18.04.1963
Sameinað þing: 50. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1611 í B-deild Alþingistíðinda. (1786)

Almennar stjórnmálaumræður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Það hefur fallið í minn hlut að hefja síðari hluta þessara svonefndu eldhúsumr. Um þetta leyti kvölds mun útvarpsviðtækið opið á flestum íslenzkum heimilum. Kvöldverði er lokið og fólkið hvílir sig eftir önn dagsins. Húsmóðirin hefur vonandi lokið verkum sínum og hefur e.t.v. tyllt sér hjá bónda sínum og börnum. Þetta er sá tími dagsins, sem er rólegastur hjá fjölskyldunni og bezt hentar henni til þess að ræða um áhugamál sín eða gera það, sem hún hefur sameiginlegan áhuga á innan vébanda heimilisins. Oft er útvarpið einmitt um þetta leyti holl og góð dægrastytting og ekki aðeins til skemmtunar, heldur einnig til fróðleiks. Mér kæmi það því ekki á óvart, þótt það vekti ekki óblandna ánægju meðal útvarpshlustenda að eiga nú annað kvöldið í röð að hlusta á stjórnmálaþras frá Alþingi.

Sannleikurinn er sá, að allur almenningur er án efa fyrir löngu orðinn þreyttur á stjórnmálapexinu, sem í allt of ríkum mæli setur svip sinn á opinberar umr. hér á Íslandi. Þetta er í raun og veru ekki óeðlilegt. Stjórnmáladeilur og þá fyrst og fremst deilur stjórnmálablaðanna eru áreiðanlega á lægra stigi en tíðkast með nágrannaþjóðum. Það er borið á borð fyrir almenning, að stjórnarvöld séu svo illviljuð, að þau geri allt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að rýra lífskjör einstakra stétta og jafnvel þjóðarinnar allrar, að þau séu svo ábyrgðarlaus, að þau rói að því öllum árum að svíkja landið undir yfirráð erlendra aðila. Á hinn bóginn sést það því miður einnig í blöðum, að ef þeir, sem nú fara með völd, missi þau, sé hreinn voði vís, þá muni allt fara í kalda kol. Auðvitað er hvort tveggja rangt. Slíkar fullyrðingar, slíkt ofstæki leiðir til þess eins, að allur almenningur hættir að taka mark á því, sem hann sér eða heyrir um stjórnmál, og fer að leiðast það.

Þótt það sé vissulega hverju orði sannara, að það sé ekki skemmtilegt fólk né heldur beztu þjóðfélagsborgararnir sem um ekkert geta hugsað né talað nema stjórnmál, er það á hinn bóginn mjög skaðlegt í lýðræðisþjóðfélagi, ef góðir þegnar hætta mikið til að hugsa um stjórnmál og fá jafnvel andúð á þeim. Lýðræðisþjóðfélag grundvallast m.a. á því, að þegnar þess séu reiðubúnir til þess að ganga á nokkurra ára fresti að kjörborði og ákveða, hverjir fara skuli með völd á næstu árum. Góður þegn á ekki og má ekki gera þetta hugsunarlaust. Ef hann á að geta gegnt þessari lýðræðisskyldu sinni af skynsemi og ábyrgðartilfinningu, getur hann ekki komizt hjá því að hugleiða nokkur viðfangsefni stjórnmálanna á hverjum tíma. Á hinn bóginn á það þá að vera skylda stjórnmálamanna og stjórnmálablaða að leggja málin þannig fyrir hann, að skynsemi hans eða smekk sé ekki ofboðið eða misboðið með rakalausum fullyrðingum, stóryrðum og jafnvel ósæmilegu tali.

Þeim orðum, sem ég segi hér í kvöld, skal ég reyna að halda innan þeirra marka, að skynsömum áheyranda finnist ekki misbjóða dómgreind hans. Ég ætla ekki að segja, að hér hafi undanfarið verið svo góð ríkisstj., að allir hlutir séu orðnir alveg eins og þeir eigi að vera. Ég ætla ekki heldur að segja, að þeir, sem eru á öndverðum meiði við ríkisstj., hljóti að vera annaðhvort vitgrannir eða illviljaðir, en ég ætla að reyna að leiða rök að því, að sú stefna, sem núv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hafa fylgt undanfarin ár, hafi verið skynsamleg og þjóðinni í heild til góðs og að það mundi án efa verða okkur öllum til mikils tjóns, ef nú á þessu ári yrði breytt um stefnu.

