26.03.1962
Neðri deild: 76. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1072 í B-deild Alþingistíðinda. (956)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Daníel Ágústínusson:

Herra forseti. Það minnast þess vafalaust allir, að í kosningunum haustið 1959 fór fram kapphlaup núverandi stjórnarflokka um að lofa bættum lífskjörum og óbreyttu verðlagi, ef þeir sigruðu í kosningunum. Þá voru stór orð sögð af hálfu flokkanna, og þeir voru jafnvel afbrýðisamir um það, eins og sagt hefur verið, hvor ætti frumritið af þessum loforðum og hver ætti kópíuna. En báðir hafa þeir síðan verið samtaka um það að hlaupa frá öllum kosningaloforðum sínum um bætt lífskjör og stöðugt verðlag í landinu og verið innilega sammála um að leiða yfir þjóðina æðisgengnari dýrtíð, æðisgengnara dýrtíðarkapphlaup en nokkurn tíma hefur verið áður, og er þá mikið sagt.

Eitt fyrsta stigið var gengisbreytingin 1960, 132% gengislækkun íslenzkrar krónu, og olli það því, að mestu nauðsynjar hækkuðu um 70–80% eða meira, en óþarfinn hækkaði aðeins um 30%, og var það alveg í samræmi við stjórnarstefnuna. Byggingarefni, sem telst til hinnar þörfu vöru, hækkaði yfirleitt um 70–80%, samhliða því sem vextir af byggingalánum hækkuðu úr 7% upp í 11–12%, og var það í mörgum tilfellum nær 60% hækkun á vöxtum á byggingalánum. Samhliða þessum víðtæku ráðstöfunum í sambandi við gengisbreytinguna var almenningi sagt, að lífskjörin versnuðu aðeins um 3% hjá barnafjölskyldum, en ekkert hjá öðrum. Þetta er vitanlega sú mesta blekking, sem nokkurn tíma hefur verið haldið fram, og er reynslan nú ólygnust í þeim efnum. Sjávarútvegurinn, sem gengisbreytingin átti einkum að bjarga, var ekki betur settur en svo, að t.d. hin stórvirku tæki, togararnir, að hagur þeirra versnaði um eina milljón 1960, miðað við sama aflamagn og var 1959. Þetta reiknuðu út hinir vísu menn, sem bezt þekktu til togaraútgerðar hér á landi, og var það eðlilegt, þar sem rekstrarvörur þeirra, olía og ýmislegt annað, hækkaði gífurlega samfara tryggingum og vöxtum og ýmsum óhjákvæmilegum útgjöldum í sambandi við togarareksturinn. Með þessu móti og mörgu öðru var meiri dýrtíðaralda skollin yfir þjóðina en dæmi voru til áður. Hér var ekki um neitt óbreytt ástand að ræða, hér var ekki um neina 3% verðhækkun að ræða, heldur var orðin gífurleg hækkun á öllum lífsnauðsynjum, á öllu byggingarefni, á vöxtum og öðru þess háttar. Þetta sagði vitanlega fljótt til sín, og a.m.k. á fyrsta ári og einkum á öðru ári viðreisnarstjórnarinnar drógust byggingarframkvæmdir mjög saman, og lánin, sem hinar opinberu stofnanir veittu til húsbygginga, voru í mörgum tilfellum aðeins fyrir þeirri hækkun, sem kom á byggingarkostnaðinn. M.ö.o.: þessar ráðstafanir ríkisstj. urðu raunverulega til þess að afnema allar lánveitingar, sem áður voru, til húsnæðismála eða jafngiltu því, þar sem lánin námu um það bil hækkuninni og stundum ekki það.

