29.03.1963
Efri deild: 63. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1209 í B-deild Alþingistíðinda. (1199)

227. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hinn 8. des. 1959 fól ég fjórum embættismönnum ríkisins að endurskoða núgildandi lög um tollskrá og önnur gildandi lög um aðflutningsgjöld. Þessir embættismenn voru ráðuneytisstjórarnir í fjmrn. og viðskmrn., þeir Sigtryggur Klemenzson og Jónas H. Haralz, tollstjórinn í Reykjavík Torfi Hjartarson og hagstofustjóri Klemenz Tryggvason. Nokkru síðar baðst Jónas Haralz undan störfum í n. vegna annríkis við önnur verkefni. Pétur Sæmundsen viðskiptafræðingur var skipaður í tollskrárnefndina um svipað leyti.

Um leið og þessum mönnum var falið þetta endurskoðunarstarf, var lagt svo fyrir, að nokkrar höfuðreglur skyldu hafðar til hliðsjónar við starfið. Það er í fyrsta lagi, að núgildandi aðflutningsgjöld ásamt viðaukum væru yfirleitt sameinuð í eitt heildargjald, verðtoll, í öðru lagi, að tollur af skyldum vörum væri samræmdur eftir föngum, í þriðja lagi, að verðtollur væri ekki hærri en 125% á neinni vöru, í fjórða lagi, að heildartekjur ríkissjóðs af aðflutningsgjöldum rýrnuðu ekki um of, og í fimmta lagi, að um flokkun og niðurröðun vara í nýju tollskránni væri fylgt hinni alþjóðlegu tollskrárfyrirmynd í Brüssel-skránni.

Áður en hægt var að hefja sjálft endurskoðunarstarfið, þurfti að leysa af hendi mikla undirbúningsvinnu. Það þurfti að flokka öll númer í núgildandi tollskrá og tollalögum undir Brüssel-skrána. Það þurfti að reikna út heildargjöld af hverri vörutegund, hverju númeri. Þetta var geysimikið verk, og tók hagstofustjórinn að sér að sjá um það. Það hefur hann gert ásamt starfsliði sínu og auk þess haft með höndum margvíslega útreikninga og áætlanir, sem nauðsynlegt hefur verið að gera. Starfsmenn tollstjóra hafa einnig aðstoðað við endurskoðunina með ýmsum hætti.

Ég vil, áður en lengra er haldið, þakka þeim mönnum, sem unnið hafa að undirbúningi þessa stóra máls, mikla elju og atorku og þá alveg sérstaklega þeim mönnum, sem skipað hafa tollskrárnefndina.

Orsakir þess, að ráðizt var í þetta mikla verk sem endurskoðun tollskrár og tollalaga er, og tilgangurinn með því verki er að sjálfsögðu margvíslegur. 1939 var sett tollskrá, sem var fyrsta heildarlöggjöfin um aðflutningsgjöld hér á landi og var merkur áfangi á sinni tíð. En síðan hefur margt gerzt og tollskráin og tollalögin mjög færzt úr lagi. Ár eftir ár hefur tollskrá og tollalögum verið breytt. Eins og hér hefur verið ástatt í efnahagsmálum á undanförnum tveim áratugum, með svo að segja sífelldri og vaxandi verðbólgu og örðugleikum atvinnuveganna, hefur mjög oft þurft til þess að grípa að auka tekjur ríkissjóðs eða þeirra sjóða, sem hafa átt að aðstoða framleiðsluna, hvort sem þeir hafa heitið útflutningssjóður, framleiðslusjóður eða annað. Hefur þá oftast verið gripið til þess að hækka aðflutningsgjöld á vörum til að afla slíkra tekna. Þau mál hafa þá ekki alltaf verið nægilega undirbúin, enda oft borið brátt að, og hin nýju tollalög eða breytingar á tollalögum oft og tíðum verið sett af nokkru fljótræði. Þannig hefur smám saman skapazt ákaflega mikið ósamræmi og flækja í öllum þessum málum, þannig að nú er svo komið, að heita má óviðunandi og í rauninni á mjög fárra manna færi að kunna skil á því, hverjir eru tollar af hverri einstakri vörutegund, sem til landsins flyzt.

Í sambandi við þessar sífelldu breytingar á aðflutningsgjöldum hefur það auðvitað verið aðalsjónarmiðið að afla þess fjár, sem nauðsynlegt var á hverjum tíma, og eins og ég gat um, þá ekki vandaður nægilega undirbúningurinn oft og tíðum. En í annan stað einkennir það flestar þessar breytingar á aðflutningsgjöldum, að um leið og verið var að afla fjár, var kostað kapps um það að halda vísitölunni niðri, komast fram hjá henni eða leika á hana þannig, að þessar tollahækkanir hefðu sem allra minnst áhrif til vísitöluhækkunar. Þessi saga er ekki eingöngu saga allra síðustu ára, heldur nær þetta nokkuð langt aftur í tímann. Það má segja, að eftir að tilraunin var gerð 1950 með réttri gengisskráningu og ýmsum öðrum ráðstöfunum að koma efnahagskerfinu á réttan kjöl, þá leið ekki langur tími, aðeins eitt ár, þar til til þess þurfti að grípa að leggja á nýjar álögur til að halda bátaútveginum gangandi, og var þá tekinn upp svokallaður bátagjaldeyrir á árinu 1951. Hann hélzt svo með ýmsum breytingum, bæði nafnabreytingum, talnabreytingum og efnisbreytingum, fram til ársins 1960, febr. 1960, þegar efnahagsaðgerðir á breiðum grundvelli voru gerðar til þess að koma atvinnulífinu á réttan kjöl. Síðast var það innflutningsgjaldið, sem á var lagt 1956 og 1958, ásamt yfirfærslugjöldum, og skal ég ekki rekja þetta mál frekar.

En til þess að gefa örlitla mynd af ástandinu eins og það er nú, skal ég aðeins verja hér örstuttum tíma. Þau gjöld, sem almennt eru á aðfluttum vörum nú, eru í fyrsta lagi vörumagnstollur, í öðru lagi er það 340% álag á vörumagnstoll, í þriðja lagi er það verðtollur, í fjórða lagi 80% álag á verðtoll, í fimmta lagi er það innflutningsgjald, sem er með þrennu móti, 15% á sumum vörum, 30% á öðrum, 40% á enn öðrum, í sjötta lagi er 7% söluskatturinn, sem verið hefur í gildi alllengi, í sjöunda lagi 8% innflutningssöluskatturinn, sem lögleiddur var 1960, í áttunda lagi tollstöðvagjald, sem er 1% af vörumagnstolli og verðtolli, í níunda lagi byggingarsjóðsgjald, sem er 1% af sömu gjöldum að viðbættu þó einu, í tíunda lagi rafmagnseftirlitsgjald, og í ellefta lagi matvælaeftirlitsgjald. Auk þess eru sérgjöld ýmis, svo sem gúmmígjald, benzínskattur, innflutningsgjald af bifreiðum, — og tollskráin, sem hér er lögð fyrir, snertir ekki þessi þrjú síðasttöldu gjöld, en hins vegar nemur hún úr gildi eða kemur í staðinn fyrir þær 11 tegundir gjalda, sem ég rakti hér áðan.

Nú er það svo, að þessi gjöld, sem flest eru reiknuð í hundraðshlutum af vissum verðmætum, standa ekki á heilum eða hálfum tugum, ekki einu sinni á heilum prósentum, heldur þegar allt er lagt saman, þá eru þau flest jafnvel brot úr prósentu, þannig að reikna þarf með decimölum. En fyrir utan það, hversu þessi gjöld eru margvisleg og með ólíkum prósentum og tölum, þá reiknast þau af mjög mismunandi grunni, og er það oft, sem þessi gjöld þarf að reikna af jafnvel 5 eða 6 eða 7 mismunandi grunnverðum. — Ég skal til örlítillar skýringar nefna hér einn vöruflokk, þar sem sendingin nam 760 kg og cif-verðið, þ.e.a.s. innkaupsverð vörunnar ásamt flutningsgjaldi hingað, nam rúml. 100 þús. kr. Af þessari vörusendingu þurfti að reikna 10 tegundir af aðflutningsgjöldum og af 6 eða 7 mismunandi grunnum. Í fyrsta lagi var það vörumagnstollur, sem var 7 aurar af hverju kg, í öðru lagi 340% vörumagnstollsviðauki, í þriðja lagi 10% verðtollur, í fjórða lagi 80% verðtollsviðauki, í fimmta lagi 3/4% rafmagnseftirlitsgjald, sem reiknast af cif-verði, í sjötta lagi tollstöðvagjaldið, sem er 1% af verðtolli og vörumagnstolli ásamt viðaukum, í sjöunda lagi byggingarsjóðsgjald til byggingarsjóðs ríkisins, sem er 1% af sömu upphæð eins og tollstöðvagjaldið, að viðbættu rafmagnseftirlitsgjaldi, í sjöunda lagi 7% innflutningssöluskattur, sem reiknaður er af cif-verði að viðbættum tollum og áætlaðri álagningu 10% , í áttunda lagi 8% innflutningssöluskatturinn, sem reiknaður er á sama hátt og sá næsti á undan, og loks innflutningsgjald, sem í þessu dæmi er 44%, það reiknast af sama grunni og innflutningssöluskatturinn.

Í þessari upptalningu eru þau gjöld, sem koma á mjög margar vörur. kafmagnseftirlitsgjaldið kemur þó ekki nema á vissan flokk vara, en hins vegar kemur þá matvælaeftirlitsgjald á aðra flokka ýmsa, þar sem rafmagnseftirlitsgjaldið nær ekki til.