En hver er mælikvarðinn á það, hvort stefnan hefur verið rétt? Hver er dómbær um það, hvort stefnubreyting yrði til tjóns? Fyrst ég tala á þeim tíma kvölds, þegar einna líklegast er, að húsmæðurnar hafi tyllt sér nálægt viðtækinu, þá langar mig til þess að athuga sérstaklega, hvernig málin horfa við frá sjónarhóli þeirra.

Í nútímaþjóðfélagi mun meira en helmingur tekna heimilisins fara um hendur húsmóðurinnar. Hún er því áreiðanlega dómbær um það, hvort lífskjör eru að batna eða versna. Skyldi það fara fram hjá henni, hvernig atvinnuástand er? Ætli hún viti ekki, hvern þátt almannatryggingarnar eiga í afkomu fjölskyldunnar? Skyldi hún ekki fylgjast með því, hvernig búið er að börnunum í skólunum? Hver skyldi finna það betur en hún, hvernig tekizt hefur að leysa húsnæðisvandamálið? Það er of sjaldan um það spurt, hvernig húsmóðirin líti á vandamál dagsins. Ég held því, að til þess sé full ástæða að verja til þess nokkrum mínútum að ræða, hvernig málin horfa við frá sjónarmiði húsmóðurinnar, hvort stefnan, sem fylgt hefur verið, getur talizt rétt frá sjónarmiði hennar. Við skulum athuga nokkur dæmi um þetta.

Það er eitt af verkum húsmóðurinnar að kaupa vörur til þarfa heimilisins, matvæli, fatnað, búsáhöld og annað, sem þörf er á. Skyldi hún vera búin að gleyma því, hvernig vöruúrvalið var í búðunum fyrir nokkrum árum, meðan innflutningshöftin voru í algleymingi og alltaf var gjaldeyrisskortur? Alltaf öðru hverju var hörgull á ýmsum brýnum nauðsynjum og ýmiss konar vörur, sem til voru í hverri búð í nágrannalöndum, fengust hér bókstaflega aldrei, nýir ávextir og niðursoðnir voru hér sjaldgæf munaðarvara, góðir erlendir skór fengust ekki, og nauðsynleg heimilistæki voru seld út um bakdyrnar. Þetta eru aðeins einstök dæmi um ástandið í viðskiptamálunum, eins og það horfir við almenningi. Nú er allt á milli himins og jarðar til í búðunum. Vöruúrval er hér jafnfjölbreytilegt og það gerist í nágrannalöndum. Nýlega var stödd hér í Reykjavík eiginkona starfsmanns í íslenzku utanríkisþjónustunni. Hún hafði ekki komið til Íslands í nokkur ár, en hún gat ekki orða bundizt í tilefni af vörufjölbreytninni í verzlunum. Hún sagði, að það væri þægilegra að kaupa í matinn í matvöruverzlun í Reykjavík en í stórborginni, þar sem hún býr. Þar væru fyrst og fremst vörur frá því landi, þar sem hún á heima. En hér væru ekki aðeins ágætar íslenzkar vörur, heldur einnig vörur frá Norðurlöndum, Bretlandi, Þýzkalandi og Ameríku. Ekki skil ég í, að nokkur vilji hverfa aftur til tíma fábreytninnar í búðunum. Þótt húsmæðurnar finni auðvitað bezt, hver framför hefur orðið hér, njótum við öll góðs af því.