Það verður ekki sagt annað en verkamenn og launamenn hafi samt sýnt nokkra biðlund, því að þeir biðu yfirleitt í eitt ár eða lengur, og á þeim tíma var oft rætt við ríkisstj., margir fundir haldnir með henni, en algerlega án árangurs. Ríkisstj. sat föst við sinn keip og taldi, að ekkert mætti hækka laun í þessu landi, þá rugluðust allar áætlanir ríkisstj., og það voru þau svör og engin önnur, sem fulltrúar launasamtakanna fengu, þegar við ríkisstj. var rætt um þessi mál. Þegar aftur á móti til hörkunnar var komið í fyrravor, lét ríkisstj. eða a.m.k. blöð hennar skína í það, að hugsanlegt væri að hækka kaupið strax um t.d. 3% og kannske væri hægt að hækka það síðar um önnur 3%. Þetta kom þó ekki fram fyrr en eftir að verkfall var skollið á og sýnt var, að þau mál yrðu ekki leyst, nema einhver kauphækkun kæmi til greina. Og síðar, þegar till. sáttasemjara var lögð fram, eftir að verkfall hafði staðið nokkrar vikur, þá mun till. hans hafa verið 6% strax, 4% að ári liðnu og 3% eftir tvö ár. Þessi till. var felld eins og önnur tilboð, sem áður höfðu komið fram. En hér var það sýnt, að stjórnin var komin á undanhald í málinu, hún var farin að viðurkenna, að það væri hægt og nauðsynlegt að hækka kaupgjaldið. Hún var einnig farin að viðurkenna það, að hún þyrfti að skipta sér af þessum málum. Hún hafði lýst því hátíðlega yfir, að það mundi hún aldrei gera, en með þessum afskiptum sínum valdi hún þá leið, sem flestar aðrar ríkisstj. hafa áður gert og ekki er beint hægt að ásaka hana fyrir, þ.e. að hafa afskipti af vinnudeilunni, þegar í óefni var komið. Eftir langvarandi verkfall, einn mánuð eða meira, var svo samið um 12–14% strax, svolítið mismunandi, og 4% til viðbótar 1. júlí 1962. Þegar þetta hafði skeð, hófst einn óhugnanlegasti þáttur þessa máls. þm. stjórnarliðsins, þm. Alþfl. og Sjálfstfl., er hóað saman á fund hér í Reykjavík, aðeins tveggja klst. fund, og þeim er talin trú um, að þessi smávægilega kauphækkun sé svo alvarleg, raski svo grundvelli efnahagslífsins, að óhjákvæmilegt sé að láta nú þegar 13–14% gengisfellingu skella yfir. Þetta var þó ekki það versta, sem stjórnin ákvað á þessum skyndifundi, þessum tveggja tíma fundi með sínum stuðningsmönnum hér í þinginu, heldur það að svipta Alþingi gengisskráningarvaldinu, og svo slæm sem gengisbreytingin sjálf var, þá voru þessi vinnubrögð að svipta Alþingi gengisskráningarvaldinu enn þá alvarlegri og enn þá verri. Ég hygg, að þetta sé, eins og þá stóð á, alveg fáheyrð ráðstöfun, og hefur það ekki verið skýrt með neinum rökum, hvers vegna stjórnin valdi þá leið umfram venjulega gengisbreytingu.

Þessi ráðstöfun og sérstaklega sú aðferð að svipta Alþingi gengisskráningarvaldinu með brbl., sem tókst með því að telja kjarkinn í sína eigin menn, var vissulega hnefahögg í garð launastéttanna og sú mesta ögrun, sem hugsazt gat. Flestar aðrar leiðir hefðu verið betri, og það er öruggt mál, að þessi ráðstöfun, sem var fyrst og fremst hefndarráðstöfun gagnvart launastéttum landsins, hlýtur að hefna sín síðar meir. Næst þegar setzt verður að samningaborðinu, munu launastéttirnar vara sig á þeim hrekk, sem ríkisstj. hefur hér viðhaft. Þegar samið var eftir verkfallið í fyrravor, munu fulltrúar launastéttanna ekki hafa gert ráð fyrir því, að slíkum aðferðum væri beitt eins og þarna kom í ljós. Þær munu áreiðanlega nú vera á verði fyrir því, að slíkt endurtaki sig ekki, að ríkisstj. eða ráðgjafar hennar í Seðlabankanum geti hvenær sem er tekið aftur þá hækkun, sem vinnst í sambandi við kjarabaráttuna. Þetta er mjög svipuð aðferð og ein stétt — mjög fjölmenn stétt — hefur verið beitt undanfarin ár, það er kennarastéttin. Í fyrra báru kennarar fram þá ósk, að kjör þeirra yrðu bætt sem svaraði einum launaflokki. Þetta var algerlega hunzað af ríkisstj. Kennarar hafa enga áheyrn fengið um sérstakar kjarabætur, enda þótt viðurkennt sé, að þeir standi verr að vígi eða laun þeirra séu lakari en flestra annarra launastétta í landinu. Ég hef heyrt á tal kennara um þessi mál, og þeir segja, að nú hafi skapazt svo almenn samtök fyrir bættum hag og kröfurnar hafi hækkað það mikið, að nú sé alveg tilgangslaust fyrir ríkisstj. að ræða um einn launaflokk, sem auðvelt hefði verið að semja um í fyrra. Kennarastéttin hefur núna undirbúið stærri og öflugri hreyfingu til að ná sínum málum fram heldur en nokkurn tíma hefur verið gert áður. Þetta og ýmsar samþykktir verkalýðsfélaga í sambandi við þessi mál og í sambandi við hina ört vaxandi dýrtíð bendir til þess, að launastéttirnar séu enn albúnar að segja viðreisnarstefnu ríkisstj. stríð á hendur.