Af þessum dæmum má sjá, hversu flókin þessi mál eru orðin og það svo, að í rauninni er það á fárra manna færi að reikna rétt þessi torráðnu dæmi. Þessi flækja öll kostar ótrúlega mikla og dýra vinnu fyrir ríkið, fyrir innflytjendur, fyrir atvinnureksturinn í landinu, veldur óþarfa skriffinnsku, töfum og kostnaði. Eitt meginatriðið við endurskoðun tollskrárinnar var því að gera hana einfalda og óbrotna, og í stað þess aragrúa af gjöldum, sem í gildi hafa verið og reiknuð eru oft af mismunandi grunni, kemur nú einn verðtollur reiknaður að sjálfsögðu af einum og sama grunni, sem er cif-verð vörunnar. Í staðinn fyrir þær flóknu prósentur og þúsundasta hluta, sem þarf að reikna með oft og tíðum í sambandi við þessa útreikninga, koma nú verðtollsákvæði, þar sem prósenturnar eru samtals 21. Tollarnir eru þessir: Það er 1% af sumum vörum, 2%, 3%, 4% og 5%. Síðan hleypur þetta á hálfum tug, 10, 15, 20, 25, 30, 35 og 40%. Loks hleypur það á heilum tug með einni undantekningu, þ.e.a.s. næst á eftir 40 kemur svo 50, 60, 65, 70, 80, 90, 100, 110 og svo 125 %, sem er hæsti tollflokkurinn samkv. þessu tollskrárfrv.

Á því er enginn vafi, að með þeirri endurbót, sem felst í því að afnema hið margbrotna kerfi, sem nú er og verið hefur um hríð, og fá í staðinn einn verðtoll, — að vísu er af fáeinum vörutegundum einnig vörumagnstollur, — en af þessu hlýtur að sjálfsögðu að leiða mikinn vinnu- og tímasparnað, bæði fyrir hið opinbera og atvinnureksturinn í landinu.

Annað meginatriði við endurskoðun tollskrárinnar er samræming, en óþolandi ósamræmi er nú orðið um aðflutningsgjöld af sams konar eða svipuðum vörum. Þetta ósamræmi hefur skapazt og aukizt smám saman, verið stundum vitandi vits til þess að mismuna atvinnuvegum eða jafnvel formum atvinnugreina eða atvinnurekstrar, en stundum orðið af vangá, vegna þess að of skammur tími hefur unnizt til undirbúnings. Lm þetta má nefna ótal dæmi, en ég skal nefna hér fyrst varahluti til véla. Tollar af varahlutum eru nú, og þegar ég ræði um tolla, eins og þeir eru nú, þá er að sjálfsögðu átt við heildargjöldin samanlagt í prósentu, og um það fjallar skráin, sem prentuð er aftast í þessu frv., — sem sagt, heildargjöldin af varahlutum eru nú ýmist 21% eða 34% eða 77%, eftir því, hvort á að setja varahlutinn í bát eða dráttarvél eða bíl. Oft og tíðum er um nákvæmlega sams konar hlut að ræða, sem hentar í hvað sem er af þessu þrennu. Slíkt fyrirkomulag býður náttúrlega upp á misnotkun, og að dómi tollyfirvalda er þetta orðið óframkvæmanlegt með öllu, enda má það ljóst vera, að þegar svona mikill munur er orðinn á tollum, 77% og niður í 21%, þá er freistingin ákaflega mikil til misnotkunar. Tollskráin samræmir og sameinar þessa tolla. Í staðinn fyrir þessa þrjá mismunandi er settur einn og sami tollur af öllum varahlutum til véla, 35%, hvort sem þeir eiga að fara í bátavélar, dráttarvélar eða bifreiðar.

Annað dæmi, þar sem ósamræmið hefur verið orðið einnig óviðunandi; eru umbúðir, og er það þannig í dag, að sumar bráðnauðsynlegar umbúðir eru með heildargjöld yfir 100%, en aðrar umbúðir með allt niður í 4%, þó að þær ættu að réttu lagi að heyra saman eða a.m.k. að falla í flokka, sem ekki væru mjög langt hver frá öðrum. Þetta hefur skapazt fyrir vangá og slysni í meðförum Alþ. á tollalögum, og oft og tíðum verið svo óskýr ákvæði, að í framkvæmd hefur þetta misræmi skapazt og aukizt.

Í þriðja lagi má nefna vefnaðarvörur ýmiss konar og efni til fataiðnaðar, þar sem hefur verið gífurlegt ósamræmi, eins og nokkru nánar er lýst í grg. Og í grg. er þessu þrennu, sem ég hef hér nefnt, lýst allrækilega.

Þessi samræming er að sjálfsögðu ákaflega mikið vandamál. Við erum þar að ýmsu leyti bundnir af fortíðinni, og ýmsar lagfæringar eru þess eðlis, að það verður að gera þær í fleiri áföngum en einum, því að ella yrðu stökkin of stór. Þegar á að samræma hluti og setja þær vörur, sem saman eiga, í sama tollflokk, þá þarf að sjálfsögðu oft að lækka verulega tolla á sumum flokkum, og taka allir því að sjálfsögðu vel, en á hinn bóginn þarf svo að hækka tolla til samræmingar á öðrum, og er því að sjálfsögðu yfirleitt miður vel tekið. Og þeir, sem notið hafa forréttinda, una því að vonum illa, þegar verið er að samræma og lagfæra hlutina og koma á réttlæti og jöfnuði í stað ranglætis og ójafnaðar, sem lengi hefur átt sér stað.

Á því er enginn vafi, að með þessari tollskrá hefur stórmikið áunnizt til samræmingar, lagfæringax, leiðréttingar og jafnréttis. Hins vegar er markinu engan veginn náð að fullu, og margt er enn ógert, sem að þarf að stefna. En eins og ég tók fram, verður ýmislegt af því að taka í fleiri áföngum en einum, vegna þess að ella yrðu stökkin of stór og of tilfinnanleg.

Fyrir utan þau tvö meginsjónarmið, sem ég hér hef rakið, að gera tollskrána einfalda og að samræma aðflutningsgjöldin, kemur í þriðja lagi það sjónarmið að lækka tollana eftir föngum. Þegar rætt er um lækkun tolla, þá er í rauninni um tvennt að ræða: annars vegar að hætta þeirri oftollun, sem verið hefur á mörgum vörum, og hins vegar að lækka tolla á ýmsum nauðsynjum atvinnuveganna og almennings. Oftollun margra vara var orðin slík, að engin dæmi þess eru meðal vestrænna, frjálsra þjóða. — Það er nú tæpast málfriður hér. (Forseti: Það er verið að gera ráðstafanir til að einangra betur á milli.)

Þegar verið var að afla tekna til þess að hlaupa undir bagga með atvinnuvegunum, þá var oft gripið til þess ráðs eða óráðs að hækka og hækka aftur og aftur tolla á ekki aðeins munaðarvörum, heldur ýmsum v örum, sem öllum almenningi eru nauðsynlegar, en hafa þó lítil sem engin áhrif á vísitöluna. Þetta var auðvitað komið hér hjá okkur gersamlega úr hófi. Hæstu aðflutningsgjöld nú á einni vöru eru 344% , og áður en tollalækkunin var framkvæmd í nóvember 1961, voru mjög margar vörur með heildargjöld, sem námu um 300% og á milli 200 og 300%. Þessi oftollun leiddi af sér þrennt: óhóflegt verð á þessum vörum, í öðru lagi stórfellt smygl og í þriðja lagi tekjutap ríkissjóðs. Í nóvembermánuði 1961 var í fyrsta sinn ráðizt til atlögu gegn þessum ófögnuði. — Er ekki hægt að loka þarna? (Forseti: Það verða gerðar ráðstafanir til þess.) Þá eru lækkuð verulega gjöld af fjölmörgum vörutegundum og fyrst og fremst þeim, sem voru í hæstum tollflokkum og vissa var um eða grunur lék á að væri smyglað að verulegu leyti til landsins. Afleiðingin af þessari tollalækkun í nóvember 1961 varð í fyrsta lagi veruleg verðlækkun á mörgum vörum til gagns fyrir almenning, í öðru lagi, að úr smyglinu dró stórlega, og í þriðja lagi, að ríkissjóður fékk meiri tekjur en áður, þrátt fyrir tollalækkunina. Það var að vissu leyti áhættufyrirtæki að ráðast í þessa tollalækkun þá, og ef innflutningur að löglegum leiðum hefði haldizt óbreyttur frá því, sem verið hafði áður, þá hefði þessi tollalækkun svipt ríkissjóð milli 40 og 50 millj. kr. tekjum á ári. Því var hins vegar spáð og því var trúað af ríkisstj. og meiri hl. Alþingis, að árangur sá, sem til var ætlazt, mundi nást með þessum aðgerðum, og það reyndist sannmæli, því þegar litið er yfir innflutning þessara vara, sem tollar voru lækkaðir á í nóvember 1961, innflutning þeirra vara allt árið 1962 og hins vegar allt árið 1961, þá sést, að þrátt fyrir hinar miklu lækkanir tolla á mörgum þessara vara, þá hafa tekjur ríkissjóðs aukizt um nærri 15 millj. á árinu 1962 frá því, sem var 1961. í því sambandi er rétt að taka fram, að heildarinnflutningur ársins 1962 varð meiri en heildarinnflutningur ársins 1961 og hefur vafalaust einhver áhrif í þessu efni, en sá munur nemur ekki nema tiltölulega litlu, og á því er enginn vafi, enda má sjá það af innflutningsskýrslum, að meginástæðan fyrir þessum tekjuauka ríkissjóðs er það, að hinn ólöglegi innflutningur hefur stórminnkað og innflutningurinn að verulegu leyti færzt í hina löglegu farvegi.

