04.04.1963
Neðri deild: 65. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (1439)

126. mál, sala Bakkasels í Öxnadalshreppi

Frsm. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég hef ekki átt samleið með öðrum nm. í landbn. þessarar hv. d. við afgreiðslu þessa máls.

Frv., sem hér liggur fyrir, er efnislega um það að heimila ríkisstj. að selja Öxnadalshreppi eyðijörðina Bakkasel fyrir verð, sem dómkvaddir menn meta. Hreppsnefndin hefur gert grein fyrir því í bréfi sínu til flm, frv., að hún ætlar að nota land Bakkasels til beitar, og gerir það raunar, þó að ekki hafi hún enn þá fengið neinn eignarrétt á landi þessu, heldur hefur hún það á leigu. Mér sýnist í því sambandi, að það muni engan hindra í nytjun þessa lands, þótt Öxnadalshreppur hefði landið um skeið enn á leigu og nytjaði það sem slíkt. Ríkið gerir ekki illa við þá, sem land þess hafa á leigu yfirleitt, og hygg ég, að hreppsnefndin í Öxnadalshreppi hafi ekki þar um að kvarta umfram aðra, og raunar hreint ekki. Á hinn bóginn liggur í augum uppi, að Bakkasel hefur verið og að margra dómi hlýtur að verða, ef vel á að vera, áningarstaður, sæluhús eða beinlínis hjálparstöð fyrir þá vegfarendur, sem leið eiga um þann erfiða fjallveg Öxnadalsheiði. Til mála mun hafa komið, að menn settust að í Bakkaseli, sem auk einhvers búskapar rækju þar viðgerðarverkstæði og vildu veita vegagerðinni þjónustu um það að hafa þar staðsettar ýtur vegagerðarinnar til snjóruðnings og annarra vegaframkvæmda, sem vegamálastjórnin þarf að láta framkræma á þessum stöðum.

Ég fyrir mitt leyti teldi mikils um vert, að ekki væri glatað þeirri aðstöðu, sem í Bakkaseli er til þess að veita þar vegfarendum aðstoð, og allra bezt þætti mér, ef hægt væri að tengja það því, að einhver búskapur yrði rekinn á jörðinni. Nú stendur svo á, sem öllum hv. þm. er kunnugt um, að vegalög eru í endurskoðun. Það hefur að vísu litið eitt eða fátt eitt verið sagt um það hér á þingi, í hvaða átt sú endurskoðun beinist. En það hlýtur að liggja í augum uppi, að meðal þess, sem um hlýtur að verða fjallað í nýrri vegalöggjöf, er einmitt vegaþjónusta á borð við það, sem veitt hefur verið og veitt þyrfti að verða í Bakkaseli.

Hér hafa verið lögð fyrir þingið ýmis mál, sem hafa fengið allar hinar beztu undirtektir og menn hafa yfirleitt talið sig samþykka þeim. ég nefni sem dæmi frv., sem ég hef flutt um þjóðvegi gegnum þorp og kauptún. En þessi mál hafa verið látin bíða, ekki einasta allan þennan vetur, heldur líka í fyrravetur, með þeim röksemdum, að um þetta mundi verða fjallað í endurskoðun vegalaganna og væri þess vegna eðlilegt, að þessar till. biðu að svo komnu máli. Síðan kemur hér inn í Alþ. frv, um sölu á Bakkaseli í Öxnadalshreppi, sem allir viðurkenna að bæði hefur varið og þarf í framtíðinni einnig að verða hjálparstöð við mikilvægan þjóðveg, og við söluna á ekki annað að breytast frá núv. ástandi til hagræðis þeim, sem kaupin ætlar að gera við ríkið, en það, að hann ætlar að kaupa landið og nytja það sem slíkt, í staðinn fyrir það, að nú hefur hann það á leigu og nytjar það sem leiguland. Ég hef þess vegna ekki séð þörfina á því að hlaupa með afgreiðslu þessa máls fram fyrir endurskoðun vegalaganna og alveg sérstaklega með tilliti til þess, að hér hafa miklu þýðingarmeiri mál verið látin bíða eftir afgreiðslu vegalaganna en þetta mál. Fyrir því hef ég leyft mér að gera till. um það í mínu nál., að þetta mál verði ekki afgr. hér í Alþingi að svo komnu, með sérstöku tilliti til þess, að í væntanlegri endurskoðun vegalaganna hlýtur að verða fjallað um sæluhús og hjálparstöðvar við þjóðvegi, og legg því til, að næsta mál á dagskrá verði tekið fyrir.