28.03.1963
Neðri deild: 61. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í B-deild Alþingistíðinda. (1052)

144. mál, heimild til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað

Einar Olgeirsson:

Hæstv. forseti. Það voru nokkur orð út af þeirri ræðu, sem hv. 2. þm. Sunnl. hélt hér, sem að vísu margt var gott í, en ég finn samt ástæðu til þess að gera nokkrar aths. við.

Í fyrsta lagi hélt hann því fram, að það hefði verið kirkjan og klerkarnir, sem hefðu talið í okkar forfeður hug og dug hér á erfiðum öldum áður fyrr, og þeir ættu alveg sérstakar þakkir skilið fyrir, hvernig þeir hefðu hjálpað til að viðhalda okkar menningu og okkar bókmenntum. Ég er ekki alveg sammála um það. Ég held, að þeir aðilar, sem hafa gert það að verkum, að við lifum enn þá sem þjóð og að það drapst aldrei kjarkurinn hjá okkur, hvernig svo sem prestarnir prédikuðu yfir okkur aumingjaskapinn, það hafi verið íslenzkir bændur. Ég held, að þeir hafi verið sá kraftur, sem bjó með þessari þjóð og hélt í henni andlega lífinu, og ég held, að jafnvel hálfheiðnar ferskeytlur hafi löngum verið duglegrí og betri til þess að halda í okkur andlegu lífi heldur en margs konar sálmar, að Passíusálmunum einum undanteknum, og það er vegna þess, að það er þó alltaf nokkur heiðinn andi í þeim, þrátt fyrir alla kristnina. Ég held, að það sé alger misskilningur, að klerkarnir, þótt þar hafi verið margir mætir menn, hafi alveg sérstaklega helgað okkur Skálholt. Aðeins sá bezti þeirra, sá sem drepinn var þar, síðasti kaþólski biskupinn, helgaði Skálholt á sinn máta, en ekki á þann máta, að þess vegna væri rétt að fara að gefa það lútersku kirkjunni, því að ekki voru það þó aðrir en fyrst og fremst þeir lútersku prestar, sem þá voru í Skálholtí, sem sáu um, að Jón Arason var drepinn, jafnvel þótt við Íslendingar kysum heldur að hefna okkar á Dönum fyrir það.

Það, að við vorum þjóð, sem lifði af andlega allan þennan tíma, var ekki íslenzkri höfðingjastétt, hvorki klerklegri né veraldlegri, fyrst og fremst að þakka, heldur íslenzku alþýðunni. Það var hún, sem reyndi á í þessu öllu saman, og þótt það kæmu úr höfðingjastéttinni, bæði klerklegri og veraldlegri, margir nýtir menn, þá var það þó fyrst og fremst vegna þess, að þeir höfðu það mikið samhengi og samband við okkar sögu og við okkar alþýðu, að þeir gátu þess vegna lagt fram sitt til þess, ýmist með sinni stjórnmálalegu baráttu eða með því, sem þeir sköpuðu á bókmenntasviðinu, að þjóðarerfðin hélzt við. Okkar menning á þeim öldum, þegar við áttum allra mest bágt, lifði fyrst og fremst á vörum alþýðu. Og þegar litið var annað eftir raunverulega af henni en tungan, þá varð það alþýðan, sem hélt henni við. En vissulega, ég skal ekki draga úr því, að þar lögðu meira að segja afturhaldssamir klerkar góða hluti fram í að hjálpa til að varðveita þá okkar tungu.

