vænt um að heyra, að þetta skuli koma fram hjá hv. þm., og bið afsökunar á því, hafi ég misskilið þetta, en misskilningur minn er að því leyti afsakanlegur, að þessu hefur verið haldið fram hvað eftir annað í blaði hv. þm., Tímanum, og þess vegna hefur eyra mitt verið þunnt í þessu efni. Ég hef auðvitað haldið, að hann væri að tala eins og Tíminn skrifar annan hvern dag. (Gripið fram í: Ráðherrann hefur líklega misskilið það.) Þetta stendur því miður í Tímanum, að ég nú ekki tali um, hve oft það stendur í Þjóðviljanum, því að það kemur varla svo út blað af Þjóðviljanum, að eitthvað álíka þessu sé ekki sagt. Það er því alls ekki að ástæðulausu, að þetta sé rakið svolítið nánar.

Því hefur verið marghaldið fram, að það hefði enginn vandi verið að leysa þessi mál með vaxtabreytingu eða með því að afnema þá hækkun, sem gerð var á vöxtunum. Nú eru að vísu ekki til neinar öruggar skýrslur um heildarvaxtagjöldin í þjóðfélaginu, en þó segja mér þeir menn, sem þessu er kunnugastir, að heildarvaxtagjöld í þjóðfélaginu, heildargjöld, sem vextir hafa breytzt á, geti í allra hæsta lagi verið 400–500 millj. kr., og 2% lækkun á vöxtunum getur því í allra hæsta lagi numið 80–100 millj. kr. Þegar svo enn fremur er höfð hliðsjón af því, að þessi heildarvaxtagjöld í þjóðfélaginu eru auðvitað fjarri því að vera eingöngu gjöld atvinnurekstrarins, hér er um að ræða öll vaxtagjöld einstaklinga, af öllum íbúðarlánum sínum og öllum einkaskuldum sínum, er algerlega augljóst mál, að með vaxtalækkun geti ekki sparazt hjá þjóðinni nema örlítið brot af þeirri kostnaðaraukningu, sem atvinnuvegirnir í heild urðu fyrir vegna kauphækkunarinnar í sumar. Að nefna þetta tvennt í sömu andránni, kauphækkunina annars vegar og vaxtalækkun hins vegar, er því fullkomlega út í bláinn. Það er um að ræða tölur af svo gífurlega ólíkri stærð, að þar kemst enginn samjöfnuður að. Allt það, sem sagt hefur verið um þetta, er sem sagt mælt af fullkomnu athugunarleysi á því, um hvaða talnastærðir hér er raunverulega að ræða.

Varðandi hitt, sem hv. þm. hefur sagt í ræðu sinni, að hægt hefði verið að bæta frystihúsunum einum upp kauphækkunina með vaxtalækkun, þá er það í sjálfu sér einnig algerlega óleyfilegur málflutningur, vegna þess að auðvitað hefði ekki verið hægt að lækka vexti hjá frystihúsunum nema lækka vexti almennt. Ekki er hægt að ætlast til þess, að frystihúsin njóti algerlega sérstakra vaxtakjara, og það hefði í sjálfu sér heldur engin lækning verið, jafnvel þó að það hefði verið hægt að taka eina ákveðna atvinnugrein, ákveðinn fyrirtækjahóp út úr og jafna met hans með því að lækka vexti á móti kauphækkunum. Það hefði engin lausn verið á efnahagsvanda þjóðarinnar að láta þannig auknar tekjur mæta auknum gjöldum hjá einni ákveðinni grein fyrirtækja í landinu. Það er allt of mikið að því gert að taka mjög villandi dæmi um einstök fyrirtæki og jafnvel einstakar greinar, þegar verið er að bera saman þýðingu kauphækkananna og hugsanlegrar vaxtalækkunar. Það, sem þá er gjarnan gert, er að taka mjög skuldug fyrirtæki, eins og sum frystihúsanna óneitanlega því miður eru, og þar sem þýðing vaxtanna er þess vegna miklu meiri en almennt á sér stað í sjávarútveginum, hvað þá í atvinnurekstrinum yfir höfuð að tala, eða þá tekin eru fyrirtæki, sem bera tiltölulega miklu meira af vaxtakostnaði útvegsins en af launum hans, og það á líka við um frystihúsin. Þau bera tiltölulega miklu meiri hluta af vaxtakostnaði, af heildarvaxtakostnaði útvegsins heldur en af heildarlaunum útvegsins, og þess vegna er samanburður á þessu auðvitað algerlega villandi og fullkomlega óleyfilegur.

