19.04.1963
Neðri deild: 78. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1317 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

246. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Skúli Guðmundsson:

Það var rétt aths. hæstv. ráðh. um það, sem ég sagði um þessi 2 frv., sem bæði eru um sama efni. Það var misminni hjá mér, að þau væru bæði flutt af stjórninni, annað er flutt af nefnd. Hins vegar breytir það engu um það, að það hefði verið eðlilegra, þar sem meiningin er að samþykkja þau bæði, að hv. d. hefði fært þetta saman í eitt frv., en til þess mun nú ekki gefast tími héðan af.

En ég vil þá um leið gera aths. við annað, sem hæstv. ráðh. sagði. Hann sagði, að það væri ekki viðeigandi að hafa ákvæði í tollskrárl. um ráðstafanir á tekjum samkv. tollskránni. En þetta er einmitt í tollskránni, frv. eins og það nú er. Það er í 40. gr. þess. Þar eru ákvæði um tollstöðvagjald og byggingarsjóðsgjald og ákvæði um, að það skuli greiða þessi gjöld af tolltekjum og til þeirra sjóða, sem eiga að fá þau. Það var því ekki hægt fyrir hæstv. ráðh. að mótmæla till, okkar framsóknarmanna um að verja 5% af tolltekjunum til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á þeim grundvelli, að það væri óviðeigandi að hafa slíkt ákvæði í tollskrárl. Hliðstæð ákvæði eru nú þegar í frv.