Ég vil nefna dæmi þessu til sönnunar. Kvensokkar voru lækkaðir úr 132% niður í 52%. Það brá svo við, að innflutningur kvensokka, sem verið hafði 6 millj. árið 1961, hækkaði upp í 15 millj. árið 1962. Vafalaust dettur engum í hug, að notkun þessarar vöru hafi aukizt stórkostlega, trúlega hefur notkunin verið nokkuð svipuð frá ári til árs. En þessar tölur, aukning úr 6 millj. kr. innflutningi upp í 15 millj. á einu ári, bentu auðvitað til þess, að úr hinum ólöglega innflutningi hefur dregið stórum.

Ég vil nefna annan vöruflokk eða vöruflokka. Það er ytri fatnaður ýmiss konar, bæði úr ull og baðmull. Þar undir falla bæði kjólar, kápur, úlpur, jakkar og peysur. Tollar á þessum vörum voru lækkaðir úr 155—187%, sem þeir voru, og niður í 90–100%. Innflutningur á þessum vörum var árið 1961 4 millj., en árið 1962 121/2 millj., m.ö.o. meira en þrefaldaðist. Tolltekjur ríkissjóðs af innflutningi þessara vara, þessa ytri fatnaðar, jukust um 4.7 millj. á árinu 1962.

Þriðja dæmið eru hattar og höfuðföt önnur, sem var lækkað úr 186 % niður í 100%. Innflutningurinn meira en tvöfaldaðist, jókst úr 800 þús. upp í 2.1 millj. — Ljósmyndavélar voru lækkaðar úr 155% í 52%, innflutningurinn jókst úr 1 millj. í 21/2 millj. Úr voru lækkuð úr 207% niður í 52%, innflutningurinn jókst úr 1.1 millj. upp í 3.9 millj.

Ég gat þess, að ein af afleiðingum þess, þegar tollar eru hafðir úr öllu hófi, er hér eins og annars staðar stóraukið smygl. Verður því löggjafinn jafnan að gæta nokkurs hófs og meta það, hversu háa tolla er unnt að taka af tollhæstu vörum, þeim sem sízt eru taldar nauðsynlegar, hversu hátt má spenna bogann, án þess að veruleg hætta sé á ólöglegum innflutningi. Í þessu frv. hefur að sjálfsögðu verið reynt að gæta hófs og hafa það sjónarmið að spilla ekki þeim árangri, sem þegar hefur náðst nú á rúmu ári til að vinna bug á hinum ólöglega innflutningi, heldur halda áfram á þeirri sömu braut, að reyna eftir föngum að draga úr honum með skynsamlegri löggjöf og framkvæmdum. Smygl á vörum hefur auðvitað í för með sér margar illar afleiðingar, siðspillingu og ólöghlýðni, sem er þeim mun hættulegri sem það verður almennara í áliti fólks, að eðlilegt sé og rétt að smygla vörum, en því miður verður það stundum þannig, þegar tollar eru óhóflegir, að slíkt almenningsálit fer að skapast. En þegar smygl er orðið almennt, ég tala nú ekki um, ef allur almenningur dæmir það ekki hart, þá er auðvitað skammt til þess, að af því leiði spillingu og ólöghlýðni á öðrum sviðum. En einnig er þess að gæta, að í sambandi við smyglvörur kemur ákaflega mikið inn af lélegri vöru. Yfirleitt er það lélegri vara en sú, sem flutt er inn af þeim innflutningsaðilum, sem mesta þekkingu og ábyrgð hafa í þeim efnum. Enn fremur fylgir því gjaldeyriseyðsla að óþörfu, vegna þess að mjög mikið af smyglvöru er keypt óhagkvæmt inn erlendis, keypt í smásölu, þar sem smásöluálagning er miklu hærri en þekkist hér á landi, í stað þess að íslenzkir innflutningsaðilar hafa yfirleitt þau sambönd og þá aðstöðu, að þeir fá vörur sínar á heildsölu- eða verksmiðjuverði.

Sem betur fer hefur nú þokazt mjög í rétta átt í þessum efnum, að draga stórlega úr smyglinu. Ég vil taka það fram í sambandi við þetta mál, að önnur nefnd manna hefur unnið að endurskoðun á lögum um tollheimtu og tolleftirlit. Þau lög þurfa endurskoðunar við, og er gert ráð fyrir, að ýmis nýmæli verði á sínum tíma lögfest, auk þess sem herða þarf framkvæmd í ýmsum efnum til þess að draga sem mest úr hinum ólöglega innflutningi. Þeir, sem að þei frv. hafa unnið, eru langt á veg komnir með það, en hvort unnt verður að leggja það lagafrv. fyrir þetta þing eða verður að bíða næsta hausts, er ekki hægt að segja á þessu stigi máls, en þykir rétt að skýra hv. deild frá því, að þeirri endurskoðun er langt komið.

Ég hef rætt hér um einkum um hríð um lækkanir á hátollavörum. En að sjálfsögðu felur þetta frv. í sér margvíslegar og víðtækar lækkanir á öðrum vörum en til hátollavara teljast, ýmiss konar nauðsynjum fyrir almenning og atvinnuvegina, og mun ég koma nokkru nánar að því síðar. En í stað þess að heildargjöld af mörgum vörum hafa til skamms tíma verið 200—300% og eins og ég gat um upp í 344%, þá er nú hámarkstollur samkv. hinu nýja tollskrárfrv. 125 %.

Fjórða atriðið, sem haft hefur verið til hliðsjónar við samningu þessarar tollskrár, er það að sníða hana eftir alþjóðlegri fyrirmynd, en það er Brüssel-nafnaskráin svonefnda. Á tímum Þjóðabandalagsins gamla voru gerðar tilraunir til þess að koma á samræmi um tollskrár þjóðanna, en varð lítið ágengt. Eftir lok síðari heimsstyrjaldar var málið tekið upp að nýju, og 1950 var haldinn fundur með fulltrúum margra þjóða í Brüssel í Belgíu. Þar var gerður sáttmáli um tollskrárfyrirmynd, Brüssel-nafnaskrá, eins og hún hefur verið nefnd. Við Íslendingar vorum aðilar að þeirri samþykkt, en höfum ekki fullgilt samþykktina enn þá á þann hátt, sem venja er til, með staðfestingu forseta Íslands og Alþingis. Fullgilding Brüssel-skrárinnar er í undirbúningi. Það hefur verið mikið verk, bæði í sambandi við þýðingu og annað, og var talið rétt að láta vinnu við tollskrána ganga fyrir, og má því gera ráð fyrir, að til fullgildingar komi ekki fyrr en á næsta þingi, enda skiptir það út af fyrir sig ekki máli, hvort frá því er gengið nú eða næsta haust. Allar þjóðir Vestur-Evrópu hafa komið á hjá sér í tollalögum sinum þessari skipan, sem Brüssel-skráin mælir fyrir um og byggir á, og þótti því sjálfsagt, þegar tollskrá þessi var undirbúin, að semja hana eftir Brüssel-nafnaskránni. Eins og ég gat um í upphafi máls míns, var það að sjálfsögðu mjög mikið verk. Hins vegar er að því að sjálfsögðu ómetanlegt gagn, ekki sízt þegar tekið er tillit til þess, hversu viðskipti milli þjóða fara sívaxandi, einnig milli Íslands og annarra ríkja. Það eru vafalaust allir á einu máli um það, að á næstu árum skapist nánara samband í tollamálum milli Íslands og annarra þjóða. Í hvaða formi sem það verður og hvernig sem um efni þess verður, en ég ætla, að enginn dragi í efa, að til nánara samstarfs við þjóðir Vestur-Evrópu muni draga á næstu árum, þá er það að sjálfsögðu ákaflega þýðingarmikið, að við verðum búnir að koma okkar tollskrá í sama form og aðrar þjóðir, og mun auðvelda stórum allt slíkt samstarf. Það er auðvitað allt annað að hafa þessa nýju tollskrá í sama formi, sömu uppbyggingu, með sömu tollskrárnúmer fyrir sömu vörutegundir eins og allar aðrar þjóðir Vestur-Evrópu, í staðinn fyrir þá grautargerð, sem nú er í okkar tollamálum og ekki er hægt kinnroðalaust að sýna nokkrum siðuðum manni.

Varðandi gerð og uppbyggingu Brüssel-skrárinnar skal ég láta nægja að vísa til grg. með frv. á bls. 142 og 143, þar sem þetta mál er mjög ýtarlega skýrt. Það má aðeins geta þess, að vafalaust mun ýmsum Íslendingum, sem blaða í tollskránni, finnast hún vera ýtarlegri og meira sundurliðuð en nokkur þörf er á fyrir Ísland. Skýringin er að sjálfsögðu sú, að þessi tollskrárfyrirmynd er miðuð við þarfir háþróaðra iðnaðarþjóða, og fyrst og fremst af þeim ástæðum er hún jafnsundurliðuð eins og hún er. Að sjálfsögðu eru mörg númer í tollskránni, sem við þurfum ekki á að halda að sinni, en auðvitað í vaxandi mæli, eftir því sem iðnaður okkar sjálfra vex og verður fjölbreyttari.

