14.11.1962
Sameinað þing: 13. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1733 í B-deild Alþingistíðinda. (1805)

Efnahagsbandalagsmálið

Þórarinn Þórarinsson:

Hæstv. forseti. Mér finnst rétt að láta það í ljós strax í tilefni af því, sem kom fram hjá hæstv. forsrh. og hefur einnig komið fram hjá hæstv. viðskmrh., að ég hef annað álit á vestrænum þjóðum en þeir. Mér virðist í ummælum þeirra beggja hafa komið fram mjög mikil vantrú og vanmat á vestrænum þjóðum. Mér finnst, að þegar þeir eru að tala um vestrænar þjóðir, þá sé eins og þeir séu að draga upp fjandann sjálfan á vegginn og lýsa þeim þannig, að þær muni beita okkur ströngum tollmúrum, að þær muni einangra okkur frá öllum viðskiptum við sig, menningarlegum og efnahagslegum, nema við greiðum einhvern háan aðgöngueyri fyrir þetta, eins og hæstv. forsrh. komst að orði. Ég vil láta það koma skýrt fram, að ég álít, að samskipti okkar við vestrænar þjóðir á undanförnum árum og áratugum hafi ekki verið með þeim hætti, að það sé rétt að láta slíka skoðun koma fram. Ég vil fullyrða það, að vestrænar þjóðir hafa í langflestum tilfellum sýnt málum okkar fullan skilning og tekið tillit til sérstöðu okkar í langflestum greinum. Og ég vil trúa því, að það muni vestrænar þjóðir gera enn. Þess vegna er ég ekki haldinn neinum ugg og kvíða í sambandi við þetta mál, — í sambandi við þessa háu tollmúra eða í sambandi við þá einangrun, sem þessir ráðh. eru að tala um, að vestrænar þjóðir muni beita okkur, ef við greiðum ekki svo og svo háan aðgöngueyri fyrir samstarfið við þær. Ég trúi því fastlega, að samstarf okkar við vestrænar þjóðir muni halda áfram með líkum hætti og hingað til, að þær muni viðurkenna sérstöðu okkar og taka eðlilegt og réttlátt tillit til hagsmuna okkar, og þess vegna þurfi engu að kvíða í þeim samningum, sem fram undan eru við Efnahagsbandalagið, þegar þar að kemur, ef við aðeins sjálfir höldum rétt á málum og gætum okkar fyrir því hringavaldi, sem er í þessum löndum, að það hafi ekki aðstöðu til þess að komast inn í samningagerðina, eins og ég mun síðar víkja að. En ég hef sem sagt fulla trú á því, að okkur verði sýnd fullkomin tillitssemi af vestrænum þjóðum, þegar að þessum samningum kemur. Ég mótmæli því sérstaklega, að sú skoðun skuli koma fram hjá hæstv. ríkisstj., að við eigum að vantreysta vestrænum þjóðum í þessum efnum og þær muni sýna okkur skilningsleysi, þær muni beita okkur einhverju ráðríki eða kúgun, ef við greiðum ekki þennan og þennan aðgangseyri fyrir samstarfið við þær.

Ég vil svo þessu næst láta það koma fram, að viss atriði í ræðu hæstv. viðskmrh., sem hann hélt hér á þriðjudaginn, urðu mér nokkurt ánægjuefni, því að mér virtist það koma alveg ótvírætt fram þar, að hæstv. ríkisstj. hefur breytt verulega um stefnu í rétta átt, þó að ég álíti, að sú stefnubreyting þurfi að verða enn meiri. Það kom fram í skýrslu hæstv. ráðh., að ríkisstj. er orðin afhuga því að sækja um fulla aðild og að ríkisstj. vill nú ekki fara með sérstökum hraða í þessu máli, heldur bíða átekta. Þetta er mikil og ánægjuleg stefnubreyting, það sem hún nær. Það hefur vissulega ekki verið stefna hæstv. ríkisstj., að við ættum að vera afhuga fullri aðild og við ættum að fara með gát í þessu máli. Þess vegna sé ég sérstaka ástæðu til að fagna þessum yfirlýsingum hæstv. viðskmrh.

Mér finnst rétt af þessu tilefni að rifja það nokkuð upp, sem ég hef hér minnzt á, til frekari staðfestingar því, að hér hafi stefnubreyting átt sér stað hjá hæstv. ríkisstj. Ef við lítum til baka til seinasta árs, til s.l. sumars, og kynnum okkur það, sem þá var að finna í málgögnum hæstv. ríkisstj. um þessi mál, þá verður það fullkomlega ljóst, að þá var önnur stefna uppi. Í Morgunblaðinu 1. ágúst 1961 birtist forustugrein, þar sem rætt var um Efnahagsbandalagið og rakin nauðsyn þess, að við tækjum upp við það sem nánust tengsl. Í þessari grein segir m.a. á þessa leið, með leyfi hæstv.forseta:

„Í þessum efnum ber allt að sama brunni. Við mundum hafa geysimikinn hag af þátttöku í sameiginlega markaðinum:”

Í næstu blöðum Morgunblaðsins er svo haldið áfram að ræða málið á þessa leið. 11. ágúst birtist önnur forustugrein í þessu blaði, þar sem það er rakið enn frekar, hvaða hag Íslendingar mundu hafa af því að tengjast Efnahagsbandalaginu, og að lokum komizt þannig að orði:

„Þess vegna verðum við Íslendingar að vinda að því bráðan bug að sækja um upptöku í sameiginlega markaðinn, svo að við frá upphafi getum gætt þar sérhagsmuna okkar.”