En nú er auðvitað ekki allt fengið með því, að nóg sé til af vörum í búðunum. Þær mega að sjálfsögðu ekki vera svo dýrar, að almenningur hafi ekki efni á að kaupa þær, og þá vaknar spurningin um verðlagið. Tvenns konar mælikvarða má leggja á það, hvort verðlag sé hér óeðlilega hátt. Annars vegar má bera verðlagið hér saman við það, sem tíðkast í nágrannalöndum, hins vegar má athuga, hvort óeðlileg eða óþörf hækkun hafi orðið á verðlagi hér undanfarin ár í samanburði við hækkun á tekjum almennings. Það er ýmsum erfiðleikum bundið að bera saman verðlag almennt hér og í nágrannalöndum, bæði vegna þess, að neyzluvenjur eru nokkuð ólíkar, og vegna hins, að kaupgjald er ekki hið sama og tekjuskipting nokkuð öðruvísi. Kaupgjald helztu launastétta fyrir venjulega dagvinnu mun vera ívið hærra á hinum Norðurlöndunum en hér. En á móti kemur það, að verðlag á helztu nauðsynjum er mun lægra hér en þar. Í Reykjavík kostar t.d. kg af súpukjöti kr. 33.60, en í Kaupmannahöfn kostar kg af sambærilegu kjöti kr. 37.45. Í Reykjavík kostar kg af þorski kr. 4.60, en í Osló kostar það a.m.k. kr. 17.40. Í Reykjavík kostar mjólkurlítrinn 5 kr., en í Stokkhólmi kostar hann kr. 6.45. Hins vegar er verð á fatnaði, heimilistækjum og húsgögnum orðið mjög svipað hér og á hinum Norðurlöndunum. Ég held, að engum Íslendingi, sem til þekkir á Norðurlöndum, blandist hugur um, að lífskjör eru nú mjög svipuð hér og þar. Sá munur, sem er á, er einkum fólginn í því, að hinar tekjuhærri stéttir þjóðfélagsins hafa þar talsvert hærri tekjur en þær hafa hér, en hinar tekjulægri bera aftur á móti tiltölulega meira úr býtum hér en þar. Hér er m.ö.o. meiri launajöfnuður en þar. Nokkrar stéttir og þó fyrst og fremst sjómenn og iðnaðarmenn hafa áreiðanlega mun hærri tekjur hér en þar. En það á m.a. rót sína að rekja til þess, að vinnutími iðnaðarmanna er hér lengri en á hinum Norðurlöndunum.

En hvað er til í því, sem svo oft heyrist sagt, að verðlag hafi hækkað óeðlilega mikið hér undanfarin ár? Auðvitað hlaut verðlag, fyrst og fremst á útlendri vöru, að hækka verulega í kjölfar gengislækkunarinnar 1960. Gengislækkunin var óhjákvæmileg, ef unnt átti að vera að losna við allar útflutningsbæturnar og öll innflutningsgjöldin, sem voru orðin að alvarlegu meini í þjóðarbúskapnum. Hún var einnig skilyrði þess, að hægt væri að gera innflutninginn frjálsan: Langvarandi innflutningshöft voru búin að vera þjóðarbúskapnum til mikils tjóns og neytendum til skaða. Gengislækkunin var líka óhjákvæmileg, ef takast átti að binda enda á hallarekstur þjóðarbúsins gagnvart öðrum löndum, en stöðugur hallarekstur hafði valdið alvarlegri skuldasöfnun erlendis og lánstraust þjóðarinnar var þrotið. Til þess að ráða bót á þessu varð þjóðin að taka á sig talsverða verðhækkun á erlendum vörum. En það hefur áreiðanlega borgað sig, því að nú er ekki lengur um halla á viðskiptum þjóðarinnar við önnur lönd að ræða. Þjóðin á nú gildan varasjóð í erlendum gjaldeyri og býr við öruggara lánstraust erlendis en nokkru sinni fyrr. Við þurfum ekki lengur að fyrirverða okkur fyrir krónuna okkar í erlendum viðskiptum. Hún mun nú gjaldgeng á hvaða markaði sem er í fyrsta sinn um 30 ára skeið er innflutningur frjáls að öllu öðru leyti en því, að kaup nokkurra vörutegunda eru bundin við Austur-Evrópulönd vegna nauðsynjar okkar á því að selja þangað mikilvægar vörur.