Með þessu frv. fylgir ýtarleg grg. á bls. 140 –152, þar sem bæði er gerð grein fyrir aðdraganda, vinnu við skrána, starfstilhögun og raktir meginþættir hennar, m.a. hverjir tollar eigi eftir henni að verða á ýmsum helztu vöruflokkum. Á bls. 152–153 er svo áætlun um heildartekjur ríkissjóðs samkv. núgildandi tollalögum og hverjar þær mundu vera eftir tollskránni. Þá eru á bls. 153–165 skýringar við einstaka kafla og einstakar greinar. Og loks er á bls. 166–174 samanburður á tollum eða heildargjöldum, eins og þau eru nú fyrir hvert tollskrárnúmer eftir nýju tollskránni og hvernig verðtollurinn á að verða eftir henni. Það er rétt að geta þess til viðbótar, að nafna- eða orðaskrá yfir alla tollskrána er í prentun og verður tilbúin næstu daga, þar sem menn geta séð um hvert einstakt vöruheiti, hvar ákvæði um þau er að finna í tollskránni. Því miður hefur ekki tekizt vegna óvenjumikils annríkis í ríkisprentsmiðjunni að ljúka því verki enn, en verður sem sagt til alveg næstu daga.

Þá skal vikið að nokkrum einstökum vöruflokkum, sem snerta atvinnuvegina og almenning. Það er rétt að minnast hér fyrst á vélar og tæki og varahluti til þeirra. Í framkvæmd hefur undanfarin ár skapazt mjög mikið vandamál í sambandi við tollun á varahlutum í bifreiðar, bátavélar og landbúnaðarvélar, og gat ég þess nokkuð hér áðan sem dæmis um þá samræmingu, sem verið er að koma á í staðinn fyrir óhafandi ósamræmi. En nú er það svo, að á bátavélum og varahlutum í þær eru heildargjöld nú 21%, á vélum og varahlutum í hjóladráttarvélar um 34% og vélum og varahlutum í bifreiðar um 70%. Afleiðing þessa er sú, að með öllu móti er reynt að koma sem mestu af þessum varahlutum í lægsta tollinn, bátavélatollinn, sem er 21%. Tollyfirvöld hafa verið í hinum mesta vanda með þetta og oft og tíðum skapazt óhjákvæmilega misrétti milli innflytjenda í þessu efni. Það var lögð í það mikil vinna að finna tillögur til lausnar á þessum mikla vanda, og er gerð ýtarleg grein fyrir því á bls. 151 í grg. frv. Aðalreglan verður þá sú, að á vélum og varahlutum verður ákveðinn einn tollur, 35%. Til þess að gætt sé hagsmuna sjávarútvegs og sveitabæja, sem hér koma til greina, þá er svo ákveðið, að vélar, sem sannanlega eru settar í báta, skuli fá lægri toll, ýmist strax í öndverðu eða sem endurgreiðslu, þannig að raunverulegur tollur af bátavélum verði 10%. Er það því lækkun frá því, sem er nú, úr 21% í 10% . Sama máli gegnir um vélar, sem saxmanlega eru notaðar til raflýsingar á sveitabæjum. Þær eru nú raunverulega í 34% tollflokki. Samkv. núgildandi reglum munu þær þó hafa verið í framkvæmd yfirleitt tollaðar með 31% eins og bátavélar, en verður nú lækkað í 10%. Varðandi varahlutina, þá þýðir þetta auðvitað mjög mikla lækkun á varahlutum til bifreiða, eða úr 77% niður í 35%. Varðandi varahluti í dráttarvélar má heita, að tollur sé óbreyttur. En óneitanlega er hér um töluverða hækkun að ræða á tollum af varahlutum til bátavéla, og skal ég koma að því hér á eftir, hvað gert hefur verið til þess að bæta útgerðinni upp þá tollahækkun.

Það er auðvitað ljóst, að þessi mikla lækkun á vaxahlutum til bifreiða úr 77% niður í 35% þýðir mjög mikið tekjutap fyrir ríkissjóð, og til þess að vega nokkuð upp á móti því tapi, en þó hvergi nærri að fullu, er lagt til, að tollur á fólksbifreiðum hækki úr 81% í 90%. Ég hef látið reikna það út, hvernig þetta komi út gagnvart almennri fólksbifreið, þ.e.a.s. að tollurinn á innkaupsverði hækkar um þessi 9%, en tollurinn á varahlutum lækkar, eins og fyrr segir. Vegamálastjóri hefur gert útreikninga á þessu varðandi almenna fólksbifreið og miðar þar við, að bifreiðin sé rekin í 5 ár, og verður þá niðurstaðan sú, miðað við venjulega notkun og varahlutaþörf og viðgerðir, að eigandi bilsins kemur nokkurn veginn jafnsléttur, þ.e.a.s. hann hagnast lítils háttar á þessari breytingu, þannig að tolllækkun á varahlutunum nemur nokkru hærri upphæð en hækkunin á innkaupsverðinu af þessari álagningu.

Atvinnubifreiðastjórar hafa notið að undanförnu nokkurra sérákvæða, ekki um toll, heldur um svokallað leyfisgjald eða innflutningsgjald af bifreiðum. Það er þannig nú, að þetta innflutningsgjald af bifreiðum er almennt 135% eða af minni bifreiðum 110%, hins vegar greiða atvinnubifreiðastjórar ýmist 80% innflutningsgjald eða 60% eftir stærð bíla. Það hefur lengi verið beiðni atvinnubílstjóra, að þeirra hlutur yrði réttur meir miðað við ýmsa aðra atvinnurekendur, m.a. þá, sem eiga og reka vörubíla, en af vörubifreiðum eru bæði miklu lægri tollar og engin leyfiseða innflutningsgjöld. Ríkisstj. hefur nýlega ákveðið að ganga nokkuð til móts við atvinnubílstjóra að þessu leyti, m.a. til þess að ekki bitni á þeim þessi hækkun á tollum af fólksbifreiðum. Hún hefur því ákveðið að lækka hið sérstaka innflutningsgjald af bifreiðum til atvinnubílstjóra úr 80% niður í 40% og úr 60% niður í 30%. Tollur af vörubifreiðum, sendibifreiðum, almenningsbifreiðum og jeppum verður svo til hinn sami og hann er nú, eða 40% í stað 38%. Og eins og menn sjá á tollskránni, vil ég skjóta hér inn í, verður í mörgum tilfellum að lækka niður eða hækka upp til þess að koma vörum í þá tollflokka, sem tollskráin ákveður, þar sem hleypur á hálfum og heilum tugum. Fyrir þá bilaeigendur, sem ýmist eru nýbúnir að fá fólksbila eða þurfa ekki að endurnýja þá á næstunni, sem og fyrir þá, sem eiga vörubíla, sendiferðabíla, almenningsbifreiðar o.s.frv., sem tollur er svo til óbreyttur á, er þetta auðvitað mikið hagræði og sparnaður, hversu varahlutir til bifreiða lækka mjög.

Í sambandi við bifreiðar er rétt að nefna ýmiss konar tæki þeim skyld, eins og dráttarvélar, beltisdráttarvélar, jarðýtur, veghefla og grafvélar. Að eðlilegum hætti eiga þessar vélar að vera í einum og sama tollflokki, en eru nú mismunandi: grafvélar í 21%, jarðýtur og beltisdráttarvélar í 34%, vegheflar í 38%. Nú er ákveðinn einn og sami tollur fyrir þessar vélar eða 25%, og þýðir það því verulega lækkun fyrir beltisdráttarvélar, jarðýtur og veghefla, en grafvélar verða nokkuð að hækka á móti til samræmis, og er það þó litilfjörleg hækkun, úr 21% upp í 25%.

Ég minntist hér á sjávarútveginn og að bátaeigendur lentu í nokkurri hækkun á varahlutum til bátavéla, eða úr 21–35%, sem er óhjákvæmileg samræming, eins og getið var hér áðan. Til þess að draga úr áhrifum þessarar hækkunar hafa ýmsar aðrar þarfir sjávarútvegsins verið lækkaðar, þannig að þær lækkanir samtals eru ekki aðeins nægar til að vega á móti þessari hækkun varahlutanna, heldur nema miklu meira. Þannig er tollur á bátavélum lækkaður úr 21% niður í 10%, tollur af bergmálsdýptarmælum, fisksjám og radartækjum lækkaður úr 15% niður í 4%, tollur af skipsskrúfum og ýmsum tilteknum hlutum, sem eingöngu eru til báta, lækkaður úr 21% niður í 4%, af stýrisvélum úr 35% niður í 4%. Þegar litið er hins vegar á sjávarútveginn almennt, þá eru að sjálfsögðu skip og bátar tollfrjáls, eins og verið hefur, og þá einnig vélar og tæki, sem í þeim eru, þegar þau koma til landsins. Umbúðir utan um sjávarafurðir, sem útfluttar eru, eru tollfrjálsar, og ýmsar rekstrarvörur og notaþarfir sjávarútvegsins eru tollaðar með 1–4%, svipað og nú er.

