11.03.1963
Neðri deild: 51. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1478 í B-deild Alþingistíðinda. (1543)

125. mál, sala Utanverðuness í Rípurhreppi

Frsm. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Í þeim umr., sem fram hafa farið um þetta mál, þykir mér, að margt hafi þar ásannazt, sem ég sem minni hl. hef haldið fram, að þetta frv. ætti ekki að samþ. hér í d., og er ég sammála þeim mönnum, sem sýnt hafa fram á það, að frv. er í eðli sínu þannig, að það væri þessari hv. d. ekki til neins sóma að samþ. það. Ég hef lagt til, að frv. yrði fellt. D. hefur hins vegar sýnt nokkurn lit á því, að hún muni ekki fara svo að, og þykir mér þá mjög koma til greina, að hv. landbn. féllist á það að taka frv. til nýrrar athugunar á grundvelli ýmissa þeirra upplýsinga, sem nú liggja fyrir og lágu reyndar fyrir, áður en frv. var afgreitt í n., en virðist ekki hafa verið nægur gaumur gefinn þar.

Hv. frsm. n., hv. 2. þm. Norðurl. v., Jón Pálmason, gat hér svolítið um afstöðu mína í nefndinni, þegar hann talaði um frv. síðast. Nú skal það tekið fram, að hér en um að ræða grandvaran mann og gegnan í öllu því, sem ég til veit, og ég hygg þess vegna, að það hafi ekki verið af ásetningi hans, að hann gerði mér hér upp afstöðu til málsins, sem ég get ekki algerlega skrifað undir. Hann afgreiddi mína afstöðu í n. svo einfaldlega, að ég og mínir flokksmenn værum alltaf á móti því að selja jarðir einkaaðilum og væri þess vegna ekki nema eðlilegt, að ég hefði verið á móti þessu máll. Nú er það ekki rangt hjá honum, að bæði ég og aðrir mínir flokksmenn óskum frekar eftir því, ef um er að ræða sölu á jörðum úr ríkiseign, að þær verði eign hreppsfélaga eða almenningssamtaka, heldur en þær geti lent í braski, sem oft vill verða, þegar um einkaeign er að ræða. Á hinn bóginn hef ég svo oft tekið þátt í að samþykkja sölu á jörðum til einkaaðila, að það er alveg rangt að halda því fram, að hér sé um að ræða þess háttar afstöðu, að ekkert annað komi til greina. Í þeim efnum hef ég í landbn. í afstöðu minni til mála talið það skipta verulegu máli, hvort um það væri að ræða, að viðkomandi jörð gæti haldizt í ábúð með eigendaskiptum eða ekki. Ef um það hefur verið að ræða, að hægt væri að halda bújörð í ábúð með því að selja hana einkaaðila, þá hef ég kosið það frekar, að hún væri byggð í einkaeign en hún stæði í eyði, þó að hún væri ríkiseign. En um jörðina Utanverðunes í Rípurhreppi hef ég margtekið fram, að það skiptir sköpum um afstöðu mína í því máli, að ég er á móti þessu frv., að dómi þeirra manna, sem gleggst mega um það vita, þ.e.a.s. hreppsnefndarinnar í Rípurhreppi eða a.m.k. meiri hl. hennar; þá er það hennar mat, að þessi jörð muni ekki haldast í ábúð eða það sé a.m.k. æði vafasamt, að hún haldist í ábúð, ef hún verður seld þeim aðila, sem í þessu frv. er gert ráð fyrir að verði kaupandi hennar. Þetta ræður algerlega úrslitum um það, að ég er á móti þessu frv. Það skal einnig tekið fram, að ég álít, að það sé ekki heppileg þróun að láta jarðir, þ.e.a.s. fósturjörð okkar, ganga úr eigu ríkisins eða samfélags fólksins yfir til einstaklinga, sem síðar geta notað jarðirnar oft og tíðum við breyttar aðstæður, við myndanir þorpa eða við tilkomu einhverra þeirra lífsgæða, sem í námunda við jörðina liggja, þannig, að þeir geti þá kannske tekið margfalt verð jarðarinnar eða gert jörðina að skattstofni fyrir það fólk, sem á afkomu sína tengda við hana.

Ég er sannfærður um, að hv. frsm. og raunar allir sanngjarnir menn sjá það, að oft er stefnt til vandræða með einkarétti manna á landi. Ef við litum t.d. yfir til okkar nágrannaþjóðar, til Dana, þá vita það allir, sem nokkuð þekkja til mála þar í landi, að í því þéttbyggða landi eru að myndast tvær stéttir, annars vegar Danir, sem eiga Danmörku, og hins vegar Danir, sem eiga enga Danmörku og geta ekki fengið hana keypta, a.m.k. ekki, ef þeir eiga ekki morð fjár. Þannig liggur það í augum uppi, að almennt talið er það miklum mun heppilegra, að fósturjörð þeirrar þjóðar sé hennar sameign, heldur en þar geti einstaklingar notað sjálfa fósturjörðina sem skattstofn á þá þjóð, sem hana byggir. Þeirri skoðun minni skal ég sízt af öllu afneita, enda þótt hitt séu staðreyndir, að við okkar aðstæður hef bæði ég og flokksmenn mínir yfirleitt fylgt þeirri reglu, að ef eignarrétturinn á jörðinni ræður úrslitum um það, hvort hún helzt í byggð eða ekki, þá höfum við yfirleitt látið það ráða. En ég undirstrika það og vitna til þess, sem upp var lesið hér af hv. síðasta ræðumanni, að það er mat hreppsnefndarinnar í Rípurhreppi eða a.m.k. meiri hl. hennar, að það sé engin trygging fyrir búsetu á jörðinni Utanverðunesi, þó að þetta frv. verði samþ. og sala fari fram skv. því.

Ég vil því til viðbótar því, sem hér hefur komið til að upplýsa þetta mál, geta þess, að nú hefur komið í ljós, sem ekki liggja nú hér nein plögg fyrir um, að í landi jarðarinnar Utanverðuness mun vera viti, eign ríkisins, og í þessu frv., sem gerir ráð fyrir sölu á jörðinni, eru engar skorður reistar við því, að það verði ekki einnig selt landið undan vitanum, sem ríkið þarf sjálft á að halda, og tel ég, að þetta eitt út af fyrir sig væri nægilegt tilefni til þess, að nefndin settist á rökstóla að nýju og athugaði málið. En það er raunar æðimargt meira, sem n. hefur ástæðu til að athuga, og því eru það mín tilmæli til formanns landbn., að hann fallist á það að óska eftir því, að málið verði ekki endanlega afgreitt út úr d. hér á þessum fundi, heldur óski hann eftir fresti á afgreiðslu þess, og landbn. komi saman að nýju og skoði málið í ljósi þeirra upplýsinga, sem um það hafa komið fram í umr.