En þá kem ég að síðustu að þeirri fullyrðingu, sem hv. 1. þm. Austf. viðhafði, að atvinnuvegirnir hefðu getað borið þá kauphækkun, sem samið var um nú í sumar, á þessu ári. Ég verð að segja, að þetta var furðulegasta fullyrðingin í hinni löngu ræðu hv. 1. þm. Austf., enn furðulegri en það, sem hann hafði um vextina að segja. Og þó að hv. 4. þm. Austf. og nokkrir aðrir hafi sagt þetta sama, vil ég segja alveg eins og er: ég geri meiri kröfur til hv. 1. þm. Austf. en annarra manna hér í stjórnarandstöðunni og ætlast til þess, að hann tali öðruvísi, hann tali rökstuddar og öðruvísi en öðrum minni spámönnum kann að fyrirgefast. Þess vegna vil ég um það, sem ég hef um þetta efni að segja, svara honum, en ganga í því efni fram hjá hv. 4. þm. Austf. og öðrum minni háttar spámönnum stjórnarandstöðunnar, af því að ég segi það alveg eins og er, að mér kemur það undarlega fyrir sjónir að heyra aðra eins staðhæfingu og þessa úr munni hv. 1. þm. Austf.

Hvað þýðir það í raun og veru, ef það væri rétt, að atvinnuvegirnir hafi getað borið 13–19% kauphækkun nú á miðju þessu ári? Um það er ekki deilt, að kostnaðarauki atvinnuveganna er 13–19%, þó að menn deili um hitt og ýmsir vilji halda öðru fram um það, hver sé kauphækkun launþeganna vegna þeirra hlunninda, sem í kauphækkununum fólust. Við skulum láta skýringar og deilur um það liggja á milli hluta, því að hitt er óumdeilanlegt, að kostnaðarauki atvinnuveganna var 13–19% að meðaltali, líklega um 15%, þótt ekki þori ég að fullyrða um það með vissu. En hinar tölurnar eru ómótmælanlegar.

Það er alveg augljóst mál, að ef þetta væri rétt, hlyti að hafa verið um óhóflegan gróða að ræða í íslenzku atvinnulífi á undanförnum árum, sérstaklega á árinu 1960, því að næstum allt það ár naut atvinnulífið gengisbreytingarinnar. Það hlyti að hafa verið um óhóflegan gróða að ræða á því ári, ef það væri rétt, að atvinnuvegirnir í heild hefðu getað tekið á sig slíka kauphækkun bótalaust eins og varð nú á þessu ári. En dettur mönnum í hug, að það mundi hafa farið fram hjá hv. stjórnarandstöðu, ef það væri svo, að um slíkan ofsagróða hefði verið að ræða, t.d. í útflutningsframleiðslunni eða í innflutningsverzluninni eða í iðnaðinum? Og það má spyrja: Hvernig stendur þá stjórnarandstaðan sig á verðinum, ef hún hefði horft upp á þvílíkan ofsagróða í kjölfar gengisbreytingarinnar 1960 og fram á mitt ár 1961 án þess að vekja athygli á honum. (Gripið fram í.) Það er alveg rétt, í þessu er ég alveg sammála hv. þm., enda hef ég þegar vakið athygli á því sjálfur margoft, að þær atvinnugreinar, sem að sjálfsögðu högnuðust mest á gengisbreytingunni og bjuggu við langbezt kjör á árinu 1960, voru iðnaðurinn og skipafélögin, og til þessa hefur ríkisstj. líka tekið fullt tillit með því að gefa verðlagsyfirvöldunum bein fyrirmæli að leyfa ekki verðhækkun á iðnaðarvörum í kjölfar gengisbreytingarinnar, nema það sé rannsakað alveg sérstaklega og sýnt með skýrum rökum fram á þörf verðhækkunarinnar, og nákvæmlega sömu verðlagsstefnu hefur ríkisstj. fylgt að því er snertir skipafélögin, svo að til þessarar alveg réttmætu staðreyndar, sem hv. þm. bendir á, hefur verið tekið fullt tillit.