Á tækjum til landbúnaðarins er um verulega lækkun á tollum að ræða. Á hjóladráttarvélum er nú um 34–35% tollur, og er hann lækkaður niður í 10%. Af ýmsum öðrum landbúnaðarvélum og tækjum eru tollar nú 19, 20 eða 21%, og er það lækkað allt niður í 10%. Þannig verða með 10% nú plógar, herfi, áburðardreifarar og slík verkfæri, mjaltavélar, sláttuvélar, upptökuvélar fyrir kartöflur, rakstrar- og snúningsvélar, en þessar vélar eru sem sagt með 19–21% tolla nú. Enn fremur eru vélar til raflýsingar á sveitabæjum, eins og ég gat um áðan, sem eru nú skv. tollskránni með 34%, en í framkvæmd raunverulega 21%, en það er lækkað niður í 10%. Hér er fyrst og fremst um að ræða vélar, sem bændur nota á búunum. Hins vegar eru svo vinnsluvélar, sem notaðar eru í mjólkurvinnslustöðvum, og tollur af þeim verður skv. frv. 35%, eins og af öðrum iðnaðarvélum.

Ég hef drepið hér nokkuð á sjávarútveg og landbúnað, og er þá rétt að fara örfáum orðum um þriðja höfuðatvinnuveg okkar, sem er iðnaðurinn.

Í sambandi við iðnaðinn skapast auðvitað fjölmörg vandamál, þegar semja skal tollskrá, því að það þarf auðvitað að hafa í huga að veita íslenzkum iðnaði hæfilega vernd, en hins vegar ekki of mikla vernd. Það er margt, sem þar þarf að taka tillit til, tollar af þeim hráefnum, sem iðnaðurinn þarf að nota, og tollar af sams konar vörum fullunnum erlendis. Í þessu sambandi kemur það einnig mjög til athugunar, hversu mikill hluti af framleiðslukostnaði innlendrar iðnaðarvöru er erlent hráefni og hve mikið vinnuafl er hér heima. Og það er ljóst, að iðngreinar þurfa mismunandi háa tollvernd eftir því, hvernig er með hlutföll hins innlenda og hins erlenda kostnaðar í framleiðslukostnaði iðnaðarvörurnar. Ég skal ekki fara hér ýtarlega út í þetta mikla og stóra vandamál, en reynt hefur verið eftir föngum að leysa þetta með fullri sanngirni. Margt er það í íslenzkum iðnaði, sem fyllilega stenzt eðlilega samkeppni við erlendan iðnað. Meginsjónarmiðin verða auðvitað að vera þessi, að láta iðnaðinn innlenda ekki gersamlega verndarlausan eða jafnvel hafa öfuga tollvernd, eins og stundum kemur fyrir, að erlend eða fullunnin vara er flutt inn með lágum eða engum tolli, en hins vegar efnivörur í sams konar vörur framleiddar hér eru tollaðar. Þetta er í rauninni öfug tollvernd og refsiskattur á hinn íslenzka iðnað, og einstök dæmi eru þar svo erfið viðfangs, að ekki hefur reynzt unnt að leysa þau til fullnaðar enn. En meginsjónarmiðin eru auðvitað þessi, að láta íslenzkan iðnað ekki verndarlausan, veita honum hins vegar ekki óhæfilega vernd, þannig að óheilbrigður iðnaður geti varið upp í skjóli slíkrar tollverndar, heldur að meta, hvað er eðlileg og hæfileg vernd í þessu efni. Ég vil geta þess sérstaklega hér, að þeir forráðamenn íslenzks iðnaðar og sérfræðingar, sem af hans hálfu hafa verið hafðir til ráðuneytis um ýmis þessi vandamál, hafa sýnt mjög mikinn þroska og viðsýni í þessu efni og fjarri þeim að heimta í nokkru eða fara fram á í nokkrum efnum vernd, sem ósanngjörn eða óhófleg gæti talizt.

Eitt af því, sem íslenzkir iðnaðarmenn og iðnrekendur hafa haft mikinn áhuga á, er, að tollur af iðnaðarvélum yrði lækkaður. Hann er í þessari tollskrá 35% eða svipaður og hann er nú. Það var athugað gaumgæfilega, hvort ekki væri hægt að ganga til móts við iðnaðinn að þessu leyti og færa niður tollinn af iðnaðarvélum. Það reyndist ekki unnt. Í fyrsta lagi þýddi það náttúrlega verulegt tekjutap fyrir ríkissjóð. En í rauninni var það ekki það, sem skar úr, heldur hitt, að hefði átt að lækka tolla af iðnaðarvélum úr 35%, hefði ákaflega margt annað óhjákvæmilega orðið að fylgja með til samræmingar, bæði aðrar vélar en þær, sem notaðar eru beint til iðnaðar, og einnig ýmiss konar efnivörur og hrávörur, sem eru í 35% flokki, og var það að lokum mat og niðurstaða manna, að ekki þætti fært að þessu sinni að færa iðnaðarvélarnar niður úr 35%. Það eru ýmsar efnivörur til íslenzks iðnaðar, sem eru lækkaðar í tolli, og hefur samræmingarsjónarmiðið ekki sízt átt sér stað varðandi fatnaðariðnaðinn, eins og greint er frá á bls. 148 í grg., en þar var um mikið og flókið samræmingarvandamál að ræða, sem ég ætla, að hafi tekizt vel að leysa, og þýðir um leið töluverða lækkun á mörgum þeim efnivörum.

Í heimildagrein í tollskrárfrv. eru tvö ákvæði, sem ég vildi aðeins nefna hér. Það er í fyrsta lagi heimild til þess að endurgreiða, lækka eða fella niður gjöld eða hluta af þeim af efnivörum í innlendar framleiðsluvörur og af umbúðum og efnum í umbúðir um innlendar framleiðsluvörur, enda séu hinar innlendu framleiðsluvörur fluttar til útlanda til sölu þar. Enn fremur er heimild til þess að lækka gjald af efnivöru í innlenda iðnaðarvöru, ef gjöldin af sams konar iðnaðarvöru framleiddri erlendis eru jafnhá eða lægri en af efnivörunni og verðmæti efnivörunnar eru verulegur þáttur í kostnaðarverði innlendu iðnaðarvörunnar.

Þrátt fyrir mjög vandlegan undirbúning þessarar tollskrár og samráðs við hina fróðustu menn á sviði iðnaðar getur það auðvitað alltaf komið í ljós í framkvæmd og við reynslu, að inniendur iðnaður, annaðhvort sá, sem nú er til eða upp kann að rísa á næstu árum, njóti ekki þeirrar verndar, sem eðlileg er talin, heldur jafnvel öfugt. Og til þess að geta gripið í taumana án þess að þurfa að breyta tollskránni sjálfri er þessi heimild sett, sem ég nú gat um. Sem sagt, ef það kemur í ljós, að hráefni í einhverja vöru, sem á að fara að framleiða hér á landi, reynist vera hærra en tollarnir af sams konar vöru innfluttri fullunninni, þá megi lagfæra það.

Í sambandi við iðnaðinn er einnig rétt að geta þess, að lækkaður er tollur á handverkfærum og smíðatólum úr 81%. og 70%, sem það er í nú, og niður í 60%.

Í sambandi við íslenzkan iðnað er loks rétt að geta um eitt nýmæli í frv., og er það í 27.–32. gr. frv. Það er um undirboðs- og jöfnunartolla. Þetta mál er skýrt í grg. allýtarlega, en slík ákvæði um undirboðs- og jöfnunartolla hafa ekki verið í gildi hér á landi áður, en nær öll ríkin í Vestur-Evrópu hafa tekið upp í tollalög sin slík ákvæði, einkum í sambandi við aðild að tollabandalaginu, sem kallað er GATT. Þau ákvæði, sem ríki Vestur-Evrópu hafa tekið í tollalög sin um þetta atriði, eru í samræmi við GATT-samkomulagið og texta þess, en þar eru sérstök ákvæði um heimildir meðlimaríkjanna, til þess að koma á hjá sér undirboðstolli. Sams konar ákvæði eru einnig í gildi í Bandaríkjum Norður-Ameríku og viðar. Þessi ákvæði eiga sér þau rök, að undirboð, sem kallað er „dumping“, er vel þekkt fyrirbæri í milliríkjaviðskiptum. Það er aðallega fólgið í því, að fjárhagslega sterk erlend fyrirtæki reyna að koma fyrir kattarnef einhverri tiltekinni innlendri framleiðslu með því að selja vörur sínar undir kostnaðarverði um hríð. Þessum viðskiptaháttum er þá einkum beint gegn nýjum atvinnufyrirtækjum innlendum, sem framleiða og setja á markaðinn sams konar vörur og þessir erlendu aðilar höfðu áður selt til þess lands. Það hefur alloft komið fyrir, að slíkum fjársterkum aðilum hefur með slíkum undirboðum um nokkurn tíma tekizt að koma hinu innienda iðnaðarfyrirtæki á kné. Undirboðstolli er ætlað að hamla gegn slíkri skemmdarstarfsemi.

Það er rétt og nauðsynlegt að hafa einnig hér á landi slik ákvæði, sem hægt er að grípa til, er hagfelldum og nauðsynlegum íslenzkum iðnrekstri er stefnt í hættu með undirboðskjörum erlendis frá. Um þetta segir svo í 27. gr. frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Nú má ætla, að erlend vara sé flutt inn eða boðin fram með undirboðskjörum (dumping) og slíkt geti stofnað innlendum atvinnurekstri í hættu eða torveldað hann að mun, og má þá fjmrh. leggja á sérstakan undirboðstoll til að hamla gegn slíkum viðskiptum. Þá má fjmrh. í sama skyni og með sömu skilyrðum leggja á sérstakan jöfnunartoll, ef ætla má, að útflutningsverðlaun, uppbætur, endurgreiðslur og þess háttar erlendis hafi sams konar áhrif hér á landi og getið er í 1. mgr. — Undirboðs- og jöfnunartolla má ekki leggja á til lengri tíma en 6 mánaða í senn.“

Í næstu greinum er svo nánar tiltekið, hvað átt er við með undirboði og undirboðskjörum og einnig um upphæð undirboðstollsins, en hann má samkv. 29. gr. ekki vera hærri en sem svarar undirboðinu, þ.e.a.s. mismuninum á undirboðsverðinu og verðinu, sem tekið er til samanburðar. Þá er ákvæði í 31. gr. um, að fjmrh. skuli, svo fljótt sem unnt er, skýra Alþ. frá álagningu undirboðs- og jöfnunartolla og ástæðunum fyrir álagningu þeirra.

