15.10.1962
Neðri deild: 3. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1921 í B-deild Alþingistíðinda. (1840)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að bera hér fram utan dagskrár fsp. til hæstv. ríkisstj. út af upplýsingum, sem fram hafa komið í hennar málgögnum nú undanfarið, og virðist eftir þeim að dæma vera nokkuð erfitt fyrir okkur að vita, hvað satt sé sagt um það þýðingarmikla mál, sem þar er um að ræða.

Svo er mál með vexti, að 10. okt. flytur eitt höfuðmálgagn ríkisstj., Morgunblaðið, allmikla grein undir fyrirsögninni „F-102A“. Greinin er undirskrifuð með nafni, hann heitir Hjálmar Sveinsson, sem undirskrifar hana. Þar er skýrt frá því, að varnarliðið á Keflavíkurflugvelli hafi nú fengið orrustuþotur af nýrri gerð, F-102A, og síðan er skýrt nánar frá því, að þessar þotur muni vera af sérstakri gerð, sem flutt geti kjarnorkusprengjur. Og síðan er það sagt nokkru nánar, — ef ég les orðrétt upp, þá hljóðar það svo:

„Flugskeyti þau, er hér um ræðir, nefnast Genie og eru framleidd af Douglas-flugvélaverksmiðjunum fyrir varnardeildir bandaríska flughersins til notkunar gegn öðrum flugvélum. Ástæðan fyrir smíði skeytisins er sú, að með tilkomu hraðfleygra sprengjuþotna búinna kjarnorkusprengjum kom það vandamál upp, að jafnvel þótt sprengjuvélinni sjálfri væri grandað, væri hætta á, að kjarnorkusprengja hennar félli ósködduð til jarðar, og gæti hún þá valdið miklu tjóni. Til að útiloka þennan möguleika bað flugherinn Douglas-verksmiðjurnar að smíða hraðfleygt flugskeyti búið lítilli kjarnorkusprengju, sem gæti tryggt það, að um leið og sprengjuflugvélinni væri grandað, eyddist kjarnorkusprengja hennar einnig, því að bezta aðferðin til að granda kjarnorkuvopni er að nota annað kjarnorkuvopn til þess.“

Þetta er meðal þeirra upplýsinga, — þetta er alllangt í Morgunblaðinu, og ég býst við, að flestir hafi máske kynnt sér það, þannig að ég hirði ekki að svo komnu að lesa það allt. Og eftir að þetta kom út í Morgunblaðinu, þá var skýrt frá þessu í Þjóðviljanum og vakin nokkur eftirtekt á því, hvort með þessu væru ekki komin kjarnorkuvopn til Keflavíkurflugvallar. Það, sem þá gerðist eftirtektarvert, var, að það voru tvær alveg ólíkar upplýsingar, sem komu fram í málgögnum ríkisstj. Í Morgunblaðinu 12. okt. er skýrt frá því í leiðara undir fyrirsögninni „Varnir Íslands“, að vondir kommúnistar séu alltaf á því að hafa landið varnarlaust, og þess vegna séu þeir með eitthvert mikið vein út af því, að nú skuli hafa komið hingað ógnarleg vetnis- og árásarvopn. Svo segir Morgunblaðið orðrétt:

„Hin nýja flugvélategund er búin flugskeytum, sem grandað geta árásarflugskeytum í mikilli fjarlægð og þannig fyrirbyggt, að þær nái skotmarki. Auðvitað er þetta fyllra öryggi fyrir Ísland, ef svo kynni að fara, að árás ætti að gera á það.“

M.ö.o.: af leiðara Morgunblaðsins 12. okt. verður ekki annað séð en Morgunblaðið fagni því, að það séu komin mjög góð skeyti, góðar flugvélar, F-102, til Keflavíkurflugvallar, sem geti varið landið betur en áður og varið það með kjarnorkusprengjum. Og manni virðist af leiðara Morgunblaðsins, að það væru ekki neinir aðrir en einhverjir vondir kommúnistar, sem vilja landið varnarlaust, sem geti verið á móti þessu. Það lítur út fyrir eftir Morgunblaðsleiðaranum að dæma, að þessar flugvélar séu þarna fyrir hendi og kjarnorkusprengjur í þeim til þess að beita. A.m.k. er erfitt fyrir venjulega menn að skilja Morgunblaðið öðruvísi.

Hins vegar segir Alþýðublaðið þannig sama dag undir fyrirsögn, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvað um F-102?“ Og svo segir: „Blaðaskrif hafa orðið um hinar nýju orrustuþotur, sem varnarliðið hefur fengið til að styrkja varnir landsins. Er frá því skýrt, að F-102 flugvélarnar geti borið eldflaugar með kjarnorkusprengjum, og geta lesendur rétt ímyndað sér, hvernig Þjóðviljinn skrifar um það mál.“ Síðan segist Alþýðublaðið hafa aflað sér eftirfarandi upplýsinga, og telur svo upp 1, 2 og 3, og blaðið segir orðrétt: „Niðurstaðan verður þessi. Hér hafa ekki verið og eru ekki nein kjarnorkuvopn.“

M.ö.o.: málgagn hæstv. utanrrh. lýsir því yfir sama daginn og Morgunblaðið, eitt höfuðmálgagn Sjálfstfl., fagnar því, að nú skuli loksins komnar góðar varnarvélar, að hér hafi ekki verið og séu ekki nein kjarnorkuvopn.

Á síðasta Alþingi, þegar verið var að ræða um kjarnorkusprengingar, sem framkvæmdar voru þá m.a. austur í Rússíá, höfðu fulltrúar Alþb. borið fram svo hljóðandi tillögu sem viðbót við tillögu, sem þá lá fyrir:

„Alþingi lýsir enn fremur yfir því, að það muni aldrei leyfa staðsetningu neins konar kjarnorkuvopna á Íslandi né að slíkum verði nokkurn tíma beitt frá stöðvum hér á landi.“

Þótt mikill hluti þingheims væri fylgjandi þessari till. og að því er virtist raunar allur þingheimur, þá gerði þáv. hæstv. forsrh., núv. hæstv. dómsmrh., þá grein fyrir atkv. sínu, sem hér segir: „Svo sem fram hefur komið í umr. og marglýst hefur verið yfir, eru engin kjarnorkuvopn geymd hér á Íslandi og ekki komið til greina, að þau yrðu hér.“ Svo sagði hæstv. núv. dómsmrh., þáv. forsrh., og taldi af þeim ástæðum ástæðulaust að vera að gera nokkrar sérstakar samþykktir út af því, hvort kjarnorkuvopn væru á Íslandi.

Það virðist liggja fyrir alveg ótvíræð yfirlýsing hæstv. ríkisstj., að hér á landi séu ekki kjarnorkuvopn og verði ekki kjarnorkuvopn, enn fremur yfirlýsing í Alþýðublaðinu út af greinum um F-102, að hér hafi ekki verið og séu ekki nein kjarnorkuvopn. Hins vegar í þessum leiðara Morgunblaðsins virðist því fagnað og í þessari frásögn, sem gaf tilefni til þessa alls, virðist því slegið föstu, að varnarliðið svokallaða hafi. fengið þessi vopn. Nú vil ég leyfa mér að biðja hæstv. ríkisstj., hvaða hæstv. ráðh. sem það er, sem vill láta þetta til sín taka og sannorður vill vera um þessa hluti, að gera svo vel að segja okkur, hverju við eigum að trúa.