04.04.1963
Efri deild: 67. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1488 í B-deild Alþingistíðinda. (1553)

125. mál, sala Utanverðuness í Rípurhreppi

Frsm. (Bjartmar Guðbrandsson):

Herra forseti. Þetta mál er komið frá Nd., og urðu þar talsverðar umr. um málið og ágreiningur, og hefur það orðið tilefni til blaðaskrifa.

Landbn. hefur athugað frv. og er sammála um að heimila þá jarðasölu, sem frv. fer fram á eða fjallar um. Hins vegar voru tveir nm. ekki við því búnir að mæla með því óbreyttu. En þar sem þetta mál hefur valdið nokkrum umr., tel ég rétt að fara um þetta nokkrum orðum.

Jörðin Utanverðunes í Rípurhreppi er kristfjárjörð og eign svonefnds Utanverðunesslegats, og hefur legatsstjórnin óskað eftir lagaheimild til þess að selja jörðina. En kristfjárjarðir eru þær jarðir kallaðar, sem hafa orðið eign tiltekinna byggðarlaga, flestar með gjafabréfum og þeim skilmálum, að tekjur af þeim, þ.e. leigutekjur, gengju til framfæris snauðu fólki í víssum byggðarlögum eða byggðarlagahlutum. Yfirleitt munu gefendur slíkra fasteigna hafa ætlazt til, að sú góðgerðastarfsemi, sem af gjöfunum hlaut, yrði ævarandi, og þótti framfærsla fátækra af kristfjárjarðatekjum aðgengilegri en venjulegt sveitarframfæri. Af þessum sökum hefur stundum verið um það deilt, hvort heimilt væri að selja slíkar fasteignir eða jafnvel að gera um það sérstök lög. Sú hefur þó orðið reyndin á, að fordæmi eru fyrir því, að Alþingi hefur með lögum heimilað sölu kristfjárjarða eftir beiðni þeirra manna, er yfir þeim réðu. Bent hefur verið á, að hinir breyttu tímar hafi gert hinn góða tilgang gefenda kristfjárjarðanna að sama sem engu, því að afgjöld þeirra, þ.e. tekjur af þeim, eru orðin svo lág, að þau hrökkva raunar ekkert sem dregur til þeirra hluta, sem þeim var upphaflega ætlað; þarfir fátækra einnig allt aðrar, síðan tryggingar komu til, og einnig er nú litið á fátækraframfæri hreppsfélaga allt öðrum augum en áður var. Þó er önnur ástæða enn þyngri, er setti ráðamenn þessara jarða í þau spor, að annað tveggja verða þeir að sjá jarðirnar níðast niður og fara að lokum í eyði eða fá heimild til að selja þær ella. Þeir hafa engin fjárráð til að byggja á þeim eða gera aðrar umbætur, og ábúendur geta ekki heldur gert það nema hætta því til að fá ekkert fyrir umbætur sínar, ef þeir verða að fara af jörðunum. Heimild til sölu á þessum jörðum hefur því verið veitt sem nauðsynleg ráðstöfun til að auka möguleika eða jafnvel skapa fyrir því, að á jörðunum verði búið og umbætur á þeim gerðar eins og nauðsyn krefur.

Að þessu öllu athuguðu hefur landbn. hallazt samhljóða að því að mæla með, að Utanverðunesslegati verði heimilað að selja jörð þessa. Hins vegar vildi minni hl. n. áskilja sér rétt að flytja brtt. við frv. Meiri hl. leggur til, að það verði samþ. eins og Nd. gekk frá því.

Um það atriði, sem deilt v ar um í Nd. og jafnvel urðu blaðaskrif út af, er þetta að segja: Núv. ábúandi jarðarinnar hefur haft þar ábúð í sex ár og öðlazt þar með mikinn rétt til að sitja fyrir um kaup.. Þriggja ára ábúðartími gefur t.d. landsetum ríkisins kauprétt að ábúðarjörðum sínum samkv. l. frá 1948. Eðlilegt sýnist því samkv. því, að ábúendur annarra jarða í opinberri eigu hafi einnig svipaðan rétt. Hitt er þó enn meira atriði, að maður þessi hefur á þessum 6 árum keypt hús þau, er voru á jörðinni, þegar hann flutti þangað, byggt stóra heyhlöðu, undirbúið byggingar að íbúðarhúsi, gert miklar girðingar úr vírneti og gaddavír, ræst fram mikið votlendi og lagt í nokkurn kostnað við að koma upp æðarvarpi, lagt í kostnað við vatnsleiðslu, og fleiri umbætur mun hann hafa og gert á jörðinni. Þetta mun hafa kostað hann a.m.k. um 300 þús. kr., og eru engar líkur til, að hann fái þennan kostnað endurgreiddan að nokkru ráði, ef annar maður kaupir jörðina, og getur það naumast talizt í samræmi við réttlætið. Þessi jörð er illa hýst og liggur fyrir að byggja þar íbúðarhús, en ábúandinn mun að sjálfsögðu ekki geta lagt í þann kostnað, þar sem hann hefur enga tryggingu fyrir því að fá hann endurgreiddan. Ég tel, að þessar umbætur, sem ábúandinn hefur gert á jörðinni, og sá réttur, sem mér virðist hann eiga miðað við aðra ábúendur að sitja fyrir um kaup, þar sem hann hefur haft ábúð í sex ár, ráði úrslitum um það, að rétt sé að mæla með því, að frv. verði samþ. í því formi, að ábúandinn fái að kaupa jörðina.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar, en legg til, eins og ég hef þegar tekið fram, f.h. meiri hl. landbn., að frv. verði samþ. óbreytt.