Efnislega ætla ég, að það geti tæpast verið ágreiningur um það, að rétt sé og nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga eins og aðrar þjóðir að hafa slíkar varnarráðstafanir gegn undirboðum til þess að vernda íslenzkan iðnað. Ég mundi hins vegar ætla og í rauninni vona, að til þess þurfi aldrei að grípa að leggja á slíka undirboðs- eða jöfnunartolla, heldur verði áhrif þessara lagaákvæða þau að koma í veg fyrir slíka verzlunarhætti, og í rauninni væri það æskilegast, að tilvera slíks heimildarákvæðis nægði til að koma í veg fyrir slík undirboð og aldrei þyrfti til þeirra að grípa.

En það er annað atriði í þessu sambandi, sem rétt er á að drepa. Og það er það, hvort slík ákvæði eins og þessi samrýmist 40. gr. stjórnarskrárinnar, sem kveður svo á, að engan skatt megi á leggja nema með lögum. En með þessa ákvæði er gert ráð fyrir að heimila fjmrh. að leggja á þennan toll. Nú má vitna að vísu í viss ákvæði, sem eru í gildandi lögum, t.d. lögum frá 1948 um hafnargerðir, sem fordæmi, en vissulega má um það deila, hvort rétt sé að túlka stjórnarskrárákvæðið með þessum hætti, að Alþ. geti með lögum framselt þetta skatt- eða tollálöguvald til fjmrh. Nú er það svo, að þetta er talið eftir danskri og norskri fyrirmynd, þessi kafli, og bæði þau lönd hafa sams konar ákvæði, að ég ætla, í sínum stjórnarskrám, eða a.m.k. er sams konar ákvæði í dönsku stjórnarskránni. Og þar var það álit fróðra manna og löglærðra eftir miklar umræður um málið, að þetta væri heimilt með þeim takmörkunum, sem settar eru í I., í fyrsta lagi allýtarlegar reglur um, hver skilyrðin þurfa að vera til slíkrar álagningar, í öðru lagi að takmarka gildistíma slíkra tolla við 6 mánuði og í þriðja lagi að skylda fjmrh. til þess að skýra Alþ., svo fljótt sem unnt er, frá álagningunni og ástæðunum til hennar. Sannleikurinn er náttúrlega sá, að undirboðs- og jöfnunartollar mundu oft og tíðum ekki koma að fullu gagni, ef í hvert sinn yrði að leita til löggjafarvaldsins í því efni. Það gæti tekið svo langan tíma að fá slíka heimild og yrði allmiklu þyngra í vöfum. Um þetta atriði skal ég ekki fara fleiri orðum, en vísa að öðru leyti til grg. frv. um þetta mál.

Þýðingarmikill þáttur í kostnaði og útgjöldum atvinnuveganna allra og ekki sízt verzlunarinnar er umbúðir. Umbúðir og efni í umbúðir hefur verið eitt af þeim glundroðaatriðum, þar sem ákaflega mikils ósamræmis hefur gætt, eins og þegar það er athugað, að tollur hefur verið af umbúðum í rauninni frá 4% og upp í yfir 100%, jafnvel upp í 132%, að ég ætla. í það var lögð mikil vinna að reyna að samræma þessa hluti, og er gerð grein fyrir meginniðurstöðum þess á bls. 149 í grg. frv. Þar er rakið, hvernig tollar breytast á flestum tegundum pappírs og umbúða. Prent- og skrifpappír verður nú með 30% í stað 33%; kraftpappír og kraftpappi einnig með 30%, lækkaður úr 45%; bókbandspappi, umbúðapappír og veggpappi einnig í 30%, en er nú ýmist með 52, 54 eða 56%. Handgerður pappír og pappi lækkar úr 107% niður í 30%. Pergamentpappír er ýmist með 4%, eins og nú er, þ.e.a.s. upp að vissri þyngd, en annars yfirleitt með 30% í staðinn fyrir 70%; bylgjupappír og bylgjupappi með 40% í stað 52; áprentaður pappír og pappi með 60% í stað 107%. Hvað umbúðir snertir lækka pappakassar og öskjur úr 106% niður í 60%, pappírspokar almennt úr 106 niður í 50%, en pappírspokar sérstaklega fyrir vélpökkun á vörum úr 106 niður í 40%. Plastpokar til vélpökkunar eru einnig tollaðir með 40% og lækka úr 132% , eins og nú er. Hins vegar eru svo blöð, þynnur og hólkar eða filmur úr plasti til umbúða, sem fyrir mistök og í algeru ósamræmi við allt annað hafa verið tolluð með 4% til samræmis sett í 35%. Þegar litið er því á umbúðir almennt og pappírsvörur, þá er þar um mjög verulegar lækkanir að ræða, sem eiga að koma atvinnuvegunum öllum til góða.

Byggingarvörur hafa að vísu nokkuð mismunandi toll, en sá almenni tollur af byggingarvörum er um 35%. Það kom mjög til athugunar við undirbúning tollskrárinnar, hvort unnt þætti að lækka tolla almennt á byggingarvörum í því skyni að lækka byggingarkostnaðinn. Almennt þótti ekki fært að fara með byggingarvörutolla niður úr 35%. Þess ber m.a. að gæta, að innflutningur byggingarefnis mun vera um eða yfir 400 millj. á ári, og eru því tollar af því á 2. hundrað millj., og mundi því veruleg lækkun þar þýða mjög mikið tekjutap fyrir ríkissjóð. En þess þarf einnig að gæta, að ef byggingarvörur væru lækkaðar úr 35% almennt, þá hlytu óhjákvæmilega mjög margir aðrir vöruflokkar að fylgja þar með. Enn er þess að gæta, að það, sem menn hafa fyrst og fremst í huga með ósk um lækkun tolla af byggingarvörum, er að lækka byggingarkostnað íbúðarhúsnæðis. Ef tollar á byggingarvörum væru lækkaðir, mundi það að sjálfsögðu ná til alls byggingarefnis og ekki framkvæmanlegt að greina þar sundur byggingarefni til íbúðarhúsa og annars. En til þess að ná þeim tilgangi að lækka kostnað við íbúðabyggingar eru vafalaust aðrar leiðir tiltækari og ódýrari í framkvæmd. Þar eru vafalaust margar leiðir hugsanlegar, fyrst og fremst náttúrlega með betra skipulagi byggingarvinnu, með aukinni verksmiðjuframleiðslu á húsum eða húshlutum og mörgu fleira, sem þar kæmi til greina og ég skal ekki fara út í hér.

En þó að ekki hafi þótt fært að lækka byggingarvörur almennt í tolli, þá eru ýmsir einstakir byggingarvöruflokkar lækkaðir, sem hafa þótt óeðlilega háir. T.d. hreinlætistæki úr plasti, sem eru tolluð með 132%, eru færð niður í 80%, eins og gert er ráð fyrir að tollurinn verði á hreinlætistækjum almennt. Sem annað dæmi má nefna kork, sem lækkar úr 51% niður í 35% og úr 71% niður í 50%; lása og skrár, sem lækka úr 93% niður í 70%.

Eldsneyti er yfirleitt svo til tollfrjálst. En það er ein tegund eldsneytis, sem hefur verið í óeðlilega háum tolli, en það er kósangas, sem svo er kallað, sem er tollað með 38% nú, en þessi gasvökvi er svo til eingöngu notaður á sveitabæjum, sem hafa ekki rafmagn, og notkunin að mestu leyti til eldunar. Meginhluti þessarar notkunar er því hjá bændum sem eru verr settir en aðrir að því leyti, að þeir hafa ekki enn átt kost á rafmagni, og þótti rétt að lækka verulega toll á þessu kósangasi, þannig að í staðinn fyrir 38% er það fært niður í 2%.

Auk þeirra málaflokka, sem ég hef hér gert að umtalsefni, vil ég nefna nokkur dæmi um ýmsar vörur sem snerta almenning að verulegu marki. Ef við víkjum fyrst að matvörunni, þá er kornvara, kaffi og sykur tollfrjálst, eins og nú er; tollur á kakaói lækkaður úr 58 niður í 50% , á tei úr 77 niður í 70%. Á nýjum ávöxtum eru tollar töluvert mismunandi nú, og eru þeir samræmdir nokkuð á nýjum eplum og perum, eða 30% tollur, svo til sama og nú er, en á öðrum nýjum ávöxtum eru tollar nú 42–45%, og er það fært niður í 40%. Niðursoðnir ávextir og grænmeti er nú tollað með 125%, lækkað í 100% . Þá er varðandi heimilistæki, rafmagnsheimilistæki og rafmagnsbúsáhöld, þau lækka úr 84% í 80%. Útvarpstæki lækka úr 90% í 80%. Heimilissaumavélar lækka úr 55% í 40%. Barnavagnar lækka úr 133% í 90%; lyf úr 34,% og 16%, eru í tveimur flokkum núna, niður í 15%; klukkur ýmiss konar, þ. á m. vekjaraklukkur, úr 207% niður í 50%. Hljóðfæri voru lækkuð nokkuð, þ.e.a.s. sum þeirra, í nóvember 1961. Þá voru píanó og orgel lækkuð niður í 76%. Þau eru enn lækkuð verulega, eða úr 76% niður í 30%. Önnur hljóðfæri eru nú sum í mjög háum tolli, allt að 227%. Það má segja, að fyrir hljóðfæri eru nú tollflokkarnir aðallega þrír, þ. e. 227%, 162% og 76%, og fer það allt niður í 50%, en píanó og orgel sem sagt úr 76% niður í 30%.