Þá kom hv. 2. þm. Sunnl., eftir að hafa talað um kirkju og klerka og að því að mér fannst gleymt hlut bænda og alþýðu, þá kom hann að kristninni, hvað hún hefði gert og hvað við værum litlir án hennar, við værum fyrst og fremst bókmenntaþjóð, og hvað værum við, ef við hefðum aldrei meðtekið blessaða kristnina? Hvað hefði orðið úr okkur án kristninnar? Hvað varð úr okkur, meðan heiðni var hérna? Hvað vorum við þá? Vorum við ekki ein fremsta þjóð Evrópu? Stóðum við ekki bókmenntalega hærra, þó að við kynnum ekki enn þá að skrifa, heldur en nokkur önnur þjóð í Evrópu þá, á 10. öld, og ortum við ekki kvæði þá, áður en við tókum kristni, eins og Völuspá, sem enn þá eftir tæp 1000 ár stendur með því æðsta, sem skapað hefur verið í bókmenntaheimi veraldarinnar, við heiðnir Íslendingar. Við skulum ekki lasta þá forfeður, sem mótuðu þessa þjóðmenningu og skópu þjóðveldið. Þeir skópu eitthvert sérstæðasta fyrirkomulag, sem skapað hefur verið í veröldinni, og gerðu í sínu löggjafarstarfi svo merkilega hluti, að það hafa engar aðrar þjóðir, að Grikkjum og Rómverjum ekki undanteknum, gert annað eins.

Við tókum kristnina árið 1000, og það var vissulega gott að ýmsu leyti. Kristnin hafði næstu 100 árin á eftir mjög margt gott í för með sér hér heima, og vissir þættir úr henni í sambandi við hennar friðarboðskap og hennar bróðurkærleika urðu snar þáttur úr okkar þjóðlífi. En hvað var það, sem var það bezta við kristnina, þegar við samþ. hana á Alþingi árið 1000? Það bezta við hana var, að hún var nógu lin, nógu sveigjanleg, nógu frjálslynd til þess að lofa heiðninni að lifa á Íslandi. Það var það, sem var það stórkostlega við okkar heiðnu forfeður, að þeir gerðu það sem hvert annað stjórnmálalegt samkomulag á Alþingi árið 1000 að taka við kristni, af því að íslenzka þjóðveldið krafðist þess, þurfti á því að halda til þess að lifa og til þess að komast ekki undir útlent vald. Þeir höfðu vit á því að bægja frá sér því ofstæki, sem einkenndi þá kaþólskuna viða um Evrópu. Þeir höfðu vit á að skapa kristni hér á Íslandi, sem var sérstæð í öllum heiminum að Írlandi einu undanteknu, sérstæð í því að þora að varðveita anda heiðninnar innan sinna vébanda og þær bókmenntir, sem heiðnin hafði skapað. Þeir þorðu að varðveita drengskapinn og annað af því, sem þeir heiðnu Íslendingar mátu mest áður. Og þeir héldu áfram að varðveíta þessar heiðnu dyggðir, sem hafa lifað hjá okkur síðan, og varðveita þá karlmennsku, sem kristninni aldrei tókst að drepa, þrátt fyrir allan sinn boðskap um að beygja sig undir vöndinn, þann kjark, sem var endurreistur, þegar menn eins og Þorsteinn Erlingsson komu með sinn boðskap hér í lok 19. aldarinnar. Það var það glæsilega við þessa kristni, að hún lofaði þessum heiðnu dyggðum að þróast og drap þær ekki með ofstæki ríkisvaldsins. Það var það góða við þessa kristni, að hún hafði það umburðarlyndi, að hún skildi, að það, sem heiðnir menn höfðu skapað hér á Íslandi, bókmenntirnar og annað slíkt, þurfti að fá að lifa. Og hvað þýddi það? Það, að við meðtókum slíka frjálslynda kristni hér, þýddi, að hér lifðu Íslendingasögurnar, hér lifðu Eddurnar og hér var þetta ekki allt saman drepið niður eins og þar, sem klerkarnir fengu að komast að í þjónustu konungsvaldsins á Norðurlöndum, í Englandi og annars staðar og drápu allt það fegursta niður, sem gamla bændaþjóðfélagið hafði skapað, þannig að hér úti á Íslandi stóðum við einir uppi, þessir hálfheiðnu og hálfkristnu Íslendingar, með dýrmætustu andlegu fjársjóðina, sem germanskar þjóðir höfðu skapað, og gátum varðveitt þá og gefið þá síðari tímum. Og ekkert af því, sem Íslendingar eru stoltir af í sinni fornöld, Íslendingasögurnar, Eddurnar, Noregskonungasögurnar, hefði verið skapað eða hefði verið til, svo framarlega sem þetta hefði ekki gerzt. Ef kristið ofstæki hefði fengið að fara hér að á svipaðan máta og t.d. í Noregi, þá hefðum við aldrei getað gefið Norðmönnum það, sem Snorri gaf þeim. Þetta er vert að muna. Það er það, að þá voru menn, sem kunnu að meta þann heiðna arf, sem við yfirtókum, bæði í siðfræði og bókmenntum, — það er það, sem gerði það að verkum, að Ísland er enn í dag það, sem það er. Án þess að þessar bókmenntir hefðu varðveitzt á þeirri tungu, sem þær voru á skrifaðar, án þess hefðum við ekki reist okkur við aftur á 19. öldinni, án þess hefðum við að öllum líkindum orðið Danir, dönsk þjóð, eins og meira að segja Rasmus Kristján Rask óttaðist 1813, þegar hann sá, í hvernig ástandi Reykjavík var þá.

