31.10.1962
Sameinað þing: 8. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1930 í B-deild Alþingistíðinda. (1849)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að ég varð fyrir vonbrigðum við að hlusta á hæstv. ráðh. svara þeirri fyrirspurn, sem hér var borin fram varðandi þessa alvarlegu deilu. Hæstv. ráðh. kvaðst ekki hafa neina örugga vissu fyrir því, að læknar hverfi frá störfum á morgun. Ég veit auðvitað ekki, hve mikla vissu hann hefur til eða frá, en ég held, eftir því sem ég þekki til, að það hefði hentað betur að segja, að hann hefði ekki örugga vissu fyrir öðru en að læknar hætti störfum á morgun. Þannig held ég, að málið líti út í dag.

Það kom fram hjá hæstv. ráðh., að hæstv. ríkisstj. mun ekki enn hafa gert neinar ráðstafanir til að mæta örðugleikum spítalanna í Reykjavík, þeim örðugleikum, sem dynja yfir á morgun, ef ekki næst samkomulag við læknana í dag. Það á að láta það bíða, þangað til vandræðin eru skollin á. Þetta hlýt ég sem alþm. að átelja hæstv. ríkisstj. fyrir.

Hér er um að ræða störf á þeim spítölum landsins, sem kannske hvað mikilvægastir eru í heilbrigðisþjónustunni. Á þessum spítölum fara fram yfirleitt vandasömustu læknisstörfin bæði hvað snertir rannsóknir og meðferð. Hér má því ekki kasta til höndum af hálfu heilbrigðisstjórnarinnar, hvorki nú né endranær. Þess vegna bar hæstv. ríkisstj. fyrir löngu að hafa hugsað sitt ráð og gert sínar ráðstafanir, ef til þess kæmi, að læknarnir yfirgæfu störfin þar. Á þessum stofnunum ríkisins starfa um 60 læknar. Rúmur helmingur þeirra hefur sagt upp störfum. Þeir hafa sagt upp störfum sem einstaklingar, af því að þeir eru óánægðir með kjör sín þar. Þeir hafa sagt upp með löglegum fyrirvara, en eru síðan þvingaðir með lagakrókum til þess að vinna 3 mánuðum lengur en þeir höfðu hugsað sér. Það er eins og einn af þessum læknum segir í blöðunum í dag, flokksbróðir hæstv. ráðh., dr. Friðrik Einarsson, — hann segir, að sér hafi verið haldið í nauðungarvinnu í 3 mánuði. Það er ekki nóg með það, að löglegar uppsagnir eru ekki teknar til greina, heldur er reynt að þvinga menn til þess að vinna sem lengst við kjör, sem þeir telja algerlega ófullnægjandi. Síðan fer hæstv. ríkisstj. inn á þá braut, sem er enn þá vafasamari lagalega, að setja þetta mál þessara einstaklinga fyrir félagsdóm. Ég er að vísu ekki lögfróður maður og treysti mér ekki til að ræða þetta mál, en ég er persónulega sannfærður um, að hér er of langt gengið í viðleitninni til að þvinga vissa einstaklinga til að vinna gegn vilja sínum. Hæstv. ríkisstj. bar að gera sínar ráðstafanir, leysa þessa menn frá störfum og gera síðan sínar ráðstafanir til að bæta úr. Mér er spurn: Nú eru 6 mánuðir síðan uppsagnir bárust. Hvers vegna hafa þessar stöður ekki verið auglýstar enn þá? Var það ætlun og er það ætlun hæstv. ríkisstj. að svínbeygja þá einstaklinga, sem nú sinna þessum störfum, til þess að vinna þarna áfram? Auðvitað, hvað sem í skærist, bar heilbrigðisstjórninni að auglýsa stöðurnar. Þetta hefur ekki verið gert.

Hver er meiningin? Sjúkrahúsalæknar hafa lengi unað sínum kjörum illa. Þeirra barátta fyrir bættum kjörum hefur staðið í mörg ár. Árið 1957 létu þeir hagfræðinga reikna út, að þeirra kjör svöruðu til þess, að ævitekjur þeirra væru nálægt 60% af ævitekjum íslenzkra barnakennara, þegar fullt tillit var tekið til námskostnaðar, námstíma, starfsævi og annarra þátta, sem áhrif hafa á ævitekjur. Í apríl 1958 fengu þeir lítils háttar úrbætur. Síðan hafa þeirra kjör staðið í stað og vitanlega þar með farið versnandi með aukinni dýrtíð og aukinni verðbólgu.

Það, sem um er deilt nú sérstaklega, eru ekki svo mjög fastalaun þessara sjúkrahúsalækna, heldur laun fyrir aukavinnu. Það eru laun fyrir kvöldvinnu, næturvinnu, sunnudagavinnu og aðra aukavinnu, sem þeir eru mjög óánægðir með. Vitanlega gildir það sama um Landsspítalann og aðrar stofnanir ríkisins og sjúkrahús alls staðar, að þar verður að vinna allan sólarhringinn. Þetta virðist okkar ágæta heilbrigðisstjórn illa skilja. Og hún vill ekki sætta sig við, að það þurfi að launa læknum fyrir slíka aukaþjónustu. Þetta er aðaldeilumálið, eins og nú standa sakir, og það verður ekki annað sagt en hæstv. ríkisstj. hafi tekið á þessu máli alveg óvenjulega stirðbusalega.

Strax í ársbyrjun 1961 hófu læknasamtökin baráttu fyrir því að fá þetta leiðrétt. Bréfum frá læknasamtökunum var ekki svarað af hálfu heilbrigðisyfirvaldanna mánuðum saman. Umræður fóru fram að vísu síðari hluta árs 1961 og eitthvað síðar á milli þessara aðila, en ekkert samkomulag náðist. Þá gáfu læknasamtökin þetta frá sér. (Forseti: Hv. þm. hefur þegar talað lengur en 5 mínútur, og ég bið hann að stytta mál sitt.) Ég skal gera það. Þá gáfu læknasamtökin þetta frá sér, og hinir óánægðu einstaklingar, sem hér var um að ræða, aðallega aðstoðarlæknar á þessum spítölum, sögðu upp stöðum sínum. Og það ætlar sannarlega að kosta mikið erfiði fyrir þessa einstaklinga, fyrir þessa samborgara okkar, að fá að njóta þess sjálfsagða, þegnlega réttar að ráða því, hvað þeir starfa og hvar þeir starfa. Mér fannst rétt, að þetta kæmi fram, úr því að þetta mál bar á góma hér á hinu háa Alþingi.

Ég vænti þess nú, að hæstv. ríkisstj. athugi Þetta mál þegar í dag, athugi hvað skal gera, ef viðkomandi læknar hætta störfum á morgun. Ég fullyrði, að hér þurfa engin vandræði að skapast. Það er hægt að fá lækna til þess að starfa þegar á morgun. Og það er hægt að gera það í samræmi við samninga, sem gilda, bæði við Sjúkrasamlag Reykjavíkur, við Heilsuverndarstöð Reykjavíkur og samkvæmt viðurkenndum töxtum Læknafélags Reykjavíkur. Það er hægt að fá nóga menn og vel hæfa til að starfa í Landsspítalanum og öðrum stofnunum ríkisins þegar á morgun. Ef vinna leggst niður til tjóns fyrir sjúklingana, þá er það óþarfi og þá er það eingöngu sök hæstv. ríkisstjórnar.