Þá eru ýmiss konar matvörur, kryddvörur, sem hafa verið í 125–180%, fara niður í 100% tollflokk; lampar og ljósatæki úr 101% niður í 90%. Hjólhestar fara úr 150% niður í 90%. Íþróttatæki ýmis voru lækkuð á árinu 1961 úr 160'/ niður í 75%, en ýmis íþróttatæki, sem þá voru ekki lækkuð eru nú lækkuð úr um 130% niður í 80%. Gleraugu lækka úr 107% niður í 80%. Grammófónplötur voru lækkaðar verulega árið 1961 og eru enn lækkaðar, þannig að almennar plötur lækka nú úr 100% niður í 80%, en grammófónplötur íslenzkar, þ.e.a.s. með íslenzku efni, úr 57% niður í 30%, og sama máli gegnir um grammófónplötur til tungumálakennslu. Þá má nefna rakvélar, sem lækka úr 131% niður í 80%. Og ýmis skrifstofutæki lækka verulega, t.d. ritvélar úr 72% niður í 60%, reikni-, bókhalds- og skýrsluvélar ýmiss konar og fjölritarar úr 85% niður í 60%. Peningaskápar og skjalaskápar eru nú með 132% og 187%, lækka niður í 100%, og svo mætti lengi telja.

Ég skal ekki rekja frekar einstaka vöruflokka eða einstakar vörutegundir með samanburði við núgildandi tollaákvæði og samkvæmt tollskránni, en aðeins geta hér að lokum um nokkur nýmæli og fáein atriði önnur.

Það er svo ákveðið í þessari tollskrá, eins og verið hefur síðan 1939, að tollar reiknast af cif-verði vörunnar, þ.e. af innkaupsverði hennar að viðbættu flutningsgjaldi og tryggingargjaldi, það sem fellur sem sagt undir hugtakið cif-vara, í stað þess að áður fyrr höfðu tollar verið reiknaðir af fob-verði, þ.e.a.s. af innkaupsverði án flutningsgjalds. Raddir hafa að vísu heyrzt um að færa þetta aftur til sama horfs og var fyrir 1939, en á móti því mælir fyrst og fremst það, að það er alþjóðleg regla að reikna tolla af cif-verði, og þegar við erum að fá nýja tollskrá bæði til samræmingar innbyrðis og til samræmis við tollalög annarra þjóða, væri mjög óeðlilegt að taka upp aðra reglu að þessu leyti. Tollskráin byggist því áfram á því að reikna tolla af cifverði. En flugfélögin og ýmsir innflytjendur og samtök þeirra hafa borið fram þær óskir, að tollar verði ekki reiknaðir af cif-verði, þegar vara er flutt flugleiðis. Nú er flutningsgjald með flugvélum mun hærra en gjald fyrir flutning sams konar vöru með skipum. Og í rauninni má segja, að það sé ekki ástæða til þess, að ríkissjóður hagnist á því, að vara er af einhverjum ástæðum flutt með flugvél, en ekki með skipi, — það sé ekki ástæða til, að ríkissjóður hagnist á þessu með því að fá hærri toll, af því að cif-verðið verður hærra af þessari ástæðu. Hins vegar hafa verið færð fram þau rök gegn þessu, að flutningur með flugvélum sé kostnaðarsamarí fyrir þjóðfélagið og sé því ekki þjóðhagslega hagkvæmt að örva eða hvetja til slíkra flutninga í stórum stíl. Í öðru lagi er bent á, að yfirleitt sé það um hinn íslenzka skipastól, að hann geti vel annað vöruflutningum til landsins og sé það því ekki rétt ráðstöfun á meðferð verðmæta að láta skip kannske sigla hálftóm eða án þess að þau hafi fullfermi, en flytja vörur í stað þess með miklu dýrari hætti með flugvélum. Þessi rök öll er að sjálfsögðu rétt að hafa í huga. En á hinn bóginn kemur það, að oft og tíðum liggja til þess full rök og jafnvel nauðsyn að flytja vörur með flugvél. Það getur verið svo aðkallandi að fá vöru hingað, t.d. varahluti, sem fást ekki hér, eða annað, sem bráðnauðsynlegt er að fá með skjótum hætti, að það réttlæti það, að varan sé flutt með flugvél. Með þetta í huga er sett inn það nýmæli í frv. að heimila að lækka um ákveðinn hundraðshluta flutningsgjald eða hluta flutningsgjalds í tollverði vöru, ef varan er flutt inn flugleiðis, þó aðeins gjald fyrir samfelldan flutning í þeirri flugvél, er vöruna flytur hingað. Þetta þýðir það, að heimild er til þess að reikna toll af lægri upphæð en flutningsgjaldi með flugvélinni nemur, en að sjálfsögðu mun það aldrei vera reiknað af lægra flutningsgjaldi en mundi vera með skipi fyrir sömu vöru. Enn fremur er með niðurlagsákvæðinu mælt svo fyrir, að aðeins skuli lækka gjaldið fyrir samfelldan flutning í þeirri flugvél, sem vöruna flytur hingað. Með þessu er átt við það, að ef maður vill t.d. fá vöru flugleiðis frá Japan eða Ástralíu, t.d. til Kaupmannahafnar, og svo er hún flutt með íslenzkri flugvél þaðan, þá mundi auðvitað aðeins lækkun á flutningsgjaldinu fyrir síðasta áfangann, frá Kaupmannahöfn hingað, koma til greina, en ekki veittur afsláttur af flutningi hina löngu leið þangað. Mér virðist vera töluverð sanngirni og eins og ég gat um ýmis rök, sem mæli með því að setja inn slíka heimild. Hún er sem sagt ekki til í núgildandi lögum og mun ekki vera í tollalögum annarra þjóða, þar sem vitað er, en hins vegar er sérstaða okkar Íslendinga slík vegna fjarlægðar frá öðrum löndum og langra flutningaleiða, að mér virðist það réttlæta ákvæðið.

Það hefur oft valdið leiðindum, að þegar gjafir hafa borizt hingað frá útlöndum, hvort sem er til fyrirtækja, líknarstofnana eða einstaklinga, þá hefur þurft að borga toll af slíkum gjöfum. Slíkar gjafir hafa þá verið metnar af tollheimtumönnum og tollaðar eftir því. Nú er sett inn í frv, nýmæli á þessa lund, að heimilt er að lækka eða fella niður gjöld af gjöfum, sem sendar eru hingað frá útlöndum og góðgerðarfyrirtæki eða aðrar stofnanir eiga að annast dreifingu á til bágstaddra eða þvílíkra, svo og af notuðum munum til slíkra aðila, enn fremur af gjöfum, sem aðilar erlendis senda hingað af sérstöku tilefni, þó ekkí í atvinnuskyni, allt að 500 kr. virði að mati tollyfirvalds. Þó að slík heimild sé sett og fyrir henni rök og sanngirni, þá verður auðvitað að setja strangar skorður gegn misnotkun, og fyrir því eru þessi ákvæði orðuð eins og ég las.

Á árinu 1960 voru sett lög um jöfnunarsjóð sveitarfélaga, og var þá ákveðið, að hann skyldi fá 1/5 hluta af þeim söluskatti, sem þá var á lagður, bæði 3% söluskattinum í smásölu og 8%, söluskattinum, sem lagður er á innflutning. Síðan hefur jöfnunarsjóður sveitarfélaga fengið þetta framlag árin 1960, 1961, 1962 og 1963, og nú er í fjárl. að sjálfsögðu gert ráð fyrir því og áætlað, hver þessi hluti muni verða, en í fjárlagaáætluninni er gert ráð fyrir, að hann nemi samtals af báðum þessum tekjustofnum 104 millj. kr. Þegar nýja tollskráin kemur í gildi, falla niður öll önnur aðflutningsgjöld, sem hér voru rakin, og m.a. innflutningssöluskatturinn. Þá reis sú spurning, hvernig ætti að bæta sveitarfélögum eða jöfnunarsjóði sveitarfélaga upp það tekjutap, og kom þá til álita bæði, hvernig ákvæði ætti að setja um það fyrir yfirstandandi ár, þar sem innflutningssöluskatturinn verður í gildi fram til 1. maí, en þá tekur nýja tollskráin við, eftir því sem gert er ráð fyrir, og svo ekki síður, hvernig á að ákveða um þetta í framtíðinni. Eins og skýrt er tekið fram í grg., hefur aldrei komið til orða, að jöfnunarsjóður sveitarfélaga missti af þessum tekjum, — stendur þar skýrum stöfum, að bæta verði jöfnunarsjóði þennan tekjumissi.

