26.03.1962
Neðri deild: 76. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1078 í B-deild Alþingistíðinda. (958)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Gunnar Jóhannsson:

Í upphafi þessa þings, eða nánar tiltekið á fyrstu dögum þess, var útbýtt hér á Alþingi frv. því, sem hér liggur fyrir til 3. umr., um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands. Frv., sem er stjfrv., er flutt í því skyni að fá staðfest brbl., sem útgefin voru 1. ágúst í sumar, þar sem Seðlabanka Íslands var falið að ákveða stofngengi íslenzku krónunnar gagnvart erlendum gjaldeyri, eða m.ö.o. valdið til að skrá gengi íslenzkrar krónu er tekið af Alþingi og afhent Seðlabanka Íslands. Bankastjórar Seðlabankans gripu fegins hendi hið mikla vald, sem hæstv. ríkisstj. ásamt forseta landsins hafði fengið þeim í hendur, og verð á erlendum gjaldeyri var hækkað um 13.1% og lækkun íslenzku krónunnar tilsvarandi.

Áður en orsakirnar fyrir hinni nýju gengisskráningu verða ræddar, tel ég rétt að ræða lítillega um starfsaðferðir hæstv. ríkisstj. í sambandi við hina nýju gengisskráningu. Samkv. stjórnarskránni hefur ríkisstj. leyfi til að gefa út brbl., ef sérstaklega stendur á, eða eins og segir, þegar brýna nauðsyn ber til o.s.frv. Engin ríkisstj. má, svo framarlega sem hún vill halda í fullum heiðri embætti sínu, misnota þetta vald. Ríkisstj. ber á hvaða tíma sem er og í öllum málum að sýna fyllstu sanngirni gagnvart þegnunum, og sízt af öllu má ríkisstj. beita hlutdrægni eða gera upp á milli þegnanna á kostnað annars hvors aðilans. Þetta er viðtekin regla hjá öllum ríkisstjórnum í öllum löndum, sem vilja halda lýðræði í heiðri.

Nú er það svo, að útgáfa nefndra brbl. var að mínum dómi hin freklegasta árás á mikinn meiri hl. þjóðarinnar og sett í fullri óþökk alls almennings í landinu. Það eitt út af fyrir sig að gefa út brbl., sem hæstv. ríkisstj. hefur hlotið að vita að ekki áttu fylgi að fagna hjá þjóðinni, heldur hið gagnstæða, er stórvítavert og hefði átt vitanlega að vera nægilegt til þess, að sú ríkisstj., sem þannig hefur brotið af sér í huga alþjóðar, hefði látið það vera sitt fyrsta verk, eftir að þing kom saman í haust, að segja tafarlaust af sér. En sjálfsagt hefur ekkert slíkt hvarflað að hæstv. ráðh. Það, sem er þó langalvarlegast í þessu máli, er, að setning brbl. er ekki í anda sjálfrar stjórnarskrárinnar, heldur alveg þveröfugt. Um þessa hlið málsins hefur verið rætt af þeim, sem hér hafa talað í málinu á undan mér, og það af fleiri en einum, og get ég því látið þetta nægja. Ég vil þó alveg sérstaklega undirstrika það, að brbl. má ekki gefa út, nema brýna nauðsyn beri til. Á þeim einu forsendum getur forseti Íslands gefið út brbl. á milli þinga. Þetta er svo skýrt afmarkað í stjórnarskránni, að um þetta þarf ekki að deila. Að svipta Alþingi því lagalega valdi, sem það eitt hafði til að ákveða um gengi krónunnar gagnvart erlendri mynt, er athæfi, sem tæplega mun eiga sér hliðstæðu í allri þingsögunni. Að taka vald til að skrá gengi íslenzkra peninga og afhenda það sérstakri peningastofnun, er eitt út af fyrir sig nægilegt til þess, að ríkisstj. sé harðlega vítt fyrir slíkt, að taka slíkt vald úr höndum Alþingis og afhenda það nokkrum bankastjórum hlýtur að vera umdeild ráðstöfun, svo að ekki sé meira sagt, ráðstöfun, sem er sízt til þess fallin að auka á virðingu Alþingis hjá öllum almenningi í landinu, að ég nú ekki tali um þá hæstv. ráðh., sem framkvæmt hafa slíkt gjörræði, sem hér um ræðir.

Þá kem ég að því, hverjar geti verið orsakirnar fyrir því, að hæstv. ríkisstj. greip til þessa óyndisúrræðis. Þær hljóta að hafa verið mjög veigamiklar. Annars hefði hæstv. ríkisstj. ekki leyft sér að fara inn á þessa braut.

1958 var tímakaup verkamanna víðast hvar á landinu 21,85 kr. á klst. í desember sama ár urðu stjórnarskipti í landinu. Vinstri stjórnin fór frá völdum, m.a. vegna ósamkomulags um ráðstafanir í efnahagsmálum og ráðstafanir um kaupgjaldsmál samkv. sérstökum tillögum, sem fram voru settar af ráðherrum Framsfl. Ég mun ekki hér gera þær tillögur sérstaklega að umræðuefni, en þær voru þannig, að verkalýðsfélögin töldu sig þá ekki geta fellt sig við þær. Og út frá því taldi þáv. forsrh. sig ekki heldur geta borið áfram ábyrgð á ríkisstj., sem endaði svo með því, að vinstri stjórnin sagði af sér. Tók þá við völdum ný ríkisstj., flokksstjórn Alþfl. með hlutleysi Sjálfstfl.

