14.02.1963
Neðri deild: 41. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1081 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

144. mál, heimild til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Vegna fsp. síðasta hv. ræðumanns skal þess getið, að ekki hefur verið ráðgert, að annað frv. um endurreisn Skálholtsstaðar yrði flutt á þessu Alþ. af hálfu ríkisstj. Það er rétt, sem hann sagði, að yfirstjórn kirkjulegra málefna er auðvitað hjá Alþ., þar sem hér er ríkiskirkja, en Alþ. hefur fyrir nokkrum árum samþ. löggjöf um að láta kirkjuna fá aukin ráð yfir sínum eigin málefnum með kirkjuþingi og kirkjuráði, og ég hefði frekar vænzt aðfinningar við þetta frv. þess efnis, að kirkjuþingi væru ekki ætluð bein ráð yfir staðnum, heldur en að því sé fundið, að kirkjunni séu fengin of mikil ráð yfir þessum efnum með frv., eins og það liggur fyrir. Ástæðan til þess, að kirkjuþingi er ekki blandað í málið, er hins vegar sú, að kirkjuþing ræður að mestu skipun kirkjuráðs og hefur þannig óbein áhrif á meðferð þessa efnis, auk þess sem eðli málsins segir um það, að engin meiri háttar ákvörðun um starfrækslu staðarins yrði tekin nema í samráði við kirkjuþingið.

Mér virtist hv. 1. þm. Austf. gera alveg rétta grein fyrir meginefni frv. Það er rétt, sem hann sagði, að frv. tryggir það, ef að lögum verður, að héðan í frá verði engin starfræksla ákveðin í Skálholti nema með samþykki hinna kirkjulegu yfirvalda, fyrst og fremst biskups og kirkjuráðs og kirkjuþings, með þeim hætti, sem ég áður vitnaði til. Alveg eins er það ljóst, að óráðlegt er, þótt það sé á valdi Alþ. að kveða á um það, að biskupsstól skuli setja í Skálholti, — það er óráðlegt að gera það nema að fengnum till. og samþykki þessara kirkjulegu yfirvalda. Ég hygg, að allir, sem um þessi málefni hafa hugsað, verði að viðurkenna, að sjálfstjórn kirkjunnar sé sízt of mikil, þar þurfi frekar við að bæta en úr að draga. Og við skulum játa það alveg hreinskilnislega, að hér á Alþ. er nú og hefur verið um nokkuð langt skeið lítill áhugi fyrir kirkjulegum málefnum, og þess vegna var sú ósk kirkjunnar að fá kirkjuráð og kirkjuþing eðlileg á sínum tíma. Þetta eru að mestu leyti ráðgjafarstofnanir nú. Með þessu frv. er þeim fengið nokkuð aukið vald frá því, sem verið hefur, m.a. þessi áhrif á Skálholtsstað, sem búið er að gera grein fyrir, bæði í minni framsöguræðu og af síðari ræðumönnum, einkanlega 1. þm. Austf., þannig að ég hygg; að út frá kirkjunnar sjónarmiði hljóti þetta frv. að stefna í rétta átt. Og það er alveg víst, að hvaða skoðun sem menn hafa á því, hvort biskupsstóll eigi að vera í Skálholti eða ekki, þá spillir frv. þeirri hugmynd að engu. Það er frekar, að frv. greiði fyrir. En hitt er rétt, að það segir ekki til um, að biskupsstóll eigi að vera í Skálholti, og ég verð að láta nokkra undrun í ljós yfir því, þegar síðasti ræðumaður taldi, að ýmsir hefðu orðið fyrir vonbrigðum yfir, að nú skyldi ekki flutt frv. um endurreisn biskupsstóls í Skálholti, eftir að það liggur fyrir, að kirkjuþing og kirkjuráð hafa ekki gert neina till. í þá átt, heldur þvert á móti um þá skipun mála, sem í þessu frv. er fólgin. Og ég held, að það væri engum til góðs að ganga þvert ofan í till. þessara aðila um skipan biskupsstóla á Íslandi.