Það er nóg að benda á þessi atriði til þess að sýna fram á, hvílík reginfjarstæða það er, að íslenzkt atvinnulíf hafi verið þannig á vegi statt á miðju þessu ári, að það hafi getað tekið á sig 13–19% kostnaðarauka. En það er í raun og veru alveg óþarfi að vera að deila mikið um þetta, og ég skal hér hafa svipaða aðferð og ég hafði gagnvart hv. 4. þm. Austf., rekja ákveðið dæmi, sem hv. 1. þm. Austf. ætti einnig að vera fullkunnugt um og hann ætti að taka fullt mark á.

Samband ísl. samvinnufélaga er eitt stærsta fyrirtæki á landinu. Ef það væri rétt, að íslenzkur atvinnurekstur yfirleitt hefði búið við svo góð kjör á árunum 1959 og 1960, að hann hefði verið fær um það að taka á sig 15% kauphækkun, 15% kostnaðarauka, skulum við segja til að tala nákvæmlegar, þá hefði Sambandið væntanlega átt að sýna mjög góða afkomu á árinu 1959 og árinu 1960. Þá hefði átt að vera um þann gróða að ræða hjá Sambandinu, sem réttlætti kauphækkunina og réttlætti þátt Sambandsins í þeirri kaupbreytingu, sem varð. Nú er það þannig með Sambandið, eins og opinber fyrirtæki og lýðræðisleg fyrirtæki, að það birtir sína reikninga, þannig að afkoma Sambandsins er ekkert leyndarmál. Að því leyti er Sambandið til mikillar fyrirmyndar í samanburði við önnur fyrirtæki, þar sem menn verða að geta sér til um það, hver afkoman raunverulega er. En Sambandið gefur árlega út bók um afkomu sína, þar sem hún er nákvæmlega sundurliðuð. Það er ástæðulaust að lesa úr bókinni annað en skýra frá því, hvað opinberir reikningar Sambandsins segja um afkomu Sambandsins á undanförnum þremur árum.

Gróði Sambandsins á árinu 1960 nam 6 millj. kr. af heildarveltu að upphæð 120 millj. kr. Hann nam 6 millj. kr. af 120 millj. kr. veltu. Árið áður, 1959, nam gróði Sambandsins 5.2 millj. af 104 millj. kr. veltu. Og árið 1958 nam gróðinn 0.8 millj. kr. Ég hef því miður ekki skrifað veltutöluna hér hjá mér. M.ö.o.: 1958 nam gróðinn 0.8 millj. kr., hann vex á árinu 1959 upp í 5.2 millj., og á árinu 1960 vex hann enn upp í 6 millj. kr. Hitt er svo annað mál, hvort hér verður talið, að um mikinn gróða sé að ræða, að afkoma Sambandsins skuli vera sú, að fyrirtækið skilar 6 millj. kr. af 120 millj. kr. veitu. En hvað segja nú þessar tölur okkur um getu Sambandsins, þessa eins stærsta fyrirtækis á landinu, til þess að standa undir 15% kauphækkun? Því miður eru reikningar Sambandsins ekki svo fullkomnir, að hægt sé að sjá nákvæmlega, hverjar launagreiðslur Sambandsins séu, en þó hef ég fyrir satt, að þær muni vera einhvers staðar í kringum 50 milij. kr., hafi verið á árinu 1960 kringum 50 millj. kr. Og nú vek ég athygli ykkar, hv. þm., á því, hvað þetta þýðir. Það þýðir, að miðað við árið 1960 mundu auknar launagreiðslur Sambandsins á heilu ári vera 7.5 millj. kr. eða m.ö.o. hálfri annarri millj. kr. meiri en ágóðinn á árinu 1960.

