18.04.1963
Sameinað þing: 50. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1673 í B-deild Alþingistíðinda. (1797)

Almennar stjórnmálaumræður

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þegar Alþingi nú hefur verið rofið og kosningar ákveðnar 9. júní, þá er nauðsynlegt, að allir verkamenn og aðrir launþegar, allir bændur og búalið, en þessar stéttir eru 90% Íslendinga, geri sér ljóst, að í alþingiskosningunum verða öll veigamestu hagsmunamál þeirra útkljáð, kaupdeilurnar og ávöxtur þeirra raunverulega líka.

Hæstv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, reyndi hér í kvöld að blekkja með því, að sökum mikils síldarafla höfðu sjómenn í fyrra hærri meðaltekjur en fyrr. En það er ekki pólitík ríkisstj. að þakka. Ríkisstj. hefur þvert á móti ekki skirrzt við að stofna með kaupkúgunarofstæki sínu beztu síldarvertíð, sem yfir Ísland hefur komið, í voða. Fyrir hennar aðgerðir hafa hins vegar lífskjör hins almenna verkamanns rýrnað svo, að dýrtíðin óx um 43%, á meðan kaupið hækkaði aðeins um 4%, allt miðað við desember 1958. Til þess að ná þeim meðaltekjum, sem Gylfi Þ. Gíslason reiknar með, þarf hinn almenni verkamaður að vinna allt að 12 tíma á dag hvern virkan dag ársins. Svona hafa lífskjörin versnað. Þarna eru spor eftir Alþfl., mundi líklega Benedikt Gröndal, hv. 5. þm. Vesturl., segja. Þetta eru staðreyndirnar, sem íslenzkir launþegar standa nú frammi fyrir.

Íslenzk alþýða. Þú hófst þig með baráttu þinni undir forustu flokks þíns, Sósfl., fyrir tveim áratugum upp úr fátækt og eymd kreppuáranna upp í bjargálnir nútímans. En í dag býrð þú fyrir aðgerðir auðvaldsstjórnarinnar við lægri kaupmátt tímakaups en fyrir 20 árum þrátt fyrir gífurlegar efnahagsframfarir, við meiri vinnuþrælkun en nokkur önnur Norðurálfuþjóð þrátt fyrir stórfellda vélvæðingu atvinnulífsins, við þyngri vexti og meiri dýrtíð en nokkru sinni fyrr. Þarna eru spor eftir Alþfl., mundi líklega Benedikt Gröndal segja, — stigin í takt við íhaldið, mundi ég bæta við.

Hvernig stendur á, að svona er komið? Orsökin er sú, að auðmannastétt Reykjavíkur hefur fyrir tilstilli íhaldsins og Alþfl. beitt ríkisvaldinu vægðarlaust sem kaupkúgunartæld til að rýra lífskjör þín og þyngja þér lífsbaráttuna með endalausum þrældómi. Auðvaldið hefur með aðstoð Framsfl. bannað verkamönnum og öðrum launþegum að hafa í samningum vísitölu og kaupgjald, eins og tíðkast alls staðar á Norðurlöndum, og svipt launþega þannig þeirri tryggingu gegn dýrtíð, sem verkalýðshreyfingin hafði notið í 20 ár. Og síðan hefur svo hver gengislækkunin rekið aðra, dýrtíðin flætt yfir alþýðuheimilin, en skuldakóngar og braskarar grætt að sama skapi. Þegar verkamenn og sjómenn hafa háð sína hörðu launabaráttu og sigrað, þá hefur auðvaldsstjórnin ekki skirrzt við að grípa til gerðardóms og gengislækkunar með einræðislögum og stjórnarskrárbrotum til þess að ræna öllu því af launþegum, sem þeir áunnu sér. Hvernig eiga íslenzkir menn að svara svona kúgun auðmannastéttar, svona harðstjórnarlegri beitingu ríkisvaldsins gegn alþýðu manna? Með því að slá þetta kúgunarvopn hennar, ríkisvaldið, úr höndum hennar í komandi kosningum.

Sósfl. heitir á alþýðu Íslands til sjávar og sveita að rísa upp og steypa þessari afturhaldsstjórn af stóli með því að fylkja sér um Alþb. í kosningunum hinn 9. júní. Hvað liggur við, ef það er ekki gert? Ef íslenzk þjóð lætur undir höfuð leggjast að fella þessa stjórn kaupkúgunar og vinnuþrælkunar í komandi kosningum, þá mun þessi stjórn aftur þora að taka upp tilraunir sínar til innlimunar Íslands í Efnahagsbandalagið, ef England fer aftur á fjörurnar þar, eins og vafalítið verður á næsta kjörtímabili. Og þá mun Morgunblaðið aftur gleyma allri varúðinni, sem hæstv. dómsmrh., Bjarni Benediktsson, lofaði í kvöld og taka aftur upp ofstækisstefnuna frá 19. ágúst 1961 um, að það séu aðeins þjónar heimskommúnismans, sem standi gegn því, að Ísland sæki um inngöngu í Efnahagsbandalagið. Þá mun íslenzka auðvaldinu finnast óhætt að drýgja glæpinn, sem flokka þess langar til að hafa misst fyrir þessar kosningar.

