18.12.1962
Efri deild: 31. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1362 í B-deild Alþingistíðinda. (1324)

58. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. minni hl. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður og reyndar fleiri hafa borið það fram sem mikilvæg rök í þessu máli fyrir því að framlengja nú gjaldið, að það sé nauðsynlegt, til þess að lánsstofnanir fáist til þess að lána fé til byggingarinnar, henni sé ekki fyllilega lokið og það sé auðvitað nauðsynlegt að ljúka byggingarframkvæmdum sem fyrst og koma öllu húsinu í rekstur. Ef þetta er rétt, að það sé erfitt að fá lán til byggingarinnar öðruvísi en að framlengja þetta gjald, þá virðist mér það því miður benda til þess, að lánsstofnanir hafi ekki trú á því, að sá rekstur, sem þarna verður hafður um hönd og þá fyrst og fremst hótelrekstur, sé arðvænlegur. En hitt vildi ég benda á, að ef þessi heimild til framlengingar verður samþ. nú, þá teldi ég varla fært síðar á þessu tímabili að fara að fella hana niður aftur, eins og hv. síðasti ræðumaður drap á, vegna þess að ég sæi ekki annað en þá væri raunverulega verið að svíkja þær lánsstofnanir, sem hafa lánað út á þetta gjald, sem þær hafa væntanlega treyst á að yrði til næstu 4 ára.

Ég held, að það sé skynsamlegt, eins og síðasti hv. ræðumaður drap á, að bændurnir seldu hótelið á leigu í heilu lagi. En það þarf þó ekki að vera lausn á öllum vanda. Það kann vel að fara svo; að það fáist enginn aðili til þess að taka á leigu húsið í heild, það verða bændasamtökin að horfast í augu við. Og þá getur farið svo, að þau verði að velja á milli þess tvenns, annaðhvort að selja hótelið eða reka það sjálf með halla. Það er i raun og veru ekki ákaflega sterk viðskiptaaðstaða að byggja hótel í þeirri fullvissu að ætla ekki að reka það sjálfur, heldur fá einhvern annan til þess að reka það eða taka það á leigu, — það er ekki sterk aðstaða. Og þess vegna er það alveg óvíst, að það fáist nokkur til að taka þetta á leigu með þeim skilmálum, sem bændasamtökin geta sætt sig við, og þau verði þess vegna að leggja út í hótelreksturinn sjálf, og þá kann svo að fara í framtíðinni, að þetta gjald renni raunverulega til þess að greiða niður rekstrarhalla á Hótel Sögu.

En þá ætla ég að koma að því, sem hv. frsm. meiri hl. landbn. drap á í sinni síðari ræðu, og það var ályktun Stéttarsambands bænda, sem gerð var um þetta mál í haust, en ræðumaður taldi, að hún hefði verið einróma eða nær einróma í þá átt að mæla með því, að þetta gjald yrði framlengt. Frsm. meiri hl. taldi, að það væri sérstaklega mikið að marka þessa samþykkt, vegna þess að bændur hefðu verið búnir að hugsa málið þá í heilt ár. Ég verð nú að játa það, að ég skildi þetta ekki nægilega vel kannske. Þegar búnaðarþing gerði samþykkt um þetta mál í fyrra, — sú samþykkt er, held ég, prentuð sem fskj. með frv., — þá tel ég ekki hægt að halda því fram, að bændur hafi í annað skiptið verið búnir að hugsa meira um málið heldur en hitt, þannig að þeir hefðu í haust verið búnir að hugsa málið meira en í fyrra, þegar búnaðarþing tók sína afstöðu. Það verður að athuga, að þessi þing eru fámenn, og ég held a.m.k., að á stéttarsambandsþing séu fulltrúarnir ekki kosnir beinum kosningum af bændum. Auk þess veit ég ekki um það, hvernig þetta mál hefur verið lagt fyrir stéttarsambandsþingið. Það er alls ekki víst, að það hafi verið lagt nægilega skilmerkilega fyrir, til þess að fulltrúar hafi getað markað rétta afstöðu til málsins. En það, sem ég held þó, að sé höfuðatriði, er, að leiðandi menn bændastéttarinnar, sem eru auðvitað leiðandi menn innan Stéttarsambands bænda, eiga sjálfir verulega sök á þessum mistökum, sem hafa verið gerð í sambandi við Bændahöllina. Og það er þess vegna eðlilegt, að þeir reyni að fá þingið inn á sín sjónarmið og fá það til að taka þá mistökin á sínar herðar, eða a.m.k. láta ekki koma fram óeiningu innan bændastéttarinnar.

Ég hygg nú, þó að ég þekki ekki nákvæmlega til þessara hluta, að ýmsir af þessum fulltrúum bændastéttarinnar, sem hafi samþykkt að mæla með framlengingu þessa gjalds á þingi Stéttarsambandsins í haust, hafi ekki gert það af því, að þeir væru hrifnir af þessari gjaldálagningu, síður en svo, heldur hafi þeir aðeins lítið þannig á málið, að bændasamtökin væru komin svo langt út i ófærur, að það væri skynsamlegra að reyna að halda áfram heldur en að snúa við. Og ég held, að til samþykkta, sem gerðar eru á slíkum grundvelli, þurfi Alþ. ekki að taka mikið tillit.