18.04.1963
Sameinað þing: 50. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1665 í B-deild Alþingistíðinda. (1795)

Almennar stjórnmálaumræður

Friðjón Skarphéðinsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hinn 10. apríl s.l. lagði ríkisstj. fram hér á Alþingi þjóðhags- og framkvæmdaáætlun fyrir árin 1963–66. Gerð áætlunar af þessu tagi var einn liður í stefnuskrá ríkisstj., og er þetta fyrsta áætlunin, sem undirbúin hefur verið hér á landi.

Það eru nú liðin nær 30 ár, síðan till. komu fyrst fram um það hérlendis að undirbúa þjóðhags- og framkvæmdaáætlanir og nota þær við stjórn efnahagsmála. Það var árið 1934, að Alþfl. lagði fram till. um slíka áætlunargerð. Jafnaðarmenn á Norðurlöndum og í öðrum Evrópulöndum höfðu þá tekið áætlunargerð á stefnuskrá sína, enda þótt slíkt kæmi raunverulega hvergi til framkvæmda, áður en stríðið hófst. Áætlunargerðin var fyrst og fremst hugsuð sem tæki til þess að stjórna efnahagsmálum þannig, að framleiðslutækin væru nýtt til fulls og hinu mikla atvinnuleysi kreppuáranna útrýmt.

Till. þær, sem Alþfl. lagði fram hér á landi, urðu til þess, að sett var á fót skipulagsnefnd atvinnumála í stjórnartíð Framsfl. og Alþfl. á árunum 1934–37. Þessi nefnd vann merkilegt starf að margvíslegum rannsóknum á íslenzku atvinnulífi. Á hennar vegum starfaði hér um skeið sænskur hagfræðingur, Eric Lundberg prófessor, sem síðar varð mjög þekktur í heimalandi sínu. Á vegum n. voru m.a. kannaðir möguleikar á stofnun nýrra iðngreina hér á landi, þ. á m. áburðar- og sementsvinnslu. N. gat hins vegar ekki undirbúið raunverulegar áætlanir. Á því voru engin tök, m.a. vegna þess, að margvíslegar grundvallarupplýsingar um efnahagslífið vantaði.

Á stríðsárunum og þá umfram allt í lok styrjaldarinnar fengu hugmyndir um áætlunargerð nýjan styrk í Vestur-Evrópu, og gætti þeirrar þróunar einnig hér á landi. Enn sem fyrr voru það jafnaðarmenn, sem öðrum fremur beittu sér fyrir þessu, en nú orðið var viðhorf annarra stjórnmálaflokka það breytt af reynslu kreppunnar og styrjaldaráranna, að þessar hugmyndir sættu ekki andstöðu, svo sem áður hafði verið. Sum lönd Vestur-Evrópu, svo sem Frakkland, Holland og Noregur, tóku að framkvæma áætlunargerð þegar í lok stríðsins og hafa stuðzt við slíkar áætlanir síðan. Almennt er álitið, að þessar áætlanir hafi verið til mikils gagns fyrir stjórn efnahagsmála og hafi átt sinn þátt í, að þessi lönd hafa náð örum vexti þjóðarframleiðslu á tiltölulega skömmum tíma, samfara eðlilegu jafnvægi í efnahagsmálum.

Hér á landi hefur hvað eftir annað frá stríðsárunum verið rætt um að hefja áætlunargerð og raunar ákveðið að gera það, þegar nýjar ríkisstj. tóku við völdum. Þannig var ætlunin, að nýsköpunarstjórnin hagnýtti sér áætlanir við undirbúning þeirra miklu framkvæmda, sem hún beitti sér fyrir að stríðslokum. Einnig var áætlunargerð í stefnuskrá vinstri stjórnarinnar 1956.

Það hefur hins vegar jafnan komið á daginn, að miklir erfiðleikar voru á því, að áætlunargerð yrði að veruleika hér á landi, og engin þeirra ríkisstj., sem áður hafa setið, hefur, þegar til átti að taka, getað komið þessu fram. Alþfl. hefur talið, að það hafi verið mjög miður farið, og alltaf lagt á það áherslu, að áætlunargerð hér gæti komið að miklu haldi. Alþfl.menn fagna því nú, að gengið skuli hafa verið frá hinni fyrstu þjóðhags- og framkvæmdaáætlun. Hún er að vísu frumsmíð og um margt ófullkomin, en samt þýðingarmikið tæki við stjórn efnahagsmála og vísir að fullkomnari áætlunum, er gerðar yrðu síðar meir.