En urðu þá ekki verðhækkanirnar í kjölfar gengisbreytingarinnar of miklar? Í þessu sambandi verðum við að minnast þess, að þær verðhækkanir, sem orðið hafa undanfarin ár, eiga ekki aðeins rót sína að rekja til gengisbreytinga, heldur einnig til hins, að bæði hafa kauptaxtar hækkað og tekjur aukizt af öðrum orsökum. Á 4 ára tímabilinu 1958–62 hefur verðlag vöru og þjónustu, annarrar en húsnæðis, samkv. vísitölureikningi hagstofunnar hækkað um 36%, og er þá miðað við meðalverðlag beggja áranna. Athugun, sem gerð hefur verið á tekjum verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna samkv. skattaframtölum, hefur leitt í ljós, að meðaltekjur þessara stétta að meðtöldum fjölskyldubótum meðalfjölskyldu hafa á þessu sama tímabili aukizt um 48%. Ekkert bendir til þess, að vinnutími hafi í fyrra yfirleitt verið lengri en hann var 1958, svo að hér er um að ræða auknar tekjur fyrir hliðstæða vinnu. Þetta sýnir, að afkoma þessara þriggja stærstu launþegastétta þjóðarinnar hefur batnað verulega á undanförnum 4 árum, eða því sem næst um 10%. Þetta sannar að sjálfsögðu ekki, að afkoma sérhvers einstaklings í þessum stéttum hljóti að hafa batnað sem þessu nemur, og raunar ekki heldur, að afkoma sérhvers hóps, t.d. hafnarverkamanna í Reykjavík, hljóti að hafa batnað sem þessu nemur. Lífskjör sumra hafa eflaust batnað minna en meðaltalinu nemur, en annarra meira. Sérstaklega mun afkoma sjómanna í ýmsum sjávarþorpum úti á landi hafa batnað meira en meðaltalinu nemur. Einhverjir aðrir hafa þá borið nokkru skarðari hlut frá borði. En meginstaðreyndin er ómótmælanleg: Í heild hafa lífskjör þessara þriggja aðallaunastétta batnað verulega undanfarin ár. Verðlagshækkunin, sem sigldi í kjölfar nauðsynlegrar gengisbreytingar, hefur m.ö.o. ekki orðið óþarflega né óeðlilega mikil. Stóraukið vöruúrval í búðum er ekki blekking. Launþegar hafa öðlazt aukna kaupgetu til þess að kaupa fleiri og betri vörur. Þetta var tilgangurinn, og tilganginum hefur verið náð.

Nú er þess vegna um að gera að halda áfram á þessari braut, að halda áfram að auka vöruframboðið og fjölbreytnina og vinna að því, að raunveruleg kaupgeta haldi áfram að vaxa, en ekki að snúa við í átt að gjaldeyrisskorti, höftum og minnkandi vörufjölbreytni í búðum.

En þótt benda megi á órækar staðreyndir því til sönnunar, að lífskjör hafa verið að batna undanfarin ár, kannast allir við það og áreiðanlega ekki sízt húsmæðurnar, að erfiðlega gengur að láta tekjurnar hrökkva fyrir gjöldunum. En þessi alkunna staðreynd er auðvitað alls ekki sönnun fyrir því, að lífskjör geti ekki verið góð. Hún ber fyrst og fremst vott um, að okkur langar til þess að kaupa meira en við getum fyrir tekjur okkar. Þegar úr litlu er að velja, er það fátt, sem freistar okkar, en þegar vöruúrval vex, þegar fjölbreytni eykst, þá styrkist löngunin til þess að kaupa fleira en áður. Það er eitt af einkennum vaxandi velmegunar, að vöruframboð verði fjölbreyttara. Þótt tekjur manna aukist, getur þeim samt fundizt erfiðara en áður að láta þær hrökkva fyrir útgjöldum, ef möguleikarnir til þess að nota tekjurnar hafa líka vaxið. En einmitt þetta hefur verið að gerast hér á Íslandi undanfarin ár.

