18.04.1963
Neðri deild: 75. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

222. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Frsm. (Sigurður Ingimundarson):

Hæstv. forseti. Fjhn. hv. d. hefur haft frv. þetta um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins til athugunar og orðið sammála um afgreiðslu þess. Ég tel ekki ástæðu til að rekja einstök atriði frv. eða gefa umsögn n. um þau sérstaklega. Frv. fylgir ýtarleg grg., og það hefur hlotið shlj. afgreiðslu hv. Ed. Ég skal aðeins víkja að meginefni þess.

Í almannatryggingalögunum hefur verið gert ráð fyrir, að lífeyrissjóðir starfsstétta gætu að nokkru tekið að sér verkefni almannatrygginganna, þannig að meðlimir þeirra ættu ekki rétt á elli-, örorku-, ekkju- né barnalífeyri almannatrygginganna. Af þessari ástæðu hafa félagar þessara sjóða greitt lægra gjald til almannatrygginganna, eða um 30% af venjulegu árgjaldi, og ekki heldur notið þeirra réttinda, sem upp voru talin.

Einn þeirra lífeyrissjóða, sem starfað hefur á þessum grundvelli, er lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins. Þótti þessi grundvöllur eðlilegur á sínum tíma, meðan í gildi voru skerðingarákvæði almannatryggingalaganna, en þau voru felld úr gildi 1, jan. 1961. Nokkrir lífeyrissjóðir annarra starfsstétta hafa starfað á sjálfstæðum grundvelli, þannig að meðlimir þeirra hafa greitt fullt gjald í eigin sjóð og fullt gjald til almannatrygginganna og notið fullra réttinda hjá báðum. Eftir að skerðingarákvæði almannatryggingalaganna voru felld úr gildi, þykir þessi starfsgrundvöllur eðlilegri og æskilegri fyrir meðlimina, enda eru þeim þá tryggð hærri eftirlaun, en iðgjald þeirra verður líka að sama skapi nokkru hærra.

Í frv. til l. um almannatryggingar, sem afgr. var frá þessari hv. þd. í vikunni, er svo ráð fyrir gert, að öllum lífeyrissjóðum verði gert kleift að starfa með þessum nýja hætti, sem sjálfstæðir sjóðir eða viðbótarsjóðir, enda greiði meðlimir þeirra fullt gjald í báða og njóti fullra réttinda hjá þeim báðum. Þetta þýðir að sjálfsögðu það, að þeir lífeyrissjóðir, sem óska fullra réttinda hjá almannatryggingunum fyrir meðlimi sína, verða að kaupa þau réttindi fyrir liðinn tíma. Samtök starfsmanna ríkisins óska eftir því, að lífeyrissjóður þeirra verði gerður að viðbótarsjóði með þessum hætti, sem ég hef lýst, og fjmrn. kvaddi sérfræðinga til að semja þetta frv., m.a. til þess að þessar breytingar væru framkvæmanlegar, en jafnframt er breytt ýmsum ákvæðum, sem æskilegt var talið og eðlilegt að breyta.

Fjhn. hv. d. hefur athugað frv, og er sammála um að leggja til, að það verði samþ. óbreytt, enda byggist það á fullkomnu samkomulagi ríkisins og starfsmanna þess. Ég legg því til, að frv. verði vísað til 3. umr.