Sitji þessi stjórn áfram, leiðir það því á ný yfir þjóð vora hættu innlimunar í erlent stórveldi, hættu tortímingar sjálfstæðis, hættuna á því, að þjóðin tapi sál sinni í bræðslupotti hnappasmiðsins í þjóðasamsuðu auðvaldsins í Evrópu.

Það eru e.t.v. einhverjir, sem halda, að Framsókn mundi vinna að því að hindra inngöngu Íslands í Efnahagsbandalagið, af því að hún talar svo fagurt nú. En Framsfl. sver þeirri hugsjón alltaf dýrustu eiðana fyrir kosningar, sem hann ætlar að svíkja eftir kosningar. Hver sór hlutleysi og herstöðvaandstöðu dýrustu eiðana í kosningunum 1946? Framsókn. Og hver gekk í Atlantshafsbandalagið og lét koma upp herstöðvum á Íslandi eftir kosningar? Framsókn. Hver sagði fjárplógsstarfsemi auðvaldsins stríð á hendur í kosningunum 1949? Framsókn. Og hver gekk í þjónustu fjárplógsstarfseminnar og myndaði helmingaskiptastjórn með auðvaldinu í Reykjavík til þess að græða á hermangi á Keflavíkurflugvelli og lækka gengið og koma á atvinnuleysi? Auðvitað Framsókn.

En þótt innlimunarhættan sé mesta ógnin, sem yfir Íslendingum vofir næst kjarnorkustríði, þá á alþýða landsins nýjar árásir á lífskjör sín og réttindi yfir höfði sér, ef hún bregzt ekki hart við í komandi kosningum gegn auðvaldi og afturhaldi. Ef auðvaldið vinnur, en alþýðan tapar í komandi kosningum, þá verður samkv. því, sem nú þegar hefur verið lýst yfir af seðlabankastjórn o.fl. gengið lækkað til þess að svipta starfsmenn hins opinbera, verkamenn og aðra launþega þeim kauphækkunum, sem nú er verið að knýja fram, og vinnulöggjöfinni verður síðan breytt í þá þrælafjötra á verkalýðshreyfinguna, sem auðvaldið vonar að dugi til þess að hindra nýjar kauphækkanir til að vinna upp dýrtíðina.

Lífshagsmunir allra launþega í landinu, en þeir eru ¾ hlutar þjóðarinnar, eru undir því komnir, að alþýðan sigri auðvaldið og flokka þess í komandi kosningum. En hvað vinnst, ef alþýðan og bandalag hennar sigrar?

Eitt mesta lífshagsmunamál alþýðunnar er afnám vinnuþrældómsins. Það er að koma á raunverulegum 8 tíma vinnudegi með óskertum árstekjum, eða m.ö.o. 8 tíma vinnudegi með a.m.k. 10 tíma dagkaupi. Þetta er eitt þýðingarmesta átakið, sem vinna þarf í íslenzkum þjóðmálum, jafnt frá sjónarmiði vinnandi stétta sem þjóðlegrar menningar. Til þess að framkvæma þetta þarf að knýja fram nýsköpun og hagræðingu á íslenzkum þjóðarbúskap með hagsmuni alþýðunnar fyrir augum, þar með iðnbyltingu í matvælaframleiðslu Íslendinga. Og það verður því aðeins gert af viti, að alþýðan verði nógu voldug til þess að taka höndum um stjórnvölinn sjálf og leggja með áætlunarbúskap efnahagslegan, traustan grundvöll að atvinnulífi, sem tryggir síhækkandi kaup án verðbólgu. 8 tíma vinnudagur með óskertum heildartekjum veitir hverjum Íslendingi tóm til þess að sinna heimilum sínum og hugðarefnum, sem þorra manna er bannað nú. Erlendis er krafa alþýðunnar 35–40 tíma vinnuvika, og 48 stundir þykir löng vinnuvika þar, en hér er vinnuvikan 60–72 stundir og hjá sjómönnum lengri. Íslenzkur þjóðarbúskapur stendur vel undir 8 tíma vinnudegi og mannsæmandi lífskjörum. Allt þvaður svokallaðra hagspekinga og seðlabankastjóra um hið gagnstæða er marklaust hjal þessara hirðpresta mammons, áróðursþvættingur fluttur af skósveinum auðvaldsins í því skyni að vernda þess hagsmuni. Hvenær hefur yfirstéttin og þjónar hennar séð nokkurn grundvöll fyrir kauphækkun á Íslandi? Ef þeir hefðu fengið að ráða, sæti alþýðan enn við kreppukjör forstríðsáranna. Það er aðeins þegar alþýðan rís upp í öllum sínum samtakamætti og skeytir engu um boð né bönn né bábiljur þessara herra, að hún stígur þau stóru spor fram á við, sem hún hefur stigið á þessari öld, og það þarf hún að gera enn fyrir þessar kosningar og í þessum kosningum.