Hér kemur sú stefna alveg skýrt fram, að við eigum þá þegar, — það var í ágústmánuði 1961, — að sækja um inngöngu í Efnahagsbandalagið og meira að segja sækja um fulla aðild, því að annars getum við ekki haft aðstöðu til þess að gæta hagsmuna okkar sérstaklega innan sameiginlega markaðsins, en það nafn var þá haft á Efnahagsbandalaginu. Í Morgunblaðinu 19. ágúst 1961 birtist svo enn forustugrein undir fyrirsögninni: „Verður sótt um inngöngu í Efnahagsbandalagið?” Þar segir m.a. á þessa leið:

„Ástæðan til þess, að kunnáttumenn telja, að ekki megi lengi draga að leggja inn inntökubeiðni, er fyrst og fremst sú, að frambúðarskipun Efnahagsbandalagsins er nú í mótun. Með því að sækja nú um inngöngu geta Íslendingar haft áhrif á það, hvernig einstökum málum verður háttað, en ef við leggjum ekki fram inntökubeiðni, erum við frá upphafi einangraðir.”

Þarna kemur það alveg skýrt fram í aðalmálgagni ríkisstj., að Íslendingar eigi þá þegar; þ.e. í ágústmánuði 1961, að leggja fram inntökubeiðni um fulla aðild að Efnahagsbandalaginu. Þetta kom líka mjög glöggt fram í gerðum hæstv. ríkisstj. á þessum tíma. Þá var hóað saman í mikilli skyndingu fulltrúum nokkurra félagssamtaka og lagt fyrir þá að segja til um það fyrir 16 ágúst 1961, þ.e. í fyrrasumar, hvort þeir væru því samþykkir, að sótt væri um inngöngu. í Efnahagsbandalagið. Og málið var þar túlkað þannig, að það væri útilokað að taka upp nokkrar viðræður við Efnahagsbandalagið öðruvísi en það væri jafnframt sótt um inngöngu, sótt um fulla aðild. Frá því var svo sagt með stóru letri í Morgunblaðinu 19. ágúst 1961, að samtök meginatvinnuvega Íslands styðji inntökubeiðni Íslands í Efnahagsbandalagið. Það gerðist svo einnig í framhaldi af þessu, að á þingi, sem ungir sjálfstæðismenn héldu í sept. 1961, var samþykkt, að Ísland skyldi sækja um upptöku í Efnahagsbandalagið, og á landsfundi, sem Sjálfstfl. hélt í október s.l. haust, var samþykkt að vinna að því „að tryggja aðild Íslands að Efnahagsbandalaginu.” Það kemur glöggt fram af öllu þessu, að í fyrrasumar og fyrrahaust var það stefna Sjálfstfl., — og þar af leiðandi líka stefna ríkisstj., því að það er hann, sem ræður stefnu ríkisstj., — að þá þegar skyldi sótt um fulla aðild að Efnahagsbandalaginu og hafður sem mestur hraði á. — Þegar þetta er íhugað, finnst mér sérstök ástæða til þess að lýsa ánægju yfir því, sem fólst í yfirlýsingu hæstv. ríkisstj., að ríkisstj. telji sig nú orðna afhuga því, að sótt skuli um fulla aðild að Efnahagsbandalaginu, og enn fremur sé hún orðin þeirrar skoðunar, að í stað þess að hafa hraðan á í málinu, þá sé rétt að bíða átekta.

Það er hægt að nefna fleiri dæmi en þetta um það, að ríkisstj. hefur áður viljað hafa hraðan á í þessu máli. Í Alþýðublaðinu 6. febr. í ár má líta á útsíðu stóra fyrirsögn, sem hljóðar á þessa leið: „Aukaaðild hentar Íslandi bezt.” Grein sú, sem fylgir þessari fyrirsögn, hefst á þessa leið:

„Samband Íslendinga við Vestur-Evrópu má ekki rofna. Tengsl við Efnahagsbandalagið eru okkur nauðsynleg, og aukaaðild virðist henta Íslendingum bezt, sagði Gylfi Þ. Gíslason viðskmrh. á fundi Alþýðufélags Reykjavíkur í fyrradag.” Frásögn blaðsins lýkur svo á þessa leið: „Sagðist Gylfi vera þeirrar skoðunar, að Ísland ætti einmitt að sækja um slíka aðild, þ.e. aukaaðild. Það væri hins vegar enn vafamál, hvenær Ísland ætti að senda umsókn sína. Það væri enn of snemmt, en sennilega yrðu Íslendingar að taka ákvörðun sína í þessum efnum, þegar Norðmenn hefðu lagt fram umsókn sína, en búast mætti við, að þeir gerðu það í næsta mánuði. Gylfi sagði, að Íslendingar mættu ekki draga það lengi að sækja um aukaaðild, eftir að Norðmenn hefðu lagt fram umsókn sína.”

Í framhaldi af þessu gerðist það svo nokkrum dögum seinna, að haldinn var flokksstjórnarfundur Alþfl. Þar var samþykkt, að Ísland ætti að sækja um aukaaðild að Efnahagsbandalaginu.

Þetta gerðist sem sagt í febrúar í fyrra, en eitthvað 2 mánuðum seinna lögðu Norðmenn fram inntökubeiðni sína.

Þetta, sem ég hef nú rakið, sýnir allt saman, að áður fyrr hefur ríkisstj. haft önnur viðhorf og viljað hafa önnur vinnubrögð í þessu máli en hún telur sig vilja hafa nú. Þá var það stefna hennar að sækja eins fljótt um fulla aðild eða aukaaðild og kostur væri á og draga ekki neitt í þeim efnum. Nú er hún hins vegar komin inn á þá braut að hafna alveg fullri aðild og telja, að hvað aðrar leiðir snertir eigi að bíða átekta. Ég vil endurtaka það, að ég lýsi ánægju minni yfir þeirri stefnubreytingu, sem hér hefur orðið hjá hæstv. ríkisstj., og þeim vinnuaðferðum, sem hún vill viðhafa. En ég vil jafnframt taka það fram, að þessi ánægja mín er bundin þeim fyrirvara, að þessi stefnubreyting verði varanleg og hún reynist t.d. endingarbetri en yfirlýsingar, sem voru gefnar í landhelgismálinu fyrir seinustu kosningar og lítið var svo gert með að kosningum loknum.