Það, að nú hefur verið unnt að gera þessa áætlun, byggist í fyrsta lagi á því, að nú er í fyrsta sinn til nægilegur talnalegur grundvöllur í mynd þjóðhagsreikninga, og í öðru lagi hafa þær ríkisstj., sem setið hafa á árunum eftir styrjöldina, orðið að eyða tíma sínum og kröftum að langmestu leyti til að sinna aðkallandi efnahagsvandamálum. Þær hafa, ef svo mætti segja, aldrei getað litið upp úr önn dagsins. Þessi efnahagsvandamál tókst aldrei að leysa nema á þann hátt, að það skapaði nýja og nýja erfiðleika, þannig að aldrei sást fram úr vandanum.

Með þeim efnahagsaðgerðum, sem núv. ríkisstj. framkvæmdi í upphafi kjörtímabilsins og síðan hefur verið fylgt eftir með styrkri stjórn efnahagsmála, varð til grundvöllur fyrir því að hugsa um framtíðina og skipuleggja stefnu stjórnarvaldanna um margra ára skeið fram í tímann. Er þess að vænta, að þetta hafi mikil áhrif á framþróun efnahagslífsins, þegar fram í sækir.

Í þriðja lagi hefur samvinna þeirra flokka, sem standa að núv. ríkisstj., verið traustari og farsælli en samvinna stjórnmálaflokka í nokkurri annarri stjórn, sem hér hefur setið. Áður hefur framvindan jafnan orðið á þann veg, að þegar líða tók á kjörtímabilið, var samkomulagið orðið það erfitt, að grundvöllur var ekki fyrir þýðingarmiklum aðgerðum. í núv. ríkisstj. hefur samvinnan verið með öðrum hætti. Þess vegna hefur reynzt mögulegt á síðari hluta kjörtímabilsins að framkvæma jafnþýðingarmikið stefnuskráratriði sem gerð þjóðhags- og framkvæmdaáætlunarinnar er.

Það er athyglisvert að bera saman þau markmið, sem stefnt er að í þeirri áætlun, sem nú hefur verið lögð fram, og þau vandamál, sem brýnust voru talin, þegar áætlunargerð kom fyrst á dagskrá hér á landi fyrir nær 30 árum. Sá samanburður segir okkur mikið um þær breytingar, sem orðið hafa í þjóðfélaginu á þessu tímabili. Þegar till. um áætlunargerð komu fyrst fram, var aðalvandamálið atvinnuleysið. Framleiðslutækin voru ekki nýtt nema að nokkru leyti. Togararnir lágu í höfn mikinn hluta ársins. Frystihús voru ekki til. Iðnaður var skammt á veg kominn. Hér vantaði framleiðslutæki og verkefni fyrir vinnandi hendur. Hugmyndin var sú, að með áætlunargerð væri á skipulegan hátt unnt að snúa sér að lausn þessara brýnu og erfiðu vandamála. Nú horfir málið öðruvísi við. Allir menn hafa meira en nóg að starfa. Framleiðslutæki eru mikil, en ekki alltaf eins vel nýtt og unnt væri. Það, sem nú er stefnt að með áætlunargerð, er fyrst og fremst, að þróun þjóðarbúskaparins verði sem hagstæðust og hægt sé að ná örum vexti þjóðarframleiðslunnar og bæta þannig lífskjör, jafnframt því sem búið sé í haginn fyrir framtíðina. Áætlunin gerir grein fyrir því, hvernig þjóðarbúskapurinn hefur þróazt á undanförnum áratugum, og kannar ástæðurnar fyrir því, að þróunin hefur á síðari árum ekki orðið eins hagstæð og hægt hefði verið að gera sér vonir um og eins og hún hefur orðið í mörgum löndum. Hún bendir á þær leiðir, sem hægt sé að fara til þess að breyta þessu smátt og smátt og ná betri hagnýtingu framleiðsluaflanna og meiri aukningu þjóðarframleiðslu.