Ég held, að hv. 1. þm. Austf. sé varaformaður Sambandsins og fyrrv. formaður þess, og þess vegna er ekki nema eðlilegt, að vitnað sé í þetta fyrirtæki, sem hann er svo nátengdur, þegar hann leyfir sér að halda öðru eins og því fram, að hagur atvinnuveganna hafi á miðju þessu ári verið þannig, að þeir hefðu hæglega, bókstaflega hæglega getað tekið að sér algerlega bótalaust að greiða kostnaðarauka um það bil 15%, sem sigldi í kjölfar hinna nýju kaupgjaldssamninga. En sannleikurinn er þá sá um þetta hans eigið fyrirtæki, að allur ágóðinn á árinu 1960 hefði ekki dugað til að greiða upp kauphækkunina, heldur hefði kauphækkunin siglt Sambandinu út í hálfrar annarrar millj. kr. tap á hinu sama ári. (EystJ: Gengið hefur nú verið lækkað nokkrum sinnum fyrir því.) A.m.k. má SÍS þakka fyrir, að gengið skyldi hafa verið lækkað, því að af þessum tölum er það algerlega augljóst mál, að allt tal hv. 1. þm. Austf. og hans flokksbræðra, sem telja sig bera hag SÍS og samvinnuhreyfingarinnar alveg sérstaklega fyrir brjósti, hlýtur að vera mælt af hinum mestu óheilindum, því að þeir hljóta að hafa gert sér grein fyrir því, að SÍS og samvinnuhreyfingin yfir höfuð að tala hefði með engu móti getað tekið á sig þá auknu kostnaðarbyrði, sem kauphækkunin hafði í för með sér. En SÍS og samvinnuhreyfingin yfir höfuð að tala njóta auðvitað góðs af gengisbreytingunni, eins og önnur fyrirtæki í landinu, og það má því segja um SÍS alveg eins og önnur fyrirtæki í landinu, að gengisbreytingin hafi beinlínis bjargað þeim frá stórkostlegum taprekstri, því að ekki ætla ég Sambandinu það að vera þeim mun verr rekið en önnur fyrirtæki í landinu, að ef kauphækkanirnar setja Sambandið yfir í stórkostlegan halla, þá geti önnur fyrirtæki borið þessa miklu kauphækkun og haldið samt ágóða. Ef þetta væri rétt, ef málinu er snúið svona, þá er sannleikurinn um rekstur Sambandsins allt annar en ég hef alltaf haldið að hann væri.

Ég hef haft trú á því, að Sambandið og samvinnuhreyfingin yfir höfuð að tala rækju sín fyrirtæki betur eða a.m.k. ekki verr en gerist að meðaltali um önnur fyrirtæki í landinu og þess vegna sé alveg öruggt og engan veginn ósanngjarnt að taka afkomu Sambandsins sem mælikvarða á rekstur í landinu yfirleitt. Og hér er engum blöðum um að fletta, hér er í sjálfum reikningum Sambandsins skýrt frá því, að ágóðinn 1959 hafi ekki verið meiri en svo, að hann allur hefði ekki dugað til þess að borga sjálfa kauphækkun Sambandsins, vantaði hálfa aðra milljón upp á. Með hliðsjón af þessu, verður náttúrlega allt tal Framsfl., sem þykist bera hag samvinnuhreyfingarinnar fyrir brjósti, — allt tal hans gegn gengisbreytingunni fær þar algerlega nýtt ljós yfir sig.

Ef þetta ætti við Sambandið, að það gæti greitt 7.5 millj. kr. launahækkun á ári og gengislækkunin hefði verið óþörf Sambandsins vegna, þá skyldi maður búast við því, að það væri von á því alveg á næstu grösum, að Sambandið og samvinnuhreyfingin hæfu stórkostlega verðlækkun á sínum vörum, það lækkaði verð á sínum iðnaðarvörum, það borgaði hærra verð fyrir sinn fisk og það byðist til að lækka álagningu eða stóryki endurgreiðslur á hagnaði til kaupfélaganna. Hefur nokkur orðið var við það, að formaður Sambandsins hafi boðað slíkt? Ekki hafa verðlagsyfirvöldin orðið vör við það t.d., svo að ég nefni eitthvað, sem ég þekki vel til. Ekki hafa þau orðið vör við það, að Sambandið eða kaupfélögin yfir höfuð að tala hafi boðið fram lækkun á álagningu. Þvert á móti, þau hafa staðið við hlið kaupmanna, staðið fast við hlið kaupmanna um það að óska eftir miklu meiri hækkun á álagningu en verðlagsyfirvöldin hafa tekið í mál að samþykkja, svo að hér er allt á eina bók lært. Þau fyrirtæki, sem Framsfl. standa næst, tala skýrustu máli um það, að þær staðhæfingar eru rangar, að atvinnuvegirnir hafi getað tekið á sig þá kauphækkun eða Þann kostnaðarauka, sem samið var um með kaupgjaldssamningunum í sumar.