Það eru ýmsar leiðir, sem koma hér til greina, og skal ég nefna nokkrar þeirra. Í fyrsta lagi er hugsanlegt, að ákveðið sé á hverju þingi í sambandi við afgreiðslu fjárl., hvern hlut á að ætla jöfnunarsjóði sveitarfélaga í staðinn fyrir hluta hans af 8% innflutningssöluskatti. Það er ein leiðin. Önnur leiðin væri sú að breyta 1. um 3% smásöluskattinn á þá leið, að í staðinn fyrir 20% af þeim skatti fengju sveitarfélögin t.d. 40%, sem mundi nema svipaðri upphæð. Það er í þriðja lagi hægt að fara þá leið að ákveða, annaðhvort með sérstökum i. eða í tollskrárl. eða með breytingu á jöfnunarsjóðsl., að jöfnunarsjóður skuli fá ákveðna prósenttölu af verðtollinum, eins og hann verður eftir samþykkt þessa frv. Fleiri teiðir hafa komið til orða, en enn þá hefur ekki verið tekin endanleg afstaða til þess, hvaða aðferð ríkisstj. leggur til við Alþingi, að við verði höfð í þessu efni. Í þessu frv. er því aðeins ákvæði um það, hvernig fara skuli að fyrir árið 1963, og segir þar svo í frv., að jöfnunarsjóði skuli á árinu 1963 greitt af innheimtum aðflutningsgjöldum samkvæmt tollskrá það, sem á kann að vanta, að hluti sjóðsins af söluskatti nái 104 millj. kr. á árinu 1963, en það er sú upphæð, sem fjárlög gerðu ráð fyrir að jöfnunarsjóður fengi. Að vísu væri hægt að láta það bíða til haustþingsins, en ég tel, að það sé réttara, að áður en þessu þingi lýkur, verði lagðar fram frá ríkisstj. ákveðnar till. um frambúðarlausn þessa máls. En ég vil endurtaka það og undirstrika, að vitanlega hefur aldrei komið til orða annað en jöfnunarsjóður héldi að fullu þeim tekjum, sem honum hafa verið ætlaðar.

Sú spurning rís að sjálfsögðu, hver áhrif þessi nýja tollskrá mundi hafa á vísitöluna. Eins og ég hef tekið fram áður, hefur um langan aldur verið ríkjandi það sjónarmið hér, að þegar aðflutningsgjöld hafa verið lögð á eða hækkuð, þá hefur verið kostað kapps um að reyna að komast fram hjá vísitölunni, að láta þau hafa sem allra minnst áhrif til hækkunar á hana. Náttúrlega var verið með þessu árum og í rauninni áratugum saman að brengla vísitöluna, því að það er auðvitað ljóst, að fjöldi vara, sem ekki eru taldar með í vísitölunni eða hafa þar sáralítil áhrif, eru nauðsynjavörur almennings, vörur, sem allur almenningur notar og þarf að nota. Þegar þess vegna er kostað kapps um með álagningu og tilhögun aðflutningsgjalda að leika sér þannig með vísitöluna, þá er náttúrlega verið að leika ákaflega óheppilegan leik og í rauninni óhyggilegan. Það er aðeins verið að tjalda til einnar nætur og verið að láta vísítöluna gefa villandi mynd af raunverulegum lífskjörum fólksins, því að vitanlega er hægt að rýra og skerða lífskjör fólksins með nýjum tollaálögum, án þess að vísitalan hækki nokkuð, alveg eins og á hinn bóginn er hægt að bæta lífskjör fólksins með tolla- og skattalækkunum, án þess að vísitalan hreyfist. Með stjfrv. um tollalækkanir í nóv. 1961 var farið inn á nýjar brautir í þessu efni. Það var snúið við af þeirri braut að vera alltaf að miða tollamálin við áhrifin á vísitöluna. Og þá var gerð till. um verulega lækkun á fjölmörgum vörum, sem almenningur notar og þarf að nota, en lítil sem engin áhrif hafa á vísitöluna. Við samningu þessarar nýju tollskrár hefur það sjónarmið ekki heldur verið haft, hvernig væri hægt að leika sér með vísitöluna í þessu efni, heldur fyrst og fremst miðað við það að gera hlutina einfaldari og óbrotnari í sniðum, að samræma, að gæta sem bezt hags atvinnuveganna og almennings, allt með hliðsjón af því, hver væri tekjuþörf ríkissjóðs og hversu mikils hann mætti í missa. Ef svo er athugað samkv. þessari nýju tollskrá, hver áhrifin muni verða á vísitöluna, þá er ekki hægt að fullyrða um það, það eru svo erfiðir og flóknir útreikningar, en það er þó búið að kanna það mál svo mikið, að áhrif þessarar nýju tollskrár verða lítil, það verða nokkur áhrif til lækkunar á vísitöluna, en lítil. Og vissulega er það eðlileg afleiðing af þeirri stefnu, sem ríkti um langan aldur eða fram til 1961, að undantaka eða undanþiggja vísitöluvörurnar yfirleitt sem allra mest, þegar verið var að leggja gjöldin á.

En þó að áhrif þessarar tollskrár til lækkunar á vísitölunni verði lítil, er auðvitað ljóst mál, að hún hefur veruleg áhrif á lískjör fólksins til þess að bæta þau. Því að vissulega er hægt að bæta lífskjör fólksins með lækkun tolla, hvað sem vísitölunni liður.

Að lokum er svo tekjuhliðin, sem snýr að ríkissjóði, og fyrir því máli er gerð nokkur grein á bls. 152–153 í frv. Þar er grg. um það, hve aðflutningsgjöldin hafa gefið ríkissjóði miklar tekjur í heild á árinu 1962 í fyrsta lagi, og í öðru lagi er svo áætlun um það, hversu miklar tekjurnar í heild mundu verða af verðtolli og vörumagnstolli samkv. þessu nýja frv. Þá kemur það í ljós, að heildartekjur voru á s.l. ári 1.165 millj., en mundu verða, miðað við sama innflutning, af hinni nýju tollskrá 1068 millj, eða um 97 millj. lægri. Þetta frv. hefur því, byggt á þessari forsendu, miðað við innflutninginn 1962, í sér fólgna tollalækkun, sem nemur nær 100 millj. kr., og er það 8.3% lækkun á tollabyrðinni í heild. Vissulega er það þýðingarmikið atriði, eins og hver maður sér, fyrir atvinnuvegi og allan almenning í landinu til kjarabóta.

Nú kunna menn að spyrja á hinn bóginn: Þolir ríkissjóður að missa svo í af tekjum, og hvernig á þá að bæta það upp? Ég tel, að þó að hér sé um að ræða tollalækkun, sem nemur nærri 100 millj. kr., þá sé það borið fram af fullri ábyrgðartilfinningu fyrir hag ríkissjóðs. Í því sambandi má geta þess, að öll þau 3 ár, sem núv. ríkisstj. hefur setið, 1960, 1961 og 1962, hefur orðið greiðsluafgangur hjá ríkissjóði. Ef við notum við útreikning greiðsluafgangs þá aðferð, sem Seðlabanki Íslands hefur notað í mörg ár og kemur fram í Fjármálatíðindum og er sama aðferð sem alþjóðastofnanir yfirleitt nota við útreikning greiðslujafnaðar, þá var greiðsluafgangur ríkissjóðs á árinu 1.960 um 35 millj. kr., á árinu 1961 um 72 millj. og verður á árinu 1962 væntanlega um eða yfir 100 millj. kr. Nú er það svo, að þó að góðæri hafi verið mikið hér á s.l. ári og tekjur ríkissjóðs þess vegna aukizt mjög mikið frá því, sem fjárlög ætluðu, þá náttúrlega réttlætir það út af fyrir sig ekki að ætla að draga úr tekjum ríkissjóðs framvegis. En vissulega er afkoman undanfarin 3 ár til hliðsjónar, þegar verið er að meta, hvað ríkissjóður þolir að missa í af tekjum á næstu árum. Í öðru lagi er þess að gæta, að reynslan frá 1961 sýnir það, að tollalækkun, sérstaklega á hátollavörum, vinnst upp með auknum löglegum innflutningi og minna smygli. Þó að mjög margar hátollavörur væru lækkaðar verulega 1961, og eins og ég gat um áður í ræðu minni, gaf það ríkissjóði auknar tekjur á árinu 1962 um nær 15 millj, fram yfir það, sem varð á árinu 1961, þá eru samt margar vörutegundir eftir enn, sem eru með háa tolla, millí 200 og 300% og jafnvel, eins og ég gat um, þar yfir. Og ég held, og það er sannfæring mín, að sama verði reynslan nú, þegar þeir tollar lækka og hámarkið verður 125%, algert hámark, þá muni þessar tollalækkanir einnig draga úr ólöglegum innflutningi á þessum vörutegundum og á þann veg gefa ríkissjóði auknar tekjur samkv. reynslunni. Í þriðja lagi má benda á það, að þær tollalækkanir, sem á þessu frv. eru gerðar fyrir atvinnuvegina í landinu, eiga ásamt mörgu öðru að örva atvinnulífið og atvinnuvegina, og þá að sjálfsögðu með aukinni framleiðslu og auknum þjóðartekjum að auka sjálfkrafa tekjur ríkisins. Í fjórða lagi má benda á það, að innflutningur til landsins fer að sjálfsögðu vaxandi ár frá ári, og þannig ætti innflutningurinn með óbreyttum tollstigum að gefa nokkuð auknar tolltekjur frá ári til árs. Ég nefni þessi fjögur atriði til skýringar á því, að frá hálfu ríkissjóðs er talið fært að lækka tolltekjurnar svo verulega, eins og gert er með þessu frv.

Ég legg svo til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.