Við skulum þess vegna ekki, þó að það þyki kannske tízka hér að tala af ákaflega mikilli lotningu um okkar lútersku kirkju, — við skulum ekki fara að niðra eða trampa á heiðninni eða þeim arfi, sem hún gaf íslenzkri þjóð, því að þá byrjum við að trampa á öllu því, sem bezt er til í okkar þjóð. Þess vegna skulum við gefa guði það, sem guðs er, og keisaranum það, sem keisarans er, og við skulum láta hvern njóta sannmælis í þessu efni. Við skulum lofa heiðninni, okkar gamla heiðna þjóðveldi og öllu því, sem það gaf okkur, að njóta sannmælis, og þó að mönnum þyki á ýmsan hátt máske þægilegt að reyna að skrýða sig með kristninni, fara ekki að reyna að gera á hlut annarra þess vegna. Meira að segja orðið bóndi mundi ekki hafa þá stoltu merkingu, sem það hefur í dag á Íslandi og það hefur glatað í flestum öðrum germönskum tungumálum, nema því aðeins að svo mikið hefði lifað af dyggðum og stolti heiðninnar og þess heiðna þjóðfélags okkar, sem áður var, og allan tímann getað þróazt innan veggja kristninnar, að við getum enn þá með stolti nefnt þau orð, sem búið er að lítillækka í sumum tungumálum eða útrýma jafnvel alveg þeim gamla stofni og taka upp önnur ný í staðinn.

Hv. 2. þm. Sunnl. sagðist vera sammála um það, að við ættum að endurreisa Skálholt á þjóðlegum og sögulegum grundvelli. Það er einmitt það, sem ég vil, og þá held ég, að við eigum að taka tillit til alls þjóðlega og sögulega grundvallarins í þessu. Og það verður ekki bezt gert með því að setja bara biskupsstól í Skálholti. Hvað breytist með því að setja biskupsstól í Skálholt? Ég hef áður lýst því yfir, að ég hefði ekkert við það að athuga og mundi geta verið með því, svo framarlega sem um það væri að ræða að hafa þann eina biskup, sem væri á Íslandi, í Skálholti. Og þetta var athugað þó nokkuð hér á Alþ. fyrir nokkrum árum. Ég heyrði það, gott ef það var ekki á tímum helmingaskiptastjórnarinnar, — ég heyrði það alveg á þeim, sem fóru með þessi mál þá, að það mundi þykja ófært að flytja biskupinn burt úr Reykjavík vegna þeirrar þjónustu, sem ætlazt væri til að hann veitti prestum og öðrum kirkjunnar lýð, og það var þess vegna alveg greinilegt þá, að það mundi ekki vera hægt að fá biskupsstólinn fluttan í Skálholt, nema því aðeins að það yrði nýr biskupsstóll settur þar upp. Hjálpar það eitthvað upp á sakirnar í þessum efnum? Er ekki hugmyndin hjá þeim, sem tala um að endurreisa Skálholt sem biskupsstól, að þá væri hinn eini biskupsstóll Íslands í Skálholti, svo sem verið hefði síðari hluta 11. aldar? Ég hef a.m.k. alltaf skilið það svo. Ég hef ekki skilið það svo, að það ætti bara að reyna að fá einhvern af prestunum til þess að heita frekar vígslubiskup eða jafnvel biskup, það væri ekkert meira, en sá raunverulegi biskup væri í Reykjavík. Og ég sagði það í framsöguræðu fyrir mínu nál., sem því miður ekki er komið, að ég væri hræddur um, að þá væri þetta tómt tildur, og taldi ekki, að við ættum að vera að leika okkur að því. Það er ekkert spursmál um tildur, þegar við ræðum um það að reyna að skapa eitthvað á þjóðlegum og sögulegum grundvelli. Það er spursmál um, hvort við getum eitthvað gert fyrir okkar þjóðmenningu.