Það leið ekki á löngu, frá því að flokksstjórn Alþfl. tók við völdum, að hagur verkafólks í landinu stórlega versnaði frá því, sem áður hafði verið. t febrúar 1959 var allt tímakaup verkafólks lækkað niður í 20.67 kr. Það mun hafa verið nálægt því 5.4% lækkun frá því, sem áður hafði verið. Mánaðarkaup verkamanna varð því rúmar 4000 kr. á mánuði, gengið út frá 8 klst. vinnudegi. Geta nú allir séð, eins og þessum málum er komið, eins mikil og dýrtíðin er, hvernig verkamenn eða fólk, sem hefur ekki hærri tekjur, hefur átt að geta lifað af ekki hærri launum en þessum. En þar með er ekki öll sagan sögð enn. Með gengisfellingarlögunum, sem samþykkt voru 1960, og ýmsum öðrum ráðstöfunum, var enn á ný ráðizt allharkalega á lífskjör fólksins í landinu og þau stórlega skert frá því, sem áður hafði þekkzt, kaupmáttur launanna stórlega rýrður um mörg prósent. Afleiðingarnar af öllu þessu urðu svo þær, að verkalýðsfélögin sögðu upp kaupgjaldssamningum sínum við atvinnurekendur. Það skal þó tekið fram, að verkalýðsfélögin sýndu alveg sérstaklega mikla þolinmæði í sambandi við þessi mál og gerðu allt, sem hægt var, til þess að rétta hlut meðlima sinna með samkomulagi við atvinnurekendur og hæstv. ríkisstj., en án nokkurs árangurs. Það hlaut því að draga að því, að fyrr eða síðar yrði því ekki forðað, að aðrar leiðir yrðu farnar en samningaleiðin.

Á s.l. ári, nánar til tekið í júní s.l., var boðað til vinnustöðvunar í mörgum stærstu félögum á landinu. Hæstv. ríkisstj. setti sig algerlega á móti öllum kröfum verkalýðsfélaganna og stappaði stálinu í atvinnurekendur um það að neita öllum hækkunartillögum verkalýðsfélaganna. Mér er þetta sjálfum persónulega vel kunnugt, vegna þess að ég var með í samningum við það verkalýðsfélag, sem ég er í norður á Siglufirði, og vissi ég til þess og hægt að sanna það hvenær sem vera vill, að ráðherrarnir beinlínis lögðu á móti því, að fyrirtæki ríkisins á Siglufirði, síldarverksmiðjur ríkisins, gerði nokkra samninga við viðkomandi verkalýðsfélög, og meira að segja torvelduðu það, að samningarnir yrðu gerðir fyrr en eftir hálfan mánuð frá því, sem hefði þurft að vera. Beitti sér þar enginn frekar á móti en hæstv. sjútvmrh. Í júní s.l. náðust svo samningar á Húsavík og síðar við samvinnufélögin á Akureyri um 10% hækkun á dagvinnukaupi og nokkur önnur atriði, svo sem 1% í slysatryggingasjóð verkalýðsfélaganna, hækkun á eftirvinnu og 4% hækkun, sem ganga skyldi í gildi eða koma til hækkunar á kaupi í júní í sumar. Það skal tekið fram, að þessir samningar voru sannarlega ekki gerðir með vilja og vitund hæstv. ríkisstj. Mér er vel kunnugt um, að hæstv. ríkisstj. gerði allt, sem hún gat, til þess að eyðileggja þessa samninga og torvelda, að þarna næðist samkomulag á milli samvinnuhreyfingarinnar og verkalýðshreyfingarinnar. En það voru bara önnur öfl, sem þar voru að verki, sem betur fór, og fyrir atbeina þessara aðila var beinlínis síldarvertíðinni bjargað. Það er ekkert leyndarmál, að ef stefna hæstv. ríkisstj. hefði sigrað, hefði engin síldarvertíð orðið, hvorki á Norður- né Austurlandi eða annars staðar í sumar. Það var beinlínis stefnt að því að stöðva þennan atvinnurekstur, með fullri vitund og fyrir beina aðstoð, vil ég segja, ríkisstj. í sambandi við þessi mál.

Eftir að búið var að semja á þessum stöðum, náðust svo samningar við atvinnurekendafélagið á Siglufirði. Þá mun hæstv. ríkisstj. hafa verið ljóst, að ekki var á því stætt öllu lengur að neita öllum samningum við verkalýðsfélögin, auk þess sem þá nokkru á eftir náðust samningar hér í Reykjavík, við samvinnufélögin hér, sem vitanlega varð til þess, að deilan hérna leystist fyrr en ella. En hlutur hæstv. ríkisstj. verður ekkert betri í þessu máli fyrir það, því að hún gerði sannarlega ekkert til þess að leysa þessa deilu, heldur alveg þveröfugt, gerði allt, sem hægt var til að draga hana á langinn, þreyta meðlimi verkalýðsfélaganna með löngu verkfalli, sem hægt hefði verið að leysa, ef vilji hefði verið til, á örfáum dögum, í staðinn fyrir það, að verkalýðsfélögin urðu að standa í margra vikna verkfalli, að mestu leyti eða öllu leyti vegna mótþróa af hendi ríkisvaldsins.