Í sambandi við þessi mál er enn fremur fróðlegt að minnast á það, og það bendir örugglega á, hver þróunin er í byggingamálum landsins, að 1958 eru seld 96 þús. tonn af sementi hér innanlands. Á síðastliðnu ári, 1961, eru aðeins seld 61 þús. tonn á innanlandsmarkaði, eða lækkun á sementssölu er nálægt 35–40%. Og nú horfir málið þannig við, að sementsverksmiðjan framleiðir og framleiðir gjall til að mala í sement, en sú stærsta birgðaskemma á Íslandi, birgðaskemma sementsverksmiðjunnar á Akranesi, sem mun vera rúmlega 100 þús. rúmmetrar, er löngu orðin full, og það er malað og malað í port við hliðina á efnisgeymslunni og fyllist það óðum, og munar minnstu, að gjallið sé þegar farið að renna í sjóinn. Stjórnin magnar dýrtíðina, sementsverksmiðjan malar og malar gjall, en fólkið getur ekki keypt sementið, verðlagið hækkar svo gífurlega, samhliða öðrum ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið til þess að minnka möguleika fólksins í landinu til þess að byggja sér húsnæði. Þetta minnir aðeins á ástandið í Ameríku á kreppuárunum, þegar sagt var, að bændur hefðu orðið að brenna kornbirgðir sínar til þess að geta fengið sæmilegt verð fyrir afganginn.

Þetta er spegilmynd af þeim kreppuráðstöfunum, sem er verið að búa til í landinu. Mundu þó margir telja, að bygging íbúðarhúsnæðis sé hin nauðsynlegasta framkvæmd. sem vaxandi þjóð verður að standa að.

Í þessu sambandi er rétt að minna á eitt. Á s.l. ári hafa farizt óvenjulega margir bátar hér við land. Ég hef það eftir kunnugum mönnum, að ekki færri en 15 stórir og öflugir vélbátar og a.m.k. einn togari hefur farizt s.l. ár. En það, sem hefur bætzt við í fiskibátaflota landsmanna, er sáralítið, það eru hverfandi fá skip, sem hafa komið í staðinn. Þróunin á síðasta ári er þess vegna örugglega sú, að bátafloti landsmanna minnkar að rúmlestatölu. Þetta er öfug þróun, sé miðað við hin síðustu 3–4 ár, sem hefur sýnt svo greinilega, að ekki verður um villzt, að aukið hefur svo mjög framleiðslumöguleika þjóðarinnar, því að það er ekki girnilegt að bæta um, þegar bátur ferst, Þar sem verðlag á miðlungsbátum að stærð mun vera um 6–9 millj., eftir því sem upplýst var hér á Alþingi í dag af hæstv. bankastjóra Jóhanni Hafstein, og það mun áreiðanlega þurfa að leita talsvert lengi til þess að finna menn, sem geta ráðizt í slíkar framkvæmdir, þegar verðlagið er orðið slíkt eins og hér er um að ræða. En hvað segir svo reynslan eftir þetta s.l. ár, 1961? Hafa þau rök, sem sett voru fram fyrir gengisbreytingunni í ágúst s.l., rætzt eða ekki? Ég hygg, að skýrsla Seðlabankans, sem minnzt hefur verið á áður hér í þessum umr., sé ef til vill bezta vitnið í þessum málum, og það ætti a.m.k. að vera vitni, sem hv. stjórnarsinnar tækju gilt. Ég held, að skýrsla bankastjórnar Seðlabankans sé bezta sönnun þess, að hér var um ótímabærar hefndarráðstafanir að ræða í garð launastétta landsins, því að bankastjórar Seðlabankans segja, eftir að þeir eru búnir að ræða um aflabrest togaranna á s.l. ári, sem allir þekkja nú, með leyfi hæstv. forseta, að „á móti þessum erfiðleikum“, þ.e. togaraútgerðarinnar, „komi stóraukin síldveiði, bæði á sumarvertíð fyrir norðan land og austan og haustvertíð fyrir Suðvesturlandi. Má þakka þann aukna afla að verulegu leyti nýrri veiðitækni, sem vaxandi fjöldi báta hefur tekið upp og vonir standa til að geri síldveiðarnar að árvissari atvinnugrein en reyndin hefur verið áður fyrr. Verðlag á síldarafurðum batnaði einnig á árinu frá því, sem var 1960, sérstaklega hækkaði verð á síldarmjöli, og hagstæðir samningar tókust með sölu á miklu magni af saltsíld. Þegar á heildina er litið, hefur verð á útflutningsafurðum batnað verulega á árinu 1961,“ segir stjórn Seðlabankans enn fremur. Ég held, að þetta séu beztu eftirmæli um það, hvers vegna atvinnulífið hefur gengið vel s.l. ár og hvers vegna þessar ráðstafanir, sem ríkisstj. gerði í fyrrasumar, eru einberar hefndarráðstafanir og algerlega ótímabærar.