Það má að sjálfsögðu endalaust færa rök með og móti því, hvort biskupsstóll eigi að vera í Skálholti — og þá væntanlega á Hólum líka, áður en langt um liður. Eftir því sem ég hef heyrt á umr. manna um það efni, þá byggjast þær, eins og að vísu umr. um margt fleira, meira á tilfinningum en rökum, þannig að rökræður koma að tiltölulega litlu gagni. Þeir, sem festa sig við aðra hvora hugmyndina, láta ekki haggast, hvaða rök sem færð eru með eða á móti. Hinu getum við ekki mælt í gegn, að biskup er fyrst og fremst sá embættismaður, sem á að hafa samband við prestastétt landsins, og mikill hluti af hans starfi er einmitt fólginn í margs konar viðtölum við presta og milligöngu um þeirra málefni við ríkisstj. Að mínu viti er það ein höfuðmótbára gegn flutningi biskupsstóls úr Reykjavík, að biskupi yrði þetta hans höfuðverkefni mun erfiðara, ef hann sæti í Skálholti, heldur en í Reykjavík. Hv. 1, þm. Vestf. gat þess að vísu, að biskup ætti að hafa skrifstofu í Reykjavík. Þá fer nú sannast að segja að verða litill munur hér á. Með þessu er í raun og veru viðurkennt, að hann verði að hafa aðsetur hér, vegna þess að Skálholt sé þannig í sveit sett miðað við núv. samgöngur og byggðarlög á Íslandi, að þar sé óhægt til hans að ná og óhægt fyrir biskup að ná til annarra. En ef biskup ætti einungis að sitja í Skálholti, mundi það verða til þess, að þeir kirkjunnar menn, prestar og aðrir, sem utan af landi koma og eiga erindum að gegna hér, þyrftu með nokkurri fyrirhöfn og ærnum kostnaði að gera sér ferð austur til Skálholts, og biskupi yrði sýnu óhægara en ella að hafa samband við þau stjórnarvöld hér, sem hann þarf að gera á vegum þessara manna.

Ég vil ekki neita því, að í mínum huga ráða þessi rök ákaflega miklu. Mér dettur ekki í hug og veit af fenginni reynslu og samtölum við 1. þm. Vestf., og hygg, að svo sé um fleiri, að þessi rök bíta ekki nokkurn skapaðan hlut á þann hv, þm. né aðra þá, sem sömu skoðunar eru og hann. Þeir virðast skoða þetta mál frá æðri andlegum sjónarhól, sem ég verð að játa að ég get ekki klifið. En um þetta má endalaust deila, eins og ég segi. Þarna talast menn á eftir alveg tveimur ólíkum samgönguleiðum, ef svo má segja. Hitt held ég, að við hljótum allir að vera sammála um, að það væri ekki hyggilegt og ekki gerlegt að flytja setur biskupsins, nema því aðeins að prestastéttin og þau kirkjulegu yfirvöld, sem Alþ. hefur sett að fengnum till. bæði prestastéttar og annarra áhugamanna í þessu efni, — á ég þá við kirkjuþing og kirkjuráð, — séu því samþykk, að svo sé gert, og einkanlega komi till. frá þeim.

Mér virðist þetta vera meginatriði þess máls, hvort tímabært sé eða heppilegt að flytja biskupinn úr Reykjavík. Ég vil svo aðeins bæta því við, að þó að helgi Skálholtsstaðar sé að sjálfsögðu mikil, þá er auðvitað verkefni biskups ekki að sitja á einhverjum stað eða lifa í fornum frægðarljóma, heldur að hafa samband við það lifandi fólk, sem hverju sinni er í landinu. Og hvort sem okkur líkar betur eða verr, þá er nú mikill hluti, sumir segja allt of mikill hluti fólksins hér við Faxaflóa, og hér er miklu hægara fyrir aðra en þá, sem búa í uppsveitum Árnessýslu, að ná til biskups heldur en ef hann sæti í Skálholti.