Ég hef verið hlynntur því, ef það væri hægt að skapa viss menntasetur utan Reykjavíkur, hef sjálfur á sínum tíma átt minn þátt í því að reyna ofur litið að vinna að því viðvíkjandi Akureyri. En ég álít, að ef við gætum komið okkur saman um að reyna að gera Skálholt að einhverju leyti að slíku menntasetri hér sunnanlands, þá hefði það mjög marga kosti upp á að bjóða, en þá yrðum við að vera ákveðnir í því fyrir fram, að við ætluðum að gera þetta. Við getum ekki ákveðið svona hluti í sambandi við t.d. bara einn einasta skóla. Við vitum það ósköp vel, hvaða röksemdir það eru, sem mæta okkur alltaf núna, ef við tölum um að setja niður einhvern æðri skóla úti á landi. Það mæta okkur þær röksemdir, að þar er sagt: Það vantar kennslukrafta. — Og þetta er stundum rétt, þegar bara um einn skóla er að ræða. Ef það væri um að ræða 5 skóla, 5 æðri skóla, sem væri fyrir fram skipulagt að setja niður á einn ákveðinn stað, þá væri maður um leið búinn að fá næga kennslukrafta og um leið kennslukrafta, sem yrðu miklu ánægðari yfir að vera þar, þegar það er að skapast einhver verulegur menntamannabær í sambandi við það. Ef við þess vegna byggjum til áætlun um það, hvernig við ætluðum að vinna þannig Skálholt upp í slíkt menntasetur, þá yrði miklu hægara við þetta að fást.

Ég sé ekki betur en það sé meira að segja verið að ræða um það núna í þinginu hjá okkur, að bændaskóli, sem upphaflega var ætlað að yrði á Suðurlandi, að það ætti að strika það út. Ég sé ekki, af hverju við getum ekki reynt að viðhalda því, að það yrði bændaskóli á Suðurlandi, og þá alveg sérstaklega að staðsetja hann í Skálholti. Það er talað um landbúnaðarháskóla. Og það eru þegar uppi raddir um það, að landbúnaðarháskóli eigi hvergi að vera nema hér í Reykjavík. Ef við ákveðum að staðsetja hann í Skálholti og bændaskólann líka og fleiri skóla, sem við værum með, þá mundi detta niður röksemdin um, að það væru ekki nógu miklir kennslukraftar. Það er talað um, hvar rannsóknarstofnanir landbúnaðarins eigi að vera. Og það þykir helzt hvergi mögulegt að hafa rannsóknarstofnanir landbúnaðarins nema í Reykjavík, og hélt ég nú samt, að eitt af því, sem rannsóknarstofnun í landbúnaði þyrfti að gera, væri að gera ekki svo mjög lítið af tilraunum með, hvernig grös vaxa og annað slíkt, og fyrir utan, að það þyrfti kannske að verða einhver aðstaða til þess að hafa einhvern fénað þar einhvers staðar í nágrenni við. Af hverju væri alveg óhugsandi að hugsa sér að staðsetja slíkt í Skálholti? Ég taldi fleira upp seinast, sem ég skal ekki fara að telja upp aftur.