Oft er reynt að rugla almenning með því að tala í sömu andránni um verðlagshækkanir og aukningu framfærslukostnaðar. Þegar ég sagði áðan, að kaupmáttur tekna helztu launastétta hefði vaxið um 10% síðan 1958, tók ég annars vegar tillit til hækkunar vöruverðlagsins um 36% og hins vegar til aukningar tekna, hækkunar fjölskyldubóta og lækkunar skatta. Þótt vöruverðlagið hafi hækkað um 36%, hefur framfærslukostnaður auðvitað ekki hækkað svo mikið, því að á undanförnum árum hafa bætur almannatrygginga aukizt mjög og tekjuskattur og útsvar hafa lækkað. Árið 1958 fengu hjón með 3 börn 1143 kr. í fjölskyldubætur. Nú fá þau 9231 kr. Og nú greiða hjón með 3 börn engan tekjuskatt, þótt þau hafi 100 þús. kr. í árstekjur. Til þessa verður að sjálfsögðu einnig að taka tillit, þegar afkoman er metin, og vegna þessa hefur framfærslukostnaður hækkað minna en verðlagshækkuninni nemur. Það hefur áreiðanlega ekki farið fram hjá íslenzkum húsmæðrum, hve bætur almannatrygginga hafa aukizt mikið undanfarin ár. Það er ekki aðeins, að í því hafi falizt mikil kjarabót til handa miklum fjölda manna, heldur er hitt ekki síður mikilvægt, að þetta hefur haft í för með sér aukið réttlæti. Einmitt þeir hafa fengið auknar bætur, sem réttmætast var að fengju auknar tekjur. Bætur almannatrygginganna hafa í heild aukizt úr 240 millj. 1958 í 840 millj. eða m.ö.o. meir en þrefaldazt. Þessar nýju 600 millj., sem greiddar eru almenningi, lenda einmitt í höndum þeirra, sem helzt þarfnast þeirra. Þær auka réttlætið í þjóðfélaginu, stuðla að betra þjóðfélagi á Íslandi. Það er enn þá meira virði en nemur upphæðunum, sem koma í hlut hvers og eins.

Nú gerir auðvitað allt skynsamt fólk sér grein fyrir, að þótt það skipti meginmáli fyrir afkomuna, að atvinna sé næg og tekjur háar og vöruúrval sem mest og bezt, til þess að unnt sé að nýta tekjurnar vel og skynsamlega, og jafnvel þótt almannatryggingar séu svo fullkomnar, að öryggisleysi og félagslegu ranglæti sé bægt frá dyrum, þá kemur hér enn fleira til greina og þá fyrst og fremst það, hvernig húsnæðismálum er háttað. Ef ástandi þeirra mála hjá fjölskyldunni er ábótavant, vantar sannarlega mikið á. Þess vegna hefur verið að því unnið undanfarin ár að gera þeim, sem nýs eða bætts húsnæðis þarfnast, kleift að eignast íbúð eða fá hana leigða. Aldrei hefur meira lánsfé verið til ráðstöfunar fyrir húsbyggjendur en á þessu ári, og aldrei hefur ríkisvaldið varið meira fé til stuðnings útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis en einmitt nú. Er hér um þrefalt meira fé að ræða en varið var í þessu skyni árið 1958. Enn er auðvitað mikils átaks þörf í húsnæðismálum Íslendinga, svo sem við er að búast, þegar hliðsjón er höfð af hinum öra vexti bæja og þá sérstaklega Reykjavíkur síðan á styrjaldarárunum. En stefnan hefur verið rétt. Halda þarf áfram á sömu braut.

Í fleiri horn er samt að líta, þótt fjölskyldunum takist að sjá sér vel farborða að öllu leyti og afkoman sé góð og batnandi. Í nútímaþjóðfélagi gegnir ríkisvald skyldu sinni ekki vel, nema það búi æskunni góð menntunarskilyrði. Hvernig hefur þeim málum verið varið hér undanfarin ár?