Í sambandi við þróun þessara mála munu þm. minnast þess, að fjmrh. gaf þá skýrslu hér á hv. Alþ. s.l. miðvikudag, að ríkið hefði á síðasta ári orðið að greiða 68 millj. í ríkisábyrgðir og aldrei orðið að greiða jafnháa upphæð. Þetta er athyglisvert, og þessar tölur tala sínu máli og sanna, að þessar viðreisnarráðstafanir stjórnarinnar hafa ekki allar nægt til þess, að atvinnulífið gengi eins og það ætti að ganga. Þrátt fyrir það þó að seðlabankastjórnin segi, að aflinn hafi verið meiri en nokkru sinni áður, — og munar það um 121 þús. tonnum, sem aflinn jókst á síðasta ári, frá því, sem var 1960, — verðlag hafi hækkað og þar fram eftir götunum, hefur aldrei orðið að greiða meira í ríkisábyrgðir heldur en á s.l. ári, og langstærsti hlutinn af greiddum ríkisábyrgðum er einmitt til sjávarútvegsins eða útflutningsframleiðslunnar, og það hefur aldrei verið hærri upphæð en einmitt þetta s.l. ár. Ég hef athugað þessa skýrslu samkvæmt hinu ágæta boði hæstv. fjmrh., og þar kemur í ljós, að það hafa verið greiddar milljónir í ábyrgðir s.l. ár og það sem af er þessu ári fyrir ýmis frystihús, sem lifðu alveg sæmilegu lífi á hinum svonefndu vinstristjórnarárum, bárust sæmilega af, en s.l. ár og það sem er af þessu ári hefur orðið að greiða fyrir þessi frystihús 1–2 millj. og jafnvel meira, og mennirnir, sem stjórna þessum frystihúsum sumum og standa að þeim, eru einmitt mennirnir, sem ríkisstj. segir að vegsama vaxtaokrið, vegsama lánsfjárskortinn og vegsama þessar ráðstafanir, sem eru að drepa atvinnurekstur viðkomandi manna. Þessar tölur um ríkisábyrgðir eru bezta spegilmynd af þeim rekstrargrundvelli og þeim erfiðleikum, sem atvinnulífið á við að búa, og þess vegna er furðulegt, þegar málpípur stjórnarinnar. geta sungið dýrðin, dýrðin, um leið og þeir hinir sömu menn verða að láta ríkið greiða milljónir í ábyrgðum fyrir eigin atvinnurekstur vegna þeirra ráðstafana, sem ríkisstj. stendur að.

Hæstv. ríkisstj. mun sannfærast um, að það er rétt, sem segir í Heilagri Jóhönnu, að „reiðin er slæmur ráðgjafi“. Frv. þetta er staðfesting á sviknum kosningaloforðum stjórnarflokkanna, einhverjum þeim mestu, sem sögur fara af á Íslandi, og í verri og óhugnanlegri búningi en nokkurn gat órað fyrir. Ráðgjafar stjórnarinnar, bankastjórar Seðlabankans, hafa m.a. orðið til þess að sanna það í skýrslu sinni, að þetta er rétt. Því er virðingu Alþingis bezt borgið með því að fella þetta frv. og færa gengisskráninguna til baka, eins og hún var fyrir 1. ágúst 1961, og stjórnin mundi sanna, að það yrði mesta gæfusporið, sem hún stigi, og auðveldara yrði að fást við þau vandasömu mál, sem nú eru fram undan í sambandi við þær kröfur, sem verkamenn og aðrar launastéttir setja nú óðfluga fram.