Ég held, að það sé nauðsynlegt, þegar við gerum okkur grein fyrir þeirri afstöðu, sem Ísland á að hafa til Efnahagsbandalagsins, að athuga, að þar er ekki um venjulegt bandalag, heldur fyrst og fremst um ríkisstofnun að ræða í yfirlýsingum allra helztu forustumanna Efnahagsbandalagsins kemur glöggt fram, að það er miklu fremur stefnt að ríkisstofnun en stofnun eða myndun Efnahagsbandalags. Þetta hefur hvað eftir annað komið fram í þeim ræðum, sem formaður stjórnarnefndar Efnahagsbandalagsins, Hallstein, hefur haldið og nú seinast á þingmannafundi NATO fyrir 2 dögum, þar sem hann hélt ræðu, — þar lýsti hann því alveg hiklaust yfir, að takmarkið með Efnahagsbandalaginu væri miklu fremur að koma á pólitískri einingu Evrópuríkjanna en efnahagslegri einingu, þó að það væri einnig markmiðið. Þegar t.d. Macmillan er að færa rök að því, að Bretland eigi að vera með í Efnahagsbandalaginu, þá færir hann fyrst og fremst fram pólitískar ástæður eða þær, að Bretland þurfi að vera með til þess að geta haldið pólitískum áhrifum sínum. Aftur á móti þegar Gaitskill er að gagnrýna bandalagið, þá er það ein aðalröksemd hans, að ef Englendingar gangi inn upp á þau býti, sem þeim nú virðast vera boðin, þá sé það sama og að Bretar afsali sér sjálfstæðri utanríkismálastefnu og hafi t.d. lítið meiri áhrif í utanríkismálum eftir það en Texas eða Kalifornía eða önnur slík fylki í Ameríku. Það er m.ö.o. fyrst og fremst pólitískt markmið, ríkisstofnun, sem stefnt er að með Efnahagsbandalaginu. Og þetta kemur líka mjög greinilega fram í sjálfri stofnskrá bandalagsins, því að stjórnarnefnd þess og ráðherranefnd er í mörgum tilfellum falið löggjafarvald, sem stendur ofar löggjafarvaldi þjóðþinga þátttökuríkja. Þetta gildir um efnahagsmál í mörgum greinum, félagsmál, atvinnumál, samgöngumál o.s.frv. Í mjög veigamiklum málaþáttum er það stjórnarnefnd og ráðherranefnd Efnahagsbandalagsins, sem lögin setur, en ekki þjóðþing viðkomandi bandalagsríkja.

Þegar við Íslendingar þurfum að gera það upp, hvaða afstöðu við viljum hafa til Efnahagsbandalagsins, verðum við fyrst og fremst að taka afstöðu til þess, hvort við viljum ganga inn í nýtt ríki, gerast hluti af nýju ríki eða ekki. Það er kjarni málsins. Þess vegna er sérstök ástæða til þess fyrir Íslendinga að íhuga þetta: Er eftirsóknarvert fyrir smáþjóð eða þjóðernisminnihluta að sækjast eftir því að vera hluti í stóru ríki? Hefur reynslan á undanförnum öldum og áratugum sýnt og sannað, að það sé hagstætt fyrir smáþjóð eða þjóðernisminnihluta að vera hluti í stóru ríki? Hvað er það, sem barátta smáþjóðanna hefur snúizt um að verulegu leyti á undanförnum áratugum? Er það ekki einmitt það, að þær hafi verið að brjótast út úr hinum stóru ríkjum og leita eftir því að ná meira sjálfsforræði og sjálfstæði? Er það ekki á þann hátt, sem þær hafa talið að málum sínum væri bezt borgið? Og hefur ekki reynslan sjálf sýnt það, að málum þeirra væri bezt borgið á þann hátt? Og hver er reynsla Íslendinga sjálfra í þessum efnum? Þegar við háðum sjálfstæðisbaráttuna við Dani, voru ýmsir, sem sögðu, að við hefðum margvísleg hlunnindi af því að tilheyra miklu stærra ríki en Ísland væri. Sú skoðun fékk hins vegar ekki að ráða, og Ísland varð sjálfstætt. Hafa Íslendingar tapað á sjálfstæðinu og sjálfsforræðinu? Hefði verið betra fyrir Ísland að vera áfram hluti af Danaveldi en vera sjálfstætt? Þessar spurningar er mjög nauðsynlegt fyrir okkur að hugleiða, þegar við eigum að taka afstöðu til þess, hvort við viljum gerast hluti af nýju ríki.