Fyrsta meginskilyrði þess, að skólamál séu í góðu horfi, er, að vel og sómasamlega sé séð fyrir skólahúsnæði. Þess vegna hefur undanfarin ár verið lögð á það mikil áherzla að auka skólabyggingar. Nú á þessu ári mun ríkið verja þrem til fjórum sinnum meira fé til byggingar barna- og gagnfræðaskóla en fyrir 5 árum. Verið er nú að ljúka nýrri stórbyggingu fyrir Kennaraskóla Íslands, og verður hún eitt vandaðasta skólahús, sem reist hefur verið á Íslandi. Í sumar mun verða reist vönduð bygging fyrir menntaskólann í Reykjavík á hinum fornhelga skólastað við Lækjargötu, en þar hefur skólanum verið tryggt mikið viðbótarlandrými.

Önnur meginforsenda þess, að fræðslumál séu í góðu horfi, er, að menntunarskilyrði kennara séu sem bezt. Einmitt í dag samþykkti Alþingi nýja löggjöf um Kennaraskóla Íslands, þar sem gert er ráð fyrir mjög mikilvægum endurbótum á kennaramenntuninni, kennarastéttinni til eflingar og íslenzkri skólaæsku áreiðanlega til mikils góðs. Undanfarin ár hefur og verið lögð áherzla á eflingu háskólans. Á 8 árum hafa fjárveitingar til hans verið þrefaldaðar. Vísindarannsóknir hafa og verið efldar með margvíslegum öðrum hætti, m, a. með stofnun vísindasjóðs, sem hefur 3½ millj. kr. á ári til umráða til þess að styrkja vísindarannsóknir. Skipulag íslenzkra rannsóknarmála hefur og verið í gagngerðri athugun. Áður en Alþingi lýkur störfum, mun það væntanlega afgreiða lög um stofnun tækniskóla. Lögð hefur verið sérstök áherzla á að aðstoða íslenzka námsmenn. Á undanförnum 5 árum hafa opinber lán og styrkir til þeirra hvorki meira né minna en rúmlega sjöfaldazt.

Þá hafa stjórnarvöld einnig gert sér far um að efla bókmenntir og hvers konar listir til að stuðla að sem fjölbreyttustu andlegu lífi með þjóðinni. Listasafn Íslands hefur verið eflt og sinfóníuhljómsveit komið á öruggan grundvöll. Ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að efla leiklist og tónlistarlíf. Listamannalaun hafa aldrei verið hærri en í ár. Síðast, en ekki sízt, má geta þess, að komið hefur verið á fót Handritastofnun Íslands, sem fá mun til varðveizlu íslenzku handritin, sem Danir munu afhenda Íslendingum eftir næstu kosningar í Danmörku. Mun handritastofnunin skipa virðulegan sess í íslenzku menningarlífi.

Þarf okkur að greina á um það, góðir hlustendur, að allt þetta, sem ég hef gert að umtalsefni, séu framfaraspor? Ég varpaði áðan fram þeirri spurningu, hvort það væri ekki ómaksins vert að leggja einu sinni mælikvarða húsmóðurinnar á það, hvort stefnt hafi verið í rétta átt eða ranga undanfarin ár. Mundi ekki svar hennar vera, að það sé nú auðveldara en áður að sjá heimilinu fyrir góðum og fjölbreyttum vörum, að tekjurnar hafi yfirleitt, sem betur fer, vaxið meira en verðlagið hefur því miður orðið að hækka, svo að lífskjörin hafi í raun og veru verið að batna, að menntunarskilyrði æskulýðsins hafi vaxið, að menningarlífið sé að verða fjölbreyttara. Ef við getum öll verið sammála um, að þessu sé þannig farið, þá hljótum við líka að vera sammála um, að þótt sú ríkisstj., sem setið hefur að völdum í landinu, hafi auðvitað ekki verið alfullkomin og þótt þeir flokkar, sem hana hafa stutt, hafi auðvitað ekki verið alvitrir, þá hafi samt tekizt að þoka þjóðinni góðan spöl áleiðis í rétta átt. Og þá hljótum við líka að vera sammála um, að nú eigi ekki að breyta um stefnu, heldur halda áfram sókninni í þessa sömu átt eftir þeim leiðum, sem farnar hafa verið. Eigum við ekki að halda áfram að stefna að bættum lífskjörum í kjölfar aukinnar þjóðarframleiðslu, auknu réttlæti í kjölfar bættra almannatrygginga, meira vöruúrvali í kjölfar vaxandi viðskiptafrelsis, bættri menntun í kjölfar nýrra og betri skóla.