En hæstv. ríkisstj. hefur sannarlega hugsað sér að ná sér niðri á verkalýðshreyfingunni eins fljótt og því yrði við komið, því að 1. ágúst s.l. gaf hún út brbl. og fól Seðlabankanum að lækka gengi íslenzkrar krónu um nákvæmlega sömu upphæð og kauphækkanirnar, sem fengust fram í fyrra, námu. Hæstv. menntmrh. hefur hælt sér af því í blaðaviðtali úti í löndum, að ríkisstj. hafi lækkað gengi íslenzkrar krónu um 13% á einni nóttu. Það er sannarlega hægt að hæla sér af flestu! Og hann bætir því við: og þar með tekið svo að segja alla þá kauphækkun, sem hefði náðst fram í vinnudeilunum í vor.

Ég held, að það verði tæplega um það deilt, að gengisfellingin í ágúst í sumar hafi verið hefndarráðstöfun gagnvart verkalýðssamtökunum, gerð í trausti þess, að verkalýðsfélögin, sem búin voru að standa í verkfalli í margar vikur, treystu sér ekki til þess þá að svara þessum árásum með nýjum gagnráðstöfunum. Því miður verður það að viðurkennast, að verkalýðshreyfingin hefur ekki fram á þennan dag treyst sér til eða viljað leggja út í nýjar aðgerðir og orðið að þola bótalaust það, sem ríkisvaldið rændi af hinum vinnandi stéttum með gengisfellingarlögunum frá 1. ágúst s.l. Hins vegar er hægt að segja það, hvar sem vera vill, að verkalýðshreyfingin mun fyrr eða síðar krefjast síns réttar fyrir hönd meðlima sinna. Verkalýðshreyfingin mun nú sem oftast nær áður athuga sinn gang mjög vel og ekki leggja til atlögu, nema hún sé nokkurn veginn örugg um það, að hún fari með sigur af hólmi. Við höfum lært margt af þeim aðgerðum, sem voru gerðar núna í sumar, og það er mjög gott að draga rétta lærdóma af því, sem fyrir kemur. Og það má segja, að til þess eru vítin að varast þau. Það er ekki alveg víst, að verkalýðsfélögin, ef þau fara út í deilu á annað borð, sleppi þessu máli úr höndum sér svo auðveldlega, að ríkisstj., hver sem hún kynni að verða, geti náð sér eins vel niðri á verkalýðshreyfingunni og hún taldi sig gera með því að lækka gengið í sumar. Hæstv. ríkisstj. getur máske hrósað sigri í bili, en hún má vera alveg fullviss um það, að verkalýðshreyfingin mun fyrr eða síðar taka þessi mál til rækilegrar athugunar. Og þessi mál hafa þegar verið rædd í verkalýðsfélögunum. Þau eru þegar að undirbúa sig undir átökin, hjá því verður ekki komizt, og hæstv. ríkisstj. má reikna með því, að fyrr en varir verði lagt til atlögu, og þeirri atlögu verður ekki hætt, fyrr en aftur er búið að heimta það, sem af þeim var rænt s.l. sumar, og kannske frílega það.

Ég verð að segja, að það er mjög athyglisvert, að hæstv. ríkisstj. skyldi nú í sumar, eftir allt það, sem á undan var gengið, eftir að búið var að sauma eins að launastéttunum í landinu og gert hafði verið með efnahagsráðstöfununum og mörgum öðrum hliðstæðum ráðstöfunum, enn á ný vega í sama knérunn og hún hefur áður oft gert. Og ég vil segja það að lokum, að ég vil aðvara hæstv. ríkisstj. alvarlega um að halda ekki sama leiknum áfram. Það eru takmörk fyrir því, hvað hægt er að bjóða launastéttunum. Það eru takmörk fyrir því, hvað hægt er að færa lífskjörin niður. Í dag eru lífskjörin hjá almenningi, þannig, að það er svo að segja útilokað, að verkamaður, sem vinnur er ekki nema 8 klukkustundir á dag, geti lifað af því. Eða viljið þið, hv. alþm., lifa af 4500 kr. á mánuði? Hver mundi vilja gera það? Ég veit ekki. Mundu hæstv. ráðh. treysta sér til þess? Ég held ekki. Nei, ég held, að hér hafi verið stigið það stórt skref í þá átt að rýra kjör hins vinnandi manns, að sá mælir hlýtur að vera orðinn fullur, og fyrr eða síðar mun koma til kasta verkalýðssamtakanna og annarra launþegasamtaka í landinu að svara fyrir sig og það þá á eftirminnilegan hátt.