En það er meira að vinna að framkvæmd mestu lífshagsmunamála alþýðunnar í þessum kosningum. Það er sjálft frelsi Íslands, þjóðernisleg tilvera okkar Íslendinga og yfirráð okkar sjálfra og okkar einna yfir þessu landi feðra vorra, sem verður að vinna og tryggja á komandi kjörtímabili. Allir viðurkenna nú, hver ógn það væri Íslandi að innlimast í Efnahagsbandalagið. En í hverju leynist höfuðhættan? Í snarsnúningi og uppgjöf allra þessara þriggja flokka Atlantshafsbandalagsins fyrir auðvaldi Efnahagsbandalagsins. Hún felst í því, að auðhringavald Evrópu og Ameríku óttast, að Atlantshafsbandalagið hrynji sem hrófatildur árið 1969, þegar samningurinn um það rennur út, nema ríki þess hafi áður verið sameinuð í eitt stórveldi, Efnahagsbandalagið. Og hin sorglega reynsla vor Íslendinga er sú, að þegar þetta auðhringavald tekur að þjarma að þríflokkunum okkar og leggur við líf Atlantshafsbandalagsins, þá beygja þeir sig í duftið eins og 1951, þegar þeir beygðu sig fyrir herstöðvakröfunni og leiddu hættu útþurrkunar í kjarnorkustyrjöld yfir þjóðina fyrir Atlantshafsbandalagið. Og það er sama hætta nú, að þeir leiði yfir þjóð vora hættu útþurrkunar í friði fyrir

Atlantshafsbandalagið og Efnahagsbandalag þess. Þess vegna er engum flokki Atlantshafsbandalagsins treystandi í þessu máli.

Það hefur orðið hlutskipti Sósfl. í þau 23 ár, sem land vort hefur verið raunverulega hernumið, að standa einn allra flokka stöðugan vörð gegn erlendu hervaldi og hernámi, hvað sem það kostaði, — vörð um rétt þjóðar vorrar til þess að ráða landi þessu sjálf og ein. Í þau 1100 ár, sem við Íslendingar höfum byggt þetta land, hefur þessi réttur aldrei verið í annarri eins hættu og á yfirstandandi tíð. Því heitir Sósfl. á alla góða Íslendinga, hvar sem þeir ella kunna að standa eða hafa staðið í flokki, að fylkja sér um Alþb. í komandi kosningum. Örlög Íslands geta oltið á því, að sú kosningasamfylking vinstri manna og vinnandi stétta vinni stórsigur.

Íslenzk þjóð! Þessar kosningar munu reyna á vit þitt, reisn og manndóm sem engar aðrar. Níðhöggur auðvalds og hernáms hefur nú í 20 ár nagað rætur þjóðarerfða þinna og þjóðarstolts. Það auðvaldsskipulag, sem rutt hefur sér til rúms á Íslandi og eflzt í skjóli erlends hervalds, er að þurrka burt 1000 ára bændaþjóðfélag vort og vinnur að því að gagnsýra þjóð vora af suðhyggju og lágkúru og breyta manngildi Íslendinga í peningagildi.

Íslenzk þjóð! Rístu upp gegn þessu auðvaldi og hernámi og feyktu því af þér. Láttu það ekki lengur kúga þig og lítillækka. Þú hefur verið stórþjóð andans í þessu eylandi, sem ljóma hefur stafað af um nýja veröld að fornu og nýju. Láttu ekki gera þig að smáþjóð peninganna, að skóþurrku erlends auðvalds og hervalds. Rístu upp og greiddu auðvaldinu utanlands og innan og öllum þess efnahags- og hernaðarbandalögum slíkt högg í komandi kosningum, að það nái aldrei aftur því valdi, sem það hefur nú kúgað þig með. Fram til sigurs fyrir Ísland og alþýðuna. — Góða nótt.