Þess gætir stundum í þeim umr., sem hafa farið fram um þessi mál, að menn hefðu ótrú á litlum ríkjum og teldu, að þeim mundi farnast verr en stóru ríkjunum. Afkoman og menningin væri miklu betri í hinum stóru ríkjum. Hvað kennir sagan, og hvað kennir reynslan í þessum efnum? Hvað segir t.d. reynsla Vestur-Evrópu sjálfrar? Til hvaða ríkja þar eigum við að fara, ef við viljum komast að raun um, hvar eru bezt lífskjör, mest menning, lýðræðislegastir stjórnarhættir? Er það í hinum stóru ríkjum í Vestur-Evrópu, er það á Ítalíu, í Frakklandi eða í Þýzkalandi? Ég segi nei. Til þess að kynnast því, hvar séu bezt lífskjör í Vestur-Evrópu, hvar er mest menning í V.-Evrópu, hvar eru beztir stjórnarhættir í V.-Evrópu, verður einmitt að fara til hinna litlu ríkja Norðurlanda og Sviss, og þar komumst við að raun um, að allt þetta stendur á beztum og blómlegustum grunni. Og hið sama gildir um aðrar heimsálfur. Ef við förum til S.-Ameríku, eigum við að fara til Brasilíu og Argentínu til þess að kynnast því, hvar ástandið er bezt í þessum efnum? Nei, við förum til minnsta ríkisins í þeirri heimsálfu, Uruguay, til þess að kynna okkur og komast að raun um, hvar ástandið er bezt í þessari álfu. Og ef við förum til Asíu, til hvaða ríkis förum við þar? Förum við til Kína? Förum við til Indlands? Nei, við förum til minnsta ríkisins í Asíu, til Ísraels, til þess að komast að raun um, hvar ástandið er bezt í þessum efnum. Og sama mundi niðurstaðan verða, ef við færum aftur í tímann til þess að kynna okkur, hvernig þetta hefur verið áður fyrr. Reynslan er sú, að það eru einmitt hin smáu ríki, hin smáu þjóðfélög, sem komizt hafa lengst. Og þetta er í raun og veru ekkert undarlegt, því að því er þannig varið, að það eru hin smáu þjóðfélög, sem kalla miklu betur fram manndóm og framtak einstaklinganna heldur en hin stóru þjóðfélög. Þessa reynslu skyldum við Íslendingar athuga vel, áður en við tökum þá ákvörðun að gerast hluti af stóru ríki.

Ég er ekki heldur viss um, að það verði reynsla þeirra smáu ríkja, sem nú tilheyra Efnahagsbandalagi Evrópu, að þau muni hafa einhvern sérstakan hag af því að tilheyra þessu bandalagi. Ég verð að játa það, að mér hefur orðið nokkuð starsýnt á tölur, sem ég sá nýlega í norsku, viðurkenndu fjármálablaði og hafðar voru eftir einum af varaforsetum stjórnarnefndar Efnahagsbandalagsins. Þessar tölur, sem birtust í seinasta mánuði, fjölluðu um það, hver yrði aukning þjóðarframleiðslunnar í Efnahagsbandalagslöndunum á þessu ári, eftir því sem líkur bentu til nú. Þessar tölur voru á þessa leið: Í Ítalíu er reiknað með því, að aukning þjóðarframleiðslunnar verði um 6%, í Frakklandi er reiknað með því, að aukning þjóðarframleiðslunnar verði 5%, í V.-Þýzkalandi er reiknað með því, að aukning þjóðarframleiðslunnar verði 4.5% , í Belgíu er hins vegar reiknað með því, að hún verði ekki nema 3.5% og í Hollandi 2.5% og í Lúxemborg verði hún engin. Ég skal taka það fram, að það er ekki rétt að dæma þetta eingöngu af einu ári, en mér virðist hins vegar, að þessar tölur bendi ótvírætt til þess, að hin smáu ríki, sem eru í Efnahagsbandalaginu, hafi ekki hlotið neina sérstaka hagsæld við það að taka þátt í því, a.m.k. virðast þessar tölur óneitanlega benda til þess, að hlutur þeirra þar sé ekki eins góður og hinna stóru þjóða.

Eins og málin standa nú varðandi afstöðu Íslands til Efnahagsbandalagsins, þá virðist eins og er, að allir séu sammála um, að ekki komi til greina að sækja um fulla aðild að Efnahagsbandalaginu. Það sé hins vegar um tvær leiðir að velja, þegar þar að kemur. Það sé að gera sérstakan tolla- og viðskiptasamning við bandalagið eða sækja um aukaaðild. Þetta eru þær tvær leiðir, sem Íslendingar þurfa sérstaklega að glöggva sig á og afla sér upplýsinga um og ræða um og ekki aðeins ríkisstj. og alþm., heldur líka almenningur þarf að geta tekið afstöðu til, og helzt þurfa þessi mál að liggja svo ljóst fyrir, að almenningur geti tekið afstöðu til þessara tveggja leiða í næstu kosningum. Það, sem mér finnst skera úr um það, hvor þessara leiða er heldur valin, er, hvað það er, sem menn vilja tala um eða ræða um við bandalagið, hvaða mál það eru, sem við teljum nauðsynlegt, að samið verði um. Valið um þessar tvær leiðir á að markast af því, hvað það er, sem Íslendingar telja nauðsynlegt að samið sé um og talað sé um við bandalagið. Af því einu á þetta val að markast. Ég held, að það hljóti að vera flestallir eða a.m.k. langflestir sammála um, að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að ná samningum við Efnahagsbandalagið um tolla- og viðskiptamál, það sé óhjákvæmilegt og að því beri að stefna. Spurningin er hins vegar sú: Eru það einhver fleiri mál, sem við þurfum að ræða við Efnahagsbandalagið? Eru það einhver önnur atriði, sem við þurfum að taka upp til samninga við það? Þurfum við að taka upp samninga við það um gagnkvæm atvinnurekstrarréttindi? Þurfum við að semja við það um frjálsan vinnumarkað? Frjálsar fjármagnshreyfingar? Sameiginlega, samræmda stefnu í efnahagsmálum, samstjórn og þar fram eftir götunum? Ef við teljum nauðsynlegt að tala um svona mörg og víðtæk mál við Efnahagsbandalagið, þá teljum við að sjálfsögðu ekki tolla- og viðskiptasamningsleiðina færa, heldur viljum það, sem meira er, aukaaðildina. Það er frá þessum sjónarmiðum, sem við eigum að gera upp á milli þessara tveggja leiða, tolla- og viðskiptasamningsleiðarinnar og aukaaðildarleiðarinnar.

