11.12.1962
Efri deild: 28. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í B-deild Alþingistíðinda. (144)

88. mál, almannatryggingar

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. e. og ég flytjum brtt. við 3. gr. frv. Við bárum þessa brtt fram við 2. umr., en drógum hana til baka til 3. umr.

Í 3. gr. er tekið fram, að frá 1. júní 1962 skuli ellilífeyrir samkv. 13. gr. almannatryggingalaganna og örorkulífeyrir samkv. 14. gr. sömu laga hækka um 7%. Aðrar bætur almannatrygginganna eiga ekki að hækka. Við leggjum til, að nokkrar bætur hækki um sömu prósentutölu. Það eru bætur, sem eru náskyldar þeim, sem hér er um að ræða, og heyra enda til sama kafla, II. kaflanum, í almannatryggingalögunum. Okkur finnst óréttmætt, ósanngjarnt og ranglátt, að einstæðar mæður og ekkjur t.d. fái ekki þessa hækkun eins og aðrir bótaþegar, sem heyra undir þennan kafla. Ég er hissa á því, að sú nefnd, sem hefur með endurskoðun tryggingalaganna að gera, skuli hafa óskað eftir því, að þessir bótaflokkar yrðu ekki hafðir með í þetta sinn. Ég er hissa á því, vegna þess að það er óhugsandi, að hækkun þessara bóta hafi nokkur truflandi áhrif á störf þessarar nefndar. Það virðist algerlega gripið úr lausu lofti, að það þurfi að hafa nokkur áhrif á störf n., þótt þessar bætur hækki. Það eina, sem getur mælt í móti því; að einstæðar mæður og ekkjur fái sömu kjarabót og ellilífeyrisþegar og örorkulífeyrisþegar, er kostnaðurinn. Auðvitað kostar þetta nokkra upphæð. En þeirri mótbáru hefur ekki verið hreyft, hvorki af hæstv. félmrh. né öðrum. Og ég vil minna á það, sem hæstv. félmrh. sagði hér við 2. umr. málsins. Hann óskaði eftir því að vísu, að d. felldi brtt. okkar óbeint. Hann sagðist vonast til þess, að við, sem flytjum brtt., tækjum hana til baka, því að það væri erfitt að fella till. sem þessa. Og hvers vegna er það erfitt? Af því að till. felur í sér sanngjarna kröfu á leiðréttingu. Við flm. viljum því vonast til þess, að þessi till. verði samþykkt. Það þarf ekki að kosta mikla töf hér í þinginu, þótt það verði gert.