Þess vegna held ég, að hv. 2. þm. Sunnl. hefði heldur átt að fallast á mínar hugmyndir um, að við athuguðum þetta mál betur og sæjum til, hvort við gætum ekki komið okkur saman um að skipuleggja framtíðarmenntasetur í Skálholti og endurreisa Skálholt þannig á þjóðlegum og sögulegum grundvelli, heldur en að flýta okkur að þessum hlut núna, að ákveða að gefa það þjóðkirkjunni, sem ég veit nú þegar að er í vandræðum með, hvað eigi að gera við það. Og eitt af því fyrsta, sem kemur upp í þessu vandræðafálmi, það er: Eigum við ekki að setja biskup þar? Og hér er strax komin fram till. á Alþ. um það. Það var einu sinni, að Framsfl. var ekki sérstaklega æstur í að fjölga embættismönnum, en mér sýnist hann vera orðinn svo kristinn núna, að ef það er bara biskup, sem bætt er við, þá sé allt í lagi. Ég held, að það mundi þá vakna stoltið hjá Norðlendingunum, enda hef ég orðið var við það, að þeir mundu vera mjög ákveðnir í því að fá sinn biskup á Hólum. Og treysta menn sér til þess að standa á móti því, sérstaklega þeir, sem segjast nú verja hag dreifbýlisins? Hólar eru þó fullkomnari fulltrúi fyrir það á vissan máta en nokkurn tíma Skálholt, sökum fjarlægðar frá Reykjavík. Ef um það á að ræða, ætli menn yrðu þá ekki strax að fara að bæta við þriðja biskupnum þar, út frá þessum sömu þjóðlegu og sögulegu forsendum, sem hv. 2. þm. Sunnl. var að tala um. Mér sýnist þess vegna alveg einsætt, ef á að fara inn á þessa leið núna, að samþykkja þetta frv. hæstv, ríkisstj., þá muni krafan um biskupana koma þarna á eftir og síðan leiða til þess, að hér verði þrír biskupar. Ég veit ekki, hvort kristnin í landinu verður nokkuð meiri fyrir það eða kristið siðferði nokkuð sterkara hjá almenningi yfirleitt eða bróðurkærleikurinn, en hitt er gefið, að embættismannabáknið verður meira.

Ég skal ekki orðlengja um þessa hluti. Það var aðeins það, sem hv. 2. þm. Sunnl. sagði, að mér fannst hann í sínu mati á okkar sögu og þjóðlífi halla þar á vissa aðila, sem ég áleit að þyrfti að taka upp hanzkann fyrir, þar sem voru bændur annars vegar og heiðnin hins vegar. Eins og ég gat um í minni fyrstu ræðu, þá kvaðst ég mundu leggja fram rökst. dagskrá .í þessu máli, og ég vil leyfa mér að leggja hana fram. Ég legg til, að frv. sé afgr. með svo hljóðandi rökst. dagskrá:

„Með því að nauðsynlegt er að athuga betur en gert hefur verið, hvernig Skálholti verði bezt ráðstafað í fullu samræmi við sögu vora, menningu og þjóðarerfð alla, telur d. að svo stöddu ekki ástæðu til að samþykkja frv. og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég fæ ekki séð neitt í sambandi við þetta frv., sem gerir það alveg óhjákvæmilegt að eiga að fara að afgreiða það nú. Ég álít þess vegna, að það sé rétt, að þm. íhugi þetta mál betur og fresti þess vegna málinu á þennan máta, með því að samþ. þessa rökst. dagskrá, sem ég hef lagt fram og afhent hæstv. forseta.