Frá mínu sjónarmiði líta þessi mál þannig út í dag, að það er engin ástæða fyrir Íslendinga að taka upp samninga við Efnahagsbandalagið um önnur mál en tolla- og viðskiptamál. Ég sé enga ástæðu til þess, að það séu teknir upp við það samningar um gagnkvæm atvinnurekstrarréttindi, um samræmda efnahagsstefnu, um frjálsan vinnumarkað o.s.frv. Ég get ekki með beztu vitund séð, að Ísland hafi neina hagsmuni í sambandi við það, að slíkar viðræður séu teknar upp.

Af þessum ástæðum horfir málið þannig við frá mínu sjónarmiði í dag, að sú leið, sem við eigum að halla okkur að, sé tolla- og viðskiptasamningsleiðin, af því að það séu ekki önnur málefni, sem við þurfum að ræða sérstaklega og sækjast eftir að ræða við Efnahagsbandalagið um. Og ég hef fullkomlega trú á því, að með því að óska eftir tolla- og viðskiptasamningum getum við náð hagkvæmri niðurstöðu á okkar málum hvað Efnahagsbandalagið snertir. Og ég vil taka það fram í þessu sambandi, að ég álít það, sem hæstv. viðskmrh. hefur sagt um þessi efni, að það séu svo og svo miklir meinbugir á því að ná hagkvæmum tolla- og viðskiptasamningum, fyrst og fremst byggt á fullyrðingum hjá honum og staðhæfingum, án þess að hann hafi nokkrar sérstakar sannanir fyrir því, að hann fari þar með rétt mál. En sem sagt, ef menn vilja ræða um fleiri mál en tolla- og viðskiptamál, taka upp samninga um gagnkvæm atvinnurekstrarréttindi, frjálsan vinnumarkað o.s.frv., þá velja þeir að sjálfsögðu heldur aukaaðildarleiðina. Og þess vegna þykir mér rétt að ræða nokkru nánar um það, sem kallað hefur verið aukaaðild.

Það hefur verið sagt um aukaaðildina, að hún gæti verið allt frá 1% til 90% af Rómarsamningnum. En það er hins vegar víst, að ef samið er um aukaaðild, þá er Rómarsamningurinn lagður til grundvallar fyrir viðræðunum. Viðkomandi ríki, sem æskir eftir aukaaðild, tekur fram, hvaða fyrirvara það kýs að hafa frá Rómarsamningnum.

Það, sem liggur fyrir um þessi mál í dag, er í fyrsta lagi það, að sá aukaaðildarsamningur, sem þegar hefur verið gerður, gríski samningurinn, liggur miklu nær 90% en 1% og endar líka með fullri aðild. Það, sem við vitum svo um þau 3 lönd, sem hafa sótt um aukaaðild að Efnahagsbandalaginu, — þessi lönd eru Svíþjóð, Sviss og Austurríki, — er það, að þau bjóðast til þess að gangast svo að segja undir öll meginatriði Rómarsáttmálans og telja sér ekki fært að óska eftir aukaaðild á öðrum grundvelli en þeim að ganga svo að segja undir öll ákvæði Rómarsamningsins. Svíar bjóðast t.d. til þess að gangast undir gagnkvæm atvinnuréttindi. Þeir bjóðast til þess að koma á frjálsum vinnumarkaði. Þeir bjóðast til þess að hafa frjálsar fjármagnshreyfingar. Og ég hygg, að Sviss og Austurríki bjóðist til hins sama. Ef við ætlum að fara í fótspor Svía, Svisslendinga og Austurríkismanna, þá verðum við að bjóða gagnkvæm réttindi í öllum þessum efnum. Og þrátt fyrir það, að þeir bjóðist til að gangast undir þetta ströng og mörg ákvæði Rómarsáttmálans, þá er talið mjög vafasamt, að það muni talið fullnægja kröfum Efnahagsbandalagsins um aukaaðild. Við vitum enn fremur, að þegar rætt var um málið í Noregi og Danmörku og þing og ríkisstj. gerðu það upp við sig, hvort heldur ætti að sækja um aukaaðild eða fulla aðild, þá héldu forráðamenn þessara landa því fram, að það væri enginn teljandi munur á þessu tvennu. Það mundu fylgja sömu ókostirnir aukaaðildinni og fullu aðildinni. En hins vegar væru ýmis réttindi, sem fylgdu fullu aðildinni, en aukaaðildin hefði ekki í för með sér, og þess vegna væri hyggilegra t.d. fyrir Noreg og Danmörku að hverfa að því að óska frekar eftir fullri aðild en aukaaðild.

Þetta er það eina, sem liggur fyrir sem staðreyndir um aukaaðildina: Í fyrsta lagi, að sá eini aukaaðildarsamningur, sem hefur verið gerður, nálgast mjög að vera samningur um fulla aðild. Það er gríski samningurinn. Í öðru lagi, að þau 3 lönd, sem hafa sótt um aukaaðild, Svíþjóð, Sviss og Austurríki, hafa boðizt til að ganga öll undir meginákvæði Rómarsáttmálans. Og í þriðja lagi, að lönd eins og Noregur, Danmörk og Írland, sem hafa sótt um fulla aðild, hafa talið það betra en að sækja um aukaaðild, vegna þess að sömu ágallarnir fylgdu báðum leiðunum, en hins vegar væru það meiri réttindi, sem fylgdu fullu aðildinni en aukaaðildinni. Ég held, að þegar þessar staðreyndir séu athugaðar, þá sé það ekki eftirsóknarvert fyrir Íslendinga að óska eftir aukaaðild, nema því aðeins að þeir séu undir það búnir að gangast undir ákvæði Rómarsáttmálans um gagnkvæm atvinnuréttindi, um frjálsan vinnumarkað og frjálsar fjármagnshreyfingar.

