25.03.1963
Neðri deild: 59. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1151 í B-deild Alþingistíðinda. (1116)

215. mál, Tækniskóli Íslands

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. þær upplýsingar, sem hann hefur nú gefið, síðan ég talaði hér síðast, varðandi undirbúning málsins og fyrirhugaða framkvæmd, ef að lögum verður. Ég vil þó endurtaka það, að ég hefði talið fara betur á því, að fulltrúi frá Tæknifræðingafélagi Íslands hefði átt sæti í þeirri n., sem undirbjó þetta frv., og ég vil enn fremur beina því á ný til þeirrar hv. n., sem um þetta mál fjallar, að hún hafi samráð við þennan félagsskap einmitt.

Ég hef veitt því athygli, að í 6. gr. þessa frv., þar sem taldar eru upp deildir í væntanlegum Tækniskóla Íslands, er sagt, að þær skuli fyrst um sinn vera þessar, með leyfi hæstv. forseta: „Rafmagnsdeild, véladeild, byggingadeild, fiskideild og vélstjóraskóli.“ Ég vildi spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ráðh., hvort þetta sé ekki prentvilla, hvort hér eigi ekki að standa: vélstjóradeild, eða hvort það er meiningin, að núverandi vélstjóraskóli falli inn í þennan fyrirhugaða Tækniskóla Íslands.

Mér hefur virzt á sumu því, sem fram hefur komið í þessum umr., að menn blönduðu stundum saman hinu venjulega iðnnámi, sem á sér stað hér í þessu landi og öðrum, og því tækninámi, sem gert er ráð fyrir í hinum fyrirhugaða skóla. Hér er um tvennt að ræða. Iðnnámið höfum við þegar í ýmsum greinum, en tækninámið er það, sem hér er um að ræða, framhald af iðnnáminu og í framhaldi af annarri menntun þeirra, sem í hlut eiga. Tæknimenntun sú, sem hér er um að ræða, er sama eðlis og sú menntun, sem verkfræðingar hljóta, þ.e. verkfræðimenntun, þó að hún taki ekki eins langan tíma og menntun verkfræðinga.

M.a. af þessum orsökum er ég ekki viss um það og held ekki, að þetta frv., þótt að lögum verði, leysi það mál, sem fjallað er um í tili., sem nú liggur fyrir þinginu um stofnun fiskiðnskóla. Í þeim skóla, fiskiðnskóla, er gert ráð fyrir að mennta verkstjóra og matsmenn og ýmsa aðra, sem vinna hliðstæð störf. En í fiskideild tækniskóla mundu menn að sjálfsögðu hljóta menntun á öðru sviði. Þar mundu menn væntanlega læra um vinnslustöðvar og verksmiðjur og gerð þeirra o.s.frv., en í fiskiðnskólanum eru það störfin sjálf, hin daglegu störf við framleiðslu vörunnar, sem um er að ræða. Ég er þess vegna ekki viss um það og held ekki, að hér sé um sama mál að ræða, og er það til athugunar.

Ég heyri það, að menn, sem hér taka til máls, virðast vera mjög inni á því, að það eigi nú loksins, áður en langt um liður, að verða úr sögunni sú lokun iðngreina, sem átt hefur sér stað á þessu landi og hefur staðið í sambandi við það fyrirkomulag, sem hefur hér og í öðrum löndum verið á iðnnáminu. Iðnnámið hefur eðlilega takmarkazt af þeim möguleikum, sem meistarar hafa haft til þess að taka menn til kennslu. En ef horfið er að því að láta menn læra í sérstökum skólum ekki aðeins það bóklega, sem við kemur iðnaðinum, heldur einnig að fá þar hina verklegu æfingu, þá ætti að sjálfsögðu að verða breyt. á þessu sviði, og er áreiðanlegt, að mörgum mundi þykja það mjög til bóta, ef ekki væru lengur þær hömlur, sem verið hafa á því, að ungir menn geti lært iðngreinar, orðið iðnaðarmenn.

Ég vil taka eindregið undir þau ummæli, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. hafði hér áðan um tæknikennslu á Akureyri, og ég vil staðfesta það, sem hann þar sagði, að á Akureyri .hefur undanfarin ár verið mikill áhugi á því — og er vaxandi — að koma upp slíkri stofnun þar, þar sem iðnaðarmenn gætu fengið framhaldsmenntun í tæknifræði, svo og aðrir. Ég vil geta þess í því sambandi og tel til þess sérstaka ástæðu, að hæstv. ríkisstj. barst á s.l. hausti till. um þetta efni. Sú till. var frá staðsetningarnefnd ríkisstofnana, sem starfað hefur undanfarin ár og sendi á s.l. hausti till. til hæstv. ríkisstj. Og ein af þeim till., sem þessi nefnd gerði, var einmitt um það, að jafnframt því, sem komið verði upp tæknifræðikennslu í Reykjavík, verði stofnaður tækniskóli á Akureyri fyrir iðnaðarmenn og aðra, sem haft geti not af kennslu í slíkum skóla. Þessi till. hefur legið hjá hæstv. ríkisstj. nú í nokkra mánuði, og ég geri ráð fyrir, að hæstv. menntmrh. hafi við undirbúning þessa frv. átt þess kost að sjá hana. En ég tel mér skylt að nota tækifærið til þess að skýra frá þessari till. um tækniskóla á Akureyri, sem legið hefur fyrir á þann hátt, sem ég hef nú nefnt.

Það er auðvitað alveg rétt, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði, að það er ekki nauðsynlegt, ef komið er upp nýjum ríkisstofnunum, hvort sem það eru skólar eða aðrar, að staðsetja þær endilega í Reykjavík, í höfuðstaðnum, í borginni, sem kallað er, þó að þær séu þar margar fyrir. En jafnvel þó að það sé gert og jafnvel þó að það kunni að vera talið rétt að láta tækniskóla vera starfandi hér í borginni, þá vildi ég beina því mjög eindregið til hv. n., sem tekur þetta mál til meðferðar, að hún athugi einmitt það að verða við þeim óskum, sem hér er um að ræða, að jafnframt verði komið upp tæknikennslu á Akureyri, og athugi þá till., sem þegar hefur verið um það gerð og ég nú þegar hef sagt frá og hún sjálfsagt getur fengið aðstöðu til þess að kynna sér nánar. Og ég er ekki að svo stöddu reiðubúinn að taka undir það með hæstv. ráðh., að ekki mundu vera til kennslukraftar á Akureyri til þess að hafa þar nema 1. bekk í slíkum deildum. Ég vil ekki taka undir það að órannsökuðu máli. Og þó að það kunni að reynast, að þar séu ekki til kennslukraftar, eins og sakir standa, þá er hægt að koma því til leiðar, að þeir séu þar. Starfskraftarnir koma þangað, sem verkefni eru fyrir hendi og þar sem sæmilega er búið að þeim mönnum, sem eiga að stunda verkefnin.

Ég held, að það sé svo ekki fleira, sem ég sé ástæðu til að taka fram í sambandi við þetta mál. Eins og ég hef áður tekið fram, fagna ég því, að þetta frv. skuli vera komið fram, þó að ég hins vegar telji, að ýmislegt þurfi enn nánari athugunar við í sambandi við málið og hafa þurfi samráð við þá, sem þessum hlutum eiga að vera kunnugastir, og alveg sérstaklega þurfi að athuga það atriði, hvort tæknikennslan ætti ekki að meira eða minna leyti að vera staðsett annars staðar en í Reykjavík, og þá sérstaklega á Akureyri, og hvort það er yfir höfuð nauðsynlegt að binda hana að svo stöddu við stað.