Góðir áheyrendur. Á næstu vikum munu stjórnmálaumr. hér eflaust mótast af því, að tæpir tveir mánuðir eru nú til alþingiskosninga. Það hefur oft viljað brenna við hér á landi, að kjósendur hafa ekki vitað, hvers konar ríkisstj. þeir hafa verið að velja sér, er þeir hafa greitt tilteknum flokki atkv. Mig langar til þess að ljúka þessum orðum mínum með því að vekja athygli á því og undirstrika það, að í þetta sinn þarf þessu ekki að vera þannig farið. Núv. stjórnarflokkar eru staðráðnir í því að halda stjórnarsamstarfinu áfram, ef þjóðin veitir þeim traust í kosningunum og þeir halda meiri hl. sínum. Þjóðin þekkir störf ríkisstj. og stefnu hennar. Það er nú á valdi kjósenda, hvort hún fær tækifæri til þess að starfa áfram. Hún ætlar sér ekki að ganga fram fyrir kjósendur með gylliboð og halda að þeim óraunhæfum loforðum. Hins vegar hefur ríkisstj. þegar lagt fyrir Alþingi og þjóðina ýtarlegri starfsáætlun fyrir næsta kjörtímabil en nokkur ríkisstj. hefur áður samið. Á ég hér við þjóðhags- og framkvæmdaáætlunina, sem nýlega hefur verið birt, en þar er mörkuð sú meginstefna í efnahagsmálum þjóðarinnar, sem ríkisstj. telur æskilegasta á næstu árum. Þar er ekki um skrum að ræða, ekki skýjaborgir, ekki tvíræð kosningaloforð, heldur raunhæfa starfsáætlun, sem stuðla mun að aukinni þjóðarframleiðslu og bættum lífskjörum, ef eftir henni verður unnið.

Ef ríkisstj. hlýtur traust í kosningunum í júní, verður starfað samkv. þessari áætlun á grundvelli þeirrar meginstefnu, sem fylgt hefur veríð. Ef ríkisstj. hlýtur ekki traust, þá hlýtur mikil óvissa að verða um það, hvaða stjórnarstefna verður ráðandi. Líklega yrði löng stjórnarkreppa og upp úr henni glundroði. Ekki eru horfur á, að unnt verði að mynda neina samhenta ríkisstj., ef núv. ríkisstj. missti meiri hl. En ég tek eflaust ekki of djúpt í árinni, er ég segi, að þjóðin hafi áreiðanlega fengið nóg af sundurþykkum ríkisstj., samsteypustjórnum flokka, sem setið hafa á svikráðum hver við annan og notað hvert tækifæri til þess að níða skóinn hver af öðrum, þótt það hafi bitnað á stjórnarstörfunum og þar með á þjóðinni.

Ég geri ráð fyrir, að það hafi ekki farið fram hjá mönnum, að samstarf núv. stjórnarflokka hefur verið óvenjulega heilsteypt. Þeir hafa lagt megináherzlu á, að samstarfið bæri góðan árangur, yrði þjóðinni til gagns. En sannleikurinn er sá, að jákvæður árangur af störfum samsteypustjórna er ekki síður kominn undir því, að starfað sé saman af einlægni, en hinu, að stefnan sé rétt. Hvort tveggja þetta hefur átt sér stað undanfarin ár. Stjórnarflokkarnir hafa unnið saman af einlægni, og stefnan hefur verið rétt. En ég er þeirrar skoðunar, að hvorugt þetta mundi eiga við um sérhverja aðra samsteypustjórn, sem hugsanlegt er að mynduð yrði á Íslandi. Hætt er við, að stefna sérhverrar annarrar samsteypustjórnar yrði röng, og samstarfið yrði áreiðanlega ekki einiægt.

Ég hef trú á dómgreind Íslendinga. Þess vegna vona ég, að nægilega margir verði til þess að styðja Alþfl. til áframhaldandi ábyrgðarstarfa í næstu kosningum. Hann mun leggja sig allan fram um að reynast þess trausts verður.