Það kom líka fram í ræðu hæstv. viðskmrh. hér á dögunum, þegar hann var að ræða um aukaaðild, að hann taldi það óhjákvæmilegt, að ef teknar væru upp viðræður um hana, þá mundu þessi ákvæði Rómarsáttmálans vera lögð til grundvallar. Hann gerði hins vegar ráð fyrir því, að það væri hægt að fá svo og svo mikla fyrirvara eða undanþágur frá þessum ákvæðum. Hann gerði ráð fyrir því, að það yrði hægt að fá undanþágu hvað fiskveiðar snerti. Hins vegar hefur hæstv. ráðh. í ræðu, sem hann flutti hjá Verzlunarráði Íslands á s.l. sumri, gert ráð fyrir því, að aukaaðild mundi fylgja það, að við yrðum að veita útlendingum aðstöðu til fisklöndunar og aðstöðu til að reka fiskiðjuver hér á landi. Og hæstv. ráðh. lét jafnframt þau orð falla, að það væri kannske ekki svo alvarlegt fyrir okkur að gera þetta, ef við gætum sett ákvæði um það að koma í veg fyrir, að þetta leiddi til ofveiði innan fiskveiðilandhelginnar. Nákvæmlega sama skoðun hefur komið fram hjá forstöðumanni Efnahagsstofnunarinnar, Jónasi Haralz, í grein, sem hann skrifaði í Fjármálatíðindi á s.l. sumri. Þar gerir hann ráð fyrir því, að sennilega muni vera hægt að fá fyrirvara hvað snertir fiskveiðar innan fiskveiðilandhelginnar, en hins vegar verði að telja það hugsanlegt, að við verðum að veita undanþágu hvað snertir rétt útlendinga til að reka hér fiskiðjuver, og það virðist einnig koma fram í þessari grein Jónasar Haralz, að hann telji það ekki svo athugavert, ef jafnhliða sé hægt að setja reglur um það að koma í veg fyrir ofveiði innan fiskveiðilandhelginnar. M.ö.o.: báðir þessir menn, sem mest hafa unnið að samningum um þessi mál, gefa það fullkomlega í skyn, og það er veikt til orða tekið, — að við verðum að veita útlendingum rétt til fisklöndunar og rétt til að reka fiskiðjuver, rétt til að komast inn í fiskiðnaðinn á Íslandi. Ég held, að hér sé um mál að ræða, sem vissulega sé nauðsynlegt að ræða mjög rækilega.

Hvaða atvinnuvegur er það, sem er líklegastur til að vaxa mest og hafa einna mesta þýðingu fyrir landið á komandi árum? Hvaða atvinnuvegur er það, sem má telja skv. þeirri þróun, sem nú blasir við, að muni vera einna álitlegastur og útlendingar muni helzt sækjast eftir að komast inn í hér á landi? Þessum spurningum er alveg hiklaust hægt að svara. Það er ekki um nema eina atvinnugrein að ræða, og það er fiskiðnaðurinn. Fiskiðnaðurinn er tvímælalaust sú atvinnugrein, sem á fyrir höndum mesta framtíð á Íslandi á næstu áratugum, og sú atvinnugrein, sem útlendingar munu sækjast sérstaklega eftir að komast inn í. Hvað þýðir það að geta rekið fiskvinnslufyrirtæki, fiskvinnslustöðvar og fiskiðju hér? Það þýðir í raun og veru það, að þeir aðilar, sem það geta, fara bakdyramegin inn í landhelgina. Þeir fá lyklavöldin að fiskveiðilandhelginni. Þetta kemur alveg greinilega fram í þeim ummælum hæstv. viðskmrh. og Jónasar Haralz, sem ég vitnaði til áðan, að þeir telja þá hættu fylgja því, ef útlendingar fengju að reka hér fiskiðjuver, að þá kynni að skapast ofveiði innan fiskveiðilandhelginnar. Það er m.ö.o. búið að afhenda útlendingum lyklavöld, búið að leyfa þeim að fara bakdyramegin inn í landhelgina, ef þeir fá rétt til þess að reka hér fiskiðjuver og fiskvinnslustöðvar. Og það er búið að gera miklu meira, því að það getur hver og einn gert sér ljóst, sem athugar þessi mál, að þeir, sem ráða yfir fiskiðjuverunum og fiskvinnslustöðvunum, hafa kverkatak á útgerðinni. Þeir ráða raunverulega yfir útgerðinni. Þeir geta hvenær sem er, ef þeir eru orðnir nógu öflugir á þessu sviði, sett útgerðinni stólinn fyrir dyrnar. Þeir hafa kverkatak á útgerðinni. Með því að hleypa útlendingum inn í fiskiðnaðinn er ekki aðeins verið að gefa þeim tækifæri til þess að fara bakdyramegin inn í fiskveiðilandhelgina, það er líka verið að gefa þeim tækifæri til þess að ná kverkataki á útgerðinni. Og Íslendingar hafa reynslu í þessum efnum, sem vert er að rifja upp og gefa nú hinn fyllsta gaum.