Sumir hafa hreyft því, og það getur vel komið til álíta, að biskup hefði aðsetur á báðum stöðum, eins og mér virtist raunar hv. 1. þm. Vestf. nú kominn inn á. Hann hefði skrifstofu hér og þá væntanlega yrði hann að hafa eitthvert húsaskjól, vegna þess að stundum getur verið erfitt að komast á milli, en hefði svo eins konar tignarsetur í Skálholti, þar sem hann gæti betur en í margmenninu sinnt sínum andlegu hugðarefnum. Það má vel vera, að þetta fari svo, og það má vei vera, að lausnin á þessu verði einmitt sú, að biskupssetur haldist hér um sinn í Reykjavík, en hann fái einnig embættisbústað í Skálholti. Og ef reynslan skæri úr um það, að það þætti hentara, að hann væri þar, þá flyttist hann þangað algerlega eða að miklu leyti fyrir eðlilega atburðanna rás. Ég skal ekki um það segja. En ég vildi vekja athygli á þessari yfirlýsingu hv. 1. þm. Vestf., að hann viðurkennir þó, að mjög erfitt væri fyrir biskup að vera án einhvers aðseturs hér í Reykjavík.

Ef biskupar eru settir í Skálholti og á Hólum, þá verð ég að játa og hef raunar heyrt frá kirkjunnar mönnum raddir um það, að jafnframt yrði á því staðið, að biskupsstóll yrði einnig í Reykjavík, þannig að þrír yrðu biskupar, en ekki tveir, og e.t.v. vígslubiskupar að auki, ég skal ekki segja um það. Ég efast um, þó að ég geri ekki lítið úr mikilvægi biskupsembættis, að þörf sé á svo mörgum mönnum til þeirra starfa í ekki fjölmennara þjóðfélagi en okkar, þó að ég engan veginn geri litið úr þýðingu þjóðkirkjunnar. Ég get einnig í því tekið undir það, sem hv. 1. þm. Austf. sagði, að talið um litla kirkjusókn er í raun og veru að mjög verulegu leyti byggt á misskilningi. Ég hygg t.d., ef skoðað væri hér í Reykjavík, að það sé enginn vafi á því, að í viku hverri sæki miklu fleiri menn kirkjur en stjórnmálafundi, og er það vissulega íhugunarvert og til nokkurs samanburðar, svo að ekki sé talað um allar þær kirkjulegu athafnir, sem eiga sér stað fyrir utan messur á helgidögum. Það má minna á allan þann fjölda, sem dagsdaglega hlýðir á prest í sambandi við útfarir, svo að þær einar séu nefndar. Allt er þetta mál margþættara en í skjótu bragði mætti virðast.

En hvað sem öðru líður og hvað sem okkur sýnist um flutning biskupsstóls til Skálholts, þá hygg ég, að allir, sem á annað borð telja kirkjuna vera mikilsverða í okkar þjóðlífi, og það hafa allir þeir talið, sem hér hafa tekið til máls, þá hljóti menn að viðurkenna, að þetta frv. sé spor í rétta átt, einnig þeir, sem vilja láta flytja biskupinn frá Reykjavík. Ég tel, að frv. sé spor í rétta átt, þó að ég vilji láta biskupinn vera hérna kyrran. En ég geri mér grein fyrir, að það getur vei verið, að það verði hægara að flytja hann í burtu, eftir að þetta frv, hefur náð lagagildi. Ég tel engu að síður, að það eigi rétt á sér, og ég fagna því, að allir, að því er mér skildist, jafnvel einnig hv. 3. þm. Norðurl. e., voru frv. samþykkir, þó að þeir hefðu viljað, að eitthvað annað og meira væri einnig gert, — annað og meira, sem hér liggur alls ekki fyrir á þessu stigi að taka ákvörðun um.