29.03.1963
Neðri deild: 62. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1953 í B-deild Alþingistíðinda. (1871)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Hæstv. forseti. Ég get aðeins endurtekið það, sem ég sagði hér áðan. Það er sjálfsagt að velta því fyrir sér og athuga það við formann n., hvort það þyki tilhlýðilegt að vera að láta af hendi gögn, sem eru ekki fullunnin, vegna þess að mþn. í vegamálum hefur ekki lokið störfum, hún hefur hafið störf á ný. Hún fékk bréf frá mér í 8. liðum, eins og áðan var sagt, dags. 27. febr., og hefur a.m.k. haldið einn fund um það síðan.

Um áhyggjur einstakra þm. um það, hvað í þessu frv. er, þá get ég alveg létt einni byrði af herðum hv. 1. þm. Austf. um það og sagt hreinskilnislega, að ég er alveg mótfallinn því að fækka þjóðvegum. Ég er því eindregið fylgjandi að stytta sýsluvegina og helzt að gera alla sýsluvegi að þjóðvegum. Þetta segi ég sem mína skoðun, án þess að segja nokkuð um það, hvað í frv. er, því að ég álít, að það sé og hljóti að verða í aðalatriðum að ráða, hvað formaður og nm. telja eðlilegt í þessu efni.

Þegar um svona stórt mál er að ræða eins og vegalög, þá undrast ég það, að hv. þm. tala um þetta mál í rauninni eins og n. hafi legið á liði sínu, hún hafi í rauninni legið á liði sínu að skila ekki af sér fyrr en í haust, að ríkisstj. hafi í rauninni ekki gert skyldu sína að koma þessu öllu ekki saman á stuttum tíma. Það eiga að viðgangast önnur vinnubrögð hér en meðal annarra þjóða, þegar um svona stórmál er að ræða.

Ég tel nú ekki ástæðu til að segja neitt meira um þetta. Ég lofa ekki að beita mér fyrir því, að nál. verði útbýtt, en ég lofa því aðeins að hugsa um, hvort það er eðlilegt, að það verði gert, en mundi alls ekki mæla því í gegn, ef nm. teldu það sjálfsagt, því að vitanlega er í þessu frv. ekkert leynilegt. Og það er áreiðanlega rétt, sem sagt hefur verið, þar eru mörg mikilsverð nýmæli, og eins og frv. kom frá n. upphaflega, var það vitanlega til mikilla bóta frá því, sem vegalög nú eru. En ég tel, að frv. geti orðið mun betra með því að taka til íhugunar þá 8 punkta og ábendingar, sem n. hefur til athugunar.