Ég var fyrir nokkru að blaða í Alþingistíðindum frá 1928. Það þing var eitthvert hið mesta róstu- og deiluþing, sem háð hefur verið, og stjórnarsinnar og stjórnarandstæðingar komu sér saman um fæst. Það merkilega gerðist þó, að á þessu þingi komu þeir sér saman eða voru sammála. að meginstefnu til um þau mál, sem voru mest þjóðnýtingarmál af þeim málum, sem þá voru lögð fyrir Alþingi. Þessi mál fjölluðu um stofnun síldareinkasölu og um það, að ríkið byggði síldarbræðsluverksmiðjur. Menn eins og Jón Þorláksson og Magnús Guðmundsson, sem voru síður en svo nokkrir þjóðnýtingarmenn og voru litlir vinir þáverandi ríkisstj., voru sammála henni að meginstefnu til, að í þessa stóru þjóðnýtingu, þá stærstu þjóðnýtingu, sem ráðizt hefur verið í á Íslandi, væri nauðsynlegt að ráðast. Og hvers vegna viðurkenndi allt Alþingi 1928, að það þyrfti að grípa til þjóðnýtingar í þessum efnum, þyrfti að taka upp síldareinkasölu og að ríkið þyrfti að byggja síldarverksmiðjur? Ástæðan var bara ein. Ástæðan var sú, að það voru útlendingar, sem réðu svo að segja yfir öllum síldariðnaði landsmanna. Það voru útlendingar, sem réðu yfir síldarbræðslunum, nema 2 smábræðslustöðvum, og þeir réðu yfir síldarsöltuninni að 2/3 hlutum. Og þessi yfirráð útlendinga gáfust landsmönnum, gáfust sjómönnum, gáfust útvegsmönnum svo illa, að það var talið alveg óhjákvæmilegt að grípa inn í með hinum róttækustu aðgerðum, eins og einkasölu og byggingu ríkisverksmiðja. Þetta gerðist þá með þeim hætti, að ef illa leit út með síldarsölu, þá héldu útlendingarnir að sér höndum og höfðust lítið að, og þá varð meiri og minni stöðvun hjá útgerðinni. Ef aftur á móti vel horfði, þá kepptust þeir við að framleiða sem mest, miklu meira en markaðurinn þoldi. Útlendingarnir höfðu betri aðstöðu á hinum erlendu mörkuðum og gátu tryggt söluna á sinni síld, en hinir íslenzku síldarútflytjendur urðu að mæta afgangi og urðu hvað eftir annað fyrir hinum stórkostlegustu skakkaföllum. Verðið til sjómanna og útgerðarmanna var líka óeðlilega lágt, vegna þess að hinir útlendu aðilar höfðu aðstöðu til að skammta það.

Þessa reynslu hafa Íslendingar af því að hleypa að útlendingum og láta útlendinga sjá um fiskiðnaðinn og síldariðnaðinn fyrir sig. Er þessi reynsla með slíkum hætti, að við eigum í annað sinn að opna nýja gátt fyrir útlendinga til þess að komast inn í fisk- og síldariðnaðinn? Ég segi nei. Og ég segi jafnframt, að ég lýsi fullri undrun minni yfir því, að menn, sem hafa staðið framarlega í samningum fyrir hönd hæstv. ríkisstj. í þessum efnum, eins og hæstv. viðskmrh. og Jónas Haralz, skuli láta þá skoðun í ljós, að það sé í raun og veru ekkert athugavert við það, þó að útlendingum sé hleypt inn í fiskiðnaðinn, aðeins ef þeir fá ekki leyfi til þess að stunda fiskveiðar.

Ég álít, að það eigi að gilda hið nákvæmlega sama í þessum efnum, — að við verðum að tryggja það, ég segi 100%, að ekki aðeins fiskiskipin, heldur líka fiskiðjuverin og síldarvinnslustöðvarnar séu í höndum Íslendinga. Og ég álít, að við eigum að gera það strax nú á þessu þingi.

Fyrir rúmum 40 árum, 1922, voru sett sérstök lög á Alþingi til að tryggja það, að fiskveiðarnar sjálfar væru í höndum Íslendinga. Og á þar við fiskveiðilöggjöfina frá 1922. Landsmenn sáu þá fram á það, að sjávarútvegurinn væri sú atvinnugrein, sem útlendingar mundu sækjast sérstaklega eftir að komast inn í. Þess vegna voru með fiskveiðilöggjöfinni frá 1922 sett sérstök ákvæði, sem tryggja útgerðina sjálfa betur fyrir því en aðrar atvinnugreinar á Íslandi, að útlendingar geti komizt inn í hana. Það er gert með því, að það er skýrt tekið fram í lögunum, að aðeins íslenzk skip megi stunda veiðar innan fiskveiðilandhelginnar, og þau skip séu ein talin íslenzk, sem séu alger eign íslenzkra ríkisborgara. Ég álít, að það sé óhjákvæmilegt nú á þessu þingi að breyta fiskveiðilöggjöfinni á þann veg, að hið sama gildi um fiskvinnslustöðvarnar og fiskiskipin sjálf í þessum efnum. Ég álít, að það sé alveg sérstök ástæða til þess að gera þetta núna, áður en samningar við Efnahagsbandalagið hefjast, alveg eins og Danir eru nú að setja sérstaka löggjöf til þess að koma í veg fyrir það, að útlendingar , geti keypt jarðeignir þar í landi.

Það, sem ég vil segja um þessi mál að lokum, er þetta, að séu það nokkrir tveir máttarstólpar íslenzks atvinnulífs, sem aldrei megi láta af hendi við útlendinga, þá eru það orkuverin og fiskiðjuverin. Það eru tvær mestu lífæðar íslenzks atvinnulífs, sem við verðum að verja fyrir því, að útlendingar geti komizt inn í og rekið sér til hagsbóta andstætt hagsmunum þjóðarinnar sjálfrar.