Þessi mikla breyting viðhorfa á 30 árum er árangur þróunar, sem byggzt hefur á aukinni tækniþekkingu og aukinni notkun þeirrar þekkingar, en þessi breyting hefur ekki getað skeð nema fyrir atbeina þjóðfélagslegra afla. Mönnum finnst oft harla lítið um þras stjórnmálaflokkanna, og er það að vonum. En þegar litið hefur verið yfir langt tímabil eins og það, sem hér var nefnt, er hægt að sjá í skýru ljósi áhrif stjórnmálastarfseminnar á þjóðfélagsþróunina, þegar til lengdar lætur. Það er árangur langrar stjórnmálabaráttu, að atvinnuleysið er horfið úr sögunni, félagslegt öryggi komið á og velmegun er meiri og almennari en nokkru sinni áður.

Þær þjóðfélagshugmyndir, sem upphaflega komu fram meðal jafnaðarmanna og innan verkalýðshreyfingarinnar, hafa smátt og smátt unnið á og fest rætur. Aðrir stjórnmálaflokkar hafa fallizt á þær í veigamiklum atriðum, og þjóðfélagið allt hefur breytzt á róttækan hátt fyrir þeirra tilverknað. Starfsemi jafnaðarmanna bæði hér á landi og í nágrannalöndunum hefur orðið farsæl einmitt af þessari ástæðu. Þeim hefur tekizt að móta stefnu, sem hefur verið í senn framsýn og raunhæf. Alþfl. getur nú fagnað þessum árangri í mörgum greinum, þ. á m. er sú þjóðhags- og framkvæmdaáætlun, sem nú hefur séð dagsins ljós í fyrsta sinn og vonir standa til að geti orðið þýðingarmikið tæki í sókn Íslendinga til betra lífs á komandi árum.

Ég hef valið þann kost að ræða um þjóðhags- og framkvæmdaáætlunina á þessum fáu mínútum, sem ég hef hér til umráða, í stað þess að svara ræðum hv. stjórnarandstæðinga og leiðrétta rangfærslur þeirra. Þeir hafa í þessum umr. fordæmt því nær allt, sem gert hefur verið að hálfu ríkisstj. eða látið ógert, og virðast naumast sjá þar örla fyrir ljósum punkti. Þótt sjálfsagt og eðlilegt sé, að stjórnarandstaðan gagnrýni ríkisstj., er hitt þó jafnvíst, að það er óraunhæft með öllu og furðuleg fjarstæða, ef því er haldið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar, að því nær allir hlutir, er verulegu máli skipta í löggjöf og framkvæmd, er ríkisstj. hafi staðið að, hafi verið og séu landi og þjóð til óþurftar og tjóns. Hvort tveggja er, að í þessu felst fullkomið virðingarleysi fyrir dómgreind hlustenda og öllum er ljóst, bæði stjórnarandstæðingum og öðrum, að slíkur málflutningur er hin mestu öfugmæli, þegar almenn velmegun og hvers konar framfarir hafa aldrei verið meiri á landi hér, hvorki fyrr né síðar, og efnahagur þjóðarinnar aldrei betri. Hefur þar hvort tveggja hjálpað til, gott árferði og skynsamleg og samhent ríkisstj.

Þjóðin er nú á vegamótum stödd, því að alþingiskosningar munu fara fram innan tveggja mánaða. Hún mun þá kveða upp sinn dóm um það, hvort hún vill fela Framsókn og kommúnistum forsjá sína á næstu árum, þannig að þeir flokkar geti kollvarpað því efnahagskerfi, sem núv. ríkisstj. hefur byggt upp, sem þeir segjast hafa fullan hug á að gera, án þess þó að ljóst sé, hvað við tekur, — eða hvort hún vill heldur halda áfram stefnunni til velferðarríkis á Íslandi, sem stefnt hefur verið að nú um sinn og þjóðhags- og framkvæmdaáætlunin bendir fram til.

Hv. stjórnarandstæðingar hafa leitazt við í þessum umr, að gera harða hríð að ríkisstj., og enn munu þeir herða hana á næstu vikum. En þeim hefur verið veitt viðnám, svo sem maklegt er, og svo mun enn verða. Nú á þjóðin kost á því í kosningunum að sannfæra þá um, sé þeim það ekki ljóst nú þegar, að

„það er annað að kveðja á Kotum

en komast í Bakkasel.”

— Góða nótt.