Af því, sem ég hef nú rakið og kom fram í ummælum hæstv. viðskmrh:, sést, að ef beðið væri um samning á grundvelli aukaaðildar, þá yrði rætt um gagnkvæm atvinnuréttindi, um frjálsan vinnumarkað o.s.frv. Þetta þýðir það, að með því að taka slíka samninga upp, þá er hinum erlendu hringum, sem sækjast eftir að komast inn í atvinnurekstur hér á landi, inn í fiskiðnaðinn, gefið undir fótinn og þeir fá aðstöðu til þess að ýta við ríkisstj. sínum og koma sérsjónarmiðum sínum á framfæri. Aftur á móti, ef aðeins væru teknar upp viðræður við Efnahagsbandalagið á grundvelli tolla- og viðskiptasamnings, þá hefðu hinir erlendu hringar ekki aðstöðu til þess að koma sjónarmiðum sínum þannig á framfæri. Með því að biðja um samninga á grundvelli aukaaðildar, í stað þess að biðja um þá á grundvelli tolla- og viðskiptasamnings, er verið eins og beinlínis að siga hinum erlendu auðhringum, sem vilja komast inn í fiskiðnaðinn, á okkur og gefa þeim tækifæri til þess að koma sínum sérhagsmunum á framfæri, sem miklu síður væri, ef samið væri á grundvelli tolla- og viðskiptasamnings. Bæði hvað þetta snertir og margt fleira, þá hygg ég, að niðurstaðan verði sú í sambandi við aukaaðildina, að það verði enginn stór munur á henni og fullri aðild. Munurinn sé meira stigmunur en eðlismunur. Munurinn liggi fyrst og fremst í því, að með því að óska eftir fullri aðild, þá sé skrefið stigið til fulls inn í hið nýja ríki, aftur á móti ef aðeins er óskað eftir aukaaðild, þá sé þetta skref stigið í áföngum, en endalokin verði hin sömu, eins og líka sést bezt á gríska samningnum.

Ég skal svo ekki lengja þessar umr. mikið að sinni. Það gefst e.t.v. ástæða til þess að ræða nokkur atriði síðar. Það, sem ég vil rifja upp að lokum, er þetta tvennt: Þegar við veljum á milli tolla- og viðskiptasamnings eða aukaaðildar, þá verðum við að hafa það fyrst og fremst í huga, hvað það er, sem við viljum semja um við Efnahagsbandalagið, hvaða mál það eru, sem við teljum nauðsynlegt að ræða um. Og ég sé ekki á þessu stigi, að það sé ástæða til þess að óska eftir öðru en samningum um tolla- og viðskiptamál. Ef við tökum upp samninga á öðrum grundvelli, þá er það meira og minna til þess að flækja okkur inn í málið, skapa útlendingum aðstöðu til að koma sérsjónarmiðum sínum hér á framfæri, og fyrr en seinna gæti — það leitt til þess, að við værum fullkomlega flæktir inn í þetta nýja ríki.

Að endingu vil ég svo víkja að því, sem ég sagði hér í upphafi og ég tel meginatriði þessa máls. Ég tel þann áróður algerlega rangan og falskan, sem fram hefur komið hér hjá hæstv. ráðh., að við þurfum eitthvað sérstaklega að vantreysta vestrænum þjóðum og mála fjandann á vegginn, þar sem þær eru, og segja, að þær muni girða okkur frá sér með tollmúrum, einangra okkur menningarlega og félagslega, ef við borgum ekki einhvern sérstakan aðgangseyri fyrir samskipti við þær. Ég mótmæli því, að það sé rétt að halda fram slíkum sjónarmiðum um hinar vestrænu þjóðir. Ég trúi því, að það muni reynast í þessum efnum eins og endranær, að hinar vestrænu þjóðir muni reynast okkur vel og muni ekki setja okkur neina afarkosti, aðeins ef við verðum sjálfir menn til þess að halda rétt og farsællega á þessum samningum. Ég hygg, að það megi hið sama segja um þetta efni og einn mætasti foringi þjóðarinnar sagði, þegar sjálfstæðisbaráttan við Dani stóð yfir. Hann sagði, að verstu mennirnir, sem við væri að eiga, væru ekki Danir sjálfir, heldur Íslendingar, sem væru danskari en Danir sjálfir væru í raun og veru.

Ég óttast ekkert annað í þessu máli en það verði einhver annarleg sjónarmið og undarleg sjónarmið hér innanlands, sem gætu orðið okkur að falli, ef eitthvað verður okkur að falli í þessu máli. En við þurfum ekki að óttast hina útlendu aðila, ef við höldum nógu fast og einbeitt á málum og vitum, hvað við viljum sjálfir. Það eru fyrst og fremst annarleg öfl hjá okkur sjálfum, sem við þurfum að óttast. Og ég verð að segja það, að meðal þeirra annarlegu afla, sem mér finnst hafa skotið hér upp kollinum, eru þeir menn, sem tala um það eins og jafnvel sjálfsagðan hlut, að útlendingum verði hleypt inn í íslenzka fiskiðnaðinn, þeim verið hleypt þannig bakdyramegin inn í landhelgina og þeim gefin aðstaða til þess að ná þar kverkataki á íslenzkum sjávarútvegi. Ég tel þau sjónarmið alveg sérstaklega annarleg og þau sjónarmið. þurfi fyrst og fremst að kveða niður. Og þau sjónarmið eigum við að kveða strax niður með því að breyta fiskveiðilöggjöfinni þannig á þessu ári, að það verði tryggt jafnt um fiskvinnslustöðvarnar og fiskiskipin, að þessi tæki verði eign Íslendinga einna að öllu leyti og engra annarra.